Fréttir

Nýr gagnagrunnur um örverur í mat og vinnsluumhverfi

Tengiliður

Sigurlaug Skírnisdóttir

Verkefnastjóri

sigurlaug.skirnisdottir@matis.is

Örverur eru hluti af matnum sem við borðum og þær geta haft áhrif á okkar staðbundnu örveruflóru og heilsu. Við höfum engu að síður frekar takmarkaða þekkingu á því hvaða örverur er að finna í matnum okkar eða í vinnsluumhverfinu. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem Matís var þátttakandi í varpar ljósi á þetta og munu niðurstöður rannsóknarinnar hjálpa okkur að skilja betur áhrif örveranna á ýmsa eiginleika matarins, t.d. geymsluþol, matvælaöryggi, gæði og bragð.

Rannsóknin var hluti af Evrópuverkefninu MASTER sem náði til 29 samstarfsaðila í 14 löndum. Verkefnið fól í sér að búa til sérstakan gagnagrunn utan um „matarörverur“ með því að raðgreina allt erfðaefni úr 2,533 sýnum sem voru fengin úr mismunandi matvælum og vinnsluumhverfi þeirra. Matís sá um rannsóknir á sýnum úr íslenskum fiskvinnslum en rannsóknarverkefnið náði yfir alla helstu fæðuflokka. Um er að ræða stærstu rannsókn sem hefur verið gerð á örverusamsetningu í matvælum og vinnsluumhverfinu en aukinn skilningur á þessum örverum gæti stuðlað að bættri heilsu fólks þar sem sumar örverur sem við innbyrðum geta orðið varanlegar í okkar eigin örveraflóru.

Alls voru greindar 10,899 fæðutengdar örverur þar sem helmingur þeirra voru áður óþekktar tegundir og sýndu niðurstöðurnar að meðaltali væru fæðutengdar örverur um 3% af þarmaflóru fullorðinna og 56% af þarmaflóru ungbarna.

„Þessar niðurstöður benda til þess að sumar örverur í þörmum okkar eru mögulega fengnar beint úr mat, eða að sögulega séð hafi mannkynið fengið þessar örverur úr mat og síðan hafi þær aðlagast og orðið hluti af örveruflóru mannsins,“ segir örverufræðingurinn Nicola Segata við háskólann í Trento og evrópsku krabbameinsstofnunina í Mílanó.  Þó svo að þessi 3% gætu virst lágt hlutfall geta þessar örverur samt skipt miklu máli fyrir virkni allrar þarmaflórunnar. Gagnagrunnurinn er því mikilvægt framlag til vísinda og lýðheilsu þar sem hann mun verða notaður við rannsóknir á áhrifum örvera sem eru upprunar úr matvælum og áhrif þeirra  á heilsu okkar.

Þó ekki hafi verið borið kennsl á margar augljósar sjúkdómsvaldandi örverur í matvælasýnunum, voru nokkrar örverutegundir sem gætu verið óæskilegar vegna áhrifa þeirra á bragð eða geymsluþol matvæla. Þekking á því hvaða örverur tilheyra ákveðnum tegundum matvæla gæti því gagnast framleiðendum, stórum og smáum, við að framleiða betri vörur. Þessar upplýsingar geta einnig hjálpað matvælaeftirlitsaðilum að skilgreina hvaða örverur ættu og ættu ekki að vera í ákveðnum tegundum matvæla og til að greina og votta uppruna ákveðinna matvæla.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust 29. ágúst síðastliðinn í tímaritinu Cell Press og gagnagrunnurinn er nú aðgengilegur. Niðurstöður sem snúa eingöngu að sjávarafurðum hafa einnig verið birtar í tímaritinu Heliyon sem er undir Cell Press.  Rannsóknin er sem fyrr segir hluti af evrópska rannsóknaverkefninu MASTER og var styrkt af Horizon 2020, Horizon Europe, Utanríkisráðuneyti Ítalíu, Evrópska rannsóknarráðinu, Spænska vísinda- og nýsköpunarráðuneytinu, Vísindastofnuninni á Írlandi og Írska landbúnaðar-, matvæla- og sjávarútvegsráðuneytinu.

IS