Ritrýndar greinar

Erfðablöndun villts íslensks lax (Salmo salar) og eldislax af norskum uppruna

Höfundar: Leó A. Guðmundsson, Ragnhildur Þ. Magnúsdóttir, Sten Karlson, Hlinur Bárðarson, Ingerid J. Hagen, Áki J. Lárusson, Sæmundur Sveinson & Davíð Gíslason

Útgáfa: Hafrannsóknastofnun

Útgáfuár: 2023

Samantekt:

Erfðablöndun við eldislax getur breytt erfðasamsetningu villtra stofna, leitt af sér breytingum í lífsögulegum þáttum og jafnvel valdið hnignun stofna. Á Íslandi er sjókvíaeldi á laxi af norskum uppruna vaxandi atvinnugrein. Framleiðsla á eldislaxi hefur farið úr því að vera nánast engin árið 2010 upp í 43.000 tonn árið 2022. Samkvæmt núgildandi ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar (áhættumat erfðablöndunar) er talið að hægt sé að ala 106.500 tonn af frjóum laxi án þess að það valdi neikvæðum áhrifum á nytjastofna villtra laxa.

Í erfðarannsókn frá 2017, þar sem notast var við 15 örtungl (e. microsatellites), fundust merki um erfðablöndun í ám í nálægð við sjókvíaeldi á Vestfjörðum. Í þessari rannsókn voru laxasýni tekin í ám hringinn í kringum landið og sýnafjöldi var tæplega tíu sinnum meiri. Alls voru 6.348 laxaseiði úr 89 ám rannsökuð og áhersla lögð á svæði í nálægð við sjókvíaeldi.

Flest sýni tilheyrðu hrygningarárgöngum 2014-2018 þegar framleiðsla á eldislaxi var um 6.900 tonn að meðaltali. Sýni voru erfðagreind með 60.250 samsætum (SNP-erfðamörkum) og erfðaupplýsingar 250 eldislaxa nýttar til samanburðar. Stuðull erfðamunar (FST) milli íslenskra laxa og eldislaxa var 0,14 að meðaltali (miðað við 34.700 SNP) og 0,62 fyrir þau erfðamörk sem sýndu mestan aðskilnað milli hópanna tveggja (196 SNP). Erfðablöndun var greind með fjölþáttagreiningu (PCA) og í líkönum forritanna ADMIXTURE, STRUCTURE og NewHybrids.

Alls greindust 133 fyrstu kynslóðar blendingar (afkvæmi eldislaxa og villtra laxa) í 17 ám (2,1% sýna, innan 18% áa). Eldri blöndun (önnur kynslóð eða eldri) greindist í 141 seiðum í 26 ám (2,2% sýna, innan 29% áa). Fyrstu kynslóðar blendingar voru algengari á Vestfjörðum en Austfjörðum sem er í samræmi við að eldið á Austfjörðum hófst síðar og hefur verið umfangsminna.

Erfðablöndun greindist yfirleitt í minna en 50 km fjarlægð frá eldissvæðum en nokkrir blendingar fundust í allt að 250 km fjarlægð. Aftur á móti var eldri erfðablöndun tíðari á Austfjörðum en Vestfjörðum og tengist líklegast eldinu sem þar var starfrækt í byrjun þessarar aldar. Eldri erfðablöndun var mest áberandi í Breiðdalsá og greindist í 32% (72 af 228) seiðanna. Þörf er á frekari rannsóknum á kynslóðaskiptingu blendinga, umfangi og orsökum dreifingar eldri blöndunar.

Rannsóknin greindi sem fyrr segir áhrif frá upphafsárum núverandi eldis, meðan framleiðslumagn var lítið, og eldri tilrauna í sjókvíaeldi. Niðurstöðurnar í þessari skýrslu sýna að erfðablöndun hefur orðið við hlutfallslega lítið eldismagn.