Fréttir

Matvælaöryggi á Íslandi

Í gær var alþjóðadegi matvælaöryggis fagnað í annað sinn. Matís er leiðandi í efna- og örverurannsóknum á matvælum á Íslandi. Styrkur fyrirtækisins liggur í breiðum grunni getu, þekkingar og innviða ásamt tengslum við iðnaðinn og landsbyggðina. 

Rannsóknir Matís hafa verið yfirgripsmiklar þar sem nýjustu og bestu tækni sem völ er á hverju sinni hefur verið beitt í mismunandi og fjölbreyttum verkefnum. Til dæmis hefur áhersla verið lögð á rannsóknir á óæskilegum örverum í matvælum og vinnsluumhverfi og greiningaraðferðir þróaðar. Aukinn skilningur á eðli, uppruna og smitleiðum sjúkdómsvaldandi örvera er mikilvægur til að tryggja öryggi matvæla og koma í veg fyrir faraldra og efla öryggi neytenda. Miðlun þekkingar til almennings og vísindasamfélagsins með útgáfu kynningarefnis og skrifum í tímarit er mikilvægur liður í þeirri vinnu.

Það er grundvallaratriði fyrir íslenska neytendur að geta treyst því að þau matvæli sem seld eru hér á landi ógni ekki heilsu almennings. Það er mikilvægt að geta brugðist hratt við þegar matvælaöryggi er ógnað. Vegna legu landsins þarf að tryggja að nauðsynleg rannsókna- og öryggisþjónusta sé ávallt til staðar. Þetta á sérstaklega við um örverugreiningar þar sem ekki er hægt að greina sjúkdómsvaldandi örverur nema í takmarkaðan tíma. Ef um er að ræða alþjóðlega ógn sem herjar á samtímis í mörgum löndum, þá er ekki hægt að tryggja að erlendar rannsóknastofur setji íslensk sýni í forgang.

Með því að innleiða evrópsku matvælalöggjöfina hefur Ísland skuldbundið sig til að afnema bann á innflutningi á ferskum afurðum. Til að gæta öryggis neytenda er nauðsynlegt að þekkja gæði matvæla á markaði, bæði þau sem framleidd eru innanlands sem og þau sem flutt eru til landsins, meðal annars með tilliti til sjúkdómsvaldandi örvera.

Matvælaöryggi hefur fengið aukið vægi í fjölmiðlaumræðu um allan heim á undanförnum árum. En töluvert er um misvísandi upplýsingar þegar fjallað er um öryggi matvæla, t.d. sjávarafurða, eins og villtan fisk en líka landbúnaðarafurða, s.s. mjólk og egg. Neikvæð umfjöllun um íslensk matvæli getur á stuttum tíma eyðilagt jákvæða ímynd sem tekið hefur áratugi að byggja upp og bitnað harkalega á útflutningstekjum Íslendinga og dregið úr framleiðslu og sölu á innanlandsmarkaði. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að stjórnvöld geti strax brugðist við með því að hafa tiltæk vönduð og vel skilgreind vísindaleg gögn um óæskileg efni og örverur í íslenskum matvælum til að sýna fram á öryggi og heilnæmi. Útflutningur sjávarafurða og annarra matvæla er auðvitað einnig háður því að unnt sé að sýna fram á heilnæmi með hliðsjón af lögum, reglugerðum og kröfum kaupenda.

Haldgóð gögn eru nauðsynleg á hverjum tíma og því þarf stöðuga vöktun á ástandi íslenskra matvæla og samanburð við sambærileg erlend matvæli sem seld eru hérlendis. Íslenskt sjávarfang hefur t.d. lengi verið markaðssett með áherslu á hreinleika og heilnæmi þess. Fullyrðingar um það duga hins vegar skammt, nauðsynlegt er að styðja þær með áreiðanlegum gögnum frá óháðum aðila. Slík gögn geta liðkað til fyrir markaðssetningu og sölu íslenskra afurða á krefjandi erlendum mörkuðum þar sem kröfur um gæði og öryggi endurspeglast í afurðaverðinu.

Fréttir

Matís ohf. leitar að háskólanemum í ýmis sumarstörf

Nánari lýsing á verkefnum má finna á heimasíðu VMST

Matís leitar eftir háskólanemum í eftirfarandi störf á vefsíðu VMST:

  • Vinna a rannsóknarstofu í líftækni
  • Vinna við rannsóknir á sjávarafurðum
  • Vinna á rannsóknarstofu í efna- og örverumælingum
  • Vinna á rannsóknarstofu í efnamælingum
  • Vinna við rannsóknir í hringrásarhagkerfi
  • Vinna við rannsóknir í efnamælingum
  • Vinna á rannsóknarstofu
  • Matur í ferðamennsku
  • Vinna á rannsóknarstofu og í fiskþurrkun
  • Vinna við fiskeldisrannsóknir
  • Vinna á rannsóknarstofu í örverufræði
  • Rannsóknir í erfðafræði
  • Aðstoðarmaður í rannsóknarverkefni á sviði vinnslutækni
  • Miðlun frétta og uppsetning vefsíðu

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Umsækjandi þarf að vera á milli anna í námi
  • Menntun nánar tiltekin í hverri umsókn fyrir sig
  • Færni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku

Umsóknarfrestur er til og með 7. júní n.k.

Frekari upplýsingar veitir ábyrgðaraðili fyrir hverri umsókn.

Sækja um starf á ráðningarsíðu VMST

Fréttir

Afrakstursskýrsla Matís komin út

Matís hefur skilað skýrslu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem lýsir afrakstri þeirrar starfsemi sem fellur undir þjónustusamning við ráðuneytið 2019.

Skýrsluna má nálgast hér.

Fréttir

Matvælaframleiðsla á tímum COVID-19 faraldursins – ný tækifæri?

COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft margvísleg áhrif á framleiðslu, sölu, dreifingu og neyslu matvæla. Undir merkjum EIT Food og í samstarfi við Matís bjóðast nú styrkir í verkefni til að bregðast við áhrifum faraldursins á matvælaframleiðslu og neysluhegðun neytenda.

Verkefnin verða að skila árangri í formi markaðshæfra afurða eða þjónustu á þessu ári eða snemma á næsta ári og tengjast nýjum birgðakeðjum innan matvælageirans, breyttri neytendahegðun, auknu matvælaöryggi eða bættri næringu.

Matís er að leita að íslenskum fyrirtækjum sem gætu nýtt sér þetta tækifæri og hafa framúrskarandi hugmynd(ir) að markaðshæfum afurðum eða þjónustu til að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins. Hefur þú áhuga eða ertu með hugmynd að slíkum vörum eða þjónustu?

Ef svo er hafðu þá samband við Guðmund Stefánsson (gst@matis.is) eða Sæmund Sveinsson (saemundurs@matis.is) til að fá frekari upplýsingar fyrir miðvikudaginn 20. maí.

Fréttir

Vegna greinar Félags atvinnurekenda um hækkaðan eftirlitskostnað á matvælafyrirtæki

Matís er opinbert fyrirtæki og rekur opinbera rannsóknarstofu, m.a. í varnarefnamælingum, sem þjónustar meðal annars eftirlitsaðila, þ.e. Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitafélaganna, sem taka sýni hjá matvælafyrirtækjum fyrir opinbert eftirlit. 

Matís er með takmarkað framlag frá ríkinu ásamt því að vera á samkeppnismarkaði, því er Matís óheimilt að greiða niður mæliþjónustu með opinberu fé. Félag atvinnurekenda (FA) birtir bréf á heimasíðu sinni þann 28. apríl síðastliðinn þar sem FA mótmælir gjaldskráhækkunum fyrir eftirlitsheimsóknir Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlita til matvælafyrirtækja. Í svari sínu til FA bendir Matvælastofnun á að gjaldskrá Matís hafi hækkað ásamt því að afslættir til opinberra aðila hafi verið felldir niður. Réttara er að segja að afsláttarkjör hafa verið samræmd milli allra viðskiptavina Matís og opinberir aðilar fá sömu kjör og fyrirtæki og einstaklingar á almennum markaði.

FA tekur mælingar varnarefna sem dæmi um verðhækkun og bendir á að einingarverð fyrir greiningar varnarefna hafi hækkað úr 81.760 krónum árið 2016 í 105.578 krónur fyrr á þessu ári eða um 29,1% á þessum fjórum árum. Verðskrá Matís hefur hækkað árlega í takt við hækkanir á aðföngum og launavísitölum. Síðasta verðskrárhækkun og samræming á kjörum var kynnt Matvælastofnun og öðrum opinberum eftirlitsaðilum í janúar 2020, en Matís hefur ávallt reynt að halda verðskráhækkunum í lágmarki til að gæta að þess að ekki sé verið að auka álögur á íslensk fyrirtæki. Það má hins vegar benda á að þessi hækkun sem FA tekur sem dæmi, er lægri en því sem nemur hækkun launavísitölu opinberra aðila á þessum fjórum árum. Allt frá árinu 2014 hefur Matís unnið ötullega að því að bæta við fjölda varnarefna sem skimað er fyrir til þess að gera Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlitum sveitafélaganna kleift að uppfylla skyldur sínar og framfylgja löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd. Fjöldi varnarefna sem skimað er fyrir í hverju sýni er í dag töluvert meiri en árið 2016. Matís skimar fyrir 201 varnarefni í ávöxtum, grænmeti og korni, þar af 192 efni faggild, m.v. 135 varnarefni árið 2016, þar af 96 faggild.

Varðandi breytinga á afsláttum til opinberra aðila, þá bendir Matís á að þetta séu aðgerðir sem Matís hefur verið að vinna að síðan 2016, þ.e. að jafna afsláttakjör til allra sinna viðskiptavina. Í dag eru allir afslættir til viðskiptavina veltutengdir.

Fréttir

Brýnt að efla styrkja- og rann­sókn­ar­um­hverfið

„Fáir hafa lagt meira af mörk­um til rann­sókna og ný­sköp­un­ar í sjáv­ar­út­vegi en Sig­ur­jón Ara­son, yf­ir­verk­fræðing­ur Matís og pró­fess­or við Há­skóla Íslands,“ segir greinarhöfundur Morgunblaðsins í viðtali við Sigurjón í tilefni af sjötugsafmæli hans síðustu helgi.

„Styrk­leiki grein­ar­inn­ar bygg­ist á nokkr­um þátt­um, s.s. þeirri þekk­ing­ar­upp­bygg­ingu sem hef­ur átt sér stað, hve mikið er af vel menntuðu fólki í sjáv­ar­út­veg­in­um, og hvað fyr­ir­tæk­in og vís­inda­sam­fé­lagið hafa verið dug­leg að vinna sam­an. Það viðhorf er ríkj­andi inn­an grein­ar­inn­ar að það sé sam­eig­in­legt mark­mið okk­ar allra, fyr­ir hönd ís­lensks sjáv­ar­út­vegs, að slá öll­um keppi­naut­um við,“ segir Sigurjón meðal annars í greininni.

Viðtalið við Sigurjón má lesa í heild sinni hér.

Fréttir

Umræðuhópar fyrir rannsóknarverkefni Matís

Við hjá Matís leitum eftir fólki til að taka þátt í umræðuhópum fyrir rannsóknarverkefni sem stýrt er af sérfræðingum Matís. Umræðurnar snúast um mataræði, matvörur, og innihaldsefni matvara, og eru hluti af nýju rannsóknarverkefni sem er styrkt af Evrópusambandinu og byggir á samstarfi aðila frá nokkrum löndum.

Tilgangur rannsóknarinnar er að fá upplýsingar um mataræði neytenda og innsýn í viðhorf þeirra til ýmissa gerða matvara og innihaldsefna þeirra. Þátttaka í rannsókninni felst í að ræða viðfangsefnið í 4-6 manna hópi neytenda og verður umræðunum stýrt af starfsmanni Matís. Í umræðuhópunum verða þátttakendur spurðir út í mataræði sitt og viðhorf til matvara og innihaldsefna af ýmsum gerðum.

Umræðurnar verða haldnar í gegn um Teams fjarfundarbúnaðinn. Þátttakendur þurfa því að hafa tölvu eða síma til ráðstöfunar. Einnig þurfa þátttakendur að hafa rafræn skilríki. Aðstoð verður veitt við tæknileg vandamál í gegn um netið ef á þarf að halda. Gert er ráð fyrir að umræðurnar taki að hámarki tvo tíma. Þátttakendur fá senda 5.000 Kr. þóknun eftir umræðurnar.

Umræðurnar verða teknar upp, bæði hljóð og mynd, og unnið verður úr niðurstöðum samkvæmt aðferðafræði fyrir eigindlegar rannsóknir. Nöfn þátttakenda, eða aðrar persónuupplýsingar, munu hvergi koma fram í túlkun niðurstaða, skýrslum, greinum eða öðru efni þar sem fjallað verður um rannsóknina. Vinnsla gagna verður í samræmi við persónuverndarlög.

Samsetning einstaklinga í rýnihópunum fer eftir ýmsum fyrirfram ákveðnum bakgrunnsþáttum og neysluhegðun. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í umræðuhópunum mátt þú smella á tengilinn hér að neðan sem vísar þér í stutta könnun þar sem spurt er út í þá þætti sem ráða vali á þátttakendum. Ef þú uppfyllir skilyrði fyrir þátttöku verður þú beðin(n) að gefa upp nafn, símanúmer og tölvupóstfang í lok könnunarinnar. Þá verður fljótlega haft samband við þig um hvort þér býðst að taka þátt, og þá skipulag og tímasetningu umræðuhópanna.

https://www.surveymonkey.com/r/F3PTT78

Fréttir

Snjall-merkingar á matvörum upplýsa neytendur

Á dögunum hófst nýtt EIT food verkefni undir nafninu „Smart Tags“. Markmið verkefnisins er að auka traust neytenda á matvælum og matvælakerfum með því að deila upplýsingum um virðiskeðjuna í gegnum allan lífsferil vörunnar. Verkefnið miðar að því að deila gagnvirkum upplýsingum með neytendum og birgjum með notkun svokallaðra snjall-merkinga eða snjall-merkja (Smart Tags). Tæknin býður upp á fjölmarga möguleika á sviði upplýsingagjafar, ásamt þróun á vöru og þjónustu. Með tilkomu tækninnar fær matvælaiðnaðurinn einnig öflugt tæki til að öðlast innsýn í þarfir neytenda og auðveldar því nýsköpun miðaða að þörfum neytenda. 

Matvælavirðiskeðjur á alþjóðavettvangi eru oft langar og flóknar. Það veldur því að neytendur eiga erfitt með að treysta þeim upplýsingunum sem veittar eru af birgjum. Rannsóknir hafa sýnt að þær upplýsingar sem eru á matvælum í dag eru ófullnægjandi að mati neytenda. Dæmi um upplýsingar sem neytendur hafa áhuga á eru m.a.; innihaldsefni, uppruni, sjálfbærni vöru, „fair trade“, flutningsleiðir og flutningsmáti, endingartími og endurvinnslumöguleikar. Upplýsingar um næringargildi geta oft verið torskiljanlegar, auk þess sem vörur eru oft skreyttar með merkingarlausum eða órökstuddum merkingum líkt og „sjálfbært“, „náttúrulegt“ og „heilsusamlegt“.

Snjall-merkingar geta verið á margvíslegu formi. Þær geta verið á formi einfaldra strikamerkinga sem hægt er að lesa með snjallsíma, einnig geta þær notast við virkt breytiblek sem geta gefið viðeigandi rauntíma-upplýsingar. Snjall-merki gefa einnig neytendum tækifæri á því að veita aðhald með beinum samskiptum við framleiðendur, birgja eða aðra hagsmunaaðila. Hugtakið snjall-merki er notað yfir merkingar sem geta mælt umhverfisbreytur með t.d. breytibleki, vísum eða nemum með notkun hugbúnaðarlausna. Strikamerki prentuð með virku breytibleki breytast sjálfvirkt í samræmi við umhverfisbreytur, til dæmis við hita- eða rakabreytingar. Við þessar aðstæður birtast, hverfa eða breyta um lit hlutar strikamerkisins og geta því gefið uppfærðar upplýsingar til neytandans.

Smart Tags verkefninu er stýrt af VTT í Finnlandi, en aðrir þátttakendur eru Matís, Háskólinn í Reading á Bretlandi, Háskólinn í Varsjá í Póllandi, KU Leuven í Belgíu, AZTI á Spáni, DouxMatok í Ísrael og Maspex í Póllandi. Verkefnið er stutt af EIT Food sem heyrir undir Evrópusambandið.

Þær nýstárlegu lausnir sem þróaðar verða í verkefninu verða skapaðar í náinni samvinnu við neytendur og aðra hagsmunaaðila í öllum þáttökulöndum verkefnisins. Verkefnið mun standa yfir út árið 2021 og hægt verður að fylgjast með framvindu þess á vefsíðu verkefnisins og Twitter reikningi þess.

Fréttir

Hver eru áhrif geymslu í frosti á gæði karfaafurða?

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Nýlega lauk AVS verkefninu „Hámörkun gæða frosinna karfaafurða“ sem var samstarfsverkefni HB Granda/Brim, Matís og Háskóla Íslands. Í verkefninu voru könnuð áhrif frystigeymslu á gæði kafraafurða, sem og hver áhrif aldurs hráefnis og árstíða hefur á gæðin.

Markmið verkefnisins var tvíþætt. Í fyrsta lagi að rannsaka áhrif tíma og hitastigs við geymslu í frosti, á myndun niðurbrotsefna í karfa. Það var gert með því að bera saman áhrif hitastigsbreytinga og meðhöndlunar í frostgeymslu við flutninga og áhrif á eðlis- og efnaeiginleika ásamt stöðugleika fitu í karfa. Í öðru lagi, að rannsaka áhrif aldurs hráefnis á gæði og stöðugleika í geymslu þ.s. kannaður var munurinn á karfaafurðum sem unnar voru fjórum- og níu dögum frá veiðum; sem og hvort munur væri á því á hvaða árstíma karfinn var veiddur.

Niðurstöður verkefnisins leiddu í ljós að geymsluhitastig og tími hafa áhrif á eðlis- og efnaeiginleika karfa, þ.e. á fríar fitusýrur, TBARS og TVB-N. Árstíðamunur hafði einnig áhrif á næringargildi og stöðugleika karfa. Ljósi vöðvinn í karfa sem var veiddur í nóvember innihélt hærra magn af EPA og DHA, en karfi veiddur í júní. Karfi veiddur í nóvember var ekki eins stöðugur í frostgeymslu, þar sem hann innihélt hærra hlutfall af ómettuðum fitusýrum. Ljósi vöðvinn innihélt hærra næringargildi en dökki vöðvinn, sem leiðir til betri uppsprettu næringar fyrir neyslu almennings. Dökki vöðvinn var hins vegar viðkvæmur fyrir oxun fitu, sem gæti haft neikvæð áhrif fyrir ljósa vöðvann. Þá er jafnvel þörf að aðskilja dökka og ljósa vöðvann.

Lokaskýrslu verkefnisins má nálgast hér.

Frekari upplýsingar veitir Sigurjón Arason.

Fréttir

Matís skoðar möguleg áhrif loftslagsbreytinga á fiskeldi og sjávarútveg í ClimeFish verkefninu

Enn eitt rannsóknarverkefni Matís rann sitt skeið nú á dögunum þegar ClimeFish verkefnið kláraðist eftir fjögurra ára farsælt samstarf yfir 20 þátttakenda. Þetta umfangsmikla rannsóknarverkefni var unnið undir regnhlíf rannsókna- og nýsköpunaráætlunar Evrópu og var ætlað að skoða áhrif loftslagsbreytinga á fiskeldi og sjávarútveg í Evrópu og meta um leið aðlögunarhæfni, aðgerðir og skipulag aðlögunarvinnu.

Á annan tug mismunandi eldis- og fiskveiðisvæða (tilviksrannsóknir) víðsvegar í Evrópu voru tekin fyrir í verkefninu, þar sem líkön voru notuð til þess að spá fyrir um líkleg áhrif loftslagsbreytinga á framleiðslu og afköst til ársins 2050. Greining áhættuþátta og áhættumat var framkvæmt fyrir hluta svæðanna, þar sem hagrænir og félagslegir þættir voru teknir með í reikninginn. Að endingu voru aðlögunaráætlanir settar upp, byggðar á niðurstöðum spálíkana og áhættumatsins, með notkun sérstakrar aðferðafræði sem þróuð var innan verkefnisins.

Rannsóknarniðurstöður kynntar í skugga kórónuveirufaraldurs á Ítalíu

ClimeFish verkefninu lauk með glæsilegri lokaráðstefnu sem haldin var í húsakynnum Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu Þjóðanna (FAO) í Róm á Ítalíu í lok febrúar, en FAO var einmitt í hópi þátttakenda verkefnisins. Þrátt fyrir að vera haldin í skugga upphafs kórónuveirufaraldursins á Ítalíu var ráðstefnan vel sótt, en þar voru helstu niðurstöður verkefnisins kynntar af rannsakendum verkefnisins. Matís hafði yfirumsjón yfir þeim hluta verkefnisins er sneri að þróun aðferðafræði við uppsetningu aðlögunaráætlana fyrir fiskeldi og sjávarútveg, en það voru þau Jónas R. Viðarsson og Ragnhildur Friðriksdóttir sem kynntu niðurstöður á öðrum degi ráðstefnunnar.

ClimeFish hópurinn í Róm.

Niðurstöður frá sjö tilviksrannsóknum voru kynntar á ráðstefnunni, þar af voru fisk- og kræklingaeldi í sjó í Grikklandi og Spáni, tjarneldi í Ungverjalandi, fiskveiðar í Gardavatni á Ítalíu, uppsjávarveiðar í Norðaustur Atlantshafi og botnfiskveiðar vestur af Skotlandi. Áhrif loftslagsbreytinga á ýmsa þætti framleiðslunnar samkvæmt líkanaútreikningum voru kynntar, má þar nefna áhrif á vaxtarhraða eldistegunda, útbreiðslu og farmynstur nytjastofna, fiskveiðidauða, fæðuframboð og líkur á ofauðgun næringarefna og þörungablómum. Þar kom m.a. fram að líkön benda til smávægilegrar aukningar í lífmassa hrygningarstofns makríls til ársins 2050 í Norðaustur Atlantshafi, en 8-15% samdráttar hjá norsk-íslenskri votgotssíld á sama tímabili. Auk þess sýndu líkön fram á smávægilega tilfærslu í útbreiðslu uppsjávarstofna til suðvesturs, en líklegt þykir að slík breyting komi til með að auka enn frekar það flækjustig sem upp er komið í samningaviðræðum strandríkja um skiptingu deilistofna.

Áhættur og tækifæri vegna loftslagsbreytinga

Helstu niðurstöður áhættumats voru einnig kynntar, en áhættumatið tók líka tillit til jákvæðra áhrifa loftslagsbreytinga á umrædda geira, en í mörgum tilfellum sýndu líkön fram á jákvæð áhrif hitastigsaukningar á framleiðslugetu, m.a. vegna aukins vaxtarhraða eldistegunda eða stækkandi hrygningarstofns. Auk þess að kynna niðurstöður áhættumats hvers svæðis voru ýmiskonar áhættur vegna loftslagsbreytinga sem reyndust sameiginleg í hverjum geira fyrir sig. Þar má nefna að algeng áhætta vegna loftslagsbreytinga fyrir fiskveiðar í sjó voru breytingar í aflasamsetningu, ýmist vegna tilfærslu í útbreiðslusvæði eða breytinga í stofnstærð. Aðrar áhættur sem reyndust algengar innan fiskveiða í sjó voru meðal annars breytingar í vaxtarhraða og nýliðun, aukinnar fjarlægðar á veiðisvæði og skemmda á veiðarfærum og öðrum inniviðum vegna aukins ágangs veðurs. Síðast en ekki síst var aukið flækjustig í kvótaúthlutun talið líkleg afleiðing loftslagsbreytinga á fiskveiðar. Algeng áhrif loftslagsbreytinga í veiðum og eldi í ferskvatni voru t.a.m. breytingar í fæðuframboði, nýliðun og afföllum, aukning í skaðlegum þörungablómum, sjúkdómum og ágengum tegundum, aðgengi að fersku vatni og ekki síst aukning í framleiðslukostnaði vegna fyrrgreindra áhrifa. Í fiskeldi í sjó voru helstu áhætturnar breytingar í vaxtarhraða, aukinn breytileiki í stærð, tilfærsla í vaxtartímabilum, aukin afföll og breyttar eldisaðstæður sem geta leitt til aukinnar tíðni sjúkdóma og sníkjudýra, og ekki síst, aukins framleiðslukostnaðar. Einnig geta svæði sem nú teljast kjörsvæði fyrir eldi breyst til hins verra með þeim afleiðingum að eldissvæði breytast með tilheyrandi auknu flækjustigi vegna úthlutunar veiði- og eldissvæða.

Veggspjöld sem sýna helstu niðurstöður tilviksrannsókna ClimeFish verkefnisins.

Ýmsar aðlögunaraðgerðir voru kynntar á ráðstefnunni sem hluti að aðlögunaráætlunum vegna loftslagsbreytinga sem þróaðar voru fyrir hvert svæði fyrir sig. Þessar aðlögunaráætlanir voru settar saman samkvæmt aðferðafræði sem þróuð var innan verkefnisins, en hún tók tillit til niðurstaðna spálíkana um líkleg áhrif vegna loftslagsbreytinga og þeirra áhættuþátta sem líklegir voru til að hafa mest áhrif. Algengar aðlögunaraðgerðir innan fiskveiða í sjó voru m.a. endurskoðun á kvótaskiptingafyrirkomulagi, þróun á þrautseigari veiðarfærum með aukna kjörhæfni og öflugri innviðum, breyttar áherslur í markaðsstarfi og aðgerðir í átt að auknu öryggi og eftirliti með innviðum. Í fiskeldi í sjó og ferskvatni má helst nefna aðgerðir eins og aukið eftirlit með ýmsum framleiðsluþáttum (s.s. súrefni, hitastigi, afföll og afföll), aukin áhersla á kynbætur, þróun á þrautseigari innviðum, þróun á sjálfvirkum fóðrunar- og þrifabúnaði og bætt haf- og strandsvæðaskipulag.

Matís hyggst nýta niðurstöðurnar til áframhaldandi vinnu hérlendis

Allar kynningar frá ráðstefnunni í Róm má finna á heimasíðu verkefnisins, www.ClimeFish.eu. Þar má líka finna tengil á vefsvæði þar sem allar helstu niðurstöður hafa verið dregnar saman fyrir hvert fiskveiði- og eldissvæði fyrir sig, með kortum og gagnvirkum upplýsingum. Matís stefnir nú á frekari vinnu á þessu sviði og hyggst nýta sér þá aðferðafræði sem þróuð var innan ClimeFish verkefnisins til að skoða áhrif loftslagsbreytinga á íslenskan sjávarútveg og fiskeldi, meta aðlögunarþörf og mögulegar aðlögunaraðgerðir, en lítil vinna hefur farið fram á þessu sviði hér á landi. Vonast er til að sú mikilvæga reynsla sem varð til innan ClimeFish verkefnisins við að meta aðlögunarþörf og æskilegar aðlögunaraðgerðir innan fiskveiða og eldis víðsvegar í Evrópu geti nýst til að skoða sambærilega þætti hérlendis.

Í umræðuskýrslu Loftslagsráðs Íslands frá því í janúar sl. kemur m.a. fram að þörf sé á fræðslu fyrir almenning og hagaðila um hvað raunverulega felist í aðlögun að loftslagsbreytingum og hver birtingarmynd slíkrar vinnu sé. Slíkt þarf því að eiga sér stað innan hvers geira fyrir sig og mun Ragnhildur standa fyrir sérstakri málstofu á Sjávarútvegsráðstefnunni í nóvember nk. um áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg og aðlögun að þeim. Á þessari málstofu verður m.a. leitast við að varpa ljósi á möguleg áhrif loftslagsbreytinga á íslenskan sjávarútveg út frá öllum hliðum (líffræðileg, efnahagsleg og samfélagsleg áhrif), hvernig atvinnugreinin kemur til með að þurfa að aðlagast breyttu landslagi, hvað slík vinna myndi fela í sér, hvað nágrannaríki hafa verið að gera í þessu sambandi og hvaða áhættur og tækifæri felast í slíkri vegferð. 

IS