Fréttir

Heilsubætandi áhrif lífvirkra fiskpróteina

Rf hefur, ásamt ýmsum samstarfsaðilum, unnið að fjölda verkefna um aukið verðmæti sjávarfangs á undanförnum árum. Þar á meðal eru nokkur verkefni um aukna nýtingu á próteinum úr aukafurðum og uppsjávarfiskum til manneldis, bæði með því að þróa nýja vinnsluferla, nýjar vörur og með því að kanna markaði fyrir heilsufæði og markfæði.

Eitt þeirra er Propephealth innan SEAFOODplus Evrópuverkefnisins sem stjórnað er af Rf. Markmið þess eru :

  • Að skima eftir, kortleggja og vinna ný heilsubætandi efni úr aukafurðum sjávarfangs eða uppsjávarfiskum með háþróuðum og mildum vinnsluaðferðum
  • Að þróa ný lífvirk íblöndunarefni úr sjávarfangi
  • Að nota þessi efni til að þróa  nýtt markfæði

Í væntanlegu hefti af vísindatímaritinu Process Biochemistry eru birtar fyrstu niðurstöður á rannsókn á áhrifum vatsrofinna fiskpróteina á vöxt brjóstakrabbameinsfruma.   Vatnsrofin prótein, unnin úr þorski, kola, kolmunna og laxi, drógu verulega úr vexti þeirra.

Þessar niðurstöður eru vísbending um hvernig hægt er að þróa þessi fiskprótein áfram til notkunar í heilsufæði og sem fæðubótarefni.  Enn er langt land.  Vísindaleg þekking liggur enn ekki fyrir um hvort í framtíðinni verði hægt að fullyrða um heilsusamleg áhrif þessara próteina á neytendum.  Þessi rannsókn er eingöngu fyrsta skrefið á langri leið.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson: 860 4748/ gudjont@rf.is

IS