Föstudaginn 12.6.2009 var haldinn vinnu- og stefnumótunarfundur í kæliverkefnunum Kælibót og Chill-on (með tengingu við verkefnið „Hermun kæliferla“).
Unnið hefur verið að umfangsmikil tilraunum á sviði kælingar á bolfiski frá miðum á markað. Þátttakendur í verkefninu tengjast mismunandi hlekkjum keðjunnar: hráefnismeðhöndlun, vinnslu, flutningi og markaðssetningu. Kynntar voru fyrstu niðurstöður úr umfangsmiklum rannsóknum á kælingu fisks. Tilraunirnar voru framkvæmdar veturinn 2008-2009 við raunaðstæður. Samanburður hefur verið gerður á:
- kæligetu mismunandi ísmiðla og á vélum til framleiðslu þeirra
- kæliaðferðum við vinnslu (vökva- og roðkæling)
- mismunandi umbúðum fyrir pökkun afurða
- mismunandi flutningsleiðum (skip og flug) og áhrifum bættrar hitastigsstýringar við flutning kældra afurða.
Samhliða kynningum áttu sér stað mikilvægar umræður og skoðanaskipti um vægi mismunandi tilraunaþátta og niðurstöður. Nýttust þær umræður til stefnumótunar fyrir næstu tilraunir sem framkvæmdar verða í haust. Þá verða bestu aðferðir fyrir hvern hlekk keðjunnar valdar saman og öll keðjan keyrð í einni tilraun við raunaðstæður. Flutningsferlar hafa verið kortlagðir m.t.t. tíma og hitastigs og verða kælihermar nýttir til að setja upp þá ferla til geymslu á afurðum. Með því móti er hægt að framkvæma nauðsynlegar mælingar án þess að flutningur frá sýnatökustað til tilraunastofa trufli niðurstöður. Á sama tíma er stefnt að því að flytja sömu afurðir einnig á markað til að fá mat markaðsaðila á afurðum.
Þátttakendur verkefnanna Kælibótar og Chill-on eru: Brim hf., Eimskip hf., Háskóli Íslands, Icelandair Cargo, Matís ohf., Optimar á Íslandi ehf., Samherji hf., Samskip hf. Skaginn hf. og Opale Seafood.
Verkefnin eru styrkt af AVS, EU, Tækniþróunarsjóði Rannís og Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.