Fréttir

Virðiskeðja gámafisks – Aukið verðmæti gámafisks

Matís ohf. vinnur nú að rekjanleikaverkefni í samstarfi við innlend og erlend fyrirtæki sem koma að virðiskeðju gámafisks sem seldur er á uppboðsmörkuðunum í Hull og Grimsby.

Samstarfsaðilarnir eru Atlantic Fresh Ltd., Fishgate Hull Fish Auction, Grimsby Fish Market, The Sea Fish Industry Authority (Seafish), Samskip, fjöldi íslenskra útgerða sem eru í reglubundnum viðskiptum við Atlantic Fresh Ltd. og nokkrir stórir sem smáir hagsmunaaðilar á mörkuðunum í Hull og Grimsby s.s. Yorkshire & Humber Seafood Group, Grimsby Fish Merchants Association o.fl. Verkefnið er styrkt af AVS sjóðnum, auk þess sem fjármögnun hefur komið frá Seafish og hagsmunaaðilum í breskri fiskvinnslu. Markmið verkefnisins er að auka rekjanleika og upplýsingastreymi í virðiskeðjunni allri og að búa til verðmæti úr þeim upplýsingum. Verkefnið hófst sumarið 2006 þegar Matís og Atlantic Fresh hófu að safna sölugögnum frá níu skipum sem hafa verið í reglubundnum viðskiptum við Atlantic Fresh. Þegar sölugögnum hafði verið safnað í eitt ár voru þrjú þessara skipa fengin til að auka rekjanleika og upplýsingastreymi til væntanlegra kaupenda. Þetta fólst m.a. í því að dagmerkja allan afla og koma ýmiskonar upplýsingum til Atlantic Fresh um aflann. Atlantic Fresh gat svo í framhaldi af því upplýst væntanleg kaupendur betur um þann fisk sem væntanlegur væri í sölu og látið svo þær upplýsingar fylgja vörunni alla leið inn á gólf fiskmarkaðanna. Þessu fyrirkomulagi var haldið í þrjá mánuði og þá voru sölugögnin greind; þar sem bæði var kannað hvaða áhrif breytingin hefði á fiskverð hjá hverju skipi fyrir sig og svo í samanburði við skipin níu sem voru í upphaflegu úrtaki.  Bráðabirgðaniðurstöður benda til að aukinn rekjanleiki og upplýsingastreymi hafi ekki mikil áhrif á fiskverð, t.a.m. í samanburði við framboð og eftirspurn.  Þar sem framboðið er mjög óstöðugt sveiflast verð nokkuð á milli vikna og jafnvel daga.

Sem partur af verkefninu er nú verið að undirbúa vefsíðu þar sem unnt verður að koma upplýsingum um væntanlegt framboð til kaupenda.  Þessi vefsíða verður partur af upplýsinganeti Seafish þ.e. Seafood Information Network (SIN) og eiga þá kaupendur að geta séð á föstudegi hvert framboðið frá hverju skipi fyrir sig verður í vikunni á eftir.  Hugsanlegt er að útgerðir geti nýtt þessa síðu til að koma frekari upplýsingum til kaupenda t.d. hefur komið upp sú hugmynd að einhver skipanna verði útbúin netmyndavélum.

Gámar

Verkefnið hefur nýst vel til að koma á fót öflugu tengslaneti innan virðiskeðjunnar, t.d. eru starfsmenn Matís búnir að fara til Bretlands til að kynna sig fyrir þarlendum hagsmunaaðilum og til að skoða aðstæður.  Einnig hefur hópur kaupenda í tvígang komið til Íslands í tengslum við verkefnið til að kynna sér aðstæður hér á landi og til fundarhalda um framgang verkefnisins.

Nýr vinkill kom á verkefnið í október í kjölfar falls bankanna og deilna sem sköpuðust milli þjóðanna í framhaldi af því.  Kaupendur í Bretlandi fóru þá að hafa miklar áhyggjur af því hvaða áhrif ástandið gæti haft á framboð gámafisks frá Íslandi, og fóru því þess á leit við Matís að fyrirtækið myndi gera fyrir þá stuttar skýrslur um áhrif bankakreppunnar á íslenskan sjávarútveg.  Það er mat verkefnisaðila að þessar skýrslur hafi hjálpað til við að upplýsa kaupendur í Bretlandi um stöðu mála og meðal annars orðið til þess að þeir gátu beitt áhrifum sínum til að liðka fyrir því að greiðslur fyrir fiskinn bærust til Íslands.  Þess ber að geta að greiðslur fyrir gámafisk voru fyrstu greiðslur sem bárust frá Bretlandi eftir bankahrunið.Næstu skref í verkefninu eru að fullkomna gæðamat gámafisksins og koma vefsíðu um væntanlegt framboð í gagnið, auk þess sem Jónas Rúnar Viðarsson, starfsmaður Matís, mun innan skamms heimsækja fiskmarkaðina í Hull og Grimsby og meta hvaða áhrif aldur hráefnis hafi á verðmyndun, í samstarfi við Atlantic Fresh.

IS