Fréttir

Umræða um lífhagkerfið hefur aukist að undanförnu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Til að bæta samfellu og samvirkni í málaflokkum sem tengjast líftækni og ryðja brautina fyrir fleiri nýjungar stofnaði Evrópusambandið Evrópska lífhagkerfisráðið, European Bioeconomy Panel. Rannsóknastjóra Matís, Herði G. Kristinssyni,  var boðið að sitja í ráðinu en það er mikill heiður, ekki bara fyrir Matís heldur einnig fyrir íslenskt vísindasamfélag.

Evrópska lífhagkerfisráðið er vettvangur fyrir umræður um lífhagkerfið í heild – frá frumframleiðslu til neytendamarkaða – þar sem tekið er tillit til flókins samspils þjóðfélagslegra og hagrænna þátta og þeirra breytinga sem þeir geta valdið.

Þegar talað er um lífhagkerfið er átt við matvælaiðnað, fóðurframleiðslu, skógrækt, sjávarútveg, landbúnað, fiskeldi og lífefnaiðnað. Ríki Evrópu leggja mikið upp úr því að auka samstarf þeirra sem framleiða, hafa umsjón með og nýta lífrænar auðlindir eða stunda aðra starfsemi byggða á þeim. Er hér átt við greinar eins og matvælaframleiðslu, sjávarútveg, landbúnað, skógrækt, fiskeldi og aðrar skyldar greinar. Í lífhagkerfisráðinu sitja 30 sérfræðingar sem allir eru sérfræðingar á sínu sviði innan lífhagfræði.

Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri,  segir að eftir stofnun lífhagkerfisráðsins hafi umræða um lífhagkerfið aukist mikið. „Lífhagkerfið snertir mörg svið og lífhagkerfisráðið því mikilvægt tæki til að styðja samskipti milli málaflokka. Evrópa 2020 er 10 ára stefnumörkun Evrópusambandsins sem hefur það markmið að stuðla að sjálfbærum hagvexti innan sambandsins. Eitt af áherslusviðum í stefnunni er sjálfbær vöxtur, loftslagsmál, græn orka, betri nýting orku og aukin samkeppnishæfni á markaði. Evrópska lífhagkerfisráðið var stofnað til að vinna að málum sem tilheyra þessum flokki. Hér á Matís leggjum við samt áherslu á að tala um bæði grænan og bláan vöxt“ segir Hörður. „Blár vöxtur vísar til sjávar og ferskvatns og er mikilvægur fyrir Ísland og nágranna okkar sem deila með okkur auðlindum Atlantshafsins en þar eru miklir möguleikar á sjálfbærri nýtingu og virðisauka. Samvinna milli græns og blás vaxtar er einnig mikilvæg þar sem sterk tengsl eru oft á milli auðæva lands og sjávar. Þeim sem vinna á þessum sviðum geta lært mikið hver af öðrum og kynnt nýjar hugmyndir frá einu sviði til annars. Evrópska lífhagkerfisráðið  mun auðvelda þessa tækniyfirfærslu og upplýsingamiðlun milli sviða.“

Evrópubúar þurfa að hugsa upp á nýtt

„Evrópa stendur frammi fyrir fjölmörgum áskorunum um þessar mundir, mannfjöldaaukningu, hækkandi aldri og aldurstengdum sjúkdómum, loftslagstengd málefni, eyðingu náttúruauðlinda og vaxandi umhverfisálag. Evrópubúar þurfa þess vegna að hugsa upp á nýtt hvernig þeir umgangast náttúruna og breyta á róttækan hátt nálgun sinni að framleiðslu, neyslu, vinnslu, geymslu, endurvinnslu og förgun lífrænna auðlinda. Markmið okkar er að viðhalda heilbrigðu og sjálfbæru lífhagkerfi í Evrópu og hafa þannig jákvæð áhrif á íbúa álfunnar. Slíkar áskoranir geta þó verið hvetjandi og af þeim spretta nýjar hugmyndir og uppgötvanir. Lífhagkerfið mun styðja iðnþróun í dreifbýli og leiða til fólksfjölgunar. Þetta mun einnig vekja Evrópubúa til umhugsunar um nauðsyn þess að bæta stjórnun endurnýjanlegra auðlinda og þeir verða meðvitaðri um hvernig þeir hafa sífellt áhrif á lífhagkerfið og hvernig það opnar nýja markaði fyrir sjálfbær matvæli og líftæknivörur. Það er einnig nauðsynlegt fyrir fólk í frumvinnslugreinum að skoða hvað þeir geta gert til að framleiðslan sé sjálfbær og umhverfisvæn.” segir Hörður. „Þegar tillögur koma um nýjar fæðutegundir og ný hráefni og framleiðendum bent á nauðsyn sjálfbærni, er ekki eingöngu verðið að hugsa um umhverfisvernd heldur einnig fæðuöryggi og örugg matvæli.“

Hörður segir að Evrópska lífhagkerfið hvetji einnig til stofnunar lífhagkerfisráða í einstökum löndum og landssvæðum. „Mikilvægi betri og aukinnar sjálfbærni í kringum lífauðlindir hefur aldrei verið mikilvægari en nú og krefst aukinnar þátttöku rannsóknasamfélagsins, fyrirtækja og stjórnvalda. Þörf er á aukinni nýsköpun og virðisaukningu til að nýta til fullnustu takmarkaðar auðlindir. Samvinna milli landa er lykillinn að að því að ná markmiðum og mæta auknum kröfum um lífræna framleiðslu. Mörg lönd deila sömu auðlindum og því er mikilvægt að koma á samræmdri stefnu og verklagi. Sem dæmi má nefna að Norðurlöndin vinna að stofnun lífhagkerfisráðs sem setur samræmda stefnu fyrir lífrænar auðlindir norðurslóða. Einnig er mjög mikilvægt fyrir okkur að vinna náið með öðrum löndum, t.d. nágrönnum okkar í vestri, Bandaríkjunum og Kanada, en við deilum mörgum auðlindum með þeim og stöndum frammi fyrir sambærilegum áskorunum”.

Fjölbreyttar auðlindir

„Meðal stærstu verkefna Evrópska lífhagkerfisráðsins er að mynda Bioeconomy Observatory, en markmið þess verður að kortleggja og fylgjast með framförum og áhrifum evrópska lífhagkerfisins og vinna að langtímastefna sem gagnast við þróun lífhagkerfisins. Við höfum einnig unnið mikið við skilgreiningar og kortlagningar og sett fram tillögur varðandi  þann lífmassa sem er fáanlegur í Evrópu. Þessi vinna er mjög mikilvæg til að lífauðlindir nýtist á sjálfbæran og arðbæran máta. Lífauðlindir okkar eru fjölbreyttar og snerta marga þætti í fæðu-, fóður-, orku- og lyfja- og landbúnaðarframleiðslu. Í þessari úttekt höfum við þurft að taka tillit til ýmissa efnahagsþátta, félagslegra þátta  og umhverfisþátta og hefur það gert vinnuna talsvert flókna. Markmið okkar er að kynna fyrir Evrópusambandinu forgangstillögur um framboð og notkun á lífmassa,” segir Hörður.

Evrópska lífhagkerfisráðið hefur lagt fram stefnu og aðgerðaráætlun sem byggt er á Framework Programme for Research and Technological Development (FP7) og EU Framework Programme for Research and Innovation (Horizon 2020).

IS