Fréttir

Tækifæri til að gera betur – þörf á þróun

Þó Íslendingar standi framarlega í nýtingu og verðmætasköpun úr auðlindum sjávar má enn gera betur, áhersla á rannsóknir, þróun og nýsköpun stuðlar að sjálfbærri verðmætasköpun til framtíðar. Miklu máli skiptir að nýta það vel sem lagt er í kostnað við að afla. Íslendingar fluttu út og neyttu sjálfir afurða úr um 77% af þorskafla 2015 skv. hagtölum.

Ríflega fjórir milljarðar tonna eru framleiddir af hráefnum til matvælaframleiðslu árlega, rúmlega 1400 milljónir þeirra hráefna er ráðstafað gagngert til annars en til matvælaframleiðslu ef marka má FoodOutlook sem tekið er saman af Alþjóða Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO því fara um 2,9 milljarðar tonna í matvælaframleiðslu á ári hverju. Þekkt er að heimsafli nemur rúmum 90 milljón tonnum þá er reiknað með að alinn fiskur nemi um 80 milljónum tonna í ár, sem er um 10% meira en 2014. Reiknað er með að fiskneysla hafi aukist um 2,5% á sama tíma, neysla villts sjávarfangs hafi dregist saman um 3%, í 9,7kg/mann, en neysla alins fiskmetis hafi aukist um nálega 8%, í 10,9kg/mann. Um 5% þeirra hráefna sem ráðstafað er til matvælaframleiðslu eru veidd eða alin í vatni, en vel þekkt er að um 70% af yfirborði jarðar eru þakin vatni.

Í vikunni sem leið var rætt um þetta og fleiri tengd mál á fundi um Mat árið 2030 hvar vikið var að næringu, loftslagi, nýsköpun og hringrás. Jónas Rúnar Viðarsson faglegur leiðtogi öruggrar virðiskeðju matvæla hjá Matís stýrði á þeim vettvangi málstofu um matvæli úr vatni og nýjar virðiskeðjur sjávar (e. Aquatic food products and new marine value chains). Jónas flutti inngangs erindi hvar hann fór yfir vinnslu aukaafurða fisks til framleiðslu matvæla og innihaldsefna (e. Fish by-products processing for food and food ingredients). Með vísun í rannsóknir Kelleher, frá 2005, og Love, frá 2015, benti Jónas á (Mynd 1) að líklega eru einungis 21% afla að jafnaði neytt sem matar. Ein algengasta birtingarmynd bolfiskafurða eru fiskflök sem nema oft um 35% af heildar þyngd fiska. Algengt er að um 8% lífmassa glatist á sjó áður en að landi er komið, í vinnslu þekkjast dæmi að 25-70% af lönduðum afla fari forgörðum eða sé ekki ráðstafað til matvælaframleiðslu. Við dreifingu og sölu tapast um 7% af því sem framleitt hefur verið, þá er reiknað með að um 28% sé sóað í höndum neytenda.

Jonas-vannyttMynd 1: Nýting afla, hve mikið fer forgörðum og hvar

Úttekt SINTEF í Noregi bendir til þess að Norðmenn nýti um 37% af aukaafurðum landaðs hvítfisks, þeir nýti allan uppsjávarafla og um 90% aukaafurða eldisfisks. Þar fyrir ströndum eru þó gerð út skip í líkingu við MTr. Molnes sem vinna allan sinn afla um borð, þ.m.t. allar aukaafurðir. Jónas varpaði ljósi á þróun mála hér á landi. 

Íslendingar nýta um tæp 57% aukaafurða hefðbundinnar flakavinnslu úr heilum þorski með framleiðslu afurða á borð við marning, hausa, hryggi, hrogn, lifur og lýsi. Úr 244 þúsund tonna þorskafla flytjum við út afurðir úr vinnslu 178 þúsund tonna þorsks við það bætist nærri 4900 tonn af þorski sem neytt er hér á landi. Samtals er um 77% þorskaflans flutt úr landi (74%) sem afurðir eða neytt hér á landi (3%), var 75% árið 2013, 187 þúsund tonn árið 2015 (Mynd 2). 

Thorskur_2015_hringurMynd 2: Nýting þorsks árið 2015

Mestu verðmætin verða til við sölu flaka, ferskra (kældra), frystra nærri 66 þúsund tonn og saltaðra flaka sem og flatts saltaðs þorsks samtals 94 þúsund tonn sem nemur um 39% aflans. Vörur eru framleiddar úr um 76 þúsund tonnum af aukaafurðum hefðbundinnar flakavinnslu þorsks um 31% aflans. Hagtölur benda til þess að um 57 þúsund tonn aukafurða hefðbundinnar flakavinnslu þorsks sé ekki komið á form neysluvara. Þar liggja tækifærin, gera meira úr því sem dregið er úr sjó. Gjör nýting fisks á borð við þorsks verður varla hagkvæm fyrr en eftirspurn hefur skapast fyrir afurðir sem unnar eru úr blóði þorsk, þ.e. með framleiðslu á vörum sem mæta óþekktum eða enn óskilgreindum þörfum. Þá verður vegna matvælaöryggis varla í bráð unnt að nýta allan fisk til framleiðslu matvæla. Jónas benti jafnframt á að í evrópskum reglum um brottkast bann finnast ákvæði sem vinna gegn nýtingu fisktegunda sem þurfa vernd en ánetjast veiðarfærum sem meðafli.

Þó staða í framleiðslu matvæla sé sumstaðar ásættanleg í dag er þörf á því að huga að lýðfræðilegri þróun, straumum og stefnum á mörkuðum. Jónas benti á að önnur aldursamsetning þjóða þurfi annarskonar vörur en við venjumst í dag. Víðast hvar aukast útgjöld til heilbrigðisþjónustu hraðar en sem nemur vexti hagkerfa sömu landa. Slík þróun leiðir til þess að komandi kynslóðir geta tæplega vænst sömu þjónustu í framtíðinni en við nú njótum eða við höfum notið að undanförnu. Því munu komandi kynslóðir þurfa að borða rétt. Sjávarfang getur komið þar að notum, sé þess neytt í hófi og á réttan hátt. Jónas velti upp í því samhengi mögulegri tilurð stórs nýs markaðar mitt á milli lyfjageirans og fyrirtækja sem framleiða neytendavörur, sem hverfist um samþættingu magnvörumarkaða og markaða sem einkennast af syllu vörum (e. niche) annarsvegar og samspili þeirra eiginleika sem vörurnar eru gæddar hinsvegar Mynd 3. Á fundinum var rætt um skilgreiningar og þörf þess að heilbrigðisþjónusta snérist um heilbrigði en ekki sjúkdóma (e. Healthcare rather than sickcare) Mikil orka, miklir fjármunir og mikill tími færi í að eiga við afleiðingarnar, veikindin og eða sjúkdómseinkenni, minna væri lagt upp úr heilbrigði og heilsu. Hvort hér á landi verði byggð hátækni heilsuhús í stað sjúkrahúss mun tíminn líklegast leiða í ljós. 

StraumbreytarMynd 3: Tilgáta um þróun markaða byggt á A.T. Kearney analysis

Áskoranirnar framundan eru miklar. Í því samhengi er mikilvægt að fjárfesta í hæfileikum og innviðum svo forða megi því að svo mikið af fiski glatist, áður en neytendur fá veður af fiskisögunni, eins og gerst hefur í gegnum tíðina. Þannig þarf að tryggja rétt framboð á réttu menntuninni fyrir rétta fólkið svo nýta megi meira af aflanum, auka matvælaframleiðslu úr fiski og gera meiri verðmæti úr aflanum. Vönduð vinnubrögð frá fyrstu hendi skipta miklu máli fyrir verðmætasköpun á síðari stigum.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur B. Bergsson sviðsstjóri innleiðingar og áhrifa

IS