Fréttir

Námskeið um meðhöndlun matvæla fyrir starfsfólk mötuneyta og eldhúsa

Tengiliður

Óli Þór Hilmarsson

Verkefnastjóri

oli.th.hilmarsson@matis.is

Matís býður upp á námskeið, varðandi meðhöndlun á matvælum, hreinlæti, helstu áhættur og matvælaöryggi, sem er sérstaklega miðað að starfsfólki í mötuneytum, eldhúsum og veitingahúsum. Tilgangur námskeiðanna er að tryggja að þekking og skilningur aðila sem meðhöndla matvæli á matvælaöryggi og hreinlæti, sé gott, til að lágmarka áhættu á að skaðlegar sýkingar berist í matvæli og ógni þar með heilbrigði og öryggi neytenda. Námsefnið er viðurkennt af Matvælastofnun. Boðið verður upp á námskeiðið bæði sem staðnámskeið og vefnámskeið.

Matís og sérfræðingar þess eru bakhjarlar þessa verkefnis, en námsefnið er viðurkennt af Matvælastofnun. Fræðsluefnið er unnið úr ýmsum gögnum s.s. þeim lögum og reglugerðum sem fjalla um matvæli, úr fyrri rannsóknum og því náms- og kynningarefni sem útbúið hefur verið hjá Matís og Matvælastofnun.

Áætlað er að tvær til þrjár kennslustundir (3×45 mín) taki nemanda að lesa yfir og tileinka sér það sem borið er fram og að taka próf í lok námskeiðs. Hafi þátttakandi staðist prófið, er gefið út vottorð s.k. matvælaöryggis skírteini. Skírteinið er staðfesting á að þátttakandi hafi aflað sér staðgóðrar þekkingar vegna vinnu við meðhöndlun matvæla samkvæmt kröfum þeirra reglugerða sem mötuneytum og veitingahúsum ber að fara eftir. Krafist er 80% réttrar svörunnar og mögulegt er að endurtaka prófið tvisvar.

Farið er í eftirfarandi þætti:

1 Matvælaöryggi

Samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni deyja um 240 þúsund manns ár hvert af völdum matarsýkinga eða matareitranna, og þriðjungur eru börn undir fimm ára aldri. Það má því segja að matvælaöryggi sé dauðans alvara. Í þessum hluta er farið yfir helstu hættur í matvælum og hver er hugsanlegur uppruni þeirra. Sérstök áhersla er lögð á sjúkdómsvaldandi örverur, hverjar eru þær helstu og hvernig komast þær í matvæli. Þá er einnig rætt um hvernig þær ná að fjölga sér og hverjar eru helstu afleiðingar nái þær að sýkja neytendur.

Fjallað er um hvaða hættur tengjast matvælum og farið yfir flokkana (eðlis-, efna- og líffræðilegar hættur, þar sem fjallað er um hvers konar hættur þar er að finna og hvar þær gætu verið). Þá er fjallað um hvernig á að verjast því að hætturnar komið í matvæli og neytendur. Farið er yfir meðhöndlun og geymslu matvæli og einnig fjallað um þrif og umgengni um matvæli. Að lokum er farið yfir nauðsyn skráninga.

2 Meðhöndlun og geymsla matvæla

Í þessum hluta er fjallað um hvernig verja má matvæli frá utanaðkomandi smiti. Þá fariðyfir mikilvægi rétts hitastigs við matreiðslu, framreiðslu, kælingu og geymslu matvæla.

3 Hreinlæti

Farið yfir mikilvægi þrifa og sótthreinsunar á umhverfi og áhöldum sem notuð eru við tilbúning matar og sérstök áhersla lögð á hreinlæti og heilbrigði þeirra sem meðhöndla óvarin matvæli.

4 Hættugreining og mikilvægir stýristaðir (HACCP)

Matvælareglugerðir kveða á um að öll meðhöndlun og vinnsla matvæla skuli byggð á HACCP hugmyndafræðinni. Farið er yfir hvað það þýðir og hvaða kröfur eru gerðar til mismunandi fyrirtækja og stofnana.

5 Ofnæmisvaldar

Ákveðin matvæli og innihaldsefni geta kallað fram sterk ofnæmisviðbrögð hjá vissum einstaklingum. Fjallað er um hvaða matvæli og innihaldsefni það eru og hvaða kröfur eru gerðar til þeirra sem bjóða fram matvæli sem innihalda slík efni.

Verð á vefnámskeiði eru 22 þúsund krónur. Dagsetningar verða auglýstar síðar.

Frekari upplýsinar veitir Óli Þór Hilmarsson, olithor@matis.is.

IS