Fréttir

Skagafjörður er gæðaáfangastaður Íslands

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur verið útnefnt gæðaáfangastaður Íslands fyrir verkefni sem ber heitið Matarkistan Skagafjörður. Ferðamálastofa útnefndi Skagafjörð, en gæðaáfangastaðir eru valdir um alla Evrópu í samevrópsku verkefni en frétt þess efnis birtist í Kjarnanum fyrir stuttu.

Ein öflugasta starfsstöð Matís er einmitt í Skagafirði en Líftæknismiðja Matís er staðsett á Sauðárkróki. Starfsemi Matís í Líftæknismiðjunni er margþætt. Í fyrsta lagi hefur Matís komið upp sérhæfðri rannsóknastofu á sviði líftækni og lífefna.  Í öðru lagi starfrækir Matís tilraunaverksmiðju í vinnslusal Líftæknismiðjunnar, þar sem fyrirtækið Iceprotein ehf. hefur byggt upp starfsemi sína. Að lokum vinnur starfsfólk Matís í Líftæknismiðjunni með fyrirtækjum í Skagafirði og NV-landi að ýmsum umbóta-og hagræðingarverkefnum.

Með Líftæknismiðjunni hefur skapast rannsóknaaðstaða með tilheyrandi vinnsluaðstöðu þar sem vísindamenn og frumkvöðlar í líftækni geta þróað vörur sínar og vinnsluferla í samvinnu við Matís. Á rannsóknastofu Líftæknismiðjunnar er unnið að mælingu á lífvirkum eiginleikum lífefna úr íslenskri náttúru. Líftæknismiðjan er opin öllum landsmönnum og þar geta einstaklingar og fyrirtæki fengið aðstöðu til skemmri tíma til framleiðslu afurða. Smiðjan verður nokkurs konar klakstöð nýrra sprotafyrirtækja í líftækni og mikilvæg í styttingu ferlis frá hugmynd til markaðar. Með vali á staðsetningu Líftæknismiðjunnar er litið til nærumhverfisins sem matarkistan Skagafjörður er.

Frétt Kjarnans um Matarkistuna Skagafjörð má finna hér: http://kjarninn.is/2015/07/skagafjordur-er-gaedaafangastadur-islands-samkvaemt-ferdamalastofu/