Fréttir

Tvær spennandi vísindagreinar koma út rafrænt í Icel. Agric. Sci.

Nú eru fyrstu tvær greinarnar í hefti þessa árs af Icelandic Agricultural Sciences komnar út á netinu.

Annarsvegar er þetta grein eftir Eyþór Einarsson o.fl. um árangur nýrrar rafrænnar aðferðar VIAscan®) til að meta vöðvahlutfall lamba í sláturhúsum hérlendis og hvernig arfgengi vöðvahlutfalls er háttað í íslenska sauðfjárstofninum. Niðurstöður gefa til kynna að rafrænt kjötmat sé nothæf aðferð við íslenskar aðstæður og að mælingar sem matið skilar megi nýta í kynbótastarfi í sauðfjárrækt hérlendis. Höfundar komu frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Bændasamtökunum og áströlsku rannsókna- og þróunarfyrirtæki.

Hinsvegar er þetta grein eftir Jan Eric Jenssen o.fl. um getu Paenibacillus-stofns, sem einangraður hefur verið úr íslenskum hverum, til að framleiða etanól og önnur hvarfefni úr sykrum eða beint úr vallarfoxgrasi. Etanólframleiðsla stofnsins samsvaraði 250 lítrum á tonnið af vallarfoxgrasi, sem er svipað og ýmsar nýlegar rannsóknir hafa verið að sýna að hægt er að vinna úr lífmassa hveitihálms, sem er aukaafurð í kornrækt erlendis sem áhugi er að nýta í etanólframleiðslu.  Höfundar komu  frá Háskólanum á Akureyri og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Það er nýlunda að greinar í Icel. Agric. Sci. komi formlega út rafrænt um leið og þær eru komnar í gegnum faglega ritrýni. Sú breyting hefur hinsvegar orðið að nú fá allar greinar svokallað rafrænt doi-númer frá alþjóðlega gagnagrunninum CrossRef, sem þýðir að þær eru formlega birtar um leið og þær koma út á netið. Þetta er stór áfangi hjá ritinu og mun auka sýnileika þess enn frekar alþjóðlega og jafnframt auðvelda aðgang erlendra sem innlendra fræðimanna að því.  

Þetta þýðir um leið að nú er óþarft að prenta eintök af ritinu svo að greinar teljist formlega birtar. Það gerir það að verkum að nú mun sá tími styttast verulega sem höfundar þurfa að bíða eftir að þeir senda inn handrit til birtingar þar til að þau koma formlega út. Innan skamms munum við setja  breytingar inn í leiðbeiningar til höfunda á heimasíðu ritsins (www.ias.is) sem taka mið af þessu. Frá og með þessu ári mun ritið því eingöngu koma út í rafrænu formi.

Nánari upplýsingar má finna á www.ias.is.

IS