Fréttir

Fyrsti fundur í verkefninu Welfare of Fish in European Aquaculture

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Eins og sagt var frá hér á vefnum í nóvember, tekur Rf þátt í stóru Evrópuverkefni um velferð fiska í fiskeldi. Nýlega var fyrsti fundur stýrihópsins sem fulltrúi Rf situr í haldinn í Brussel og hér má lesa ágrip af því sem þar var rætt.

COST 867- verkefnið “Welfare of Fish in European Aquaculture” fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um velferð fiska í eldi. Á undanförnum árum hefur víða verið lögð aukin áhersla á velferð dýra, bæði húsdýra og annarra, og koma þar m.a. til siðfræðileg sjónarmið ábyrgra neytenda sem er annt um hirðu og líðan húsdýra, hertar kröfur í reglugerðum um aðbúnað húsdýra og reglur um lífrænt eldi.

Velferð er flókið hugtak og ekki er til nein einhlít skilgreining á velferð eldisfiska, enda hefur þetta lítið verið rannsakað og ekki eru til líffræðilegir mælikvarðar á velferð eldisfiska. Deilt er um hvort fiskar geti fundið til, en enga að síður hefur þessi umræða skotið upp kollinum í tengslum við fiskeldi og ekki síður fiskveiðar. Það er því mikilvægt að tekið sé af skynsemi á þessu máli og að iðnaðurinn hafi frumkvæði að því að hrinda umræðunni af stað. Þó að menn greini á um hvernig beri að skilgreina velferð, þá ættu flestir að geta verið sammála um að forðast beri árekstra á milli velferðarsjónarmiða og hagkvæms rekstar eldisfyrirtækja. Það er beint samband milli velferðar, trausts neytenda og gæða í framleiðslu.

Markmið verkefnisins er að ná saman fulltrúum þeirra sem tengjast velferð fiska á einhvern hátt. Þátttakendur eru fiskeldismenn, fulltrúar stjórnsýslu og fulltrúar rannsóknastofnana. Gert er ráð fyrir því að unnið verði að því að móta leiðbeiningar og starfsreglur um velferð eldisfiska og að skilgreina mælikvarða á velferð eldisfisks. Einnig verður unnið að viðamiklu riti þar sem teknar verða saman upplýsingar um velferð fiska, sem nýtast munu m.a. í allri stefnumótun á þessu sviði. Auk þess að fjalla um velferð eldisfisks verður líka tekið á velferð fiska sem tilraunadýra, skrautfiska og og í tengslum við fiskveiðar. Það er því mikilvægt fyrir Íslendinga að eiga fulltrúa í þessum hópi.

Verkefninu er skipt í þrjá vinnuhópa (working groups). Þeir eru:

  1. Líffræði fiska sem skipta máli varðandi velferð.
  2. Mælanleg velferð í fiskeldi.
  3. Velferð fiska og stjórnun.

Íslenskir þátttakendur í verkefninu og sem sitja í stýrihóp verkefnisins eru fyrir hönd Rf dr. Þorleifur Ágústsson (mynd t.h.) og dr. Helgi Thorarensen frá Hólaskóla.

Þess má geta að í undirbúningi er gerð sérstakrar vefsíðu verkefnisins og verður hún unnin af Háskólasetri Vestfjarða, í samstarfi við Rf og háskólann í Stirling í Skotlandi.

Vefsíða COST