Inngangur að fisktækni

Tengiliður

Margeir Gissurarson

Stefnumótandi sérfræðingur

margeir.gissurarson@matis.is

Matís og Fisktækniskólinn í Grindavík hafa unnið saman að gerð þessa efnis sem nú birtist og hefur fengið heitið „Inngangur að fisktækni“ en þar er að finna fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um framleiðslu sjávarafurða.

Rannsóknasjóður síldarútvegsins styrkti þessa útgáfu í samvinnu við Matís og Fisktækniskólann. Efnið er fyrst og fremst hugsað fyrir nemendur í fisktækni, en ætti auk þess að henta öllum þeim sem vilja fræðast um hvernig eigi að standa að framleiðslu sjávarfangs. Það er gríðarlega mikilvægt að efla aðgang að fræðslu um vinnslu matvæla, auknar kröfur á mörkuðum krefjast aukinnar þekkingar og vandvirkni á öllum stigum virðiskeðju sjávarfangs. Það skiptir máli að allir þeir sem koma að öflun og vinnslu hráefnis viti hvernig á að standa að verki til að framleiða örugg hágæða matvæli fyrir okkar verðmætustu markaði.

Fréttir

Lífvirkni í vörum frá Villimey

Fyrirtækið Villimey slf framleiðir lífrænt vottaðar vörur úr íslenskum jurtum sem vaxa í villtri náttúru Vestfjarða. Vörur Villimeyjar komu á markað í ágúst 2005 og hefur framleiðsla farið vaxandi undanfarin ár. Vörurnar hafa fengið góðar móttökur á Íslandi og þar sem þær hafa verið kynntar erlendis.

Villimey byggir starfsemi sína á nýtingu á auðlindum Vestur-Barðastrandasýslu sem eru hrein og ómenguð náttúra og jurtir sem vaxa villtar í náttúrunni. Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, eigandi  og framkvæmdastjóri Villimeyjar nýtir þennan hreinleika náttúrunnar til að framleiða vörur úr jurtum og byggir framleiðsluna á aldagömlum uppskriftum sem hún hefur þróað í takt við nútímakröfur og þarfir. Vörur Villimeyjar eru orðnar þekktar hér á landi og njóta sífellt aukinna vinsælda.

Frá rannsóknastofu Matís á Sauðárkróki
Frá rannsóknastofu Matís á Sauðárkróki | From Matis lab in Saudarkrokur

Niðurstöður úr lífvirknirannsóknum á vörum frá Villimey

Undanfarna mánuði hafa jurtavörur sem framleiddar eru af Villimey á Tálknafirði verið rannsakaðar á rannsóknarstofu Matís á Sauðárkróki og í Reykjavík. Framleiðsla jurtasmyrslanna frá Villimey er eftir ströngustu kröfum varðandi hreinlæti og vönduð vinnubrögð. Engum rotvarnarefnum er bætt í smyrslin og þau standast þær kröfur sem gerðar eru almennt til slíkrar framleiðslu. Um er að ræða náttúruvörur sem hafa sína náttúrulegu virkni gegn bakteríum. Sýnt var fram á þessa virkni smyrslanna með svokölluðu ögrunarprófi eða „Preservative efficacy testing (challenge test)”, sem framkvæmt var á rannsóknastofu Matís. Við þessar prófanir var fylgt leiðbeiningum í Evrópsku Farmakópíunni (7. útgáfu frá 2011).

Húðvörur Villimeyjar hafa jafnframt verið prófuð í margskonar húðfrumuprófum þar sem hægt er að mæla virkni ýmissa efna í húðfrumum og finna þannig út áhrif þeirra á uppbyggingu húðfruma. Húðfrumuprófin mæla magn kollagens sem stuðlar að uppbyggingu húðfruma, elastasa sem orsakar hrörnun húðarinnar, málmpróteinasa 1  sem brýtur niður kollagen og málmpróteinasa 2 sem er nauðsynlegur við endurnýjun líkamsvefja.

Í þessum prófunum kom fram jákvæð virkni húðvaranna frá Villimey á þessi efni og þær ýmist hindra myndun þeirra svo sem elastasa og vinna þannig gegn hrörnun húðarinnar eða örva framleiðslu þeirra svo sem kollagens og stuðla þannig að endurnýjun húðarinnar. Einnig kom fram töluverð jákvæð svörun húðvaranna í prófum sem mæla hemjandi áhrif þeirra á bólgu í vöðvum og liðum.

Ennfremur kom í ljós virkni í húðvörunum við að græða skrámur í frumuþekju með svokölluðu „Scratch wound healing“ prófi (skrámugræðipróf) og reyndust græðandi áhrif þeirra í þessu prófi vera umtalsverð umfram ómeðhöndluð viðmið.

Einnig voru mæld andoxunaráhrif í vörum Villimeyjar, bæði húðvörum og jurtablönduðu eplaediki og reyndist andoxunarvirknin vera umtalsverð umfram ómeðhöndluð viðmið og má rekja þessa andoxunarvirkni til jurtanna sem notaðar eru í vörurnar. Einnig komu í ljós töluverð bólguhemjandi áhrif jurtablöndunnar í eplaedikinu.

Rannsóknir Matís á vörum Villimeyjar hafa verið styrktar af Rannsóknar- og Nýsköpunarsjóði V-Barðastrandasýslu og færa Villimey og Matís sjóðnum bestu þakkir fyrir mikilvægan stuðning.

Skýrslur

Áhrif vistfræði þangs og þara á lífvirk efni þeirra og nýtingu / Ecological impact on bioactive chemicals in brown seaweeds and their utilization

Útgefið:

01/09/2015

Höfundar:

Rósa Jónsdóttir, Ásta Heiðrún Pétursdóttir, Halldór Benediktsson, Hilma B. Eiðsdóttir, Karl Gunnarsson, Jóna Freysdóttir

Styrkt af:

Verkefnasjóður sjávarútvegsins

Tengiliður

Rósa Jónsdóttir

Fagstjóri

rosa.jonsdottir@matis.is

Áhrif vistfræði þangs og þara á lífvirk efni þeirra og nýtingu / Ecological impact on bioactive chemicals in brown seaweeds and their utilization

Markmið verkefnisins var að rannsaka áhrif umhverfisþátta á magn og lífvirkni fjölfenóla og fjölsykra í þangi og þara. Á þann hátt var stefnt að því til að auka þekkingu á vist- og efnafræði þessara tegunda fyrir hagkvæmari einangrun lífefna, nánari greiningu þeirra og nýtingu til lífvirknimælinga. Sýni af beltisþara, marinkjarna, bóluþangi og klóþangi voru tekin á þremur stöðum á landinu; á norðanverðu Reykjanesi, í Breiðafirði og Eskifirði, alls sex sinnum yfir árið, frá mars til júní, í ágúst og október. Þróuð var aðferð til að einangra fucoidan og laminaran fjölsykrur úr bóluþangi og klóþangi. Heildarmagn fjölfenóla var mælt í öllum sýnum en lífvirkni í völdum sýnum. Auk þess voru þungmálmar og joð mælt í völdum sýnum. Magn fjölfenóla mældist hátt í bóluþangi og klóþangi en lítið í marinkjarna og beltisþara. Andoxunarvirkni, mæld sem ORAC og í frumukerfi, var mikil í þeim sýnum sem innihéldu mikið magn fjölfenóla. Bóluþang og marinkjarni sýndu bólguhemjandi virkni. Niðurstöður verkefnisins auka verulega við þekkingu á sviði nýtingar þangs og þara. Nýtast þær vel við þróun á vinnslu þangs til manneldis sem nú stendur yfir.

The aim of the project was to study the effect of environmental factors on polyphenols and polysaccharides in seaweed. Thereby be able to better recognize the ecology and chemistry of these species for more efficient isolation of the biochemical, their further analysis and utilization in bioactive measurements. Samples of Saccharina latissima, Alaria esculenta, Ascophyllum nodosum and Fucus vesiculosus were collected at three different locations, Reykjanes, Breiðafjörður and Eskifjörður, from March till October, in total six times. Method to isolate fucoidan and laminaran polysaccharides was developed. Total polyphenol content (TPC) was measured in all samples and bioactivity in selected samples. In addition, contaminants and iodine were analysed in selected samples. The TPC was high in F. vesiculosus and A. nodosum but rather low in A. esculenta and S. latissima. The antioxidant acitivty, measured as ORAC value and in cells, was high in samples containing high amount of TPC. F. vesiculosus and A. esculenta had anti-inflammatory properties. The results of the project have increased the knowledge about the utilization of seaweed in Iceland substantially.

Skýrsla lokuð til 31.12.2017

Skoða skýrslu

Fréttir

Guðjón Þorkelsson prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ

Guðjón Þorkelsson, starfsmaður Matís, fékk fyrir stuttu stöðu prófessors við Háskóla Íslands. Guðjón hefur lengi kennt við háskólann eða allar götur síðan 1978. Guðjón lagði stund á líffræði við HÍ þaðan sem hann útskrifaðist árið 1977 og nám í matvælafræði í kjölfarið en Guðjón er með meistaragráðu í matvælafræði frá háskólanum í Leeds í Englandi þaðan sem hann útskrifaðist 1981. Auk þessa situr Guðjón í stjórn Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Hjá Matís er Guðjón með yfirumsjón með öllu sem tengis menntun og matvælaframleiðslu og er Guðjón mikilvæg tenging Matís við háskólana á Íslandi. Við erum afar stolt af prófessorsstöðu Guðjóns og hlökkum til að takast á við framtíðar verkefni saman.

Guðjón hélt fyrirlestur á sérstökum kynningarfyrirlestri í sl. viku en á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands er haldið upp á framgang eða ráðningu nýrra prófessora með slíkri kynningu. Athöfnin hófst með stuttu yfirliti yfir helstu störf Guðjóns, en síðan tók hann sjálfur við og flutti erindi um störf sín og framtíðarsýn í kennslu og rannsóknum.
 
Matís óskar Guðjóni innilega til hamingju með prófessorsstöðuna.

Fréttir

Tvær mjög athyglisverðar greinar í Icelandic Agricultural Sciences

Tvær nýjar greinar hafa nú birst í vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences og hægt er að nálgast þær á vef IAS

Fyrri greinin Samanburður á orkuarðsemi (EROI) lífrænna og hefðbundinna íslenskra kúabúa (A Comparative Analysis of the Energy Return on Investment of Organic and Conventional Icelandic Dairy Farms) er eftir Reyni Smára Atlason, Karl Martin Kjareheim, Brynhildi Davíðsdóttur og Kristínu Völu Ragnarsdóttur. Athugað var hvaða landbúnaðaraðferð skilar mestri orku til samfélagsins á móti  þeirri orku sem búin nota. Þetta er í fyrsta sinn sem orka sem íslensk bú nota er borin saman við þá orku sem þau gefa af sér. Þetta er mikilvægt innlegg í umræðu um orkunýtingu í landbúnaði og hvernig við nýtum óendurnýjanlega orku og hráefni í landbúnaði. Jafnframt gerir okkur kleyft að hefja samanburð við önnur lönd á þessu sviði.

Önnur nýjung var að hér var orkuarðsemi hefðbundinna og lífrænna búa borin saman. Niðurstöður eru ekki ótvíræðara þar sem lífærnu búin voru of fá til að draga endanlegar ályktanir en rannsóknin gefur til kynna að lífræn kúabú geti gefi betri orkuarðsemi en hefðbundin býli. Uppskera á hvern hektara sé minni en á móti kemur að tilbúinn áburður er ekki notaður en gerð hans, flutningur og deyfing krefjast samanlagt mikillar orku.

Hin greinin Þráðormasamfélög Surtseyjar 50 árum eftir myndun hennar (Soil nematode communities on Surtsey, 50 years after the formation of the volcanic island) er eftir Krassimira Ilieva-Makulec, Brynhildi Bjarnadóttur og Bjarna D. Sigurðsson. Greinin fjallar um þær breytingar sem hafa orðið á samfélögum þráðorma í jarðvegi á Surtsey síðan að hún myndaðist 1963, en þráðormar gegna mikilvægu hlutverki í frumframvindu vistkerfa og í jarðvegsmyndun. Höfundar bera saman næringarsnauð svæði og svæði sem voru næringarrík vegna þétts mávavarps. Alls fundust 25 ættkvíslar af þráðormum og þar af 14 sem ekki höfðu fundist þar áður. Höfundar fundu samband milli nokkurra jarðvegsþátta og gróðurs en jafnframt að framvinda þráðorma hafði annað ferli en gróðurframvindan.

Rannsóknir á jarðvegslífi eru afar fágætar á Íslandi og því má líta á þessa rannsókn sem nýjung á því sviði og mikilvægt innlegg í grunnrannsóknir á jarðvegslífi. Jafnframt er þessi rannsókn mikilvægt innlegg í framvindu á jarðvegslífi á nýrri eyju, á áður ógrónu landi.

Fréttir

Flæði gagna milli aðila í sjávarútveginum

Ljóst er að miklu magni gagna er safnað við veiðar og vinnslu hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Þessar upplýsingar eru oft notaðar að þeim sjálfum við veiðistýringu síðar meir þar sem sótt er í ákveðnar tegundir eða ákveðna einginleika afla. Einnig eru dæmi um að fyrirtækin noti þessi gögn við framlegðarútreikninga fyrir veiðar og vinnslu.

Þessi ítarlega gagnasöfnun sem á sér stað við veiðar, löndun og vinnslu hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum nýtist svo til frekari úrvinnslu hjá eftirlitsaðilum eða sem fylgigögn með afurðum til kaupenda eða tollyfirvalda.

Tilgangur þessa skjals er að sýna hvaða upplýsingar er um að ræða, hvar þeirra er aflað og flæði þeirra milli aðila eftir mismunandi veiðum, vinnsluaðferðum og söluferlum.


Skjalið má nálgast hér (best að skoða í Acrobat Reader).

Nánari upplýsingar veitir Valur N. Gunnlaugsson hjá Matís.

Fréttir

Hausana í land?

Við upphaf fiskveiðiársins 2012/13 gekk i gildi reglugerð sem skyldar útgerðir vinnsluskipa til að koma með að landi hluta þeirra þorskhausa sem til falla við vinnslu í íslenskri lögsögu. Forsaga þess að reglugerðin var sett, áhrif reglugerðarinnar á landað magn þorskhausa fyrstu tvö fiskveiðiárin sem reglugerðin hefur verið í gildi og mögulegar leiðir útgerðanna til að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar, eru rakin í skýrslu sem Matís gaf nýlega út.

Í ágúst 2011 gaf Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið út reglugerð 810/2011 um nýtingu afla og aukaafurða. Í þeirri reglugerð kom fram sú nýlunda að skipum sem vinna afla um borð var gert skylt að koma með að landi þorsklifur og þorskhausa. Reglugerðin gerði ráð fyrir að frá 1. febrúar 2012 ættu skipin að koma með að landi 50% af allri þorsklifur og þorskhausum sem til falla við veiðar í íslenskri lögsögu. Frá og með 1. september 2012 stóð svo til að sömu skipum yrði skylt að koma með alla þorsklifur og þorskhausa að landi, sem til falla við veiðar í lögsögu Íslands. Reglugerð þessi mætti hins vegar töluverðri andstöðu meðal útgerðarmanna, sem töldu að markmið hennar væru tæknilega óraunhæf og efnahagslega óskynsamleg. Ráðuneytið leitaði því samráðs meðal hinna ýmsu hagsmuna- og fagaðila til að ná niðurstöðu sem allir aðilar máls gætu sæst á.

Í framhaldi af því var reglugerð 1296/2011 gefin út í desember 2011 og var þá búið að afnema með öllu kvaðir um að vinnsluskipum bæri að koma með þorsklifur í land og búið að tengja kvaðir um hlutfall þorskhausa sem bæri að koma með í land við lestarrými skipanna. Samkvæmt reglugerðinni, sem tók gildi 1. September 2012, var vinnsluskipum með nýtanlegt lestarrúmmál milli 600 og 800 m3 skylt að koma með 30% þorskhausa sem til falla við veiðar í lögsögu íslands að landi og frystitogarum með meira en 800 m3 lestarrými bar að koma með 40% af tilfallandi þorskhausum í land. Vinnsluskip með nýtanlegt lestarrúmmál undir 600 m3 voru hins vegar undanþegin þessari reglugerð. Vinnsluskipunum var gert heimilt í stað hausa, að koma með samsvarandi magn af gellum, kinnum og/eða fésum að landi eða af öðrum afurðum sem unnar eru úr hausum um borð.

Það eru ýmis vandamál í vegi fyrir því að unnt sé að koma með þorskhausa að landi hjá a.m.k. hluta frystiskipaflotans. Það er mjög takmarkað pláss á millidekki flestra skipanna og því erfitt að koma fyrir nýjum búnaði til að vinna hausa, frystigetan er takmörkuð og frystitækin henta illa til að frysta hausa, hausararnir sem notaðir eru skila hráefni sem hentar illa í frekari vinnslu, geymslupláss í frystilestum er takmarkað, vinnuálag á áhafnirnar er þegar mikið og vandkvæðum bundið að auka það fyrir þann tiltölulega takmarkaða fjárhagslega afrakstur sem er af hausavinnslu.

Það er hins vegar nokkur hluti flotans sem kemur með hluta sinna þorskhausa að landi og hefur það hlutfall verið að aukast á undanförnum árum. Í þeim tilfellum hefur útgerðin náð að aðlaga vinnsluna að nýtingu hausa án þess að það komi niður á vinnslu aðalafurðanna. Ekki verður þó með góðu móti séð að umtöluð reglugerð hafi haft umtalsverð áhrif á þessa þróun, þar sem svipuð þróun hefur verið hjá þeim skipum sem undanþegin eru reglugerðinni og þeim skipum sem reglugerðin nær til. Þarna er einfaldlega um verðmæti að ræða sem margir útgerðamenn sjá tækifæri í að sækja, burtséð frá reglugerðinni.

Helstu vandamálin sem við er að eiga þegar kemur að nýtingu á þorskhausum um borð í vinnsluskipum er plássleysi og takmörkuð frystigeta. Því eru tækifæri í að vinna hausana með það að markmiði að minnka umfangið og hirða þá aðeins verðmætustu hlutana. Nú eru sem dæmi á markaði vélar sem geta unnið verðmætustu afurðirnar úr hausunum, eins og til dæmis gellur, kinnar og klumbu. Með því að hirða þessar þrjár hausaafurðir má minnka umfang þess sem þarf að frysta og geyma í lestum um 65% og samt koma með meiri verðmæti að landi en ef hausarnir hefðu verið heilfrystir. Fyrir núverandi frystiskipaflota Íslendinga liggja tækifæri í slíkri vinnslu. Það er hins vegar mikil uppsöfnuð þörf á endurnýjun frystiskipaflotans til að takast á við nýjar kröfur og áskoranir. Þó vægi þeirra í íslenskri útgerð hafi minnkað á undanförnum árum verður alltaf þörf fyrir þessi skip í flotanum, og þá sérstaklega til að sækja á fjarlægari mið. Búast má við að við hönnun á nýjum vinnsluskipum og við breytingar á þeim gömlu verði tekið tillit til krafna um bætta nýtingu á öllu hráefni, hausum sem og öðrum hliðarafurðum. Endurnýjun frystitogaraflotans er því mikið hagsmunamál fyrir greinina og þjóðina sem eiganda auðlindarinnar.

Matís hefur fylgst náið með hausanýtingu um borð í vinnsluskipum og aðstoðað útgerðir við að leita tækifæra í bættri nýtingu á hliðarafurðum. Þegar reglugerð 810/2011 var í umsagnaferli komu sérfræðingar Matís að vinnu við að móta reglugerðina og hafa þeir í framhaldi af því komið að rannsóknum og þróun á því sviði. AVS verkefnasjóður í sjávarútvegi styrkti smáverkefni árið 2012 til að meta áhrif umtalaðrar reglugerðar. Þessu verkefni hefur verið sinnt með hléum síðastliðin þrjú ár og lauk formlega með útgáfu Matís skýrslu sem nálgast má hér. Áður hafði verkefnið stutt vinnu við meistaraverkefni Gísla Eyland í Fjármálum fyrirtækja við Háskóla Íslands. Meðal afurða verkefnis Gísla Eyland var rekstrarlíkan fyrir vinnsluskip þar sem meðal annars er unnt að bera saman arðsemi mismunandi kosta við söfnun og vinnslu hausa um borð. Rekstrarlíkan þetta má nálgast hér. Verkefni Gísla Eyland var jafnframt kynnt á TAFT 2012 (Trans‐Atlantic Fisheries Technology Conference) með veggspjaldi sem vakti töluverða athygli.

AVS verkefnasjóð í sjávarútvegir eru færðar þakkir fyrir að styrkja verkefnið.

Frekari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Fréttir

Skagafjörður er gæðaáfangastaður Íslands

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur verið útnefnt gæðaáfangastaður Íslands fyrir verkefni sem ber heitið Matarkistan Skagafjörður. Ferðamálastofa útnefndi Skagafjörð, en gæðaáfangastaðir eru valdir um alla Evrópu í samevrópsku verkefni en frétt þess efnis birtist í Kjarnanum fyrir stuttu.

Ein öflugasta starfsstöð Matís er einmitt í Skagafirði en Líftæknismiðja Matís er staðsett á Sauðárkróki. Starfsemi Matís í Líftæknismiðjunni er margþætt. Í fyrsta lagi hefur Matís komið upp sérhæfðri rannsóknastofu á sviði líftækni og lífefna.  Í öðru lagi starfrækir Matís tilraunaverksmiðju í vinnslusal Líftæknismiðjunnar, þar sem fyrirtækið Iceprotein ehf. hefur byggt upp starfsemi sína. Að lokum vinnur starfsfólk Matís í Líftæknismiðjunni með fyrirtækjum í Skagafirði og NV-landi að ýmsum umbóta-og hagræðingarverkefnum.

Með Líftæknismiðjunni hefur skapast rannsóknaaðstaða með tilheyrandi vinnsluaðstöðu þar sem vísindamenn og frumkvöðlar í líftækni geta þróað vörur sínar og vinnsluferla í samvinnu við Matís. Á rannsóknastofu Líftæknismiðjunnar er unnið að mælingu á lífvirkum eiginleikum lífefna úr íslenskri náttúru. Líftæknismiðjan er opin öllum landsmönnum og þar geta einstaklingar og fyrirtæki fengið aðstöðu til skemmri tíma til framleiðslu afurða. Smiðjan verður nokkurs konar klakstöð nýrra sprotafyrirtækja í líftækni og mikilvæg í styttingu ferlis frá hugmynd til markaðar. Með vali á staðsetningu Líftæknismiðjunnar er litið til nærumhverfisins sem matarkistan Skagafjörður er.

Frétt Kjarnans um Matarkistuna Skagafjörð má finna hér: http://kjarninn.is/2015/07/skagafjordur-er-gaedaafangastadur-islands-samkvaemt-ferdamalastofu/

Fréttir

Hugtakasafn fiskiðnaðarins er nú aðgengilegt á netinu

Hugtakasafn Fiskiðnaðarins sem nú birtist á vefnum tekur saman ýmis hugtök úr fiskiðnaðinum og gefur þeim skýrari merkingu. Þetta hefur verið reynt að gera bæði með orðum og myndum. Safnið var upphaflega unnið í tengslum við verkefnið „Aukin verðmæti gagna.“

Við upplýsingasöfnun í verkefninu „Aukin verðmæti gagna“ kom í ljós að skilningur á einstaka orðum og hugtökum er torskilinn og að sama orð getur haft mismunandi merkingu milli aðila. Eins og gefur að skilja er fátt jafn mikilvægt í samskiptum um mikil verðmæti en að samræmd merking sé á orðum og hugtökum.

Tollskráin inniheldur yfir 100 hugtök, sum torskilin og önnur ekki notuð í réttu samhengi. Ítrekað kemur fram misskilningur í flokkun og vörulýsingum vegna þessa. Hugtakasafnið getur því tvímælalaust gagnast við gerð vörulýsinga í tollskrá og  í reglugerðar- og lagasmíðum hins opinbera, einnig getur það gert samskipti milli viðskiptaaðila markvissari. Hugtakasafn þetta nýtist einnig starfsfólki í sjávarútvegi, við gerð vörulýsinga og annarra samskipta þar sem hægt verður að vísa í hugtakasafnið sem heimild.

Hugtakasafnið má nálgast hér (best að skoða í Acrobat Reader).

Þar sem um er að ræða fyrstu útgáfu safnsins eru allar athugunarsemdir vel þegnar og mun Páll Gunnar Pálsson hjá Matís taka á móti þeim ásamt því að veita nánari upplýsingar ef þess er óskað.

Fréttir

Traust starfsemi með heilindi að leiðarljósi

Matís er í forystuhlutverki sem eitt öflugasta rannsóknafyrirtæki landsins, það leiðir rannsókna- og samstarfsverkefni fyrirtækja og styrkir þannig innlenda þekkingu, treystir verðmætasköpun og stuðlar að bættum lífsskilyrðum. Heilindi skipta stjórnendur og starfsmenn miklu máli, hvort sem um er að ræða heilindi í vísindastarfi og rannsóknum eða heilindi þegar kemur að rekstri og fjárhagslegri stjórnun Matís.

Vöxtur hefur einkennt Matís frá upphafi. Þeirri stefnu hefur verið markvisst fylgt eftir að fyrirtækið sæki fram í alþjóðlegu samstarfi matvæla- og rannsóknarfyrirtækja, samhliða þeirri víðtæku þjónustu sem það veitir hér á landi. Hlutur erlendra tekna Matís er ríflega þriðjungur og hefur aldrei verið hærri. Auknar erlendar tekjur stuðla ekki aðeins að auknum vexti heldur verður rekstargrundvöllur Matís til framtíðar traustari með fleiri tekjuöflunarleiðum. Hingað til hefur Matís að stærstum hluta starfað í Evrópulöndum en á árinu 2014 voru stigin árangursrík skref inn á markað í Norður-Ameríku sem lofa góðu um það sem koma skal í náinni framtíð.

Ávinningur af starfsemi Matís fyrir íslenskt samfélag er ótvíræður. Fyrirtækið er í forystuhlutverki sem eitt öflugasta rannsóknafyrirtæki landsins, það leiðir rannsókna- og samstarfsverkefni fyrirtækja og styrkir þannig innlenda þekkingu, treystir verðmætasköpun og stuðlar að bættum lífsskilyrðum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur fyrirtækið nú þegar sýnt fram á hversu miklum árangri rannsóknir skila samfélaginu í nýsköpun, vöruþróun, verðmætasköpun og betri nýtingu auðlinda, svo fátt eitt sé nefnt. Góðar rannsóknir hafa skilað sér beint í meiri verðmæti fyrir fyrirtæki og þjóðarbúið.

Matís rís ekki aðeins undir ábyrgðarmiklu hlutverki í rannsóknum og nýsköpun í matvælaframleiðslu hér á landi heldur hefur aukin áhersla verið lögð á þann þátt þjónustu fyrirtækisins sem snýr að matvælaöryggi; vöktun og mælingum á matvælum. Sú þjónusta er dýrmæt íslenskum neytendum og verður æ mikilvægari fyrir útflutning íslenskra matvælafyrirtækja eftir því sem kröfur erlendra kaupenda og neytenda aukast.

Matís nýtur faglegs sem rekstrarlegs trausts, sem best sést af fjölda erlendra þátttökuverkefna sem fyrirtækið á aðild að og það forystuhlutverk sem Matís hefur í mörgum þeirra. Fjöldi erlendra fyrirtækja nýtir sér einnig rannsóknaþjónustu Matís, sem einnig ber vitni því trausti sem það hefur skapað sér á undanförnum árum. Þessa trausts njóta einnig fyrirtæki og stofnanir hér á landi sem í mörgum tilfellum eru samstarfsaðilar Matís í erlendum verkefnum. Þannig má segja að ekki aðeins njóti Matís sjálft ávinnings af verkefnaþátttöku erlendis heldur opni einnig dyr erlendis fyrir aðra innlenda aðila.

Í eðli sínu er rekstur Matís ohf. á margan hátt ólíkur hefðbundnum hlutafélögum, en hjá Matís er  markmiðið að nýta þá fjármuni sem skapast í að byggja enn frekar upp starfsemina og auka verkefnaþátttöku. Hvað bestur mælikvarði á árangur fyrirtækisins er því ekki síst sú reynsla sem byggist upp innan fyrirtækisins, fagþekking, menntunarstig starfsmanna, fjöldi rannsóknaverkefna og árangur í þeim og aðrir mælanlegir þættir. Þeir mynda svokallaða þekkingarvísitölu sem aldrei hefur mælst hærri innan Matís en nú. Sú staðreynd er enn ein sönnun þess að stjórnendur og starfsmenn eru að skila vönduðu verki.

Allt skilar áðurnefnt starf á erlendum vettvangi öflugra rannsóknarfyrirtæki í íslensku samfélagi. Fagþekking og reynsla sem skapast í erlendum verkefnum nýtist í öðrum verkefnum sem Matís vinnur að hér á landi. Á þann hátt má segja að sannist hið gamla máltæki að hver vegur að heiman er vegurinn heim.

IS