Fréttir

Örsláturhús myndu örva nýsköpun í landbúnaði

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Örsláturhús eru til umfjöllunar í Bændablaðinu í dag í viðtali við Hrönn Ólínu Jörundsdóttur, sviðstjóra hjá Matís. Hugmyndin um örsláturhús hefur komið sífellt oftar til tals að undanförnu, en um er að ræða nýjan möguleika fyrir bændur til að þjónusta viðskiptavini sína milliliðalaust með heimaslátruðum afurðum.

 viðtalinu bendir Hrönn á að heimaslátrun sé leyfð samkvæmt lögum, þegar bóndi slátrar heima á bæ og til eigin nota. Aftur á móti er sala og dreifing heimaslátraðra afurða bönnuð, þ.e. sala og dreifing afurða út fyrir býlið. Hrönn bendir á að sala á heimaslátruðum afurðum tíðkist töluvert á bak við tjöldin og það sé í raun lítið mál að nálgast heimaslátrað kjöt.

„Ástæðan fyrir því að bannað er að selja afurðir af heimaslátruðu er að dýrunum er slátrað […] án nokkurs eftirlits og í aðstöðu sem er í flestum tilfellum ekki samþykkt til matvælaframleiðslu,“ segir Hrönn. „Í framhaldi af því má svo spyrja sig hvort afurðirnar séu ekki jafnmikil ógn við heimafólk á bænum þar sem slátrunin fór fram og aðra, komi eitthvað upp.“ 

Hrönn bendir á að staða sauðfjárbænda í dag sé erfið og að ekki sé útlit fyrir að það muni breytast mikið á næstunni. „Við hjá Matís teljum að nýsköpun sé lykillinn að uppbyggingu landbúnaðar, nýliðunar í greininni og eflingu byggða. Hugmynd okkar hjá Matís er að bændum verði gert kleift að stunda nýsköpun heima fyrir og að í stað þess að þeir þurfi að kaupa þá þjónustu sem felst í að aflífa dýrin leggjum við að þeim verði gert mögulegt samkvæmt reglugerð að koma upp eins konar örsláturhúsi. Slíkt myndi gera bændum kleift að slátra heima, vinna afurðir úr hráefninu og selja þær beint frá býli.“Viðtalið birtist í Bændablaðinu í dag.