Nú er í gangi verkefni hjá Matís sem styrkt er af Tækniþróunarsjóði Rannís. Verkefnið nefnist Súrþang og vitnar til þeirra möguleika sem eru til staðar í meðhöndlun þangs með mjólkursýrubakteríum og öðrum gerjunarörverum.
Markmið verkefnisins er að þróa og staðla verkunaraðferð þangs sem byggir á meðhöndlun mjólkursýrubaktería og annarra gerjunarörvera. Mjólkursýrubakteríurnar brjóta niður fjölsykrur í þanginu, gera það meltanlegra og nothæft sem fóðurbæti sem ríkur er af fásykrum og fjölfenólum með margvíslega lífvirkni og bætibakteríuörvandi (prebiotic) eiginleika.
Nú er búið að sýra mismunandi þang með mismunandi bakteríum við mismunandi aðstæður. Sömuleiðis er búið að greina súrþangið með tilliti til efna- og örveruinnihalds. Allt hefur þetta verið gert fram að þessu á litlum skala og hafa niðurstöðurnar reynst áhugaverðar. Næst á dagskrá er að skoða fleiri gerðir þangs og framkvæma tilraunir á stærri skala.
Þess má að lokum geta að afurðir úr þessu verkefni munu verðar teknar áfram í öðru verkefni innan EIT Food.