Fréttir

Getur grálúða bætt psoriasis og exem? | Hagnýting fitusýra úr grálúðu

Tengiliður

Margrét Geirsdóttir

Verkefnastjóri

mg@matis.is

Nú er nýhafið mjög áhugavert samstarfsverkefni milli Dermos og Matís þar sem ætlunin er meðal annars að kanna áhrif fituefna úr grálúðu til dæmis á húðsjúkdóma.

Þegar Guðbjörn Björnsson, meðeigandi Dermos var héraðslæknir á Austfjörðum, fyrir allmörgum árum síðan, heyrði hann á tali manna að fiskverkakonur, löguðust mjög af psoriasis og exemi þegar þær unnu berhentar við grálúðu. Hann ákvað þá í samráði við lækni í húðsjúkdómafræði að búa til áburð úr fitu grálúðu. Áburðurinn var prófaður á sjúklingum með þessa húðsjúkdóma og góður bati náðist en vegna mikillar fiski og lýsislyktar hættu þeir prófunum. Meðhöndlun á fitusýrum hefur farið mikið fram síðan þessi tilraun var gerð.

Markmið verkefnisins er að útbúa áburð úr fituefnum grálúðu, takmarka lyktina sem áður var of mikil og búa til náttúrlegan áburð sem getur meðhöndlað sjúkdóminn með skilvirkari hætti en önnur efni á markaðinum.

Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði og verkefnisstjórnun hjá Dermos.

Teikningin af grálúðunni er eftir Jón Baldur Hlíðberg, fauna.is

IS