Skýrslur

Comparison of cooling techniques – Their efficiency during cooling their effect on microbial and chemical spoilage indicators

Útgefið:

01/10/2010

Höfundar:

Lárus Þorvaldsson, Hélène L. Lauzon, Björn Margeirsson, Emilía Martinsdóttir, Sigurjón Arason

Styrkt af:

EU (contract FP6‐016333‐2) Chill‐on

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Comparison of cooling techniques – Their efficiency during cooling their effect on microbial and chemical spoilage indicators

Markmið tilraunanna var að rannsaka áhrif mismunandi ístegunda við niðurkælingu og geymslu á heilum, slægðum fiski á hita‐  og skemmdarferla. Þrjár ístegundir voru notaðar: hefðbundinn mulinn plötuís („flöguís“) (nefndur PI hér) auk tveggja gerða ískrapa (vökvaíss) framleiddum í þar til gerðum ískrapavélum (nefndar LIA og LIB hér) með mismunandi salt‐ og íshlutfall ískrapa. Niðurstöður hitamælinga sýndu fram á mun hraðari niðurkælingu með ískrapa en hefðbundnum flöguís. Þá reyndist niðurkæling nokkru hraðari með annarri tegund ískrapa (LIB) en hinnar (LIA) því hiti ýsu kæld í LIB fór úr 7.5 °C niður fyrir 0 °C á 20 – 30 mín miðað við um 55 – 60 mín í LIA. Samsvarandi tími fyrir hefðbundinn flöguís var um 260 mín. Munurinn á kælitíma í LIA og LIB má að hluta til skýra með 10% þyngri fiskum í LIA hópnum.   Niðurkæling heillar ýsu úr 10 °C og 20 °C gaf sambærilegar niðurstöður og niðurkæling úr 7.5 °C. Kælitími úr 10 °C niður í 4 °C var 24 mín fyrir LIB hópinn og 36 mín fyrir LIA hópinn. Sambærilegur kælitími úr 20 °C í 4 °C var 46 mín fyrir LIB samanborið við 55 mín fyrir LIA. Niðurstöður örverumælinga með ræktanlegum aðferðum sýndu að lítill vöxtur sérhæfðra skemmdarörvera (SSÖ) á ýsuroði átti sér stað snemma á geymslutímanum, óháð kælingaraðferð. Með frekari geymslu var örveruvöxtur svipaður milli kælihópanna með ísyfirlag efst í kerinu. Sambærilega örveruvaxtarþróun var að sjá í holdi þar til á 8. degi mældist marktækur hærri fjöldi Photobacterium phosphoreum og H2S‐ myndandi baktería í LIB‐kældum fiski. Það er athyglisvert að nefna að þau mismunandi hitastigsprófíl sem mældust meðal kælihópanna endurspegluðu ekki örveruvaxtarþróun sem átti sér stað. Raunar virtist skemmdargeta SSÖ ekki vera minni við köldustu aðstæðum þegar geymslutíminn leið, því marktækt hærra magn TVB‐N og TMA mældist í fiskum sem fengu ískrapa meðferð samanborið við hefðbundna ísgeymslu. Hugsanlegt er að þau skilyrði sem skapast við þessar vatnsmeiri og saltaðar aðstæður við notkun ískrapa eru óæskileg og leiða til hraðara skemmdarferlis en gerist við ísaðar aðstæður.

The aim of study was to investigate the effects of different ice media during cooling and storage of whole, gutted whitefish on temperature control and spoilage indicators. The thermodynamic, microbial and chemical properties of whole, gutted haddock were examined with respect to the cooling medium in which it was stored. Three basic types of cooling medium were used: traditional crushed plate ice (PI+PI) and two types of commercially available liquid (slurry) ice, here denoted as LIA and LIB. The ice types were furthermore divided into five groups with different salinity and ice concentration.   Microbiological analysis by cultivation methods revealed that growth of some specific spoilage organisms (SSO) on fish skin was delayed at early storage, independently of the cooling methods. With further storage, little or no difference in counts was seen among traditionally iced fish and those cooled in liquid ice for 2 h before draining and top layer icing. Even less difference was observed in the flesh microbiota developing until significant growth increase in Photobacterium phosphoreum and H2S‐producing bacteria was seen on day 8 in LIB cooled fish. Interestingly the differences obtained in the temperature profiles of fish cooled differently were not supported by different bacterial growth behaviour. In fact, SSO spoilage potential was not reduced in the coolest treatments as time progressed, as demonstrated on day 8 by the significantly higher TVB‐N and TMA content of fish cooled in liquid ice compared to traditional icing. Conditions created by liquid ice environment (salt uptake of flesh) may have been unfavourable, causing an even faster fish deterioration process with increasing storage time compared to traditional ice storage. Evaluation of the thermodynamic properties showed that LIB gave slightly faster cooling than LIA. For haddock stored in LIB the flesh reached 0 °C in 20‐30 min, but it took 57 min in LIA and around 260 min in crushed plate ice (PI). The difference in the cooling rate of LIA and LIB might, apart from the physical properties of the ice, partially be explained by the fish weight, being on average 10% more in the LIA group.   The additional cooling rate experiments where whole, gutted haddock was cooled down from 20 °C and 10 °C gave similar results. When cooled down from 20 °C the haddock reached 4 °C in 46 min when chilled in LIB while the same process in LIA required 55 min. Similar difference was seen when the material was cooled down from 10 °C, where fish chilled in LIB reached 4 °C in 24 min and fish chilled in LIA reached 4 °C in 36 min.

Skoða skýrslu

Fréttir

Matís fundar á Vestfjörðum

Í vikunni munu nokkrir starfsmenn Matís halda til Vestfjarða og funda um tækifæri sem nú eru í matvælaiðnaði á svæðinu.

Matís rekur starfsstöð á Ísafirði. Megináhersla í starfsemi Matís á Vestfjörðum er þróun vinnsluferla í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu, almenn tækniráðgjöf fyrir viðskiptavini Matís í formi hönnunar og tæknivinnu. Einnig er lögð áhersla á fiskeldi, einkum þorskeldi í sjó, og þar fer einnig fram öflugt rannsókna- og þróunarstarf í góðu samstarfi við fyrirtæki á svæðinu.

Mikil forsenda er til staðar á þessu svæði til að horfa auk þess til annarra þátta og efla þá enn frekar. Smáframleiðsla matvæla er einn þáttur sem efla má. Matís hefur nú um allnokkurt skeið starfrækt Matarsmiðju á Höfn í Hornafirði þar sem notendur læra rétt vinnubrögð frá upphafi. Með aðstöðunni í Matarsmiðjunni á Hornafirði gefst einstakt tækifæri til nýsköpunar í smáframleiðslu matvæla. Nú þegar er fjöldi verkefna komin í gang í Matarsmiðjunni og koma frumkvöðlar m.a. úr Reykjavík til vöruþróunar og smáframleiðslu (nánar um Matarsmiðjuna hér).

Aðrir þættir svosem bætt nýting á fersku sjávarfangi og lífefnavinnsla úr hráefni sem annars myndi ekki nýtast, t.d. afskurður í fiskvinnslum. Markaður með heilsuvörur með lífvirkum efnum er geysistór og veltir hundruðum milljarða á ári á heimsvísu og því er eftir miklu að slægjast í þessum efnum.

Fundurinn fer fram í fundarsal Þróunarsetursins, Árnagötu 2-4 á Ísafirði, þriðjudaginn 5. október kl. 20. Fundarstjórn verður í höndum Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra á Ísafirði.

Fundurinn er öllum opinn og er fólk hvatt til þess að mæta.

Dagskrána á pdf formi má finna hér.

Fréttir

Matvæladagur MNÍ, 27. október 2010

Yfirskrift ráðstefnunnar í ár verður Eru upplýsingar um næringu og fæðubótarefni á villigötum?

Með þessari fréttatilkynningu vill undirbúningsnefnd Matvæladags MNÍ 2010, sem haldinn verður miðvikudaginn 27. október á Hilton Reykjavík Nordica Hóteli minna fjölmiðla og aðra er málið varðar á MNÍ daginn og hvetja til góðra skrifa og virks fréttaflutnings um það mikilvæga málefni sem verður til umfjöllunar.

Neysluvenjur íslensku þjóðarinnar í heild skipta okkur öll miklu máli með sín beinu áhrif á heilsu og ýmsa lífsstílstengda sjúkdóma. Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ, www.mni.is) vill leggja sitt af mörkum með því að helga árlega ráðstefnu félagsins, Matvæladag MNÍ, umfjöllun um næringu og fæðubótarefni. Mikilvægi réttrar miðlunar upplýsinga um næringu og fæðubótarefni og vísindalegs bakgrunns þeirra er megin inntak dagsins enda geta rangar upplýsingar um næringu haft skaðleg áhrif á heilsu fólks.

Yfirskrift ráðstefnunnar í ár verður „Eru upplýsingar um næringu og fæðubótarefni á villigötum?“

Á ráðstefnunni fjalla íslenskir sérfræðingar á faglegan hátt um ýmsar staðreyndir varðandi næringu og fæðubótarefni út frá gagnreyndri þekkingu. Fjallað verður um túlkun rannsókna, og hvers vegna stakar rannsóknir, sem jafnvel ganga gegn viðtekinni vísindalegri þekkingu, eiga oft greiðari aðgang að fjölmiðlum en aðrar rannsóknir. Einnig verður fjallað um hvernig upplýsingar til almennings geta verið villandi og leiði oft til misskilnings sem erfitt er að bera til baka. Fjallað verður um gildi ýmissa fæðubótarefna, náttúrulyfja og náttúruefna og hvort neysla þeirra sé í raun og veru heilsusamleg, hverjir eigi helst á hættu að verða fyrir heilsuskaða vegna neyslu fæðubótarefna og hvaða þjóðfélagshópar geti notið góðs af þeim. Einnig verður rætt um eftirlit með fæðubótarefnum, sterk áhrif fjölmiðla og markaðsafla, og um tengsl heilsu og heilsufullyrðinga.

MNÍ vonast til þess að Matvæladagurinn verði upplýsandi fyrir almenning,  heilbrigðisstarfsfólk sem og hvern þann sem kemur að ráðgjöf um mataræði, næringu og heilsu.

Fjöregg MNÍ 
Í tengslum við Matvæladaginn er Fjöregg MNÍ afhent. Fjöreggið er veglegur eignargripur, veittur fyrir lofsvert framtak á sviði matvælaframleiðslu og manneldis. Gripurinn er hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá árinu 1993 verið gefinn af Samtökum iðnaðarins.

Sú nýbreytni verður reynd í ár að einstaklingum sem unnið hafa rannsóknir á sviði næringar, náttúrulyfja, náttúruefna og fæðubótarefna er boðið að kynna niðurstöður sínar á veggspjöldum. Einnig er áhugasömum fyrirtækjum í matvæla-, fæðubótar-, náttúrulyfja- og náttúruefnageiranum boðið að kynna vörur sínar á kynningarbási í kaffihléum gegn vægu gjaldi.

Matvæladagur MNÍ hefur frá fyrstu tíð fengið góðar undirtektir frá aðilum sem starfa við manneldismál, kennslu- og fræðslumál, matvælaframleiðslu og matvælaeftirlit. Í ár væntum við þess að höfða til enn breiðari hóps vegna mikillar heilsuvakningar og áhuga almennings á ýmsum heilsuvörum og fæðubótarefnum. Dagskráin stendur frá kl. 12:00-17:30. Hér má sjá dagskránna.

SKRÁNING

Nánari upplýsingar veitir Fríða Rún Þórðardóttir, 898-8798, frida[at]lsh.is
– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands
Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands er fagfélag matvælafræðinga, næringarfræðinga, næringarráðgjafa og annarra stétta með háskólapróf í skyldum greinum. Markmið félagsins er m.a. að stuðla að þróun í matvælafyrirtækjum og efla samstarf við þau, stuðla að aukinni menntun og eflingu vísindalegra rannsókna á sviði matvæla- og næringarfræða, vinna að umbótum í manneldismálum þjóðarinnar og leitast við að hafa áhrif á löggjöf varðandi fagsvið félagsins. Heimasíða félagsins, www.mni.is, er uppfærð reglulega og þar er að finna atburðadagatal, fréttir og ýmsan fróðleik, m.a. greinar sem félagsmenn hafa skrifað í fjölmiðla og erindi frá ráðstefnum félagsins undanfarin ár. Einnig er gefið út tímaritið Matur er mannsins megin með ítarlegri umfjöllun um matvæli, næringu og efni Matvæladagsins ár hvert. Tímaritinu hefur verið dreift um allt land með Morgunblaðinu og mun svo einnig verða í ár.

Umfjöllunarefni fyrri Matvæladaga MNÍ

1993   Matvælaframleiðsla – Gæði  
1994   Matvælaiðnaður og manneldi  
1995   Menntun fyrir matvælaiðnað  
1996   Vöruþróun og verðmæta-sköpun  
1997   Matvæli á nýrri öld   
1998   Matur og umhverfi       
1999   Offita   
2000   Örugg matvæli       
2001   Matur og pólitík   2009   Íslensk matvælaframleiðsla og gjaldeyrissköpun
2002   Matvælaeftirlit
2003   Neysluþróun
2004   Rannsóknir
2005   Stóreldhús og mötuneyti
2006   Öflugur matvælaiðnaður í stöðugri framþróun
2007   Hverjir bera ábyrgð á og hafa áhrif á fæðuval og næringarástand þjóðarinnar?
2008   Íslenskar matarhefðir og héraðskrásir

Fréttir

Umhverfismengun á Íslandi – vöktun og rannsóknir

Fyrsta ráðstefna um umhverfismengun á Íslandi verður haldin föstudaginn 25. febrúar 2011 í nágrenni Reykjavíkur.

Markmiðið með ráðstefnunni er að kynna vinnu og niðurstöður helstu aðila sem vinna við að meta mengun á Íslandi.  Áhersla verður lögð á að allir vöktunar- og rannsóknaraðilar komi með framlag á ráðstefnuna.

Ráðstefnunni er skipt í tvo hluta.  Fyrir hádegi verður lögð áhersla á vöktun umhverfismengunar í íslenskri náttúru.  Síðan að loknum hádegisverði verða kynningar á rannsóknum á mengun í lofti, legi, jarðvegi, mönnum og dýrum.  Fyrirkomulag ráðstefnunnar er sú að í hverjum hluta verða valin nokkur erindi frá innsendum ágripum þar sem höfðu áhersla verður vöktun annars vegar og rannsóknir hins vegar. Þessi erindi veita yfirsýn yfir stöðu máli á Íslandi í dag. Einnig verður rík áhersla á veggspjöld þar sem rannsóknaraðilum gefst kostur á að kynna sín verkefni.  Ráðstefnugestum gefst færi á að kynna sér þau fjölbreyttu vöktunar- og rannsóknaverkefnum á þessum veggspjöldum og ræða persónulega við rannsakendur um þau verkefni í kaffihléum og veggspjaldakynningum. 

Lokafrestur til skila á ágripum er 1. desember 2010 á umhverfi@matis.is. Drög að dagskrá má finna hér.

Skipulagsnefnd svarar fyrirspurnum
Gunnar Steinn Jónsson Umhverfisstofnun, gunnar@ust.is
Hrönn Ólína Jörundsdóttir Matís, hronn.o.jorundsdottir@matis.is
Taru Lehtinen HÍ, tmk2@hi.is

Vísindanefnd
Hrund Ólöf Andradóttir, HÍ
Taru Lehtinen, HÍ
Kristín Ólafsdóttir, HÍ
Gunnar Steinn Jónsson, Umhverfisstofnun (UST)
Hermann Sveinbjörnsson, Umhverfisráðuneytið
Anna Kristín Daníelsdóttir, Matís
Helga Gunnlaugsdóttir, Matís
Hrönn Jörundsdóttir, Matís

Fréttir

Vísindin lifna við á Vísindavöku

Vísindavaka 2010 verður haldin í dag, föstudaginn 24. september, í Listasafni Reykjavíkur frá kl. 17 til kl. 22. Matís er þátttakandi á vísindavökunni og reikna má með fjölmenni í heimsókn.

Dagurinn er tileinkaður evrópskum vísindamönnum og haldinn hátíðlegur í helstu borgum Evrópu. Markmiðið með Vísindavöku og atburðum henni tengdum er að færa vísindin nær almenningi, kynna fólkið á bak við rannsóknirnar og vekja almenning til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamélagi. Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi.

Sprengjugengið og fleiri mæta!

Á Vísindavöku er fullt af fróðleik fyrir fólk á öllum aldri og í ár verður boðið upp á atriði á sviði og má þar nefna Sprengjugengið sem mætir á svæðið. Á Vísindavöku kynnir vísindafólk frá háskólum, stofnunum og fyrirtækjum rannsóknarverkefni fyrir almenningi á lifandi og skemmtilegan hátt. Gestir fá að skoða og prófa ýmis tæki og tól sem notuð eru við rannsóknir, skoða afurðir verkefna og spjalla við vísindafólkið sjálft um hvernig er að starfa að vísindum, rannsóknum og nýsköpun. Fjölskyldan er í fyrirrúmi á Vísindavöku og gefst þar kjörið tækifæri til að kynna heim vísinda og tækni fyrir börnum og unglingum, en ungt fólk er sérstaklega velkomið á Vísindavöku.

Vonandi sjá sem flestir sér fært að kíkja á Listasafn Reykjavíkur og spjalla við vísindamenn og skoða það sem fyrir augu ber á Vísindavöku. Enginn aðgangseyrir er og allir eru velkomnir. Hér má finna yfirlit yfir dagskrá og þátttakendur.

Fréttir

Lokið við að samræma gagnagrunna um efnainnihald matvæla í 25 Evrópulöndum

Matís hefur tekið þátt í evrópska öndvegisverkefninu EuroFIR (e. European Food Information Resource) um efnainnihald matvæla en verkefninu lauk nú í sumar.

Það stóð í fimm ár og var fjármagnað af 6. rammaáætlun Evrópusambandsins og þátttakendum. Að verkefninu stóðu 49 fyrirtæki, háskólar og stofnanir frá 27 Evrópulöndum og var stjórnun verkefnisins hjá Institute of Food Research í Norwich í Bretlandi.

Meginmarkmið verkefnisins var að samræma og staðla vinnu við evrópska gagnagrunna um efnainnihald matvæla. Margvísleg verkfæri voru þróuð til þess að ná þessu markmiði. Nefna má staðal um framsetningu gagna, gæðamatskerfi fyrir gögn um efnainnihald matvæla, LanguaL-kerfið til að skilgreina fæðutegundir og kóðunarkerfi til að lýsa gögnunum.

Meðal viðfangsefna í verkefninu var birting gagna um efnainnihald matvæla á vefsíðum þátttakenda. Matís var meðal hinna fyrstu sem birti gögnin en það var gert árið 2007. Frá þeim tíma hefur verið hægt að leita í hluta ÍSGEM-grunnsins á www.matis.is undir Fræðsluvefir – Næringargildi matvæla. Í verkefninu voru þróuð vefforrit (vefþjónustur) til að leita að skilgreindum gögnum í hinum ýmsu gagnagrunnum. Ef okkur t.d. vantaði gildi fyrir B2-vítamín í sölvum var hægt að leita hjá hinum þátttakendunum og fá gildi ásamt margvíslegum kóðuðum upplýsingum.

Í verkefninu tókst að samræma gagnagrunna um efnainnihald matvæla í 25 Evrópulöndum og er íslenski gagnagrunnurinn (ÍSGEM) þar á meðal en Matís sér um rekstur hans. Nýtt skráningarkerfi var tekið í notkun fyrir ÍSGEM-gagnagrunninn árið 2009 og var það hannað í samræmi við nýjar kröfur EuroFIR verkefnisins. Samræming gagnagrunna auðveldar mikið flutning gagna milli landa. Fjöldi vörumerkja fyrir matvæli á Vesturlöndum skiptir nú tugum þúsunda og stöðugt bætast við nýjar vörur. Of kostnaðarsamt er að efnagreina allar þessar vörur og því er mikilvægt að geta fengið skilgreind gögn frá öðrum löndum.

Í verkefninu var byggður upp sérhæfður gagnagrunnur um lífvirk efni í plöntum. Gæði gagnanna voru metin og skráðar upplýsingar um styrk efnanna og lífvirkni þeirra. Hefðbundin matvæli voru til skoðunar í sérstökum verkhluta. Framleiðsla þeirra var skrásett og valin matvæli voru síðan efnagreind. Íslensku matvælin voru skyr, hangikjöt, súrsaður blóðmör, kæstur hákarl og harðfiskur.

Gagnagrunnar um efnainnihald matvæla eru í stöðugri þróun vegna nýrra þarfa heilbrigðisgeirans, atvinnulífs og almennings. Gagnagrunnana þarf stöðugt að uppfæra enda breytist efnasamsetning matvæla m.a. með breyttum uppskriftum og umhverfisþáttum.

Til að umgjörðin um samræmda evrópska gagnagrunna gæti haldið áfram að þróast var stofnað alþjóðlegt félag með aðsetur í Belgíu (EuroFIR-AISBL). Hlutverk félagsins er að miðla sérfræðiþekkingu og starfrækja upplýsinganet fyrir þátttakendur í félaginu. Félagið hefur m.a. tekið við rekstri gagnagrunns fyrir lífvirk efni og rekstri vefleita fyrir evrópsku gagnagrunnana. Nánari upplýsingar um EuroFIR verkefnið eru á www.eurofir.eu og hjá Ólafi Reykdal starfsmanni Matís.

Fréttir

Aukinn afrakstur með aukinni menntun

Rannsóknir eru nauðsynlegar fyrir nýsköpun segir Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís.

Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís og prófessor við Háskóla Íslands, sagði við upphaf ráðstefnunar framþróun og nýsköpun í sjávarútvegi ekki tryggða nema með öflugri rannsókna- og þróunarstarfi.

Viðtal við Sjöfn birtist í Útvegsblaðinu fyrir stuttu og má finna hér.

Fréttir

Doktorsvörn í líffræði: Erfðabreytingar á bakteríunni Rhodothermus marinus

Mánudaginn 27. september mun starfsmaður Matís, Snædís Huld Björnsdóttir, verja doktorsritgerð sína „Erfðabreytingar á bakteríunni Rhodothermus marinus“ (e. Genetic engineering of Rhodothermus marinus).

Leiðbeinendur voru Guðmundur Eggertsson prófessor emerítus og Ólafur S. Andrésson prófessor. Auk þerra sátu í doktorsnefnd Dr. Jakob K. Kristjánsson forstjóri Arkea, Sigríður H. Þorbjarnardóttir sérfræðingur á Líffræðistofnun og Dr. Ólafur H. Friðjónsson, verkefnastjóri hjá Matís. 

Andmælendur eru Daniel Prieur, prófessor við Université de Bretagne Occidentale í Brest, Frakklandi og Dr. Valgerður Andrésdóttir, vísindamaður á Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.

Snædís er fædd árið 1973. Hún hefur starfað á Líffræðistofnun, hjá Prokaria og sem sérfræðingur á Líftækni- og lífefnasviði Matís frá 2007. Rannsókn Snædísar beindist að þróun aðferða til að erfðabreyta hitakæru bakteríunni Rhodothermus marinus. Eiginmaður Snædísar er Ægir Þór Þórsson, garðyrkjuráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands. 

Varaforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar, Karl Benediktsson prófessor, stýrir athöfninni sem fer fram á Hátíðarsal Aðalbyggingar og hefst kl. 13:00.

Ágrip
Rhodothermus marinus er loftháð, hitakær baktería sem var fyrst einangruð úr neðansjávarhverum við Ísafjarðardjúp.  Tegundin er áhugaverð, m.a. vegna stöðu hennar í flokkunarkerfi baktería og vegna aðlögunar hennar að náttúrulegu umhverfi sínu.  Að auki framleiðir R. marinus mikið safn hitaþolinna ensíma sem geta nýst í iðnaði.  Þar á meðal eru ensím sem brjóta niður fjölsykrur og lífmassa.  Hér er annarri Rhodothermus tegund lýst.  Hún var einangruð af 2634 m dýpi í Kyrrahafinu og hlaut nafnið R. profundi. 

Aðalmarkmið þessa verkefnis var þróun aðferða til að erfðabreyta R. marinus.  Aðferð var fundin til að flytja framandi erfðaefni inn í bakteríuna.  Tvö valgen voru notuð, trpB og purA, en þau skrá fyrir ensímum sem taka þátt í nýmyndun tryptofans og adeníns.  R. marinus stofn sem virtist ekki búa yfir skerðivirkni var valinn fyrir upptöku erfðaefnis.  Bæði trpB og purA voru felld úr litningi móttökustofnsins og því má velja fyrir uppbót beggja.  Úrfellingarnar koma í veg fyrir endurröðun milli valgenanna og litningsins og myndun sjáfkrafa Trp+ og Ade+ viðsnúninga. 

Lítið dulplasmíð, pRM21, var einangrað úr R. marinus og raðgreint.  Það samanstendur af 2935 basapörum og stærsti lesrammi þess skráir fyrir próteini sem sýnir samsvörun við eftirmyndunarprótein stórra plasmíða af fjölskyldu IncW.  Plasmíðið var nýtt við tilraunir til upptöku erfðaefnis.  Góð ummyndun fékkst með því að rafgata bakteríuna.  Plasmíðið var einnig notað sem grunnur fyrir smíð skutluferja sem eftirmyndast bæði í R. marinus og Escherichia coli.  Ferjur voru smíðaðar fyrir tjáningu framandi gena í R. marinus og aukin próteinframleiðsla fékkst með því að nota hitavirkar stjórnraðir.  Einnig voru fundin vísigen sem gera kleift að rannsaka tjáningu R. marinus og stýrla hennar.

Þróaðar voru aðferðir til óvirkjunar gena í erfðamengi R. marinus, bæði með tilviljanakenndum og markvissum stökkbreytingum.  Gen voru felld úr litningi bakteríunnar án þess að framandi raðir væru skildar eftir.  Einnig tókst að skipta litningsgenum út fyrir valgen með tvöfaldri endurröðun við línulegar sameindir.  Framköllun breytinga á erfðaefni R. marinus opnar möguleika á rannsóknum á eiginleikum hennar sem og hagnýtingu.  Slíkar aðferðir eru jafnvel enn mikilvægari nú en áður þar sem raðgreining erfðamengis R. marinus var nýlega birt.

Hefst: 27/09/2010 – 13:00
Staðsetning: Aðalbygging
Nánari staðsetning: Hátíðarsalur

Fréttir

Lengra geymsluþol á forkældum ferskum þorskhnökkum með endurbættum frauðkassa

Í nýútkominni skýrslu Matís er fjallað um geymsluþolstilraun á forkældum, ferskum þorskhnökkum. 

Tilraunin fór fram í mars 2010 sem liður í Evrópuverkefninu Chill on (EU FP6-016333-2) og íslenska verkefninu Hermun kæliferla, sem styrkt er af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi, Tækniþróunarsjóði Rannís og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. 

Markmið tilraunanna var m.a. að rannsaka hve vel tvær tegundir frauðkassa verja þorskhnakkastykki fyrir dæmigerðu hitaálagi í flugflutningskeðju frá framleiðanda á norðanverðu Íslandi til kaupanda í Evrópu.  Notast var við hitamælingar, skynmat, efna- og örverumælingar til að bera frauðkassana saman  og  kanna mikilvægi staðsetningar flakabita innan kassa (horn og miðja).

Nýi frauðkassinn, sem hannaður var með FLUENT varmaflutningslíkani, reyndist betri en eldri kassinn með tilliti til varmaeinangrunar.  Hitaálagið á fyrsta degi tilraunarinnar olli því að hæsti vöruhiti í hornum hækkaði í 5.4 °C í eldri gerðinni en einungis í 4.5 °C í þeirri nýju. Munur milli hæsta vöruhita í miðjum og hornum kassa var um 2 til 3 °C. 

Með skynmati var sýnt fram á að geymsla í nýja frauðkassanum leiddi til tveggja til þriggja daga lengra ferskleikatímabils og eins til tveggja daga lengra geymsluþols m.v. geymslu í eldri frauðkassanum. 

Staðsetning innan kassa (horn og miðja) hafði ekki marktæk áhrif á niðurstöður skynmats og var einungis um lítinn mun að ræða milli staðsetninga í mælingum á TVB-N og TMA.

Promens Tempra ehf. (http://www.tempra.is) hefur þegar hafið framleiðslu á nýja frauðkassanum.   

Skýrsluna er að finna hér: http://www.matis.is/media/matis/utgafa/29-10-Effect-of-improved-design-of-wholesale.pdf

Nánari upplýsingar veitir Björn Margeirsson, vélaverkfræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands og Matís (bjornm@matis.is). 

Fréttir

Sjóflutningur er raunhæfur möguleiki fyrir íslenska ferskfiskframleiðendur

Geymsluþol þorskhnakka í flug- og sjóflutningi. Í mars 2010 var framkvæmd geymsluþolstilraun, sem miðaði m.a. að því að bera saman geymsluþol forkældra, ferskra þorskhnakka í flug- og sjóflutningi frá Íslandi til meginlands Evrópu.

Tilraunin var gerð undir hatti Evrópuverkefnisins Chill on (http://www.chill-on.com) og íslenska rannsóknarverkefnisins Hermun kæliferla, sem stutt er af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi, Tækniþróunarsjóði Rannís og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, sjá nánar hér: http://www.matis.is/verkefni/nr/2801.  

Tekið var mið af fyrirliggjandi niðurstöðum hitakortlagningar kælikeðja þegar hitaferlar fyrir flug- og sjóflutning voru hannaðir í undirbúningi tilraunarinnar. Hitastýrðir kæliklefar Matís og Háskóla Íslands komu að góðum notum eins og svo oft áður í þess konar tilraunum. Eftir flutning frá framleiðanda á norðanverðu Íslandi til Matís í Reykjavík varð flugfiskurinn fyrir tveimur tiltölulega vægum hitasveiflum (um 9 °C í 9 klst. og um 13 °C í 4 klst. nokkrum klst. síðar) og við tók nokkurra daga geymsla við 1 °C. Gámafiskurinn var aftur á móti geymdur við -1 °C, sem er raunhæfur möguleiki við gámaflutninga með skipum, frá komu til Matís í Reykjavík.  Vert er að geta þess að hitaálag í flugflutningi getur orðið umtalsvert meira en fyrrgreindur flughitaferill segir til um skv. mælingum Matís. 

Notast var við hitamælingar, skynmat, efna- og örverumælingar til að bera flutningsmátana tvo saman. 

Hermun flug- og sjóflutnings (hitasveiflur og stöðugur hiti) leiddi í ljós að fyrir vel forkælda þorskhnakka má vænta um fjögurra daga lengra ferskleikatímabils og um fimm daga lengra geymsluþols í vel hitastýrðum sjóflutningi miðað við dæmigerðan flugflutningsferil. Þar sem sjóflutningur frá Íslandi tekur oft um fjórum til fimm dögum lengri tíma en flugflutningur (háð m.a. vikudegi og staðsetningu vinnslunnar) sýnir þetta að sjóflutningur er raunhæfur möguleiki fyrir íslenska ferskfiskframleiðendur.  Þetta byggir þó á því að hitastýring í gámum sé eins og best verður á kosið. Samanburður á hitastýringu í mismunandi gámategundum er einmitt eitt af viðfangsefnum verkefnisins Hermunar kæliferla. 

Skýrsluna má nálgast hér: http://www.matis.is/media/matis/utgafa/29-10-Effect-of-improved-design-of-wholesale.pdf og veitir Björn Margeirsson (bjornm@matis.is) nánari upplýsingar. 

IS