Fréttir

Matarsmiðjan á Flúðum – samningar undirritaðir

Síðustu misseri hefur verið unnið að undirbúningi þess að setja á laggirnar matarsmiðju í uppsveitum Árnessýslu sem verður miðstöð fyrir vöruþróun og fullvinnslu á grænmeti og til að efla fag- og háskólamenntun á svæðinu með kennslu og rannsóknum.

Á Flúðum munu Matís leigja húsnæði að Iðjuslóð 2 fyrir matarsmiðjuna og er reksturinn tryggður með samstarfi Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, Háskólafélags Suðurlands, Hrunamannahrepps, Bláskógarbyggð, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps, garðyrkjumanna, Matís og Háskóla Íslands. Samningur þessa efnis var undirritaður nú nýverið.

Meginmarkmið verkefnisins er að byggja upp þróunarsetur fyrir smáframleiðslu matvæla, þ.e.a.s  koma á smáframleiðslu, vöruþróun og rannsóknum á afurðum úr ylrækt á svæðinu og skapa þannig ný og áhugaverð tækifæri á Flúðum og nágrenni en ekki síður að skapa mikilvægan vettvang fyrir frumkvöðla og smáframleiðendur að fullvinna vörur sínar til markaðssetningar.

Vaxtarsamningur Suðurlands veitti styrki til  undirbúnings og uppbyggingu matarsmiðjunnar.

Sérstakt verkefni til þriggja er um starfsemi og rekstur matarsmiðjunnar á Flúðum. Samstarfsaðilar munu í sameiningu vinna að því að tryggja framgang verkefnisins svo hægt verði að nýta aðstöðuna til þróunarstarfs, kennslu, námskeiðahalds og tilraunastarfsemi.

Undirskrift_1-3.9.2010
Úlvar Harðarsson afhendir hér Herði G. Kristinssyni hjá Matís lykilinn að Matarsmiðjunni.
Undirskrift_2-3.9.2010
Frá vinstri Ingibjörg Harðardóttir sveitastj. Grímsn. og Grafningshr., Gunnar Marteinss.
oddv. Skeiða -og Gnúpvhr., Hörður G. Kristinsson frá Matís, Drífa Kristjánsd. oddv.
Bláskógabyggðar og Ragnar Magnússon oddv. Hrunamannahr.

Á næstunni mun starfsmaður verða ráðinn í starf í smiðjuna. Matís leggur mikið upp úr starfsemi sinni utan höfuðborgarsvæðisins og upp úr samstarfi við fyrirtæki og hagsmunaaðila um allt land en fyrirtækið rekur m.a. starfstöðvar á sex stöðum utan Reykjavíkur.

Nánari upplýsingar veita Guðjón Þorkelsson og Hörður G. Kristinsson hjá Matís.Á meðfylgjandi myndum má sjá þegar samningar voru undirritaðir.

Fréttir

Ný skýrsla Matís – mengun þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum

Mengun þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, eins og fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið (AMSUM 2009).

Styrkur kadmíns í íslenskum kræklingi er hinsvegar hærri en almennt gerist í kræklingi frá hafsvæðum Evrópu og Ameríku.

Frá árinu 1989 hefur verið í gangi árlegt vöktunarverkefni á mengunarefnum í lífríki hafsins við Ísland. Verkefnið er fjármagnað af umhverfisráðuneytinu, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Matís ohf. Umhverfisstofnun  umsýsluaðili verkefnisins.

Ýmis mengandi efni í hafinu geta borist í sjávarlífverur eða lífverur sem nærast á sjávarfangi. Í mörgum tilfellum stafar þessi mengun af mannavöldum og eru vaxandi áhyggjur af þeirri þróun. Mengandi efni berast með loft- og sjávarstraumum frá meginlandi Evrópu og Ameríku auk mengunar frá Íslandi. Það er því mikilvægt að fylgjast með magni mengandi efna hér við land, bæði í umhverfi og lífverum sem lifa við landið. Þá er ennfremur mikilvægt að geta borið saman stöðu lífríkis hafsins í kringum Ísland við ástandið í öðrum löndum, ekki síst vegna mikilvægis sjávarafurða fyrir þjóðina.

Í skýrslu Matís (Monitoring of the marine biosphere around Iceland in 2008 – 2009) eru birtar niðurstöður vöktunarverkefnisins fyrir árin 2008 og 2009. Í rannsókninni eru mæld snefilefnin blý, kadmín, kvikasilfur, kopar og sink, arsen og selen, þrávirku lífrænu efnin HCH, HCB, PCB, klórdan, trans-nonachlor, toxaphen, DDT og PBDE. Markmiðið með vöktunarverkefninu er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi bæði á innlendum og erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á með vísindalegum gögnum að íslenskur fiskur sé veiddur í ómenguðu umhverfi.

Fram kemur í skýrslunni að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín stundum mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er svæðisbundinn og talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Þannig hefur t.d. kadmínstyrkur í kræklingi á undanförnum árum mælst hærri á ýmsum stöðum sem eru fjarri íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi, eins og t.d. í Mjóafirði, heldur en í Hvalfirði og Straumsvík. Þrávirk lífræn efni eru lág í kræklingi og þorski við Íslandi.

Nánari upplýsingar veita Helga Gunnlaugsdóttir og Hrönn Ólína Jörundsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Matarsmiðja Matís á Höfn lykillinn að því að Hundahreysti varð að veruleika

„Sú aðstaða og ráðgjöf sem við fengum í matarsmiðju Matís á Höfn í Hornafirði var lykillinn að því að fyrirtækið varð að veruleika“.

Þetta segir Kristín Þorvaldsdóttir hjá fyrirtækinu Hundahreysti sem setti í byrjun apríl á síðasta ári á markað nýja gerð af fóðri fyrir hunda. Fóðrið er framleitt að sænskri fyrirmynd en í það er notað íslenskt hráefni. Fyrirtækið er í eigu Kristínar og eiginmanns hennar, Daníels V. Elíassonar, matartæknis en sjálf er Kristín viðskiptafræðingur að mennt.

Ferskfóðri fyrir hunda kynntust þau í Svíþjóð á sínum tíma og eftir að þau fluttu heim til Íslands hugðust þau flytja fóðrið inn en það var ekki heimilað þar sem um hrávöru er að ræða. Kristín starfar innan Hundaræktarfélags Íslands og ákvað að sameina áhugamálið og menntunina og stofna fyrirtæki um framleiðsluna. Þetta var hið örlagaríka haust 2008 og skyndilega brugðust allar forsendur um fjármögnun framleiðslunnar.

„Kostnaður við framleiðsluaðstöðu var erfiður hjalli fyrir svona lítið nýsköpunarfyrirtæki en í ársbyrjun 2009 var okkur bent á möguleika til að hefja framleiðsluna í matarsmiðju Matís á Höfn. Í stuttu máli fór það þannig að þangað fórum við, hófum tilraunir við að aðlaga Nordic fóðrið að íslenskum aðstæðum. Í kjölfarið hófum við framleiðsluna hjá Matís og komum okkur þar með af stað. Á Höfn fengum við alla aðstöðu sem við þurftum og ómetanlega ráðgjöf og hjálp starfsmanna Matís. Og 10 mánuðum eftir að við settum vöruna fyrst á markað erum við komin í 270 fermetra framleiðsluhúsnæði í Kópavogi,“ segir Kristín.

Hópur hundaeigenda var fenginn til að prófa framleiðsluna í byrjun og nær allir eru í viðskiptavinahópi Hundahreystis í dag. Framleiðslan er um 4 tonn á mánuði en í fóðrið er notað hrátt íslenskt kindakjöt, nautavambir og nautablóð. Engar aukaafurðir af dýrum eru notaðar aðrar en nautavambir. Þar að auki er svo bætt í kartöflutrefjum, hveitiklíði, kalki, steinefnum og vítamínum. Kjötið í fóðrinu er hrátt og þess vegna kallast það ferskfóður. Fóðrið er selt frosið og geymist í u.þ.b. ár í frysti. Nordic ferskfóður er heilfóður fyrir hunda og ekki er þörf á að gefa hundinum neina viðbót eða blanda við annað fóður.

„Sem betur fer létum við ekki efnahagshrunið stöðva okkur og mestu skipti að fá þá aðstoð sem við fengum hjá Matís,” segir Kristín í Hundahreysti.

Nánari upplýsingar má fá hjá Guðmundi H. Gunnarssyni fag- og stöðvarstjóra Matís á Höfn í Hornafirði, gudmundur.h.gunnarsson@matis.is og hjá Kristínu hjá Hundahreysti, 892-5292, www.hundahreysti.is.

Fréttir

Matís ásamt fleirum skipuleggur ráðstefnu um virðiskeðju línufisks

Dagana 19. og 20. október nk. verður haldin í Gullhömrum ráðstefna um veiðar, vinnslu, markaði og rannsóknir á línufiski.

Ráðstefnan er haldin á vegum Matís, Nofima í Noregi, Háskólans í Tromsö og Havstovunnar í Færeyjum.  Framsöguerindi verða flutt af sérfræðingum á ýmsum stigum virðiskeðju línufisks og að því loknu fara fram almennar umræður meðal þátttakenda þ.s. leitast verður við að greina helstu sóknarfæri í greininni. Ráðstefnan fer fram á ensku og má nálgast dagskrána hér.

Aðgangur er gjaldfrjáls og opinn öllum.

Nauðsynlegt er þó að skrá sig hjá jonas.r.vidarsson@matis.is (í síðasta lagi fyrir 15 október). 

Fréttir

Ráðstefna um uppsjávarfiska

Þann 30 ágúst síðastliðinn var haldinn ráðstefna (workshop) um uppsjávarfiska, á Gardemoen í Noregi. Yfirskrift ráðstefnunar var „Tækifæri og möguleikar í uppsjávarfisksiðnaði. Horft til framtíðar“.

SINTEF í Noregi sá um skipulag ráðstefnunar í samvinnu við Matís, Tækniháskólanum í Danmörku og Chalmers háskóla í Svíþjóð. Efni fyrirlestra fjallaði um meðhöndlun aflans um borð, framleiðslu afurða og aukaafurða, ásamt gæðum og áhrifum uppsjávarfiska á heilsu almennings. Meðal fyrirlesara frá Íslandi voru Ásbjörn Jónsson og Sigurjón Arason frá Matís ásamt Sindra Sigurðssyni gæðastjóra Síldarvinnslunnar.

Ráðstefna var þokkalega sótt og tókst með ágætum. Mikið var skeggrædd um stöðu og framtíðarhorfur í uppsjávarfisksiðnaði og þeim möguleikum sem eru fyrir hendi til aukinnar framleiðslu á afurðum til neytenda.

Nánari upplýsingar veitir Ásbjörn Jónsson, asbjorn.jonsson@matis.is.

Fréttir

Breytileiki í fitusamsetningu þorsks

Unnið er að rannsóknum sem auka eiga þekkingu á eiginleikum fitu og stöðugleika hennar m.t.t. ástands fisks við veiði.

Fitusamsetning í þorskholdi (Gadus morhua) eftir árstíma og veiðarsvæðum

Í mögrum fiski eins þorski var þránun á fitu ekki talin vandamál.  Hins vegar inniheldur þorskvöðvi mikið af ómettuðum fitusýrum sem að þrána auðveldlega við geymslu.  Þessar breytingar hafa neikvæð áhrif á bragð og útlit afurða.  Unnið er að rannsóknum sem auka eiga þekkingu á eiginleikum fitu og stöðugleika hennar m.t.t. ástands fisks við veiði.  Ástand fisks ræðast af ýmsum þáttum, svo árstíð, veiðarsvæði, stærð og aldri fisksins.   Bætt þekking á hráefni og stöðugleika þess við vinnslu og geymslu mun auðvelda framleiðslustýringu við fiskvinnslu, þar sem geymsluþol og gæði afurða eru höfð að leiðarljósi. 

Rannsóknirnar eru styrktar af Verkefnasjóði Sjávarútvegsins en þær munu standa yfir út árið 2011.

Þátttakendur í verkefninu eru Oddi hf, KG Fiskverkun ehf, Þorbjörn, Skinney-Þinganes hf og Matís ohf.  Verkefnisstjóri er Kristín A. Þórarinsdóttir, Matís ohf. 

Heiti verkefnis: Fitusamsetning í þorskholdi (Gadus morhua) eftir árstíma og veiðarsvæðum

Nánari upplýsingar veitir Kristín A. Þórarinsdóttir, s: 422-5081, tölvupóstfang: kristin.a.thorarinsdottir@matis.is.

Fréttir

Mikill munur er á vinnslueiginleikum eldisþorsks og villts þorsks

Nýtt verkefni er nú hafið hjá Matís sem ætlunin er að kanna á áhrif mismunandi söltunaraðferða og íblöndunarefna m.t.t. að draga úr neikvæðu áhrifum dauðastirðnunar á upptöku pækils. 

Mikill munur er á vinnslueiginleikum eldisþorsks og villts þorsks.  Vöxtur eldisþorsks er hraðari og aðstæður í umhverfi aðrar.  Einnig er stýring á slátrun og meðhöndlun önnur við veiðar á villtum fiski.  Í fyrri rannsóknum hefur komið fram að best sé að vinna eldisþorsk fyrir dauðastirðnun en það hefur skapað vandkvæði við framleiðslu á léttsöltuðum afurðum.   Þeir lífeðlisfræðilegu ferlar sem eiga sér stað við dauðastirðnun vinna á móti þyngdaraukningu, m.a. vegna þess að vöðvinn dregst saman.  Vorið 2010, samþykkti AVS (www.avs.is), að styrkja verkefni þar sem kanna á áhrif mismunandi söltunaraðferða og íblöndunarefna m.t.t. að draga úr neikvæðu áhrifum dauðastirðnunar á upptöku pækils.  Ráðist verður í tilraunir með haustinu en áætluð verkefnislok eru í júní 2011.

Þátttakendur í verkefninu er Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf og Matís ohf.  Kristján G. Jóakimsson er verkefnisstjóri en Kristín A. Þórarinsdóttir, kristin.a.thorarinsdottir@matis.is, stýrir þeirri vinnu sem fram fer af hálfu Matís í verkefninu. 

Verkefnaheiti: Léttsaltaðar afurðir úr eldisþorski

Skýrslur

Mengunarvöktun í lífríki sjávar við Ísland 2008 og 2009 / Monitoring of the marine biosphere around Iceland 2008 and 2009

Útgefið:

01/09/2010

Höfundar:

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, Natasa Desnica, Sonja Huld Guðjónsdóttir, Þuríður Ragnarsdóttir, Helga Gunnlaugsdóttir

Styrkt af:

Umhverfisráðuneyti og Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneyti / Ministry for the Environment and Ministry of Fisheries and Agriculture

Tengiliður

Natasa Desnica

Fagstjóri

natasa@matis.is

Mengunarvöktun í lífríki sjávar við Ísland 2008 og 2009 / Monitoring of the marine biosphere around Iceland 2008 and 2009

Í þessari skýrslu eru birtar niðurstöður árlegs vöktunarverkefnis sem styrkt er af Umhverfisráðuneytinu og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Markmið með þessari vöktun er að uppfylla skuldbindingar Íslands varðandi Oslóar- og Parísarsamninginn (OSPAR), auk AMAP (Artic Monitoring Assessment Program). Gögnin hafa verið send í gagnabanka Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES). Hafrannsóknastofnun sér um að afla sýna og Matís hefur umsjón með undirbúningi sýna og mælingum á snefilefnum í lífríki hafsins. Sýnin eru mæld á Matís og á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Mæld voru ýmis ólífræn snefilefni og klórlífræn efni í þorski veiddum í árlegu vorralli Hafró í mars 2009 og í kræklingi sem safnað var á 11 stöðum í kringum landið í ágúst/sept 2008. Vöktun í lífríki sjávar við Ísland hófst 1989 og er gögnum safnað saman í gagnagrunn. Í skýrslunni eru birtar yfirlitsmyndir fyrir sum efnanna sem fylgst er með. Kadmín er svæðisbundið hærra í íslenskum kræklingi samanborið við krækling frá öðrum löndum. Litlar breytingar eru á milli ára í styrk ólífrænna og lífrænna efna en þörf er á ítarlegri tölfræðigreiningu á gögnunum til að hægt sé að meta með vísindalegum aðferðum aukningu eða minnkun mengandi efna í lífríki sjávar hér við land.

This report contains results of the annual monitoring of the biosphere around Iceland in 2008 and 2009. The project, overseen by the Environmental and Food Agency of Iceland, is to fulfill the OSPAR (Oslo and Paris agreement) and AMAP (Arctic Monitoring Assessment Program) agreements. The project was funded by Ministry for the Environment and Ministry of Fisheries and Agriculture. The data has been submitted to the ICES databank (ices.dk), collection of data began in 1989. Matís ohf is the coordinator for marine biota monitoring and is responsible for methods relating to sampling, preparation and analysis of samples. The samples were analyzed at Matís and at the Department of Pharmacology and Toxicology at the University of Iceland. Trace metals and organochlorines were analyzed in cod (Gadus morhua) caught in March 2009 and in blue mussel (Mytilus edulis) collected in August/Sept 2008. Marine monitoring began in Iceland 1989. Cadmium is higher in some locations in Iceland compared to other countries. No significant changes were observed in the concentration of organic or inorganic pollutants investigated. However, a thorough statistical evaluation has to be carried out on the available data to analyze spatial and temporal trends of pollutants in the Icelandic marine biosphere.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Grandskoðum þann gula frá miðum í maga ‐ rannsókn á þáttum sem hafa áhrif á verðmæti þorskafla / Factors influencing the quality and value of the Icelandic cod; a value chain perspective

Útgefið:

01/09/2010

Höfundar:

Helga Gunnlaugsdóttir, Jónas R. Viðarsson, Ásta M. Ásmundsdóttir, Cecilia Garate, Hrönn Jörundsdóttir, Ingibjörg G. Jónsdóttir, Sigurjón Arason, Vordís Baldursdóttir, Þorsteinn Sigurðsson, Sveinn Margeirsson

Styrkt af:

Aukið verðmæti sjávarfangs (AVS), HB‐Grandi, Guðmundur Runólfsson hf, Fiskistofa, Hafrannsóknastofnunin, Matís

Grandskoðum þann gula frá miðum í maga ‐ rannsókn á þáttum sem hafa áhrif á verðmæti þorskafla / Factors influencing the quality and value of the Icelandic cod;  a value chain perspective

Markmið þessa verkefnis voru að safna ítarlegri upplýsingum en áður hefur verið gert um efnasamsetningu, vinnslueiginleika og verðmæti þorsks í virðiskeðjunni. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru:

• Ekki reyndist mikill munur í holdafari þorsks eftir árstíma, en holdastuðullinn var þó aðeins hærri í desember heldur en í kringum hrygningartímann (febrúar‐maí) þegar hann var lægstur. Ekkert samband fannst milli holdafars fisks og fituinnihalds lifrar.

• Jákvætt samband var milli lifrarstuðuls og fituinnihalds lifrar (R2 = 0,55). Sambandið var þó ekki línulegt heldur hækkaði fituinnihaldið hratt við lágan lifrarstuðul en minna eftir því sem lifrarstuðullinn hækkaði. Sömuleiðis hækkaði fituinnihald lifrar með lengd og aldri bæði hjá hængum og hrygnum.

• Fituinnihald lifrar, þyngd fisksins eða holdastuðullinn gefa ekki neinar afgerandi vísbendingar um flakanýtingu. Sömuleiðis hafði vatnsinnihald og vatnsheldni flaka lítil sem engin áhrif á vinnslunýtingu eða los.

• Samantekin niðurstaða af mati á áhrifum kyns, kynþroska og aldurs á flakanýtingu er sú að það er munur á flakanýtingu milli einstakra veiðiferða, sá munur virðist að einhverju leiti háður kynþroska fisksins og er samkvæmt fyrirliggjandi gögnum lægst á kynþroskastigi 4 (þ.e.a.s fiskur í hrygningu eða hrygndur). Rétt er þó að benda á að talsvert ójafnvægi er í gagnasafninu varðandi dreifingu kynþroska í einstakra veiðiferðum og tiltölulega fá sýni eru af fiski af kynþroskastigum 3 og 4 samanborið við kynþroskastig 1 og 2.

•Gerður var samanburður á styrk PCB7 í þorski beint úr hafi annars vegar og eftir vinnsluna, þ.e.a.s. í frosnum flökum, hins vegar. Ekki reyndist marktækur munur á styrk PCB7 í heilum fiski og frosnum þorskflökum, fiskvinnslan virðist því ekki hafa áhrif á styrk þessara efna í flökunum.

• Ekkert tölfræðilega marktækt samband var milli styrks járns (Fe), selens (Se), blýs (Pb) eða PCB7 og kyns, aldurs eða kynþroska. Tölfræðilega marktækt samband er milli styrks kvikasilfurs í holdi þorsks (þ.e.a.s í flökum) og aldurs, lengdar og kynþroska. Þekkt er að kvikasilfur safnast fyrir í holdi fiska með aldri og niðurstöður þessarar rannsóknar eru í samræmi við og byggja undir þessar niðurstöður.

The aim of this project is to collect more detailed data about the factors influencing the quality and value of the Icelandic cod during processing, were the end product is frozen fillet. Data were collected from 2007 to 2008 on fillet yield, water content, water capacity, gaping, parasites as well as the chemical composition (nutrients & undesirable substances). These variables are important for the quality and profitability of the cod industry. Emphasis has been laid on connecting these variables to data about fishing ground, season of fishing, sex, sexual maturity in order to increase our understanding on how it is possible to maximize the value of the catch. In addition, the liver from each individual cod was collected and the fat and water content analysed. The results from this study show that there is a nonlinear relationship (R2 = 0,55) between the liver condition index and the fat content of the liver.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Muscle spoilage in Nephrops

Útgefið:

01/09/2010

Höfundar:

Guðmundur H. Gunnarsson

Styrkt af:

AVS rannsóknasjóður og NORA

Muscle spoilage in Nephrops

Í verkefninu var unnið með humariðnaðinum á Íslandi við að greina orsakir og skilgreina lausnir til að draga úr vöðvadrepi í leturhumri. Slíkt vöðvadrep hafði aukist mjög á síðustu árum án skýrrar ástæðu. Í upphafi var gert ráð fyrir að líkleg ástæða vöðvadrepsins væri Hematodinium sýking í stofninum en slík sýking hefur valdið töluverðum áföllum í skoska leturhumarstofninum. Staðfest var að ekki voru tengsl milli Hematodinium sýkingar og vöðvadreps. Í framhaldinu varð því að breyta áherslum verkefnisins. Með ítarlegum formfræðirannsóknum á leturhumri tókst að tengja vöðvadrepið við ensímvirkni í hepatopancrea leturhumars. Byggt á þeim niðurstöðum var unnin skilgreining lausna til að draga úr tíðni vöðvadrepsins. Með bættri kælingu og meðhöndlun með ensímhindra hefur tekist að draga verulega úr vöðvadrepi í leturhumri.

This project was carried out in close association with the Icelandic Nephrops fishing and processing industry. The aim was to define reasons and propose solutions to reduce the muscle spoilage in Nephrops. Such muscle spoilage had increased significantly during the last few years without any know reason. The original hypothesis of the project was that there might be a correlation between infection of the parasite Hematodininum and muscle spoilage. Such parasitic infection has resulted in lower quality products in the Scottish Nephrops industry for the last decade. In the project it was confirmed that such infection is not the underlying factor for the muscle spoilage. This resulted in change of direction in the project. Based on morphological analysis of Nephrops it was observed that the muscle spoilage was correlated with enzyme activity in the hepatopancrea. Based on this observation it was possible to propose a code of practice to reduce the onset of the muscle spoilage. The code of practice is based on improved chilling and use of enzyme inhibitor during the storage of the Nephrops from catch to frozen product.

Skoða skýrslu
IS