Fréttir

Matarsmiðjan

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Einn þeirra frumkvöðla sem unnið hefur að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni er Eva Rún Jensdóttir hjá Cooking Harmony  

Fyrirtækið Cooking Harmony stofnaði Eva Rún, ásamt dóttur sinni, utan um framleiðslu sína á glúten- og laktósafríu bakkelsi og matvörum árið 2016. Hún var þó enginn nýgræðingur í því að elda og baka án þessara innihaldsefna. Hún hafði um langt skeið unnið markvisst að því að finna lausn við veikindum og ofnæmisviðbrögðum sem dóttir hennar fann fyrir. Hún var falin í bættu mataræði. Með bakgrunn í rekstri sá hún tækifæri í framleiðslu á bakkelsinu og matnum sem hún bjó til handa dóttur sinni og fjölskyldu, fyrst að fólk úr ýmsum áttum hafði áhuga á því að geta með einföldum hætti fengið góðan glúten- og laktósafrían mat. Eva nýtti sér ráðgjöf og aðstöðu í tilraunaeldhúsi Matís til að byrja með og færði framleiðsluna síðan yfir í eigið húsnæði.

Fyrst um sinn framleiddi hún aðallega bakkelsi sem var svo selt í stórum stíl í ýmsum bakaríum og á kaffihúsum. Margir kjósa sér glúten- og laktosafríar matvörur fram yfir annað af fúsum og frjálsum vilja en aðrir gera það samkvæmt læknisráði, til dæmis vegna fæðuóþols. Vörurnar frá Cooking Harmony gefa þó hinum „hefðbundnu“ og „venjulegu“ vörum ekkert eftir þegar kemur að bragði, áferð og gæðum. Allar vörur eru framleiddar á staðnum og unnar frá grunni úr hágæða hráefni til að tryggja að þær standist samanburðinn. Sem dæmi má nefna að þau framleiða sitt eigið smjör til að ná fram réttu bragði í krem á kökur og þegar gerðar eru karamellur og þess háttar góðgæti.

Eftir því sem vinsældir glúten- og laktósafrírra vara hafa aukist hefur Eva fært út kvíarnar um leið. Hún selur vörurnar sínar nú í ýmsum verslunum og það er hægt að kaupa brauð og bollur, tertur og smákökur frá Cooking Harmony víða. Nýlega opnaði hún veitingastað og kaffihús í Bæjarhrauni í Hafnarfirði auk þess sem hún er með veisluþjónustu þar sem boðið er upp á fjölbreytt veisluföng fyrir öll tilefni sem einnig eru, glúten-, laktósafrí og sumt er alveg mjólkurlaust og/eða vegan.

Nánari upplýsingar um Cooking Harmony má meðal annars finna á vefsíðu þeirra.  

IS