Hugmyndin að ofurkælingaverkefninu (e. Superchilling of fish), sem er samstarfsverkefni Grieg Seafood í Noregi, 3X Technology, Matís, Iceprotein, FISK Seafood, Skagans, Hätälä í Finnlandi og Norway Seafood í Danmörku með stuðningi frá Nordic Innovation og Rannís, var valin sem Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2016, og hlaut að launum Svifölduna, á ráðstefnunni sem fram fór í lok nóvember.
Svifaldan, verðlaunagripurinn fyrir Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2016, var nú veitt í sjötta sinn, en markmiðið er að efla umræður og hvetja til nýrrar hugsunar með framsæknum og frumlegum hugmyndum. Svifaldan er gefin af TM, en jafnframt var veitt verðlaunafé og viðurkenningar til þeirra sem standa að þremur bestu hugmyndunum.
Að þessu varð ofurkæling valin sem Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2016 og tók Albert Högnason hjá 3X við verðlaununum á ráðstefnunni. Með viðtöku Sviföldunnar er sviðsljósi beint að samstarfsverkefninu og samstarfinu sem skilar aukinni þekkingu á kælingu fisks.
Svifaldan 2016 Albert Högnason, 3X, Gunnar Þórðarson, Matís | Svifaldan 2016 | Copyright Gusti.
Um ofurkælingarverkefnið
Umtalsverðar rannsóknir hafa verið gerðar um áhrif ofurkælingar á vinnslu og afurðargæði í sjávarútveg og eldisframleiðslu og eru niðurstöður afgerandi. Með ofurkælingu er átt við að færa kæliorku inn í fiskvöðvann strax eftir veiðar/slátrun, þar sem innan við 20% af vatnsinnihaldi er fryst. Í botnfiski er miðað við að kæla niður í -0,7 °C og -1,5 °C í laxi, sem er feitari og því er frystimark hans lægra. Í báðum tilfellum er um fasaskipti að ræða við þessi hitastig og þarf töluverða orku til að fara niður fyrir þau. Miklar rannsóknir hafa verið gerða á ofurkælingu og hefur verið sýnt fram á að engar skemmdir verða á frumum vegna ískristallamyndunar svo framarlega sem kæling er innan skilgreiningar. Mikil tækifæri geta legið í flutningi á ofurkældum ferskum fiski (lax/bolfiskur) þar sem mikið sparast við að losna við ís í flutningskeðju, sérstaklega með flugi. Um 10% af þyngd á hefðbundnum afurðum við flutning er ís og því bæði fjárhagslegur og umhverfislegur ávinningur með aðferðinni. Lækkun á sótspori við framleiðslu og flutning á fiskafurðum er mikilvægt markaðstæki til framtíðar. Mestu munar þó um að sýnt hefur verið fram á betri flakagæði með ofurkælingu og þannig kann aðferðin að auka gæði fiskafurða.
Nánari upplýsingar hjá Matís veitir Gunnar Þórðarson.