Efnarannsóknardeild Matís ohf býður áhugasömum nemenda í efnafræði eða lífefnfræði styrk til mastersnáms (MSc) á sviði snefilefnagreininga
Titill verkefnis er Greining eitraðra og hættulausra efnaforma arsens í fiskimjöli með HPLC-ICP-MS
Stutt lýsing á verkefninu
Í lífríkinu er mikið til af efninu Arsen í lífrænum efnasamböndum sem og á ólífrænu formi og hafa fundist meira en 50 náttúruleg efnaform af arseni. Sjávarfang inniheldur frá náttúrunnar hendi háan styrk heildararsens miðað við t.d. landbúnaðarafurðir. Stærsti hluti arsens í sjávarfangi er hins vegar bundið á lífrænu formi sem kallast arsenobetaníð, sem er mönnum og dýrum með öllu hættulaust. Eins og í landbúnaðarafurðum koma önnur form arsens fyrir í sjávarafurðum, s.s. ólífrænt arsen (arsenít og arsenat), metýlarsensambönd (mónó, dí, trí og tetra), sem eru mjög eitruð og þar með hættuleg heilsu manna.
Formgreining arsens í sjávarfangi er mikilvæg vegna þess að upptaka (bioavailability) og eiturvirkni arsens er mjög háð því á hvaða efnaformi það er. Engu að síður taka núverandi reglugerðir um innihaldsmörk arsens í matvælum og fóðri einungis tillit til heildar arsens í fæðu/fóðurþáttum en miðast ekki við eitrað efnaform arsens. Rannsóknir á efnaformum arsens og formbreytingum þessara efna eru mikilvægar til þess að skilja hve mikil hætta okkur stafar af arseni í sjávarfangi.
Markmið
Markmið þessa rannsóknarverkefnis er að þróa efnagreiningaraðferðir sem geta greint bæði eitruð og hættulaus efnaform arsens í fiskimjöli en ekki bara heildarmagn arsens eins og gert er í dag. Notaður verður HPLC-ICP-MS efnagreiningarbúnaður til greiningar á nýjum og þekktum arsenformum í fiskimjöli.
Þetta verkefni hlaut nýverið styrk úr rannsóknasjóði AVS og verður unnið í samstarfi við Síldarvinnslan hf. og Vinnslustöðin hf auk þess sem fleiri framleiðendur fiskimjöls koma að verkefninu.
Staðsetning
Matís & HÍ. Einnig er möguleiki er á að hluti námsins fari fram við erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir sem Matís er í samstarfi við.
Leiðbeinandi hjá Matís er Dr Sasan Rabieh er sérfræðingur á þessu sviði og leiðir uppbygginguna á þessu nýja rannsóknarsviði hjá Matís. Í þessari uppbyggingu felst m.a. stuðningur við nemenda til mastersnáms á þessu sviði. Möguleiki er
á að hluti námsins fari fram við erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir.
Tengiliður
Áhugasömum er bent á að hafa samband í síma 422 5112, sasan@matis.is eða helgag@matis.is