Fréttir

Iðnaðarverkfræði og mjólkurvinnsla – Hvað á þetta tvennt sameiginlegt?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Miðvikudaginn 10. nóvember nk. heldur Sigríður Sigurðardóttir fyrirlestur meistaraverkefni sitt í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Verkefnið heitir Iðnaðarverkfræði og mjólkurvinnsla.  Fyrirlesturinn verður fluttur í Verinu Vísindagörðum miðvikudaginn 10. nóvember kl. 14:00.

Markmið þessa verkefnis er að kanna með hvaða hætti megi beita aðferðum iðnaðarverkfræðinnar til hagræðingar við mjólkurvinnslu. Verkefnið var unnið fyrir Mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga (MKS) og í samstarfi við Matís ohf en samstarf fyrirtækjanna tveggja hafði reynst ákaflega vel í rannsóknarverkefni um vinnslu á mjólkurpróteinum sem fæst úr mysu sem fellur til við ostaframleiðslu. Því var áhugi innan samlagsins á áframhaldandi samstarfi við Matís. Í upphafi voru margar hugmyndir um möguleg verkefni kynntar fyrir forsvarsmönnum MKS enda er ýmsum gögnum safnað við framleiðsluna og því gætu víða leynst tækifæri til hagræðingar. Hugmyndirnar voru meðal annars skoðun á lagerhaldi til hagræðingar í rekstri, skoðun á árstíðarsveiflum í mjólk með það að markmiði að auka arðsemi og nýtingu og úttekt á því hvaða tækjabúnaður og breytingar eru nauðsynlegar í framleiðsluferlinu til þess að framleiða mysuprótein úr þeirri mysu sem fellur til við ostagerðina. Lausnir á öllum þessum verkefnum má fá með aðferðum iðnaðarverkfræðinnar. En þau verkefni sem á endanum var ákveðið að ráðast í voru eftirfarandi:

  1. Athugun á vaktaskipulagi Samlagsins
  2. Hermun á ostaframleiðslunni til að staðfesta flöskuháls
  3. Gerð stýririta til þess að draga úr sveiflum í þyngd lokaafurðar

Fyrirlesturinn verður fluttur í Verinu Vísindagörðum, á Sauðárkróki, og er öllum heimill aðgangur. Verkefnið vann Sigríður fyrir mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga innan Líftæknismiðju Matís í Verinu vísindagörðum á Sauðárkróki sumarið 2008.

Leiðbeinendur Sigríðar voru þeir Páll Jensson PhD, prófessor í iðnaðarverkfræði við HÍ og Sveinn Margeirsson PhD, sviðsstjóri hjá Matís.

Fulltrúi deildar er Gunnar Stefánsson, dósent í iðnaðarverkfræði við HÍ.