Faghópurinn vinnur markvisst að því að auka sjálfbærni og verðmætasköpun í matvælaframleiðslu til eflingar íslenskra afurða og atvinnulífs.
Áherslur hópsins snúa að vistferilgreiningu (LCA), kortlagningu umhverfisáhrifa og áreiðanlegum útreikningum á kolefnisspori matvæla—frá hráefnum til neyslu. Við rannsökum hvernig megi auka framboð matvæla og bæta nýtingu auðlinda án ofnýtingar, m.a. með hringrásarhagkerfislausnum og verðmætasköpun úr aukaafurðum.
Hópurinn styður kerfisbreytingar í matvælakerfinu með þróun gagna- og reiknilíkana, verklags og staðla. Við samþættum náttúrumiðaðar lausnir (NbS), aðlögun og mótvægisaðgerðir vegna loftslagsbreytinga, og orkuskipti í virðiskeðjum til að draga úr losun, bæta seiglu og efla sjálfbærni. Einnig rannsökum við nýprótein og önnur minna þekkt hráefni og áhrif þeirra á samfélag, efnahag og umhverfi.
Faghópurinn tekur þátt í og leiðir nýsköpunar- og rannsóknarverkefni ásamt ráðgjöf til fyrirtækja og stjórnvalda – frá grunnmælingum og gagnasöfnun til stefnumótunar og aðgerðaáætlana. Markmiðið er gagnsæi, samanburðarhæfni og raunhæfar lausnir sem hraða umbreytingu íslenska matvælakerfisins.
Dæmi um verkefni sem hópurinn vinnur að:
- Orkunýtni fyrir grænar fiskveiðar – Bætt orkunýtni, lægra kolefnisspor, orkuskipti og stafrænar lausnir sem stuðla að aukinni sjálfbærni í sjávarútvegi á norðurlöndunum
- KÍM – Kolefnisspor íslenskra matvæla – þróun aðferða og útreikningar á kolefnisspori helstu matvælaflokka
- MarineGuardian – Sjálfbærari fiskveiðar og verndun vistkerfa í Atlantshafi og Norður-Íshafi
- NATALIE – Hvernig geta náttúrumiðaðar lausnir verið mótvægi við áhrif loftslagsbreytinga í Evrópu?
- GIANT LEAPS – mat á virðiskeðjum og sjálfbærni nýpróteina og skilgreina framtíðarfæði sem stuðlar að betri umhverfi og heilsu

