Fréttir

Er hafkóngur ónýtt tækifæri í íslenskum sjávarútvegi?

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Hafkóngur (Neptunea despecta) er kuðungur sem líkist beitukóng, en er þó nokkuð stærri og heldur sig yfirleitt á meira dýpi. Talið er að hafkóngur sé í veiðanlegu magni víða hér við land og að stofninn þoli töluverða veiði. Hafrannsóknarstofnun hefur skráð upplýsingar um hafkóng úr humarleiðöngrum til fjölda ára sem benda til talsverðs þéttleika víða í kringum landið. 

Fyrirtækið Sægarpur á Grundarfirði hóf að kanna möguleikana á veiðum, vinnslu og markaðssetningu á hafkóngi árið 2012 og þegar Sægarpur fór í þrot 2013 tók fyrirtækið Royal Iceland við keflinu og hélt áfram tilraunum allt til ársins 2016. Matís aðstoðaði fyrirtækin við þessa vinnu, auk þess sem AVS sjóðurinn kom að fjármögnun. Nú hefur Matís gefið út skýrslu þar sem stiklað er á stóru á þeim tilraunum sem framkvæmdar voru og helstu niðurstöðum. 

Helstu niðurstöður kortlagningar útbreiðslu og tilraunaveiða voru heldur takmarkaðar, þar sem upplýsingar um hafkóng sem meðafla við aðrar veiðar eru af skornum skammti og tegundinni hefur verið gefinn lítill gaumur við rannsóknir Hafrannsóknarstofnunar. Tilraunaleiðangur sem verkefnið stóð fyrir skilaði einnig niðurstöðum sem ollu vonbrigðum, þrátt fyrir að sægbjúgnaplógur hafi verið dreginn á 29 stöðum þar sem talið var líklegt að von væri á hafkóngi.

Þar sem hafkóngur getur framleitt eitur (tetramine) snýst vinnsla á honum aðallega að því að tryggja að afurðirnar séu öruggar til neyslu. Niðurstöður vinnslutilrauna sýndu að unnt er að fjarlægja eiturkirtla hafkóngsins og að mögulegt er að mæla hvort tetramine finnist í afurðum, en það útheimtir hins vegar ærinn tilkostnað. Til að vel eigi að vera þarf að fjarlægja handvirkt kirtil og poka sem geymir eitrið.

Niðurstöður grunn-markaðskönnunar sem framkvæmd var bendir til að hægt sé að selja hafkóngsafurðir, þá sér í lagi á vel borgandi mörkuðum í Asíu. En þar sem hafkóngurinn er ekki vel þekktur á mörkuðum í Asíu og það er alltaf til staðar hætta á tetramine eitrunum, þá er markaðssetning á afurðunum miklum vandkvæðum bundin. Ljóst er því að þörf er á umtalsvert meiri rannsóknum í allri virðiskeðjunni áður en unnt er að fullyrða nokkuð um hvort og hve mikil tækifæri liggja í veiðum og vinnslu hafkóngs hér á landi.

Skýrsluna má nálgast á vef Matís.

IS