Fréttir

Matís vekur athygli á Matur-inn

Matís á Akureyri tók þátt í matvælasýningunni Matur-inn sem fram fór í Verkmenntaskólanum um síðustu helgi. Þar kynnti Matís starfsemi sína á Akureyri; rannsóknir á mengunarefnum og óæskilegum efnum í matvælum. Þá var ÍSGEM gagnagrunnurinn kynntur til sögunnar, en hann er með upplýsingar um efnainnihald 900 fæðutegunda.

Matur-inn

Verkefni Matís vöktu verulega athygli gesta á sýningunni, en hana sóttu ríflega 10.000 manns. Fannst mörgum gestum sem skoðuðu bás Matís merkilegt hve umfangsmikið rannsóknastarf færi fram á vegum fyrirtækisins í bænum.

Fréttir

Ýsa var það, heillin!

Í nýrri skýrslu Matís, þar sem birt er samantekt á þeim upplýsingum sem fyrir liggja um neyslu Íslendinga á hinum ýmsu fisktegundum, kemur m.a. fram að Íslendingar elska ýsu öðrum fiskum fremur. Og kemur líklega fáum á óvart!

Skýrslan nefnist “Fiskneysla 17 til 49 ára Íslendinga á mismunandi fisktegundum
og -afurðum
” og er hluti af AVS verkefninu “Verðmæti og öryggi íslenskra sjávarafurða – Áhættusamsetning og áhætturöðun”. Að sögn skýrsluhöfundar, Kolbrúnar Sveinsdóttur, er markmiðið með skýrslunni að gera ítarlega og aðgengilega samantekt á nýjustu upplýsingum sem tiltækar eru um fiskneyslu Íslendinga. Slíkar upplýsingar hafa ekki legið á lausu hingað til.

Á meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að fiskneysla eldra fólks er meiri en þeirra yngri og að eldri aldurshópurinn borðar einnig fjölbreyttara úrval fisktegunda og -afurða heldur en þeir yngri. Nokkur munur virðist einnig vera á fiskneyslu höfuðborgarbúa annars vegar og landsbyggðarfólks hins vegar, bæði hvað varðar tíðni fiskneyslu og þær fiskafurðir sem borðaðr eru.

Fiskur er oftar á diskum fólks á landsbyggðinni og oftast er þá um hefðbundnar afurðir s.s. ýsu, þorsk og saltfisk að ræða og oftar en ekki er um frystar afurðir að ræða. Höfuðborgarbúar borða meira af ferskum fiski og hálf-tilbúnum fiskréttum, sem ugglaust stafar af betra aðgengi að slíkri vöru en er í boði úti á landi.  Þeir eru einnig líklegri til að borða fisk utan heimilis heldur en landsbyggðarfólk.

Kolbrún segir að samantektin byggi að mestu á upplýsingum sem aflað var í viðhorfs- og neyslukönnun AVS verkefnisins “Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða” sem gerð var árið 2006, þar sem rúmlega 2000 manns svöruðu spurningum um fiskneyslu sína og viðhorf.

Kolbrún leggur áherslu á nauðsyn þess að upplýsingar af þessu tagi þurfi að ná yfir alla aldurshópa og nefnir sem dæmi að fólk, eldra en 65 ára, sé töluvert viðkvæmara fyrir ýmsum áhættuþáttum en aðrir.
 

Lesa skýrslu 37-07: Fiskneysla 17 til 49 ára Íslendinga á mismunandi fisktegundum og -afurðum

Skýrsla Matís 08-07: Verðmæti og öryggi íslenskra sjávarafurða. Áhættusamsetning og áhætturöðun

Skýrsla Matís 05-07: Viðhorf og fiskneysla ungs fólks á aldrinum 18 til 25 ára – Lýsandi tölfræðiúrvinnsla

Skýrslur

Upplýsingar um fiskneyslu og kauphegðun frá fisksölum og veitingahúsum

Útgefið:

01/10/2007

Höfundar:

Gunnþórunn Einarsdóttir, Kolbrún Sveinsdóttir, Emilía Martinsdóttir

Styrkt af:

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi

Tengiliður

Kolbrún Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

kolbrun.sveinsdottir@matis.is

Upplýsingar um fiskneyslu og kauphegðun frá fisksölum og veitingahúsum

Verkefnið “Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða” hefur m.a. að markmiði að afla upplýsinga um viðhorf og fiskneyslu ungs fólks. Spurningalistar um ýmis atriði varðandi fiskneyslu og kauphegðun ungs fólks voru lagðir fyrir 14 fisksala og fimm veitingamenn á höfuðborgarsvæðinu í lok ársins 2005. Í þessari skýrslu eru teknar saman upplýsingar er byggja á upplýsingum þessara aðila og skoðunum þeirra á fiskneyslu ungs fólks. Sumir fisksalanna lýstu áhyggjum sínum varðandi útboðslýsingar fyrir leik- og grunnskólana í Reykjavík, sem kom síðar í ljós að voru ekki nægjanlega góðar og skýrar, en afar mikilvægt er að hafa skilmerkilegar skilgreiningar á því hvað ferskt hráefni sé. Þetta er mikilvægt í ljósi þess að sumir fisksalar sögðust vita af dæmum þar sem foreldrar eru hættir að elda fisk heima þar sem börn þeirra fái hann í skólanum. Spurningar sem þá hljóta að vakna eru: Hvernig fiskur er í skólum? Borða krakkarnir fiskinn í skólanum? Misjafnt virðist vera hvað fólki finnst fiskurinn dýr. Meirihluta fólks finnst hann of dýr og eru dæmi um að það beri verð á fiski saman við aðrar matvörur. Þeir fisksalar sem eru með “sælkerafiskbúðir”, þ.e. eru nánast eingöngu með tilbúna fiskrétti, segjast þó ekki finna fyrir því að fólk kvarti undan verðinu. Fólkið sem kemur til þeirra veit að hverju það gengur og er tilbúið að borga fyrir það. Úr svörunum frá veitingahúsunum er ljóst að sala á fiskréttum hefur aukist með árunum. Flestir fisksalar og veitingahúsaeigendur eru sammála um að öll auglýsing á fiski og sjávarréttum sé af hinu góða.

There is a consensus that fish and other seafood contain nutrients that have a positive effect on public health and consumption should thus be promoted. The overall objective of the project Young consumer attitudes and fish consumption: Improved image of seafood is to find ways to increase seafood consumption. This report discusses a particular survey, which was carried out in the project with the aim of gaining information about the purchasing and consumption behaviour, as well as preferences especially of young consumers, with regard to seafood. Fishmongers, restaurateurs and caterers and others who have the occupation of dealing in fish and seafood, are among those believed to possess valuable information about consumer behaviour in this respect. In order to tap into this data, a questionnaire was devised and 14 fishmongers, chosen by random selection, were visited and interviewed. The same questionnaire was also used to gain information from randomly selected restaurants that offer seafood, as well as managers at preschool- and compulsory school canteens. The many issues brought up by the questionnaire included purchasing behaviour, quality, preferences, pricing etc. Some fishmongers voiced complaints about how Reykjavik City Treasury handled tendering procedures, especially the manner in which tender specification with regard to seafood for preschool- and compulsory school canteens has been carried out. The fishmongers claimed that the tender specifications regarding quality, freshness etc. were incomplete. Following these complaints, an informal investigation into the matter revealed that the criticism had some valid grounds.

Skoða skýrslu

Fréttir

Iðnaðarráðherra gæðir sér á hvannalambi

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, gæddi sér á lambakjöti sem var alið upp á hvönn í bás Matís (Matvælarannsóknir Íslands) á Vísindavöku RANNÍS í Listasafni Reykjavíkur á föstudag. Á básnum kynnti Matís rannsóknir á lömbum sem alin voru upp á þessari jurt í sumar. Samkvæmt rannsókninni hafa hvannalömb meiri meiri kryddlykt og –bragð, en lömb í hefðbundnu beitarlandi hafa meira lambakjötsbragð.

Vísindavaka RANNÍS

Verkefnið er að frumkvæði Höllu Steinólfsdóttur og Guðmundar Gíslasonar sauðfjárbænda að Ytri-Fagradal á Skarðsströnd. Þau ólu ákveðinn fjölda lamba í beitarhólfi sem var með hvönn. Til samanburðar var öðrum lömbum komið fyrir í úthagabeit og á ræktuðu landi. Markmiðið er að rækta upp hvönn til að beita á lömbin fyrir slátrun og hefja framleiðslu á lambakjöti sem byggir á þessari aðferð.

Frá Vísindavöku RANNÍS.Hvönn var áður talin til búdrýginda og var einnig talin allra meina bót. Nú er áhugi á þessari jurt að vakna á ný samhliða aukinn vitund fólks um þau efni sem það setur ofan í sig. Hvönn hefur verið notuð til að gefa bragð í mat og þykir góð sem kryddjurt. Þess vegna þykir áhugavert að gera athugun á því hverju það skilar sér í bragðgæðum á kjöti að ala lömb upp að hluta til á hvönn fyrir slátrun.

Nú þegar búið er að gera rannsóknir á kjötinu kemur í ljós að það er greinanlegur munur á milli lamba sem alin voru upp á hvönn og lamba sem alin voru á hefðbundinni sumarbeit. Stefnt er að því að halda rannsóknum áfram næsta sumar og meðal annars er stefnt að því að búa til hvannaakur svo hægt sé að þróa bragðið enn frekar.

Fréttir

Ráðherra á Matís fundi: bindur vonir við þorskeldi

Fiskeldi getur nýst afar vel við að byggja upp hagkvæma grein í íslenskum sjávarútvegi, ekki síst við firði á landsbyggðinni þar sem nægilegt rými er til staðar, að því er fram kom í máli Einars K. Guðfinnsonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á opnum fundi Matís um þorskeldi á Ísafirði. Hann segir að með því að hraða þróun í fiskeldi hér á landi sé mögulegt að margfalda framleiðslugetu fyrir greinina, skapa aukin atvinnutækifæri víða um land og útvega gott hráefni fyrir kröfuharða markaði. Hann varar hins vegar við gullgrafararstemmningu í tengslum við þorskeldið.

„Eldi er stór hluti af framleiðslu á sjávarfangi og fer stækkandi á heimsvísu. Því er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vera virkir þátttakendur í rannsóknum og þróun á þessu sviði. Í þorskeldisrannsóknum hér á landi hefur verið unnið að því að seinka kynþroska þorsks eins og mögulegt er svo hann haldi áfram að stækka þannig að hægt verði að auka hagkvæmni í eldinu,“ sagði ráðherra. Þá kom fram í máli hans að uppbygging þorskeldis á Íslandi í atvinnuskyni sé mjög mikilvægt en um leið áhættusamt langtímaverkefni sem krefst samstillts átaks opinberra aðila og einkafyrirtækja.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra.

„Við erum nú á þessum tímapunkti stödd á eins konar þröskuldi hvað þorskeldið áhrærir. Við þurfum að taka ákvarðanir um framtíðina og hvert skuli stefna. Þrotlaus, kostnaðarsöm og og þolinmóð vinna er að baki. Við höfum lært mikið og nú er komið að því að taka skrefin fram á við. Þótt öllum spurningunum hafi ekki verið svarað vitum við að það felast miklir möguleikar í þorskeldinu; möguleikar sem ég er ekki einn um að binda miklar vonir við.“

Ráðherra benti hins vegar á að þeir sem kæmu að fiskeldi yrðu engu að síður að gá að sér. „Mér finnst ég skynja núna dálítið svipaða umræðu um þorskeldið og í árdaga þeirrar atvinnustarfsemi. Gullgrafarastemminguna. Hún á lítinn rétt á sér. Þorskeldið krefst sem fyrr mikils fjármagns og þekkingar sem bara fæst af reynslu og með vísindalegri nálgun. Menn byggja ekki upp þorskeldi eins og hendi sé veifað. Það krefst allt annarra vinnubragða og gríðarlegrar ögunar. Það kennir okkur reynslan og er hún ekki alltaf ólygnust? Hér inni má finna menn með þessa miklu reynslu og þekkingu sem geta borið um allt þetta. Það er á grundvelli þeirrar reynslu sem ég held að við eigum að byggja okkar næstu skref. Og því tel ég að stjórnvöld eigi að styðja við slíka viðleitni af hálfu atvinnugreinarinnar sjálfrar, þar sem menn byggja á þeirri þekkingu sem hefur safnast upp innan fyrirtækjanna og í vísindasamfélaginu okkar,“ sagði Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Fréttir

Opinn kynningarfundur um þorskeldi á Ísafirði

Matís heldur opinn kynningarfund á þorskeldi í Þróunarsetri Vestfjarða á morgun, miðvikudaginn 26. september. Á fundinum munu Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Þorleifur Ágústsson, verkefnastjóri hjá Matís, og Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, fjalla um stöðu og horfur fiskeldis hér á landi, einkum á Vestfjörðum. Þá mun Karl Almås, framkvæmdastjóri hjá SINTEF í Noregi, fjalla um fiskeldi í Noregi.

Tími: 26. september, 12:15-13:40.

Staðsetning: Þróunarsetur Vestfjarða, Árnagata 2-4, Ísafirði.

Dagskrá (PDF).

Fréttir

Matís óskar eftir aðstoðarmanni á rannsóknarstofu

Matís óskar eftir að ráða aðstoðarmann á rannsóknarstofu í Reykjavík. Helstu verkefni eru undirbúningur matvæla- og umhverfissýna.

Í starfinu felst m.a. Vinna við sýnatökur og undirbúning sýna,efnagreiningar o.fl. í rannsóknaverkefnum fyrirtækisins.

Háskólamenntun er ekki skilyrði.

Nánari upplýsingar veitir Birna Eggertsdóttir í síma: 422 5000. Umsóknarfrestur er til 5. október

Smellið hér til að sjá alla auglýsinguna (pdf-skjal)

Fréttir

Grein frá Matís í JFS: Rannsókn á vinnslu fiskpróteina úr síld

Í grein eftir þrjá starfsmenn Matís, sem birtist í septemberútgáfu vísindatímaritsins Journal of Food Science er fjallað um rannsóknir á áhrifum frystingar og frystigeymslu á gæði síldarflaka m.t.t. vinnslu próteina.

Síldarvinnsla hjá SVN í Neskaupstað

Notkun próteina sem hjálparefna í matvælaframleiðslu er mikil, en þau gegna margvíslegum hlutverkum, s.s. sem bindiefni, ýrugjafar o.fl. Algengustu próteinin eru sojaprótein og ýmis mjólkurprótein. Fiskiðnaður hefur lítið stundað nýsköpun á þessu sviði og fiskprótein til notkunar í matvælaiðnaði hafa varla verið fáanleg. Á það sérstaklega við um prótein úr dökkum, fitumiklum fisktegundum eins og síld og loðnu.

Nýleg aðferð til að einangra fiskprótein, sem gerir það mögulegt að fjarlægja óæskilega fitu og þætti sem hafa áhrif á lit og lykt, getur breytt þessari stöðu og þar með gert mögulegt að vinna prótein úr uppsjávarfiskum.

Í rannsókninni sem greint er frá í JFS var sérstaklega skoðað hvaða áhrif frysting og frystigeymsla við -24°C hefðu á próteinleysni og seigju próteinlausna. Í ljós kom að ýmsar óæskilegar breytingar urðu á eiginleikum próteina við frystigeymslu og komast greinarhöfundar m.a. að þeirri niðurstöðu að ekki skuli geyma hráefnið lengur en þrjá mánuði í frosti áður en það er notað til próteinvinnslu til að tryggja að heimtur séu góðar.

Höfundar greinarinnar eru þau Margrét Geirsdóttir, Guðjón Þorkelsson og Sjöfn Sigurgísladóttir. Þau starfa öll hjá Matís en auk þeirra er Harpa Hlynsdóttir, matvælafræðingur hjá Sýni ehf, meðhöfundur greinarinnar, en hún starfaði áður hjá Rf.

Rannsóknin sem greinin byggir á var styrkt af Norræna iðnþróunarsjóðnum, Rannís og SEAFOODplus klasaverkefni ESB. Lesa grein

Fréttir

Hvönn hefur áhrif á lambakjötsbragðið

Hvannabeit hefur áhrif á bragðgæði lambakjöts að því er fram kemur í rannsókn Matís (Matvælarannsóknir Íslands). Samkvæmt mati sérþjálfaðs hóps á Matís reyndust hvannalömbin hafa meiri kryddlykt og –bragð, en lömb í hefðbundnu beitarlandi höfðu meira lambakjötsbragð.

Ráðherra gæðir sér á hvannalambi.

Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðarráðherra, fékk tækifæri á því að gæða sér á hvannakjötinu á veitingastaðnum Vox á Nordica Hótel og lýsti af því tilefni yfir ánægju með slíka nýsköpun í landbúnaði.

Verkefnið er að frumkvæði Höllu Steinólfsdóttur og Guðmundar Gíslasonar sauðfjárbænda að Ytri-Fagradal á Skarðsströnd. Þau ólu ákveðinn fjölda lamba í beitarhólfi sem var með hvönn. Til samanburðar var öðrum lömbum komið fyrir í úthagabeit og á ræktuðu landi. Markmiðið er að rækta upp hvönn til að beita á lömbin fyrir slátrun og hefja framleiðslu á lambakjöti sem byggir á þessari aðferð.

Hvönn var áður talin til búdrýginda og var einnig talin allra meina bót. Nú er áhugi á þessari jurt að vakna á ný samhliða aukinn vitund fólks um þau efni sem það setur ofan í sig. Hvönn hefur verið notuð til að gefa bragð í mat og þykir góð sem kryddjurt. Þess vegna þykir áhugavert að gera athugun á því hverju það skilar sér í bragðgæðum á kjöti að ala lömb upp að hluta til á hvönn fyrir slátrun.

Nú þegar búið er að gera rannsóknir á kjötinu kemur í ljós að það er greinanlegur munur á milli lamba sem alin voru upp á hvönn og lamba sem alin voru á hefðbundinni sumarbeit.

Þrátt fyrir góðar niðurstöður er einungis um að ræða fyrsta skrefið af mörgum. Meðal annars er stefnt að því að búa til hvannaakur svo hægt sé að þróa bragðið enn frekar.

Fréttir

Lítil mengun þungmálma í hafinu kringum landið

Mengun þungmálma í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið. Þungmálmar eru frumefni sem eru upprunnir í náttúrunni en styrkur þeirra getur aukist vegna aðgerða manna (t.d. námuvinnslu).

Fram kemur í skýrslunni (Monitoring of the marine biosphere around Iceland in 2005 – 2006) að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Þannig mælist t.d. kadmínstyrkur í kræklingi hærri á ýmsum stöðum sem eru fjarri íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi, eins og t.d. í Mjóafirði, heldur en í Hvalfirði og Straumsvík.

Í skýrslu Matís eru birtar niðurstöður árlegs vöktunarverkefnis á vegum Umhverfisráðuneytisins fyrir árin 2005 og 2006. Markmiðið með vöktun umhverfis landið er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi á erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á að veiðar fari fram í ómenguðu umhverfi.

Mæld voru ýmis ólífræn snefilefni og klórlífræn efni í þorski veiddum í árlegu vorralli Hafrannsóknastofnunarinnar í mars 2006 og í kræklingi sem safnað var á 11 stöðum í kringum landið í ágúst/september 2005.

Rannsóknir á breytingum á lífríki sjávar við Íslands hefur staðið yfir frá 1989.

Skýrsluna er að finna hér.

IS