Fréttir

Skiptir máli „hvers lenskur“ fiskurinn er þegar menn deila um veiðiréttindi?

Matís gefur út bækling um DNA rannsóknir á sjávardýrum.

Hjá Matís hafa verið þróaðar yfir 30 aðferðir til erfðagreininga á dýrum. Mikil þróunarvinna liggur að baki hverri greiningaraðferð þar sem reynt er að koma saman eins mörgum erfðamörkum og hægt er í eitt hvarf (multiplex). Þetta sparar bæði tíma og kostnað þegar mörg sýni eru greind. Í sumum tilfellum eru ekki til erfðamörk fyrir tegundina. Í þeim tilfellum þarf að byrja á því að þróa ný erfðamörk. Hjá Matís hafa verið þróuð ný erfðamörk fyrir margar tegundir sjávardýra (þorsk, síld, leturhumar, krækling og lax) og í öðrum tegundum hefur erfðamörkum sem þekkt eru verið breytt til að gera vinnuna hagkvæmari. Nokkrum þessara aðferða hefur verið lýst í ritrýndum vísindagreinum.

Í stofngreiningarannsóknum er skoðaður breytileiki í arfgerðum dýra frá mismunandi svæðum sbr. dæmið um þorskinn hér að framan. Alþjóðasamfélagið (t.d. Alþjóðahafrannsóknaráðið; ICES) kallar eftir upplýsingum um erfðabreytileika í stofnum. Þegar hafa verið teknar afdrifaríkar ákvarðanir byggðar á erfðafræðigögnum eins og dæmið hér á eftir um karfann sýnir (sjá kaflann Erfðafræðin sannar gildi sitt).

Í fiskveiðistjórnun er afar mikilvægt að vita hvort um breytilega stofna eða stofneiningar af ákveðinni tegund er að ræða þegar verið er að úthluta veiðileyfum. Á þessu sviði getur erfðagreining verið lykiltæki. Það er Íslendingum mjög mikilvægt að geta skilgreint þá stofna sem tilheyra Íslandi og má því flokka sem auðlind Íslendinga. Ef Ísland gengur í  Evrópusambandið er þetta enn mikilvægara en nokkru sinni. Það ætti því að vera forgangsatriði í hafrannsóknum Íslendinga að skilgreina þá erfðaauðlind sem tilheyrir landinu. Það er einnig í samræmi við alþjóðlegar samþykktir sem Ísland hefur skrifað undir að ábyrgjast varðveislu erfðaauðlinda sinna.

Bæklinginn má finna hér.

Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri Öryggis, umhverfis og erfða, veitir nánari upplýsingar. Einnig má finna viðbótar upplýsingar hér.

IS