Eldi á beitarfiski (Tilapia) var til umfjöllunar í Landanum sl. sunnudag. Þar fjallaði Ragnar Jóhannsson, fagstjóri hjá Matís, um möguleika Íslendinga í greininni.
Þáttinn í heild sinni má sjá hér (eldisumræðan kemur fyrst) og samantekt um þáttinn má finna hér.
Hjá Matís er unnið hörðum höndum að framþróun í eldismálum. Mikilvægur þáttur í þessu samhengi eru rannsóknir í þágu fiskeldis sem hafa að markmiði að bæta gæði og auka hagkvæmni atvinnugreinarinnar. Við rannsóknirnar er höfð náin samvinna við fyrirtæki, háskóla og innlenda rannsóknaraðila í þeim tilgangi að byggja upp sem víðtækastan þekkingargrunn sem nýtist bæði íslenskum jafnt sem erlendum eldisfyrirtækjum.
Markmið með rannsóknum Matís og samstarfsaðila er m.a.að bæta afkomu, vöxt og gæði sjávarfiska á fyrstu stigum eldis, þróa eldri og nýja tækni til að auka hagkvæmni við framleiðslu helstu nytjategunda í eldi og leita leiða til lækkunar fóðurkostnaðar í fiskeldi án þess að það komi niður á vexti fisksins eða gæðum afurða.
Fóðurkostnaður er ríflega helmingur af rekstrarkostnaði í fiskeldi og því mikilvægt að leita leiða til þess að lækka hann án þess að það komi niður á vexti og heilbrigði fisksins. Fóðurrannsóknir stuðla jafnframt að þróun markvissari næringar sem miðast að þörfum fisksins. Þá er lögð mikil áhersla á forvarnir á fyrsta stigi eldisins en það er megin flöskuhálsinn við eldi sjávarfiska og ráða þær miklu um lífslíkur lirfanna, og þar með árangri í eldinu.
Megin áhersla hefur verið lögð á notkun nýrrar ljósatækni til frestunar/útilokunar kynþroska við áframeldi á þorski. Við uppbyggingu þorskeldis hefur verið stuðst við þekkingu sem aflast hefur við eldi annarra tegunda en ljóst er að eldistækni er mikilvægt áherslusvið við eldi á þorski.
Nánari upplýsingar veit Ragnar Jóhannsson, fagstjóri hjá Matís.