Lektor óskast til starfa í sameiginlega stöðu Háskólans á Hólum og Matís með starfsstöð í Verinu á Sauðárkróki.
Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum leggur áherslu á rannsóknir í fiskeldi með sérstöku tilliti til umhverfisvænna og arðbærra lausna í greininni, t.d. hvað varðar fóðurfræði, eldisumhverfi, endurnýtingu og kynbætur. Við deildina starfa 11 starfsmenn og auk þeirra á annan tug nemenda í meistara- og doktorsnámi. Matís er öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna-, þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði. Í Verinu er öflugt samfélag vísindamanna og atvinnulífs, og vettvangur nýsköpunar í nýtingu auðlinda.
Hlutverk starfsmannsins verður að efla þverfaglegar rannsóknir á sviði fiskeldis með áherslu á fræðasvið Háskólans á Hólum og Matís.
Horft er til þess að starfsmaðurinn geti mótað þverfaglegar rannsóknir í fiskeldisfræðum og skyldum greinum, sinnt kennslu og rannsóknum, leiðbeint meistara- og doktorsnemum og tekið þátt í þróun nýrra afurða tengdum fiskeldi.
Menntunar- og hæfnikröfur:
- doktorspróf í fiskeldisfræðum, kynbótum, fóðurfræði eða skyldum greinum
- reynsla af rannsóknum í fiskeldi eða skyldum greinum, kennslu, stjórnun, mótun verkefna eða þróunarstarfi
- ábyrgð, frumkvæði og hæfni í mannlegum samskiptum
- góð enskukunnátta
Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna um nýráðningar og framgang akademískra starfsmanna við Háskólann á Hólum.
Um 100% stöðu er að ræða. Launakjör eru skv. kjarasamningum opinberra starfsmanna. Um starfskjör, réttindi og skyldur gilda að öðru leyti lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Umsækjandi þarf að geta hafið störf 1. ágúst 2016. Nánari upplýsingar veita Bjarni Kristófer Kristjánsson í síma 455 6386 og Anna Kristín Daníelsdóttir í síma 858 5014.
Umsóknarfrestur er til 30. maí 2016. Umsóknir skulu berast á netfangið umsoknir@holar.is merktar „lektor-fiskeldi“. Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni afrit af prófskírteinum, ferilskrá og samantekt fræðastarfs, auk greinargerðar um áform ef til ráðningar kemur. Með umsókn skal einnig fylgja yfirlit ritverka og annars vísindalegs afraksturs sem umsækjandi vill að tekið sé tillit til við mat á hæfi, sem og nöfn tveggja umsagnaraðila.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.