Skýrslur

Verðmætaaukning hliðarafurða frá garðyrkju / Valorisation of side streams

Útgefið:

29/12/2023

Höfundar:

Eva Margrét Jónudóttir, Matís; Ólafur Reykdal, Matís; Helga Gunnlaugsdóttir, Orkídea; Sophie Jensen, Matís; Léhna Labat, Matís; Þóra Valsdóttir, Matís; Guðrún Birna Brynjarsdóttir, Bændasamtök Íslands; Valur Klemensson, Bændasamtök Íslands og Rósa Jónsdóttir, Matís

Styrkt af:

Matvælasjóður / Icelandic Food Innovation fund

Tengiliður

Eva Margrét Jónudóttir

Verkefnastjóri

evamargret@matis.is

Meginmarkmið verkefnisins „Verðmætaaukning hliðarafurða frá garðyrkju“ var að leita leiða til að nýta hliðarafurðir úr garðyrkjuframleiðslu til aukinnar verðmætasköpunar og jafnframt minnka sóun í grænmetisframleiðslu. Mismunandi hliðarafurðir voru skoðaðar, m.a. það sem fellur til við afblöðun tómat- og gúrkuplantna, blöð af útiræktuðu grænmeti eins og blómkáli og spergilkáli, auk blaða og stilka úr rósarækt. Einnig var skoðaður grundvöllur fyrir bættri nýtingu á annars flokks vörum og umframmagni af kartöflum og gulrófum með lífmassavinnslu og vöruþróun. Skoðað var hvort neysla á hliðarafurðum væri örugg með viðeigandi hættugreiningu og efnamælingum ásamt því að helstu upplýsingar um hugsanleg neikvæð heilsufarsleg áhrif voru teknar saman.

Upplýsingar um efnainnihald mismunandi hliðarafurða eru nú aðgengilegar. Töluverður fjöldi sýna náði mörkum fyrir nokkur bætiefni, þ.e. 15% af næringarviðmiðunargildi (NV), og þar með er möguleiki á merkingu viðkomandi bætiefnis á umbúðum hliðarafurða séu þau seld beint sem matvæli. Lífmassavinnsla á annars flokks kartöflum og rófum var prófuð og heildarmagn fjölfenóla ásamt andoxunarvirkni rannsakað. Heildarmagn fjölfenóla og andoxunarvirkni var rannsakað í laufum og greinum af blómkáli, spergilkáli, tómötum, gúrkum og rósum. Heildarmagn fjölfenóla var hátt í extröktum af rósablöðum og greinum sem og andoxunarvirkni og „anti-aging“ virkni. Í framhaldinu var ákveðið að prófa notkun þess sem innihaldsefni í húðvörur. Vinnslueiginleikar gulrófna voru skoðaðir með tilliti til geymsluþols og skynrænna þátta. Þróaðar voru tvær mismunandi uppskriftir af kryddblöndum sem innihéldu báðar hliðarafurðir úr blómkáls- og spergilkálsrækt. Afurðir frá lífmassavinnslu eins og sterkja og trefjar voru prófaðar í uppskriftir kryddblöndunnar með þokkalegum árangri. Ýmsir annmarkar geta verið við notkun hliðarafurða garðyrkju í matvæli og þarf að huga að ýmsu. Helstu hættur sem tengjast neyslu grænmetis og hliðarafurðum þeirra má flokka í örverumengun, óæskileg efni og aðskotahluti.

Skoða skýrslu
IS