SYMBIOSIS samlífi manna og örvera í daglega lífinu

Heiti verkefnis: SYMBIOSIS samlífi manna og örvera í daglega lífinu

Samstarfsaðilar: Háskóli Íslands

Rannsóknasjóður: Rannís- Öndvegissjóður

Upphafsár: 2021

Þjónustuflokkur:

Umhverfisrannsóknir

Tengiliður

Viggó Marteinsson

Fagstjóri

viggo@matis.is

Vísindaleg þekking á samlífi manna og örvera hefur vaxið hratt alla 21. öldina, sem og áhugi almennings og fjárfesting fyrirtækja í þessu samlífi. “Örveruvendingin”, eins og þetta hefur verið nefnt, varpar fram nýjum spurningum og áskorunum fyrir vísindin.

Þetta þverfræðilega verkefni tekur til rannsóknar samlífi manneskja og örvera á Íslandi og beinir sjónum að því hvernig þetta samlífi mótast í hversdagslegum athöfnum fyrr og nú. Verkefnið rannsakar sköpunarmátt örveranna í matarháttum og daglegu lífi; það fylgir þeim allt frá ræktun, bakstri, bruggun, súrsun og skyrgerð, í gegnum meltingarkerfið og aftur ofan í jarðveginn með moltugerð, og það rannsakar áhrif þessa samlífis á líkamlega, andlega og félagslega velferð fólks.

Verkefnið skoðar þannig lifandi “kúltúr” með samþættingu eigindlegra, etnógrafískra aðferða (m.a. skynrænnar etnógrafíu og fjöltegundaetnógrafíu), megindlegra aðferða og rannsóknarstofuaðferða. Í verkefninu munu því félagsvísindin víxlleggjast með náttúruvísindum og heilbrigðisvísindum. Þannig mun það laða fram nýja þekkingu á flóknu samspili milli mannlegs atbeina og atbeina annarra tegunda, og á því hvernig þetta samspil mótar efnisheiminn, þar með talinn mannslíkamann.

Markmiðið með slíkri þverfræðilegri rannsókn á samlífi manneskja og örvera er að móta nýtt sjónarhorn á mannlega heilsu, matarhætti, félagslegt samneyti og samspil manneskja og örvera við umhverfi sitt sem gæti vísað veginn í átt að sjálfbærari framtíð.