Fréttir

Krakka kokka á jólamarkaði Matarmarkaðs Íslands

Jólamarkaður Matarmarkaðar Íslands verður í Hörpu um þessa helgi, laugardag 14. des og sunnudag 15. des. Matís, Slow Food Reykjavík, Matarauður Íslands og Matarmarkaður Íslands standa saman að skemmtilegum barnaleik á jólamarkaðinum, en börn fá að skreyta og eiga fjölnota taupoka með merki Krakkar kokka, sem er fræðsluverkefni á vegum Matís, styrkt af Matarauði Íslands, hannað fyrir grunnskóla og leikskóla og gengur út á það að börn læri í gegnum fræðslu, leik og matreiðslu um matarauðlindir og frumframleiðslu nærumhverfis síns, sjálfbærni og ábyrga neyslu, í takt við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Öll börn fá poka á meðan birgðir endast, en pokinn inniheldur jafnframt fræðandi ratleik um íslensk matvæli sem hafa fengið vottun Slow Food samtakanna í Íslensku bragðörkina sem telur einungis íslensk matvæli sem hafa sérstöðu hér á landi sökum uppruna og langra framleiðsluhefða. Börn sem taka þátt í ratleiknum skila inn þátttökublaði í lokin og að markaðinum loknum verður eitt barn dregið út og hlýtur það fjölskyldukort í Húsdýragarðinn í vinning, en kortið veitir frían aðgang fyrir tvo fullorðna og allt að fjögur börn í garðinn og öll tæki í heilt ár.

Allir eru velkomnir á Jólamarkað Matarmarkaðar Íslands og aðgangur er ókeypis, en fjöldi bænda og annarra frumframleiðenda og framleiðenda kynna og selja vöru sína á markaðinum. 

Nánari upplýsingar og verkefnisbækling um verkefnið Krakkar kokka má finna á www.matis.is/krakkar-kokka/.

Fréttir

Bak við ystu sjónarrönd

Í síðustu viku gaf Íslenski sjávarklasinn út rit um framtíð bláa hagkerfisins sem nefnist Bak við ystu sjónarrönd og fjallar um tækifæri hafsins sem hagnýta má fyrir komandi kynslóðir.

Höfundar ritsins eru þeir Þór Sigfússon og Þórlindur Kjartansson en fjölmargir aðrir sérfræðingar og frumkvöðlar veita einnig álit sitt á ýmsum framtíðarviðfangsefnum er lúta að hafinu.

Sérfræðingar tekja að tækifæri liggi í aukinni fiskirækt, líftækni, fullvinnslu aukaafurða og vaxandi stofnum nýrra veiðitegunda við Ísland eins og í skelfiski, nýtingu þara og ræktun þörunga á meðan hlutdeild fiskveiða geti minnkað á komandi árum.

Mestu ógnanir felist hinsvegar í aukinni mengun í hafinu í kringum Ísland, hitnun og súrnun sjávar og plastmegngun.

Sjá nánar Bak við ystu sjónarrönd.

Fréttir

Rannsóknateymi sett á laggirnar til að rannsaka sýklalyfjaónæmi á Íslandi

Teymi íslenskra og bandarískra vísindamanna hefur verið sett á laggirnar til að rannsaka sýklalyfjaónæmi á Íslandi. Sérstaða landsins gerir það að ákjósanlegum vettvangi til að rannsaka þessa vaxandi ógn við lýðheilsu. Rannsókn teymisins er ætlað að skapa þekkingu til að viðhalda lágu hlutfalli ónæmis í landinu og vinna gegn þróun ónæmis annars staðar í heiminum.

Rannsóknin byggir á „einni heilsu“ aðferðarfræðinni og nær þannig til manna, dýra, matvæla og umhverfis á landsvísu, með það að markmiði að auka þekkingu okkar á því hvernig sýklalyfjaónæmar bakteríur breiðast út. Ætlunin er að ná til sem flestra þátta með því að rannsaka E. coli bakteríuna sem finnst í búfénaði, umhverfi, svo og á innlendum og innfluttum kjötvörum og bera þær saman við E. coli bakteríur sem greinast í sýkingum í mönnum.

Rannsóknarteymið er skipað þverfaglegum sérfræðingum sem rannsaka munu vistfræði baktería og sýklalyfjaónæmis svo og áhrif þess á dýr, matvæli og menn. Þær stofnanir sem koma að rannsókninni eru Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, MATÍS (Matvælarannsóknir Íslands), Matvælastofnun; Aðgerðarstofnun gegn Sýklalyfjaónæmi, George Washington University, Washington DC (ARAC) og Vísindastofnun vistkerfis og þjóðfélags, Northern Arizona University, Arizona (ECOSS).

Sú sérstaða sem gerir Ísland bæði einstakt og ákjósanlegt til slíkra rannsókna er landfræðileg einangrun, íbúafjöldinn og hversu auðvelt er að fylgjast með sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi bæði hjá mönnum og dýrum. Sýklalyfjaónæmi í landinu er með því lægsta sem þekkist í heiminum, en þeirri öfundsverðu stöðu er nú ógnað. Vaxandi ferðamannaiðnaður með meira en 2 milljónir ferðamanna til lands með íbúafjölda um 360.000, auknar ferðir Íslendinga til svæða með meira sýklalyfjaónæmi og vaxandi innflutningur á landbúnaðarafurðum eins og fersku kjöti og grænmeti.

Mikilvægt er að átta sig á því hvers vegna hlutfall sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi er með því lægsta sem þekkist í heiminum í dag, þrátt fyrir að við notum meira af sýklalyfjum í menn en gert er í nágrannalöndum okkar. Við notum hins vegar mun minna af sýklalyfjum í landbúnaði en þekkist víðast hvar annars staðar. Við vonumst til að sú þekking sem fæst með þessari rannsókn hjálpi til við að viðhalda lágu hlutfalli ónæmis í landinu. Sú vitneskja gæti einnig hjálpað til að vinna gegn ónæmisþróun annars staðar í heiminum.

Meginmarkmið rannsóknateymisins er að skapa þekkingu sem gæti nýst til þess að móta mótvægisaðgerðir byggða á gagnreyndum vísindum.

Rannsóknateymið á Íslandi

  • Próf. Karl G. Kristinsson, Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og læknadeild H.Í.
  • Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir, Tilraunastöð H.Í. í meinafræði að Keldum
  • Próf. Viggó Marteinsson, MATÍS (matvælarannsóknir Íslands)
  • Vigdís Tryggvadóttir, Matvælastofnun

Frekari upplýsingar

Fréttir

Námskeið um gæði, meðhöndlun og skynmat á fiski í Tanzaníu

Matís tók þátt í að skipuleggja og halda námskeið um gæði, meðhöndlun og skynmat á fiski í Kigoma, Tanzaníu.

Tilgangur námskeiðsins var m.a. að auka skilning á mikilvægi góðrar meðhöndlunar fisks, en athuganir hafa sýnt að allt að 60% afla smáfisks (Dagaa) úr Lake Tankanyika tapast vegna slæmrar meðhöndlunar og vinnslu, en þetta samsvarar allt að 35 milljón bandaríkjadala tapi árlega.

Námskeiðið sem haldið var 18.-22. nóvember 2019 sátu fiskieftirlitsmenn, rannsakendur og fulltrúi fiskiráðuneytis Tanzaníu, alls 18 manns. Þátttakendur fengu kennslu í meðhöndlum og virði gæða, sem og ferskleikamati á fiski.

Námskeiðið var haldið á vegum Háskóla Sameinuðu Þjóðanna (UNU-FTP á Íslandi), í samvinnu við Matís og heimamenn.

Fréttir

Vinningshafar Asksins 2019

Laugardaginn 23. nóvember var verðlaunafhending á Askinum 2019, Íslandsmeistarkeppni í matarhandverki, á Matarhátíð á Hvanneyri.

Matarhandverk snýst um að skapa vörur þar sem lögð er áhersla á einstakt bragð, gæði og ekki síst ímynd, sem iðnaður getur ekki búið til. Áherslan er á að nota staðbundin hráefni, framleiðslu í litlu magni sem er oft svæðisbundin. Matarhandverksvörur eru heilnæmar, án óþarfra aukaefna og vörur sem hægt er að rekja til upprunans. Aðalsmerki matarhandverks er að nota það hráefni, mannafla og verkkunnáttu sem fyrirfinnst á staðnum, í gegnum alla framleiðslukeðjuna. Í matarhandverki er lögð áhersla á að þróa hefðbundnar vörur fyrir neytendur dagsins í dag. Matarhandverksvörur eru frábrugðnar öðrum matvörum á þann hátt að nánast engin aukefni (E efni) eru leyfð í þeim, vélvæðing er takmörkuð og íslensk hráefni notuð eins og kostur er. Að Askinum 2019 stendur Matís í samstarfi við Sóknaráætlun Vesturlands, Markaðsstofu Vesturlands og Landbúnaðarháskóla Íslands. Matarauður Íslands styrkti keppnina.

Í keppninni í ár voru 133 vörur. Vegna fjölda skráðra vara í þremur flokkum var þeim skipt upp svo í heildina var keppt í 10 keppnisflokkum. Hér að neðan eru vinningshafarnir:

Bakstur  
GullRúgbrauðBrauðhúsið ehf
SilfurRúg-hafrabrauðBrauðhúsið ehf
   
Ber, ávextir og grænmeti  
GullÞurrkaðir lerkisveppirHolt og heiðar ehf
SilfurGrenisírópHolt og heiðar ehf
BronsSólþurrkaðir tómatarGarðyrkjustöðin Laugarmýri
   
Ber, ávextir og grænmeti – sýrt  
GullPikklaðar radísurBjarteyjarsandur sf
SilfurKimchi, krassandi kóreönsk blandaHuxandi Slf
BronsPylsukál, eitt með öllu!Huxandi Slf
   
Ber, ávextir og grænmeti – drykkir  
GullAðalbláberjateUrta Islandica ehf
SilfurKrækiberjasafiIslensk hollusta ehf
   
Fiskur og sjávarfang  
GullBirkireyktur urrðiMatarhandverk úr fram-Skorradal
SilfurHeitreyktur makíllSólsker
BronsLéttreyktir þorskhnakkarSólsker
   
Kjöt og kjötvörur  
GullGæsakæfaVillibráð Silla slf.
SilfurTaðreykt HangikjötSauðfjárbúið Ytra-Hólmi
   
Kjöt og kjötvörur – hráverkað  
GullRauðvínssalamiTariello ehf
SilfurNautasnakkMýranaut ehf
BronsÆrberjasnakkBreiðdalsbiti
   
Mjólkurvörur  
GullSveitaskyrRjómabúið Erpsstaðir
SilfurBúlands HavartiBiobú ehf.
BronsBasilíku smjörÁ Ártanga
   
Nýsköpun  
GullBoppHavarí
GullSöl snakkBjargarsteinn Mathús
BronsSaltkaramellusýrópUrta Islandica ehf
   
Nýsköpun – drykkir  
GullGlóaldin Kombucha IcelandKúbalúbra ehf
SilfurSúrskot – Safi úr KimchiHuxandi Slf
BronsRababaravínOg natura

Fréttir

Matarhátíð á Hvanneyri

Verið velkomin á Matarhátíð á Hvanneyri laugardaginn 23. nóvember kl. 12-16

DAGSKRÁ

12:00 – 16:00 MATARMARKAÐUR
– matarhandverk og matur beint frá býli – veitingasala
– útstilling á keppnisvörum í Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki
– opið hús hjá Landbúnaðarsafninu og Ullarseli

12:00 REKO afhending
12:30* Hvað er REKO? – Hlédís Sveinsdóttir segir frá
13:00* Krakkar kokka, kynning á verkefni Matís
13:30* Hrossakjöt – Aukin virðing -> aukið virði, Eva Margrét Jónudóttir segir frá gæðum og tækifærum hrossakjötsins
14:00 Verðlaunaafhending: ASKURINN – Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki
15:00* Er að mjólka ána sín… Gerald og Katharina sauðaostaframleiðendur frá Austurríki segja okkur frá búskaparháttum og sauðaostagerð.
15:30* Gott er að rækta gulrótina – Vífill Karlsson kynnir landfræðilegt og efnahagslegt litróf garðyrkju á Íslandi

* Stuttar kynningar og erindi

Allar nánari upplýsingar er að finna á síðu hátíðarinnar á facebook.

Að viðburðinum standa: Matís , Matarauður ÍslandsMarkaðsstofa VesturlandsLandbúnaðarháskóli Íslands og Sóknaráætlun Vesturlands (Matarauður Vesturlands)

Fréttir

Myndbandakeppni um plastmengun

Samnorræna verkefnið, NordMar Plastic , miðar að því að samræma aðferðir við vöktun og mælingar á plasti í umhverfinu, stuðla að fræðslu til almennings og útgáfu á kennsluefni fyrir börn og unglinga. Verkefnið auglýsir eftir myndböndum í myndbandakeppni þar sem umfjöllunarefnið er plastvandamál heimsins.

Myndböndin eiga að skoða eftirfarandi: Hvernig sé ég plastvandamálið í heiminum? – Hvaða skref eða lausnir sé ég fyrir mér að hægt sé að taka/þróa til að leysa plastvandamálið eða hluta þess? Keppnin er ætluð 13 – 19 ára, en skilafrestur er 1. desember.

Vegleg verðlaun í boði, m.a. þyrluflug og þátttaka á Arctic Plastics þar sem efstu 10 myndböndin verða sýnd. Vinsamlegast sendið myndböndin á nordmarplastic@matis.is.

Nánari upplýsingar má finna á nordmarplastic.com.

Fréttir

Bíll keyrður á eldsneyti framleiddu úr sjávarþangi

Matís er þáttakandi í verkefninu Macrofuels (H2020 #654010) sem nú er að renna sitt fjögurra ára skeið á enda. Verkefninu var ætlað að kanna fýsileika á nýtingu sjávarþangs til framleiðslu eldsneytis fyrir ökutæki og náði til allra þátta slíkrar framleiðslu: ræktunar þangs; geymslu; forvinnslu til losunar gerjanlegra sykra; gerjunar til framleiðslu líf-eldsneytis; og prófunar eldsneytis í bílvél.

Nú í nóvember var mikilvægum áfanga verkefnisins náð þegar fólksbíl var ekið á eldsneytis-blöndu sem framleidd var með gerjun sjávarþangs. Tíu lítrar af líf-etanóli, sem framleiddir voru á vegum Macrofuels, voru blandaðir 90 lítrum af bensíni og ökutæki keyrt á blöndunni um 80 km leið. Efnainnihald útblásturs var mælt og fylgst með hugsanlegum áhrifum á gang vélarinnar. Allar mælingar sýndu að eiginleikar eldsneytisins eru sambærilegir hefðbundnu eldsneyti.

Hitakærar örverur, einangraðar úr íslenskum hverum, hafa um langt skeið verið rannsakaðar hjá Matís. Fjöldi, nálægð og fjölbreytileiki íslenskra hvera er einstakur, og örverurnar sem þar finnast og ensímin sem þær framleiða eru oft aðlagaðar háu hitastigi og mjög lágu sýrustigi. Þetta eru sömu aðstæður og ríkja oft á tíðum í iðnaðar vinnslu á lífmassa og henta þær (og ensím þeirra) því mjög vel fyrir slíka nýtingu. Þáttaka Matís innan Macrofuels fólst í að þróa þessar örverur og ensím þeirra með það að markmiði að hámarka framleiðslu eldsneytis úr sjávarþangi. Sjávarþang sem nýtt var til eldsneytis framleiðslu í Macrofuels inniheldur þrennskonar sykrur (alginat, laminarin og mannitol). Gersveppur, sem alla jafna er notaður til líf-etanól framleiðslu, er einungis fær um að nýta eina þessara þriggja sykra. Matís þróaði hitakæran bakteríu-stofn sem nýtir allar þrjár sykrur þangsins, með það fyrir augum að auka heimtur við framleiðsluna til muna. Ensímin sem Matís þróaði kljúfa fjölsykrur þangs í fá- og einsykrur. Slík forvinnsla er nauðsynleg til að gerja megi sykrurnar og framleiða líf-eldsneyti.

Samanborið við aðrar tegundir lífmassa er sjávarþang mjög hentugt til framleiðslu eldsneytis. Þang vex hraðast allra plantna við norðlægar slóðir, ræktun þess keppir ekki við matarframleiðslu um ræktarland, og það inniheldur hátt hlutfall gerjanlegra sykra. Sífellt aukin áhersla er á notkun líf-eldsneytis og annarra sjálfbærra orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis um allan heim. Niðurstöður Macrofuels verkefnisins benda til að hægt sé að framleiða líf-etanól úr sjávarþangi sem hefur sömu eiginleika og hefðbundið eldsneyti.

Þang vex í miklu magni á Íslandi en það er ekki hagnýtt nema að litlu leiti. Til að efla þangvinnslu á Íslandi er mikilvægt að þróa afleiddar vörur sem skapa má úr þanginu. Það kynni að leiða til aukinnar verðmætasköpunar og eflingar atvinnulífs, einkum á landsbyggð Íslands. Þróunarverkefni eins og Macrofuels og þátttaka Matís er skref í þessa átt.

Fréttir

Nýtt Matís myndband – Stuðla íslenskir þörungar að minni mengun frá kúm?

Matís er að rannsaka hvort íslenskir þörungar geti dregið úr metanlosun frá kúm í verkefninu SeaCH4NGE sem styrkt er af EIT Food. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að notkun þörunga sem hluta fóðurs getur minnkað myndun metangass frá jórturdýrum. SeaCH4NGE rannsakar fjölbreytt úrval íslenskra þörunga og hvort þeir geti minnkað metan frá kúm. Þörungarnir eru bæði rannsakaðir á rannsóknastofum m.t.t. efnainnihalds og einnig til getu þeirra til að draga úr metangas myndun. Þeir þörungar sem koma best út á rannsóknarstofum verða síðan rannsakaðir áfram í fóðurtilraun með kúm.

Ljóst er að áhrif hamfarahlýnunar eru víðtæk og alvarleg. Nýleg skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) benti á alvarlegar afleiðingar hlýnunar jarðar um 1.5°C frá iðnbyltingu samanborið við hlýnun um 2°C. Nú þegar stefnum við að lágmarki 3-4°C hlýnunar jarðar árið 2100 – en meðaltals hitamunur í dag og á tímum ísaldar er einmitt u.þ.b. 4°C. Í því samhengi er ljóst að slík hækkun á hitastigi jarðar myndi kollvarpa vistkerfum.

Tíðrætt er um kjöt og mjólkurvörur í þessu samhengi. Ástæðan er sú að kýr losa metangas við jórtrun en metan er mjög sterk gróðurhúsalofttegund og er 28x áhrifameiri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Vegna gríðarlegs fjölda af kúm á heimsvísu spilar þessi metanlosun stóran þátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði sem er tæpur fjórðungur losunar af mannavöldum.

Nauðsynlegt er að bregðast við. Breytingar á matarvenjum, landbúnaðarkerfum, stefnum og löggjöfum auk minnkunar á matarsóun eru m.a. mikilvægar aðgerðir til að bregðast við. Engin töfralausn er á vandamálinu og alltaf þarf að hafa í huga heildræna nálgun. SeaCH4NGE stefnir að því vera einn hlekkur í átt að jákvæðum breytingum í landbúnaði m.t.t. umhverfismála.

Hér fyrir neðan er myndband á ensku sem er stutt samantekt um verkefnið og ávinning þess.

Fréttir

Korn fyrir framtíðina

Í Landanum á RÚV var nýlega fjallað um kornrækt í Skagafirði. Upplýsingar frá Matís um möguleika kornsins til matvæla- og fóðurframleiðslu komu þar við sögu. Kornrækt á Íslandi gæti orðið mjög mikilvæg í framtíðinni ef fram fer sem horfir að loftslagsbreytingar geri kornframleiðslu erfiða á suðlægum slóðum og verðið á korni hækki. Þá mun þurfa að auka sjálfbærni með því að framleiða meira af matvælum og fóðri innanlands.

Starfsemi Matís felst m.a. í því að horfa til framtíðarþarfa atvinnulífs og almennings á matvælasviðinu. Þegar litið er til korns hefur Matís unnið náið með bændum og fyrirtækjum í íslenskum, norrænum og Norðurslóðaverkefnum. Árangurinn er aukin þekking í atvinnulífinu, leiðbeiningar og verklýsingar sem eru tilbúnar þegar þörf verður á því að auka innlenda framleiðslu. Leiðbeiningarnar hafa verið gerðar aðgengilegar hér.

Í fræðigrein hefur verið fjallað um áhrifhlýnunar á möguleika byggræktar.

Umfjöllun landans um kornrækt í Skagafirði ognýtingu til innlendrar matvælaframleiðslu (hefst á 1:30).

IS