Fréttir

Verandi í matarsmiðju Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í matarsmiðju Matís er eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreytt úrval matreiðslutækja svo hægt sé að stunda margvíslega matvælavinnslu. Verandi er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur nýtt sér matarsmiðju Matís.

Verandi er íslenskt framleiðslufyrirtæki sem framleiðir hágæða hár- og líkamsvörur úr hliðarafurðum frá íslenskum matvælaiðnaði, landbúnaði og ýmsum náttúrulegum og umhverfisvænum efnum. Hér má sjá starfsfólk Veranda að störfum í matarsmiðju Matís við að útbúa gúrkumaska og serum úr gúrkum frá Laugalandi.

Rakel Garðarsdóttir og skólasystir hennar úr lögfræði, Elva Björk Bjarkardóttir, stofnuðu snyrtivörufyrirtækið árið 2017. Hugmyndin kviknaði út frá Vakandi, samtökum sem Rakel stofnaði til að efla vitundarvakningu um ýmsa sóun og þá helst matarsóun. Megin uppistaðan í vörunum eru hliðarafurðir úr landbúnaði eða hráefni sem fellur til við aðra framleiðslu og er alla jafna hent. Með þessari leið er ekki verið að ganga á sama hátt á auðlindir jarðar til þess að búa til vörur, sem eru langt frá því að vera ótakmarkaðar, heldur er stuðst við hringrásarhagkerfið.

Verandi notar hráefni í vörurnar sem að öðrum kosti væri sóað og þarf því ekki að láta framleiða hráefni fyrir sig sérstaklega, nema aðeins fyrir hluta innihaldsefna. Með þessu vilja þau taka þátt í baráttunni við sóun með betri nýtingu auðlinda.

Hefur þú áhuga á að kynna þér matarsmiðju Matís nánar? Allar nánari upplýsingar finnur þú hér:

IS