Fréttir

Atlantshafsþorskur – hverjar eru próteinþarfir fyrir hámarksvöxt?

Nýlega birtust niðurstöður úr rannsókn sem sérfræðingar Matís ofl. stóðu að og var framkvæmd í þeim tilgangi að varpa ljósi á próteinþörf Atlantshafsþorsksins þannig að vöxtur hans yrði sem mestur.

Auk þess fór fram fyrirlestur um sama efni á í XIII International Symposium on Fish Nutrition and Feeding sem haldi var í Florianópolis í Brasilíu fyrir stuttu. Boðsfyrirlestrar voru 7 og auk þess voru valdir til flutnings 81 fyrirlestur af hugmyndum sem sendar voru inn um sjálfvalið efni. Einn af þessum fyrirlestrum var fyrrnefndur fyrirlestur sem bar heitið “Protein requirements of Atlantic cod Gadus morhua L” haldinn af starfsmanni Matís, Jóni Árnasyni.

Fréttir

Áhrif söltunarferla á eiginleika saltfisks

Föstudaginn 19.2.2010, fór fram doktorsvörn við Háskólann í Lundi, Svíþjóð.  Þá varði Kristín Anna Þórarinsdóttir fagstjóri hjá Matís doktorsritgerð sína „The influence of salting procedures on the characteristics of heavy salted cod“.

Föstudaginn 19.2.2010 fór fram doktorsvörn við Háskólann í Lundi, Svíþjóð (Department of Food Technology, Engineering and Nutrition, Faculty of Engineering, LTH).  Þá varði Kristín Anna Þórarinsdóttir, fagstjóri hjá Matís doktorsritgerð sína „The influence of salting procedures on the characteristics of heavy salted cod“.  Verkefnið var að stærstum hluta unnið á Matís ohf. 

Andmælandi var
KristinLauritzsen, Utviklingschef Norske Sjömatbedrifters Landförening, Þrándheimi, Noregi.

Matsnefnd skipuðu
Prófessor Erik Slinde, Institute of Marine Research, Nordnes, Bergen, Noregi
Dr. Hörður G. Kristinsson, Matís ohf,
Prófessor Björg Egelandsdal, Universitet för miljö och biovetenskap UMB, Ási, Noregi

Doktorsnefnd skipuðu
Prófessor Eva Tornberg, Lund University, Svíþjóð
Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir, Matís ohf
Sigurjón Arason, Matís ohf, Háskóla Íslands

Ágrip ritgerðarinnar
Verkun saltfisks hefur þróast mikið undanfarna áratugi, frá því að vera einföld stæðusöltun yfir í nokkra þrepa verkunarferil.  Fjöldi þrepa og val aðferða er mismunandi eftir því hver framleiðandinn er.  Almennt hefst verkunin með forsöltun sem framkvæmd er með sprautun og pæklun eða pæklun/pækilsöltun sem fylgt er eftir með þurrsöltun (stæðusöltun).  Eftir þurrsöltun er afurðum pakkað í viðeigandi umbúðir eftir afurðaflokkum og mörkuðum.  Fyrir matreiðslu, eru afurðir útvatnaðar til að lækka saltinnihald þeirra.     

Markmið þessarar rannsóknar var að dýpka þekkingu á áhrifum mismunandi verkunarferla með tilliti til vatnsheldni og nýtingar saltaðra þorskflaka.  Fylgst var með breytingum á nýtingu, efnainnihaldi, afmyndun próteina og vöðvabyggingu þorsks í gegnum ferillinn; frá hráefni í gegnum forsöltun, þurrsöltun, geymslu og útvötnun. 

Nýting sprautaðra afurða hélst hærri í gegnum allan ferilinn samanborið við aðrar aðferðir.  Nýting afurða sem eingöngu voru pæklaðar í upphafi verkunar var óháð pækilstyrk að því undanskildu að áhrif voru merkjanleg við sjálfa pæklunina.  Hins vegar voru áhrif á gæði neikvæð ef pækilstyrkur fór yfir 20%.  Notkun fosfats jók nýtingu eftir söltun en ekki eftir útvötnun.  Áhrif af viðbættu fosfati á gæði voru metin í tveimur tilraunum en niðurstöðum bar ekki saman á milli þeirra.  Almennt er fosfat þó talið hafa jákvæð áhrif á blæ afurða og bæta þannig gæði.  Áhrif fosfats á nýtingu samanborið við sprautun voru óveruleg.     

Saltinnihald í vöðva var almennt >20% eftir söltun óháð verkunarferlum.  Breytingar (afmyndun) á próteinum voru því miklar en mismunandi eftir söltunaraðferðum.  Bygging myósíns virtist raskast minna við söltun í sprautuðum afurðum.  Það var talið tengjast vægari hækkun á saltstyrk við upphaf söltunar sem leiddi til sterkari „salting-in“ áhrifa en með öðrum aðferðum. 

Breytingar á bandvef við söltun voru einnig mismunandi eftir söltunaraðferðum.  Millifrumubil eftir söltun var meira í afurðum sem voru sprautaðar og pæklaðar samanborið við afurðir sem eingöngu voru pæklaðar í upphafi verkunar.   Aftur á móti var flatarmál fruma sambærilegt.  Mismunur á vatnsheldni vöðvans og nýtingu eftir verkunarferlum var því tengdur breytileika í afmyndun bæði kollagens og myósíns en hingað til hafa niðurstöður fyrri rannsókna fyrst og fremst verið túlkaðar úr frá breytingum á vöðvatrefjum.    

Tap þurrefnis við verkun var meira í sprautuðum og pækluðum afurðum.  Fyrst og fremst var um „non protein nitrogen“ að ræða   Hlutfall próteina sem tapaðist var lágt og því voru áhrif þurrefnistaps á vatnsheldni vöðvans talin óveruleg. Áhrifin voru fremur talin felast í breytileika í bragði og lykt afurða, vegna  eðlis og eiginleika „non protein nitrogen“ efna en ekki var gerður samanburður á þessum eiginleikum í ritgerðinni.

Hinn nýbakaði doktor, Kristín Anna Þórarinsdóttir er fædd árið 1971, foreldrar hennar eru Þórarinn Snorrason og (Elisabet Charlotte) Johanna Herrmann.  Kristín lauk námi í BS-gráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og M.Sc.-gráðu frá HÍ árið 2000.  Síðan þá hefur hún starfað hjá Matís (www.matis.is).

Kristín er gift Baldvini Valgarðssyni og eiga þau tvö börn, Þorfinn Ara og Valgerði Báru.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Anna Þórarinsdóttir, kristin.a.thorarinsdottir@matis.is.

Fréttir

Búnaðarþing 2010 – Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, flytur hátíðarræðu

Árlegt Búnaðarþing Bændasamtaka Íslands hefst sunnudaginn 28. febrúar og stendur til miðvikudagsins 3. mars.

Búnaðarþing verður sett með viðhöfn á sunnudaginn en yfirskrift setningarathafnarinnar er „Aftur kemur vor í dal“. Í vikunni verða hefðbundin þingstörf þar sem m.a. verður fjallað um mál sem tengjast umsókn stjórnvalda að Evrópusambandinu, jarðalögum, fjármálum bænda og uppbyggingu félagskerfis þeirra.

Setning Búnaðarþings fer fram í Súlnasal Hótels Sögu sunnudaginn 28. febrúar og hefst kl. 13:30. Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, heldur setningarræðu og Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra flytur ávarp og veitir árleg landbúnaðarverðlaun. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, flytur hátíðarræðu og Þjóðlagasveit Tónlistarskólans á Akranesi tekur lagið. Aðgangur er öllum opinn meðan húsrúm leyfir og í boði eru kaffiveitingar.

Búnaðarþingi verður gerð skil á vefnum bondi.is þegar þingstörf hefjast. Á vefnum verður birt dagskrá þingsins, ræður, fundargerðir og upplýsingar um afgreiðslu mála um leið og þær berast.

Nánari upplýsingar veita:

Magnús Sigsteinsson, skrifstofustjóri Búnaðarþings, gsm: 863-3184 , netfang: ms@bondi.is
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, gsm: 861-7740, netfang: hb@bondi.is
Eiríkur Blöndal, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, gsm: 895-6254 , netfang: ebl@bondi.is

Fréttir

Matvælamiðstöð Austurlands auglýsir eftir verkefnum

Á síðustu mánuðum hefur verið unnið að því að koma á fót aðstöðu fyrir Matvælamiðstöð Austurlands í húsakynnum Mjólkurstöðvarinnar en Matvælamiðstöðin var sett á laggirnar haustið 2009 en hún er samstarfsverkefni Matís, Þróunarfélags Austurlands, Fljótsdalshéraðs, Búnaðarfélags Austurlands og Auðhumlu.

Hugmyndin með Matvælamiðstöðinni er að aðstoða fólk með hugmyndir að matvælaframleiðslu með faglegri aðstoð og aðstöðu.  Möguleikarnir eru margir, hægt er að leigja aðstöðuna til framleiðslu fyrir þá sem eru með framleiðsluvöru en ekki aðstöðu, einnig er hægt að fá aðstoð aðstöðu fyrir vöruþróun.  Með þessu móti er  hægt að  prófa hugmyndir að framleiðslu og markaðssetja vöru án þess að leggja út í mikinn kostnað við aðstöðu og útvegun nauðsynlegra framleiðsluleyfa.  Nú er Matvælamiðstöðin komin með starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands og getur því tekið við verkefnum.  Þegar hafa tveir aðilar nýtt sér aðstöðuna og láta vel af.

Áhugasamir endilega hafði samband við Hrund í síma 858 5060 eða með því að senda póst á mma@matis.is

Nánar um Matvælamiðstöðina má finna á www.matis.is/um-matis-ohf/starfsstodvar-matis/egilsstadir/

Fréttir

Þrjár greinar frá vísindamönnum Matís birtar í sömu útgáfu vísindarits

Nú fyrir stuttu birtust greinar eftir vísindamenn Matís í Journal of Sensory Studies.

Vert er að minnast á að í útgáfu þessara ritrýnda vísindarits eru hvorki fleiri né færri en þrjár greinar eftir vísindamenn Matís. Leiða má líkum að því að það sé einsdæmi að svo margar greinar komi frá sama fyrirtæki/stofnun í einni og sömu útgáfunni af ritrýndu fagriti.

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir, emilia.martinsdottir@matis.is.

Fréttir

Arctic Tilapia

Nú nýverið lauk verkefninu Arctic Tilapia sem styrkt var af Tækniþróunarsjóði en að verkefninu komu Matís, Arctic Tilapia hf., Iceprotein hf. of Fisk-Seafood hf. Markmið verkefnisins var að þróa framleiðsluvörur sem gera eldi á hvítfisknum tilapia í lokaðri eldisstöð sem nýtir kælivatn frá stórri gufuafls virkjun hagkvæmt hérlendis.

Til þess að svo megi verða verða markaðsleiðir fyrir afurðir að vera til staðar og tryggar.

Tæknileg markmið voru í fyrsta lagi þau að þróa kælingar- og geymsluaðferð fyrir fersk flök sem viðheldur ljósroðleitum blæ og ferskeika flaka og í öðru lagi að þróa vinnsluaðferð fyrir saltaða afurð fyrir Spánarmarkað.

Verkefnisstjóri var Emilía Martinsdóttir, Matís ohf.

Markmið verkefnisins var að þróa framleiðsluvörur sem gera eldi á hvítfisknum tilapia í lokaðri eldisstöð sem nýtir kælivatn frá stórri gufuafls virkjun hagkvæmt hérlendis. Til þess að svo megi verða verða markaðsleiðir fyrir afurðir að vera til staðar og tryggar.

Tæknileg markmið voru í fyrsta lagi þau að þróa kælingar- og geymsluaðferð fyrir fersk flök sem viðheldur ljósroðleitum blæ og ferskeika flaka og í öðru lagi að þróa vinnsluaðferð fyrir saltaða afurð fyrir Spánarmarkað. Nílartilapía (Oreochromis niloticus) var alin í endurnýtanlegu vatnshringrásarkerfi og flökuð og pökkuð í 100% lofti og loftskiptum pakkningum fyrir geymslu við 1˚C og -1˚C. Niðurstöður skynmats og örverutalninga sýndu að flök sem pakkað var í lofti höfðu geymsluþol 13-15 daga við 1˚C og 20 daga við -1˚C. Í flökum í loftskiptum pakkningum var heildarfjöldi örvera mjög lítill eftir 27 daga geymslu bæði við 1˚C og -1˚C. Samt sem áður höfðu loftskiptar aðstæður slæm áhrif á lit flaka skömmu eftir pökkun en litur flaka hefur veruleg áhrif á val kaupenda. Bestu geymsluaðstæður fyrir tilapíuflök er pökkun í lofti og geymsla við stöðugt lágt hitastig -1°C. Könnuð voru áhrif sprautunar og pæklunar á nýtingu, geymsluþol og eiginleika tilapiuflaka. Framleiddir voru þrír afurðaflokkar: kældar afurðir, frystar afurðir (með óverulegum breytingum á saltinnihaldi) og léttsaltaðar, frystar afurðir. Nýting jókst við sprautun og pæklun, verulegur munur var á þyngdarbreytingum á frystum flökum og léttsöltuðum flökum vegna mismunar í saltinnihaldi þessara tveggja afurðaflokka.

Tilapia frá Kanada og Kína var notuð í fyrstu tilraunir verkefnisins. Tilapiueldi hófst á Íslandi í byrjun verkefnistímans eftir að gerð hafði verið úttekt á þeim stofnum sem tiltækir eru, því mikilvægt er að hafa góðan eldisstofn. Valinn var stofn sem er ræktaður í stöðinni North American Tilapia INC. (NATI) í Kanada. Tilraunastöðin var gangsett 15. maí 2008 þegar seiðin komu til landsins. Seiðin voru komin í sláturstærð í nóvember 2008 og var fiskurinn nýttur til tilrauna eftir það. Þær niðurstöður að hægt var að ná geymsluþoil allt að 20 daga við stöðugt lágt hitastig í geymslu og að ekki varð teljandi breyting á rauðum lit holdmegin í flaki á því tímabil gefa möguleika bæði á að bæði senda vöruna sem fersk, undirkæld flök með skipi á Evrópumarkað einnig til USA. Samhliða þessu rannsóknaverkefni hefur verið lögð mikil vinna í hagkvæmnisathuganir og vinnu við viðskiptaáætlanir og samskipti við væntanlega fjárfesta og samstarfsaðila á markaðssviði. Verið er að leggja lokahönd á viðskiptaáætlun.

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.
Tilraunaskýrsla 1 – Tilapia fillets protein injection Cyprian Ogombe-september 2008

Tilraunaskýrsla 2 – Preliminary shelf life studies of iced Canadian tilapia (Oreochromis niloticus) Cyprian Ogombe – ágúst  2008

Úttskrifaður nemandi í matvælafræði við Háskóla Íslands Cyprian Ogombe Odoli frá Kenya fyrrum nemandi við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU) lauk prófi í júni 2009. Meistaraprófsritgerð: Optimal storage conditions for fresh farmed tilapia (Oreochromis niloticus) fillets.

Veggspjald á TAFT 2009 ráðstefnunni í Kaupmannahöfn.  3rd Joint Trans-Atlantic Fisheries Technology Conference Copenhagen, 15-18 September 2009 –  “Arctic” tilapia (Oreochromis niloticus): Optimal storage and transport conditions for  fillets. Emilía Martinsdóttir, Cyprian Ogombe Odoli, Hélène L. Lauzon, Kolbrún Sveinsdóttir, Hannes Magnússon, Sigurjón Arason og Ragnar Jóhannsson. Veggspjaldið hlaut verðlaun sem besta veggspjald ráðstefnunnar.

Skýrsla Matís 39-09.  Sprautun og pæklun tilapíuflaka. Kristín Anna Þórarinsdóttir, Kolbrún Sveinsdóttir, Þóra Valsdóttir, Irek Klonowski, Aðalheiður Ólafsdóttir, Hannes Magnússon, Arnljótur Bjarki Bergsson, Ragnar Jóhannsson, Emilía Martinsdóttir (lokuð). Skýrsluágrip.

Skýrlsa Matís 38-09.  Optimal storage conditions for fresh farmed tilapia (Oreochromis niloticus) fillets.  Emilía Martinsdóttir, Cyprian Ogombe Odoli, Hélène L. Lauzon, Kolbrún Sveinsdóttir, Hannes Magnússon, Sigurjón Arason and Ragnar Jóhannsson (opin).

Birtar verða tvær vísindagreinar úr efninu og liggur fyrir handrit að annarri þeirra.

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir. emilia.martinsdottir@matis.is.

Fréttir

Fræðaþing landbúnaðarins 2010 18.–19. febrúar – Matís með mörg erindi

Fræðaþing landbúnaðarins verður haldið dagana 18.-19. febrúar 2010 í húsakynnum Hótel Sögu. Að venju býður Fræðaþingið upp á umfjöllun og miðlun á fjölbreyttu faglegu efni í mismunandi málstofum, en þessi vettvangur hefur í áranna rás þróast í að vera mikilvirkasta miðlunarleið fyrir niðurstöður fjölbreytts rannsókna- og þróunarstarfs í landbúnaði, auk þess sem á þinginu eru tekin til umfjöllunar ýmis málefni tengd atvinnugreininni sem eru ofarlega á baugi hverju sinni.

Fræðaþingið hefst með athöfn í Súlnasal Hótel Sögu kl. 13:00 fimmtudaginn 18. feb. Þar mun Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, setja þingið en í kjölfarið mun Þorsteinn Ingi Sigfússon hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands halda erindi um orkumál. Að því loknu mun Haraldur Benediktsson, formaður BÍ, fjalla um fæðuöryggi og íslenskan landbúnað.

Eftir sameiginlega dagskrá í Súlnasal skiptist þingið upp í nokkrar málstofur þar sem fjölbreytt efni er á dagskrá. Þar má nefna sjálfbæra orkuvinnslu og nýsköpun í matvælavinnslu. Á föstudeginum heldur þingið áfram og hefst kl. 9:00 í fundarsölum Hótel Sögu. Þá verður m.a. þingað um erfðir, aðbúnað búfjár og vistfræði. Samhliða fyrirlestrum er veggspjaldasýning.

Fræðaþing landbúnaðarins er haldið árlega en að því standa Bændasamtök Íslands, Landgræðslan, Veiðimálastofnun, Skógrækt ríkisins, Matvælastofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands, Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, Hagþjónusta landbúnaðarins og Matís.

Mikill meirihluti erinda, sem flutt verða á Fræðaþinginu, er gefinn út í sérstöku prentuðu hefti sem þátttakendur á þinginu geta fengið og er innifalið í þátttökugjaldinu. Ennfremur verða velflest erindanna aðgengileg í Greinasafni landbúnaðarins á landbunadur.is. Greinasafnið geymir stóran hluta landbúnaðarfagefnis sem gefið hefur verið út á liðnum árum.

Hægt er að nálgast umfjöllun og dagskrá Fræðaþings á vef Bændasamtakanna, www.bondi.is

.


Meðal athyglisverðra fyrirlestra má nefna:
–        Möguleikar og hindranir í nýtingu lífrænna orkuauðlinda
–        Ræktun orkujurta á bújörðum
–        Hlývatnseldi á Íslandi
–        Tækifæri í ylrækt í matvælaframleiðslu
–        Þurrkað lambakjöt
–        Íslenska kúakynið, viðhorf neytenda og varðveislukostnaður
–        Skyldleiki norrænna hestakynja
–        Vistkerfi heiðatjarna
–        Þróunarfræðilegar breytingar við Mývatn
–        o.m.fl.

Öllu áhugafólki um fagmál landbúnaðar og náttúruvísindi, þar með töldum bændum, býðst að sækja þingið meðan húsrúm leyfir. Hægt er að skrá þátttöku á Fræðaþingið á vefnum www.bondi.is. Ráðstefnugjald er kr. 10.000 (innifalið fundargögn og kaffi/te) en nemar fá ókeypis aðgang gegn framvísun nemendaskírteinis.

Nánari upplýsingar veita:
Gunnar Guðmundsson, Bændasamtökum Íslands, í síma 563-0333 og 896-1073 eða á netfangið gg@bondi.is.
Tjörvi Bjarnason, Bændasamtökum Íslands, í síma 563-0332 og 862-3412 eða á netfangið tjorvi@bondi.is

Fréttir

Alíslensk kryddlegin söl

AVS verkefninu Vöruþróun á kryddlegnum og maukuðum sölvum er nú lokið. Verkefnið snérist um að ljúka vöruþróun á framangreindri vöru.

Söl hafa verið nýtt á Íslandi frá landnámi. Sölvatekja var langmest sunnan- og vestanlands. Mjög mikil verslun var með sölin bæði frá Suðurlandi, Faxaflóasvæðinu og Breiðafirði. Neysla á sölvum hefur haldist fram á daginn í dag, en er aðeins brot af því sem áður var. Söl hafa vafalítið haft góð áhrif á heilsu þjóðarinnar, ásamt ætihvönn, fjallagrösum og skarfakáli. Eiginleikar sölvanna hafa lítið verið rannsakaðir t.d. næringargildi eða hæfileg verkun.

Íslensk hollusta ehf (áður Hollusta úr hafinu ehf) hefur verkað og selt söl undanfarin ár bæði fyrir innlendan markað og flutt svolítið út. Félagið hóf þróun á kryddlegnum sölvum árið 2006. Viðbrögð við vörunni hafa sýnt að um sérstaka og mjög áhugaverða vöru er að ræða. Kryddlegin söl voru fyrst kynnt á sýningunni Matur 2006. Síðan þá hefur varan verið seld í litlu magni til hótela og veitingahúsa. Þá hefur hún verið kynnt og seld á vörusýningu í Fífunni 2007 og á útimörkuðum undanfarin ár. Á kynningum hafa 80-90% þeirra sem prófuðu hana verið mjög hrifnir af henni.

Íslensk hollusta ehf. fékk Matís til samstarfs við sig til að ljúka vöruþróun á kryddlegnu sölvunum og styrk frá AVS til þess. Gerðar voru prófanir á marineringu í nokkrum algengum efnum þ.e. olíu, soja-sósu, ediki, mysu og saltpækli. Marienering svipuð því sem Íslensk hollusta ehf hafði notað reyndist best, en prófanir sýndu að verulega var hægt að bæta vinnsluferlið til að besta vöruna með tilliti til útlits, bragðs og geymsluþols. Kryddlegin söl eru nú áhugaverð vara með fallegt útlit og gómsætt bragð. Áhugavert verður að sjá hvernig markaðurinn tekur við þessari nýjung.

Íslensk hollusta ehf. (áður Hollusta úr hafinu ehf.) var stofnuð 2005. Félagið framleiðir ýmsar alíslenskar hollustuvörur, sem seldar eru á íslenskum heilsumarkaði, í ferðamannaverslunum og til innlendra og erlendra hótela og veitingahúsa. Í haust hlaut félagið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði samtaka iðnaðarins, sjóði Kristjáns Friðrikssonar í Últímu, fyrir frumlegar nýstárlegar, alíslenskar vörur.

Nánari upplýsingar um verkefnið má fá hjá Eyjólfi Friðgeirssyni, hollustaurhafinu@simnet.is og Þóra Valsdóttir, thora.valsdottir@matis.is.

Fréttir

Sjávarútvegsráðstefnan ehf

Ákveðið hefur verið að setja á stofn félag til að halda ráðstefnur um mikilvæg viðfangsefni á sviði sjávarútvegs. Félagið á ekki að vera hagsmunasamtök einstakra hópa og á ekki að vinna að hagsmunagæslu, heldur tryggja uppbyggilega umræðu og vera hvetjandi til góðra verka.

Ákveðið hefur verið að stofna Sjávarútvegsráðstefnan ehf. Stofnfundur félagsins verður haldinn þann 19. febrúar klukkan 15:30 í Verbúðinni – Víkin, Sjóminjasafninu í Reykjavík, Grandagarði 8, 101 Reykjavík. Allir þeir sem láta sig málefni sjávarútvegsins varða eru hvattir til að gerast hluthafar. Félagið er ekki hagsmunasamtök einstakra hópa og vinnur ekki að hagsmunagæslu. Hlutverk félagsins er að halda árlega sjávarútvegsráðstefnu og er tilgangur hennar að:

  • stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um sjávarútveg og
  • vera vettvangur fyrir samskipti allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi.

Hugmyndin að sjávarútvegsráðstefnunni er að skapa samskiptavettvang allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi. Innan þessa hóps eru þeir sem starfa við veiðar, eldi, frumvinnslu, framhaldsvinnslu, sölu og markaðssetningu, þjónustu og rannsóknir og þróun, einnig opinberir aðilar, kennarar og nemendur, fjölmiðlar og aðrir áhugamenn. Í dag eru ýmsar ráðstefnur og fundir innan sjávarútvegsins en þá yfirleitt tengt einstökum félögum, samtökum eða efni.

Markmið sjávarútvegsráðstefnunnar er að ná saman á einum stað þversniði af greininni til að vinna að framförum og sókn. Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem menn hittast, styrkja sambönd og samstarf í greininni. Á ráðstefnunni er fjallað um mikilvæg viðfangsefni á sviði sjávarútvegs og vonast er að hún verði uppspretta hugmynda og hvatning til góðra verka.

Allir er láta sig málefni sjávarútvegsins varða geta tekið þátt í stofnun félagsins og mætt á stofnfund. Þeir sem hafa áhuga að vera hluthafar en geta ekki mætt vinsamlega sendið tölvupóst til Guðbrands Sigurðssonar (gs@nyland.is) eða Valdimars Inga Gunnarssonar (valdimar@sjavarutvegur.is)

Sjávarútvegsráðstefnan 2010

Fyrsta sjávarútvegsráðstefnan verður haldin 6.–7. september 2010 á Grand Hótel í Reykjavík. Ráðstefnan verður með vefinn www.sjavarutvegsradstefnan.is þar sem hægt verður að sækja dagskrá og aðrar upplýsingar í framtíðinni. Til að tryggja að sem flestir geti sótt ráðstefnuna verða fengnir aðilar til að styrkja ráðstefnuna með að markmiði að halda þátttökugjaldi í hófi.

Fréttir

Margir þættir hafa áhrif á kælingarhraða bolfiski

Í verkefninu Kælibót hefur Matís unnið að umfangsmiklum tilraunum á sviði kælingar á bolfiski frá miðum á markað ásamt íslenskum samstarfsaðilum sem tengjast mismunandi hlekkjum keðjunnar, allt frá hráefnismeðhöndlun, vinnslu og flutningi til markaðar.

Meðal markmiða var að bera saman kæligetu mismunandi ísmiðla, kæliaðferðir við vinnslu, áhrif mismunandi umbúða fyrir pökkun afurða og mismunandi flutningsleiðir (skip og flug) og áhrif bættrar hitastigsstýringar við flutning kældra afurða. Verkefnið er styrkt af AVS og Tækniþróunarsjóði Rannís. Samstarfsaðilar Matís í verkefninu eru Brim hf., Eimskip hf., Icelandair Cargo, Optimar á Íslandi ehf., Samherji hf., Samskip hf., Skaginn hf. og Tros. Verkefnið var einnig unnið samhliða Evrópuverkefninu Chill-on, sem styrkt er af 6. rammagerð Evrópusambandsins.

Rannsóknir á niðurkælingarhraða, geymsluhitastigi, hagkvæmni og orkunotkun við kælingu hráefnis gáfu vísbendingar um að besta verklag við kælingu á fiski sé að upphafleg niðurkæling um borð sé framkvæmd með vökvaís. Hinsvegar er æskilegast að geyma hráefnið til lengri tíma í hefðbundnum ís, einkum með tilliti til saltupptöku fiskvöðvans og örveruvaxtar. 

Kæling afurða í vinnslu er einnig afar mikilvæg því hún lágmarkar kæliþörf eftir að afurðir eru komnar í umbúðir. Skýringin á því er að einangrun umbúða getur hægt verulega á kælihraða þó að umhverfi sé við rétt hitastig. Kæling við vinnslu er því algert grundvallaratriði til að viðhalda ferskleikanum sem best og lengja geymsluþol við slíkar aðstæður. Í þessu sambandi næst bestur árangur með roðkælingu flaka. Roðkæling á flökum úr fersku hráefni getur lengt ferskleikatíma og geymsluþol um 25% miðað við bestu geymsluaðstæður (-1°C).Vökvakæling hefur minni áhrif á lengingu ferskleikatímans og getur jafnvel verið varasöm vegna hættu á krossmengun. Til að mynda er mjög mikilvægt að forðast vinnslu á eldra hráefni á undan nýrra hráefni við dagsframleiðslu til að lágmarka mengun flaka. Mengun flaka af völdum skemmdarörvera getur leitt til hraðari ferskleikarýrnunar og styttingar á geymsluþoli. Ef góðir framleiðsluhættir eru tryggðir, mengun haldið í lágmarki, t.d. með fullnægjandi endurnýjun á vökva og kælingu afurða, á vökvakæling að geta skilað góðum árangri. Verðmætaaukning fiskafurða getur náðst með því að framfylgja þessum ábendingum og velja flutningsleiðir sem lágmarka hitasveiflur snemma á líftíma vörunnar til að viðhalda ferskleikanum sem lengst.

Hitastig í flug- og skipaflutningi ferskra þorskhnakka var kortlagt í febrúar og mars 2009 frá Norðurlandi til Bremerhaven í Þýskalandi. Notaðir voru frauðplastkassar sem tóku hver um sig 5 kg af hnökkum. Hitasíritar voru notaðir til að fylgjast með vöru- og umhverfishita og rakasíritar mældu raka í umhverfinu.  Niðurstöður sýndu fram á mjög góða hitastýringu í skipaflutningnum.  Fyrstu vísbendingar á samanburði milli flutnings með flugi og skipi sýndu svipað heildargeymsluþol í dögum frá veiði hvor aðferðin sem var notuð. Í flugi eru meiri hitasveiflur en styttri tími frá framleiðanda á markað. Umbúðir og tími við hækkun hitastigs skipta hér verulegu máli. 

Samanburðarannsóknir á einangrunargildi tvenns konar pakkninga fyrir ferskan fisk, þ.e. bylgjuplasts og frauðplasts, hafa leitt í ljós yfirburði frauðplastsins í þessu tilliti. Mikilvægi einangrunarpakkninga er þó minna þegar um heilar brettastæður er að ræða frekar en staka kassa. Ef afurð er ekki vel forkæld fyrir pökkun er minni einangrun reyndar eftirsóknarverð en þá verður að tryggja að hitastýringin í flutningsferlinu sé mjög góð.

Ekki er óalgengt að afurðum sé gaspakkað erlendis þar sem líftími vöru er miðaður við pökkunardag. Því voru könnuð áhrif gaspökkunar og undirkælingar á geymsluþol þorskflaka úr misfersku hráefni. Álykta má af tilrauninni að mjög takmarkaður ávinningur sé af gaspökkun og undirkælingu ef hráefnið er gamalt. Hinsvegar, ef nýveiddum flökum er gaspakkað og þau geymd við bestu aðstæður í undirkælingu má ná fram mun lengra ferskleikatímabili og geymsluþoli og þar með mun verðmætari afurð heldur en með hefðbundinni pökkun. 

Gæta þarf að verklagi og umgengni um hráefni og fisk og gera þarf átak í meðhöndlun, vinnslu og flutningi fiskafurða til að tryggja betri gæði og verðmætari vörur. Þó að aukin gæði skili ekki alltaf meiri verðmætum strax, munu aukin gæði skila meiri árangri til framtíðar litið og eru miklir markaðslegir hagsmunir í húfi fyrir þjóðina. Ekki veitir af að byggja upp og styrkja ímynd Íslands og íslenskra afurða á þessum tímum.

Unnið er nú að uppsetningu hagnýtra leiðbeininga á veraldarvefnum fyrir kælingu og meðhöndlun á fiski á öllum stigum virðiskeðjunnar frá miðum á markað. Leiðbeiningarnar byggja á þeim rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið innan kæliverkefnanna Chill-on, Hermun kæliferla og Kælibót, auk annarra rannsókna. Niðurstöðum tilrauna verður miðlað á þann hátt að fyrirtæki geti auðveldlega hagnýtt sér upplýsingar og séu fljót að greina ný tækifæri til að bæta innanhúsferla. Upplýsingarnar verða því settar fram á einfaldan og myndrænan hátt. Vísað verður í ítarefni sem aðgengilegt verður á rafrænu formi fyrir þá sem vilja meiri og dýpri upplýsingar.

Til að byrja með verður mest áhersla lögð á vinnslu á bolfiski (þorski) í kældar afurðir en stefnt er að frekari uppbyggingu þar sem teknar verða inn fleiri fisktegundir og önnur matvæli og fleiri afurðaflokkar.

Nánari upplýsingar veitir María Guðjónsdóttir, maria.gudjonsdottir@matis.is.

IS