Samheitalyfjaframleiðandinn Actavis nýtir sér þjónusturannsóknir hjá Matís. Actavis er eitt af 5 stærstu samheitalyfjafyrirtækjum í heiminum og hefur samstarf Matís og Actavis gengið mjög vel.
„Allt frá því Matís varð til hefur fyrirtækið annast fyrir okkur örverurannsóknir á hráefnum og fullbúinni vöru, auk rannsókna á umhverfissýnum. Samstarfið er því fastur liður í framleiðslu Actavis og verið farsælt frá upphafi,” segir Herborg Hauksdóttir, ábyrgðarhafi í gæðatryggingardeild lyfjaframleiðslufyrirtækisins Actavis. Hún segir þjónustusamning við Matís spara fyrirtækinu kostnaðarsama uppbyggingu á eigin rannsóknaraðstöðu.
Herborg segir að uppfærslur á aðferðum við örverumælingar hafi ávallt gengið vel með liðsinni starfsfólks Matís. „Við vinnum undir kröfum lyfjayfirvalda, bæði hérlendis og á öðrum markaðssvæðum okkar, um að gera örverumælingar og völdum að nýta okkur bæði fyrsta flokks aðstöðu og starfsfólk hjá Matís í þennan verkþátt. Mælingarnar eru mjög sérhæfðar og yfir þeirri sérhæfingu býr Matís,” segir Herborg.
Auk örverumælinga á hráefnum og fullbúinni vöru hjá Actavis sér Matís um mælingar á umhverfissýnum þar sem til að mynda vatn er vaktað, sem og aðrir umhverfisþættir innan fyrirtækisins. „Við lútum mjög ströngum kröfum um lyfjaframleiðslu og því veljum við okkur líka þá bestu rannsóknarþjónustu sem við eigum völ á,” segir Herborg Hauksdóttir hjá Actavis.