Meginmarkmið verkefnisins Endurbættur kæligámur fyrir ferskfisk, sem styrkt var af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi R093-11, var að endurbæta kæligáma og verklag við flutninga á ferskum sjávarafurðum með endurhönnun og prófunum. Samstarfsaðilar í verkefninu voru Matís, Háskóli Íslands, Eimskip Ísland og Samherji.
Markmiðið er að hönnunarúrbætur skili kæligámum sem ná jafnara hitastigi gegnum flutningaferlið. Leitast var við að ná viðunandi endurbótum á hefðbundnum kæligámum með einföldum og kostnaðarlitlum aðgerðum. Ávinningur bættrar hitastýringar í vinnslu‐ og flutningaferlum eru aukin gæði, stöðugleiki og öryggi, sem auka um leið verðmæti vörunnar. Þá hafa úrbætur á kælingu og aukið geymsluþol leitt til þess að framleiðendur hafa í auknum mæli nýtt sjóflutninga við flutning á ferskum fiski.
Í lokaskýrslu verkefnisins, Improved reefer container for fresh fish (Skýrsla Matís 01-13) er helstu niðurstöðum og afurðum verkefnisins lýst. Niðurstöður verkefnisins leiddu í ljós að þörf er á endurbótum í sjóflutningskeðjum og sýnt var fram á að hægt er að ná fram úrbótum með einföldum og kostnaðarlitlum aðgerðum. Hitastýringu við sjóflutninga má bæta með því að velja rétt markhitastig og kæligáma sem hæfa best til flutninga ferskra fiskafurða. Kortlagning á hitadreifingu kæligáma sýndi fram á breytileika bæði í flutningsferlinu og með tilliti til staðsetningar innan gámsins en hönnunarúrbætur sem miðuðu að því að þvinga loftflæði innan gámsins skiluðu jafnari hitadreifingu. Einnig var sýnt fram á mikilvægi verklags við hleðslu kæligáma og meðhöndlun þeirra frá framleiðanda til kaupanda.
Mælingar á kæligámum sýndu að munur á markhitastigi kæligáma getur verið upp á 1 til 1,5°C frá raunhitastigi og einnig getur verið 1-2°C hitastigsmunur eftir staðsetningu innan gámanna. Prófanir með mismunandi hleðsluform og klæðningar á botni gámanna, með plötum eða dúk, til að þvinga kaldasta loftið lengra aftur skiluðu jafnari kælidreifingunu í gámunum. Vinna við verkefnið stóð yfir í hálft annað ár og skilaði þeirri megin niðurstöðu að hægt er að bæta kælinguna án þess að breyta grunnhönnun gámanna.
Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.