Markmið þessa verkefnisins er að kanna stöðugleika og geymsluþol frystra þorskafurða. Einnig að skoða hvort hægt sé að nota glermark (glass transition temperature) afurða við gerð spálíkana fyrir geymsluþol í frysti og sem stjórntæki við vöruþróun. Breytingar í stöðugleika afurðanna eru mældar með skynmati, áferðar- og efnamælingum og metið hvaða þættir breytast mest og hafa aðallega áhrif á stöðugleikann.
Einnig er markmið verkefnisins að mæla glermark í þorskholdi og kanna samspil þess og stöðugleika með gerð spálíkana fyrir geymsluþol afurða í frystigeymslu í huga. Þekking á stöðugleika og geymsluþoli verður nýtt við mat á neyslugæðum afurða sem leitt getur til meiri verðmætasköpunar. Þekking á glermarki getur nýst sem tæki við framleiðslustýringu og vöruþróun og þar með leitt til umbóta í vinnslunni.
Miklar tafir hafa orðið á verkefninu, aðallega þar sem nauðsynlegt reyndist að kaupa nýjan frystibúnað á Rf m.a. vegna þessa verkefnis. Keypt var frystikista fyrir mjög lágt hitastig og frystihermar voru settir upp sem gefa möguleika á nákvæmri stillingu og skráningu á hitastigi. Niðurstöður úr mælingum eftir 6 mánuði í frysti verða birtar sumarið/haustið 2000.
Erfiðlega hefur gengið að mæla glermark í þorksholdi. Þegar vinna hófst við að mæla glermark í þorski kom í ljós að kælibúnaður DSC tækis, sem notað er við mælingarnar, réð ekki við að kæla sýni niður í æskilegt hitastig. Styrkur fékkst frá Tækjakaupasjóði Rannsóknarráðs til að bæta við þennan búnað og kom nýr kælibúnaður í ágúst s.l. Er nú hægt að framkvæma mælingar við lægra hitastig og er rannsóknaraðstaða öll önnur eftir að þessi viðbót fékkst. Einnig var keyptur nýr hugbúnaður og tölva fyrir tækið sem eykur möguleika á úrvinnslu gagna. Ekki hefur tekist að mæla glermark í þorskholdi en vonast er til að breyttar mæliaðferðir muni gefa betri raun.