Fréttir

Hausana í land?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Við upphaf fiskveiðiársins 2012/13 gekk i gildi reglugerð sem skyldar útgerðir vinnsluskipa til að koma með að landi hluta þeirra þorskhausa sem til falla við vinnslu í íslenskri lögsögu. Forsaga þess að reglugerðin var sett, áhrif reglugerðarinnar á landað magn þorskhausa fyrstu tvö fiskveiðiárin sem reglugerðin hefur verið í gildi og mögulegar leiðir útgerðanna til að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar, eru rakin í skýrslu sem Matís gaf nýlega út.

Í ágúst 2011 gaf Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið út reglugerð 810/2011 um nýtingu afla og aukaafurða. Í þeirri reglugerð kom fram sú nýlunda að skipum sem vinna afla um borð var gert skylt að koma með að landi þorsklifur og þorskhausa. Reglugerðin gerði ráð fyrir að frá 1. febrúar 2012 ættu skipin að koma með að landi 50% af allri þorsklifur og þorskhausum sem til falla við veiðar í íslenskri lögsögu. Frá og með 1. september 2012 stóð svo til að sömu skipum yrði skylt að koma með alla þorsklifur og þorskhausa að landi, sem til falla við veiðar í lögsögu Íslands. Reglugerð þessi mætti hins vegar töluverðri andstöðu meðal útgerðarmanna, sem töldu að markmið hennar væru tæknilega óraunhæf og efnahagslega óskynsamleg. Ráðuneytið leitaði því samráðs meðal hinna ýmsu hagsmuna- og fagaðila til að ná niðurstöðu sem allir aðilar máls gætu sæst á.

Í framhaldi af því var reglugerð 1296/2011 gefin út í desember 2011 og var þá búið að afnema með öllu kvaðir um að vinnsluskipum bæri að koma með þorsklifur í land og búið að tengja kvaðir um hlutfall þorskhausa sem bæri að koma með í land við lestarrými skipanna. Samkvæmt reglugerðinni, sem tók gildi 1. September 2012, var vinnsluskipum með nýtanlegt lestarrúmmál milli 600 og 800 m3 skylt að koma með 30% þorskhausa sem til falla við veiðar í lögsögu íslands að landi og frystitogarum með meira en 800 m3 lestarrými bar að koma með 40% af tilfallandi þorskhausum í land. Vinnsluskip með nýtanlegt lestarrúmmál undir 600 m3 voru hins vegar undanþegin þessari reglugerð. Vinnsluskipunum var gert heimilt í stað hausa, að koma með samsvarandi magn af gellum, kinnum og/eða fésum að landi eða af öðrum afurðum sem unnar eru úr hausum um borð.

Það eru ýmis vandamál í vegi fyrir því að unnt sé að koma með þorskhausa að landi hjá a.m.k. hluta frystiskipaflotans. Það er mjög takmarkað pláss á millidekki flestra skipanna og því erfitt að koma fyrir nýjum búnaði til að vinna hausa, frystigetan er takmörkuð og frystitækin henta illa til að frysta hausa, hausararnir sem notaðir eru skila hráefni sem hentar illa í frekari vinnslu, geymslupláss í frystilestum er takmarkað, vinnuálag á áhafnirnar er þegar mikið og vandkvæðum bundið að auka það fyrir þann tiltölulega takmarkaða fjárhagslega afrakstur sem er af hausavinnslu.

Það er hins vegar nokkur hluti flotans sem kemur með hluta sinna þorskhausa að landi og hefur það hlutfall verið að aukast á undanförnum árum. Í þeim tilfellum hefur útgerðin náð að aðlaga vinnsluna að nýtingu hausa án þess að það komi niður á vinnslu aðalafurðanna. Ekki verður þó með góðu móti séð að umtöluð reglugerð hafi haft umtalsverð áhrif á þessa þróun, þar sem svipuð þróun hefur verið hjá þeim skipum sem undanþegin eru reglugerðinni og þeim skipum sem reglugerðin nær til. Þarna er einfaldlega um verðmæti að ræða sem margir útgerðamenn sjá tækifæri í að sækja, burtséð frá reglugerðinni.

Helstu vandamálin sem við er að eiga þegar kemur að nýtingu á þorskhausum um borð í vinnsluskipum er plássleysi og takmörkuð frystigeta. Því eru tækifæri í að vinna hausana með það að markmiði að minnka umfangið og hirða þá aðeins verðmætustu hlutana. Nú eru sem dæmi á markaði vélar sem geta unnið verðmætustu afurðirnar úr hausunum, eins og til dæmis gellur, kinnar og klumbu. Með því að hirða þessar þrjár hausaafurðir má minnka umfang þess sem þarf að frysta og geyma í lestum um 65% og samt koma með meiri verðmæti að landi en ef hausarnir hefðu verið heilfrystir. Fyrir núverandi frystiskipaflota Íslendinga liggja tækifæri í slíkri vinnslu. Það er hins vegar mikil uppsöfnuð þörf á endurnýjun frystiskipaflotans til að takast á við nýjar kröfur og áskoranir. Þó vægi þeirra í íslenskri útgerð hafi minnkað á undanförnum árum verður alltaf þörf fyrir þessi skip í flotanum, og þá sérstaklega til að sækja á fjarlægari mið. Búast má við að við hönnun á nýjum vinnsluskipum og við breytingar á þeim gömlu verði tekið tillit til krafna um bætta nýtingu á öllu hráefni, hausum sem og öðrum hliðarafurðum. Endurnýjun frystitogaraflotans er því mikið hagsmunamál fyrir greinina og þjóðina sem eiganda auðlindarinnar.

Matís hefur fylgst náið með hausanýtingu um borð í vinnsluskipum og aðstoðað útgerðir við að leita tækifæra í bættri nýtingu á hliðarafurðum. Þegar reglugerð 810/2011 var í umsagnaferli komu sérfræðingar Matís að vinnu við að móta reglugerðina og hafa þeir í framhaldi af því komið að rannsóknum og þróun á því sviði. AVS verkefnasjóður í sjávarútvegi styrkti smáverkefni árið 2012 til að meta áhrif umtalaðrar reglugerðar. Þessu verkefni hefur verið sinnt með hléum síðastliðin þrjú ár og lauk formlega með útgáfu Matís skýrslu sem nálgast má hér. Áður hafði verkefnið stutt vinnu við meistaraverkefni Gísla Eyland í Fjármálum fyrirtækja við Háskóla Íslands. Meðal afurða verkefnis Gísla Eyland var rekstrarlíkan fyrir vinnsluskip þar sem meðal annars er unnt að bera saman arðsemi mismunandi kosta við söfnun og vinnslu hausa um borð. Rekstrarlíkan þetta má nálgast hér. Verkefni Gísla Eyland var jafnframt kynnt á TAFT 2012 (Trans‐Atlantic Fisheries Technology Conference) með veggspjaldi sem vakti töluverða athygli.

AVS verkefnasjóð í sjávarútvegir eru færðar þakkir fyrir að styrkja verkefnið.

Frekari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.