Sýndarveruleiki matar – Lærum um mat með öllum okkar skynfærum (Food Imaginarium)

Heiti verkefnis: Food Imaginarium

Samstarfsaðilar: Matís, University of Aarhus, EUFIC, IMDEA Food Institute

Rannsóknasjóður: EIT Food

Upphafsár: 2021

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Sýndarveruleiki matar er forverkefni (e. Proof of concept (PoC)) innan Public engagement áherslunnar hjá EIT Food og er þemað; Offita barna. Matís leiðir verkefnið.

Þörfin fyrir sjálfbærari og umhverfisvænni aðferðir við framleiðslu og neyslu matar er áríðandi um þessar mundir. Þekking á mat er einnig grundvallaratriði í mótun heilbrigðra og sjálfbærra neysluvenja og til að fyrirbyggja ofþyngd og lífstílssjúkdóma.  Uppruni matvæla er mörgum börnum óljós í dag, ekki síst vegna þess að þau eru vön því að matur komi í umbúðum úr matvöruverslunum. Mikilvægt er að breyta þessu með markvissri og árangursríkri fræðslu fyrir börn.

Verkefnið Sýndarveruleiki matar býður kennurum og börnum (í þessari lotu á aldrinum 10-12 ára) upp á leið til matarmenntunar, sem er í senn skemmtileg og fræðandi, þar sem öll skilningarvit barnanna, hugmyndaauðgi og sköpunargáfa, eru virkjuð. Verkefnið mun ná yfir mismunandi tegundir matvæla og umfjöllunarefni tengd þeim, en en í forverkefninu er áherslan á tómata. Með aðstoð sýndarveruleikatækni ferðast nemendur um sjálfbæra tómataræktunarstöð á Íslandi þar sem þau sjá meðal annars þrívíddarmyndbönd og svara spurningum. Að  auki fá börnin að skoða mismunandi gerðir tómata og bragða þá. Þannig fá þau tækifæri til að skynja hvað gerir tómata heilsusamlega, hvernig þeir eru ræktaðir, lykta og bragðast.   

Verkefnið hefur það markmið að ná til barna á þeim aldri þar sem þeim er hætt við að byrja að þróa með sér offitu, með því að nálgast þau á gagnvirkan og grípandi hátt og vekja þannig áhuga og auka þekkingu þeirra á því að velja holla fæðu. Í þessu forverkefni verða hugsanleg áhrif á þekkingu barna og óbein viðhorf mæld. Þá verður leitað eftir viðbrögðum kennara og annarra þátttakenda á efni verkefnisins og mismunandi liðum þess með það að markmiði að leiðbeina um frekari þróun og endurbætur á heildarupplifuninni.

Horfa má á myndband um verkefnið í spilaranum hér að neðan: