Fréttir

Verstöðin Ísland – valkostur neytenda?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nú er lag. Vissulega liggja tækifæri í ókönnuðum efnum sem kann að verða hagkvæmt að einangra úr ólíkum áttum íslenskrar matvælavinnslu. Til að gera verðmæti úr tækifærum þarf þolinmæði eins og t.d. aðstandendur Zymetech hafa tamið sér. Nærtækt er að einbeita sér að frekari framförum í daglegum athöfnum.

Líklegra er að Íslendingar geri sig gildandi í matvælaframleiðslu út frá gæðum en út frá magni. Allur sá styr sem staðið hefur hér um stjórn fiskveiða snýst um rétt rúman hundraðshluta lagarafurða heimsins, afli og eldi heimshafa og ferskvatns. Talið er að sóun matvæla nemi um tífaldri framleiðslu lagarafurða. Okkar framlag er því brotabrot af því sem lagt er á borð fyrir meðal jarðarbúann.

Ábyrgð og öryggi

Ímynd byggist á raunveruleika. Sé ímyndin fölsk er hún blekking. Virði menn þau viðmið að vinnsla matvæla snúist um virðingu fyrir neytendum og hráefnum og nýting við þá vinnslu snúist um virðingu fyrir hráefnum og umhverfi geta þeir selt vörur sem uppfylla væntingar og þarfir upplýstra og greiðslufúsra neytenda. Íslendingar eiga að geta sagt sögur, til að aðgreina sínar vörur, sem vísa til atriða eins og uppruna, afhendingaröryggis, samfélagslegrar ábyrgðar, sjálfbærrar nýtingar, öryggis, hollustu matvæla, hefða og heilnæmis á grípandi hátt. Tækifæri eru fyrir hendi til að marka íslenskum matvælum sérstöðu á grunni gæða og öryggis sem fá neytendur til að sækja í að kaupa íslensk matvæli fremur en annars staðar að. Eigi neytendur að greiða hærra verð fyrir íslenskar vörur en sambærilegar vörur þurfa íslenskir matvælaframleiðendur að undirgangast aga, fylgja reglum, uppfylla kröfur, fara að lögum og mæta þörfum, sýna þrautseigju og temja sér þolinmæði. Til að ná árangri á neytendavörumörkuðum þarf að móta stefnu til langs tíma.

Líta ber á allan fisk sem hráefni fyrir verðmætar vörur – afurðir vinnslunnar – og forðast að lítillækka þá sem brydda upp á nýjungum því rúm er fyrir ólíkar vörur í fjölbreyttu atvinnulífi. Dæmin sýna að við þurfum að taka okkur á svo við getum gert 21. öldina að öldinni sem þurrkuðu hausarnir okkar komast í samskonar sérflokk eins og indónesíska Luwak-kaffið; ígulkerjahrognin úr Breiðafirði eignist greiða leið að hæsta verði í Evrópu og Japan, þann tíma sem þroski þeirra er réttur. Komum við íslenska þorsknum á svipaðan stall og nuddaða bjóralda nautakjötinu frá Kobe eða niðursoðinni tegundagreindri fisklifur í samanburði við foie gras? Verður loðnunni líkt við goji-ber? Mun okkur takast að upphefja ufsa eins og brokkólí? Rannsóknir Matís hafa, með stuðningi AVS og Tækniþróunarsjóðs Rannís o.fl., opnað augu sjómanna, útgerðarmanna, fiskverkenda og fiskseljenda t.d. fyrir því að með öguðum vinnubrögðum um borð, góðri aflameðhöndlun – kælingu þar með talinni – og kælingu við vinnslu má koma ferskum fiskafurðunum köldum í frauðplastkassa. Þannig er íslenskum fiskverkendum mögulegt að flytja út fersk flök með skipum. Lykilatriði er að matvæli, sem flytja á fersk úr landi séu köld þegar þau eru komin í umbúðirnar, í flutningi er reynt að varðveita ástand vöru fremur en að bæta það.

Eins og sjómenn kappkosta að láta fiski blæða út fyrir þvott og slægingu og flokka um borð geta lyftaramenn forðast það að sturta fiski, sé þeim nauðugur einn kostur þá þarf ekki að sturta fiski úr hæstu mögulegu stöðu. Má ekki birta tölur um hitastig í afla á sama hátt og aflamagn er gert opinbert? Geta fiskmarkaðir ekki boðið upp fisk flokkaðan á grunni gæða eins og á grunni stærðar?

Íslenskur sjávarútvegur er ekkert slor

Íslenskur sjávarútvegur er ein samkeppnishæfasta atvinnugrein landsins að mati McKinsey. Íslenskur sjávarútvegur er og hefur verið grunnatvinnuvegur á Íslandi (og frá Seðlabankanum), eins og Háskólinn á Akureyri gekk út frá við stofnun sjávarútvegsdeildar 1990 (og meira: Saga HA), hvaðan á annað hundrað sjávarútvegsfræðingar hafa útskrifast.

Ein leið til frekari verðmætaaukningar felst í því að selja máltíðir í stað matvæla sem nýtast við matreiðslu máltíða. Hafi menn vonir um aukinn hagnað geta menn litið til samspils nýtingar og verðmæta í tengslum við óskir á mörkuðum. Okkur ber að rýna í íslensk hráefni út frá óskum markaða fremur en að mæna álengdar á markaðina út frá hráefnunum sem hér eru aðgengileg.

Kapp er best með forsjá í ölduróti alheimsviðskipta, vönduð stefnufesta skilar okkur í höfn frekar en bóluleitandi hjarðhegðun. Væntingar geta skekkt myndir og kippt stoðum undan vönduðum áætlunum.

Öflugur sjávarútvegur stendur, enn sem fyrr undir fjórðungi lífskjara landsmanna. Sjávarútvegurinn er atvinnuvegur sem hefur þróast að nokkru leyti í takt við aukna þekkingu og hrygnt fyrirtækjum er þjónusta sjávarútveginn. Þjóðin má vart við því að sjávarútvegurinn verði fyrir skakkaföllum, við þurfum á því sem þjóð að halda að sjávarútvegurinn vaxi og dafni áfram með aukinni þekkingu.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.

IS