Fréttir

Hvers virði er starfsemi Matís?

Flestum er ljóst að ótrúlegar framfarir hafa átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Nú þegar miklar tæknilegar umbyltingar eiga sér stað í allri framleiðslukeðju matvæla þá sér ekki fyrir endann á þessum framförum. Á síðastliðnum 30 árum hefur íslenskur sjávarútvegur minnkað áherslu á veitt magn og aukið áherslu á gæði sem skilar meiru fyrir hvert kg af afla en áður. Grunninn að slíkri verðmætaaukningu er að finna í bættri nýtingu afla. Og til þess að geta nýtt afla betur er mikilvægt að þekkja alla virðiskeðjuna og bæta meðferð á öllum stigum keðjunnar. Þarna koma rannsóknir að.

Rannsóknir í sjávarútvegi

Rekja má rannsóknir í sjávarútvegi aftur til ársins 1934 þegar Rannsóknarstofu Fiskifélags Íslands var komið á fót en á grunni hennar varð Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins til árið 1965 (Matís frá 2007). Mikilvægar vörður á þeirri vegferð eru tilkoma Fiskvinnsluskólans um 1970, upphaf matvælafræðikennslu við Háskóla Íslands 1978, stofnun sjávarútvegsbrautar Háskólans á Akureyri 1990 og stöku sjóðir sem styrktu rannsóknir.

Tilkoma rannsóknasjóðs í sjávarútvegi

Mikilvægustu skrefin á síðari árum voru stofnun AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi árið 2003, en AVS stendur fyrir aukið verðmæti sjávarfangs, og Tækniþróunarsjóðs Rannís árið eftir. Ráðamenn þess tíma tóku alvarlega ábendingum um að það þyrfti framþróun á þessu sviði og með tilkomu sjóðanna hefur samstarf rannsóknaaðila við fyrirtæki í sjávarútvegi aukist mikið og menntuðum einstaklingum í greininni fjölgað. Afraksturinn kann að hljóma ótrúlega. Með markvissum rannsóknum hefur verðmætasköpunin aukist svo stórkostlega að mælt er í milljarðatugum. Sem dæmi má nefna að fyrstu árin fór allur makríll í bræðslu en með niðurstöðum úr rannsóknum þá jókst skilningur á því hvernig best væri að meðhöndla makrílinn þannig að úr yrði fyrirtaks vara til manneldis. Íslendingum var sagt að þetta væri ekki hægt en í stað þess að sættast á að makríll veiddur hér við land nýttist einungis til fóðurframleiðslu þá varð niðurstaðan sú að nú er verðmæti makrílsins um 20 milljarðar á ári.

Meðferð afla – gerum ekki gull úr skít!

Meðferð afla er lykilatriði þegar kemur að aukinni nýtingu. Þekking á meðferð kemur frá rannsóknum. Rétt þarf að standa að blæðingu, þvotti og kælingu og annarri meðhöndlun afla. Sama lögmál gildir fyrir öll skip í íslenska flotanum og það lögmál er vönduð blæðing og kæling og enn meiri kæling á aflanum; standa þarf rétt að blæðingu og kælingu aflans – alltaf! Íslenskur sjávarútvegur ætlar ekki að keppa um markaðinn á magni heldur á gæðum aflans. Slík hugsun er ekki síst mikilvæg þegar kemur að því að nýta þá takmörkuðu auðlind sem sjórinn geymir. Sjálfbær nýting á auðlindum hafs og vatna, í bláa lífhagkerfinu, er nauðsynleg fyrir okkur Íslendinga. Rannsóknir styðja við að það sé gert á sem bestan hátt. 

Ekki rusl heldur verðmæt aukahráefni

Keðjuverkun í sjávarútvegi, með virðiskeðjunálgun hefur haft áhrif; það er auðveldara að fá gott verð fyrir hráefni sem meðhöndlað hefur verið af kostgæfni. Hitt sem bætt meðferð hefur skilað, eru tækifærin til nýtingar á því sem vannýtt hafði verið í sögulegu tilliti. Mikil verðmætasköpun er í dag hjá fyrirtækjum sem koma í kjölfar framþróunar í sjávarútvegi almennt, t.a.m. hjá aðilum sem eru að vinna með svokölluð aukahráefni en til þess að nýta þau þá er nauðsynlegt að hráefnisgæðin séu í lagi; blæðing og kæling eru lykilatriði. Þetta vitum við vegna rannsókna sem framkvæmdar hafa verið undanfarna áratugi.

Verðmætasköpun er lykill

Ísland er land tækifæra í sjálfbærri nýtingu hreinnar náttúru, t.d. í framleiðslu heilnæmra matvæla, virkra lífefna og jákvæðri upplifun af neyslu íslenskra matvæla. Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem áhersla er lögð á nýsköpun og verðmætaaukningu og hefur fyrirtækið verið í fararbroddi aukinnar verðmætasköpunar úr sjávarfangi. Verðmæti úr hverju veiddu tonni af fiski hefur aukist um 145% frá árinu 2003, fram til 2016. Sú aukning gerðist ekki af sjálfu sér, heldur gerðist hún með því að tengja saman vísindi, atvinnulífið, frumkvöðla og menntasamfélagið. Matís hefur, í samstarfi við Háskóla Íslands og aðra háskóla, tengt vísindi og dagleg viðfangsefni fyrirtækja í 23 doktorsverkefnum og 64 meistaraverkefnum sem liði í stærri rannsóknaverkefnum. Sérfræðingar Matís auðvelda hagnýtingu niðurstaðna vísindarannsókna og brúa bil á milli fyrirtækja og háskóla. Það er sama hvernig við lítum á málin, lykilatriði í verðmætasköpun samtímans og til framtíðar er samspil vísinda og praktískra áskorana fyrirtækja. Samvinnan hefur skilað okkur miklum þjóðhagslegum ávinningi, hún hefur verið að styrkjast og hefur alla burði til að styrkjast enn meira. 

Hér eru nokkur dæmi um þátttöku Matís í íslenskum sjávarútvegi

  • Ankra – Aðstaða til pökkunar.
  • Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða – Greining samkeppnishæfni vestfirsks sjávarútvegs, aðstoð við skipulagningu og framkvæmd ráðstefna um málefni vestfirsks atvinnulífs.
  • Brim – Vinnsluspá grálúðu, rannsóknir á þorsklifur, ofurkæling fiskflaka, þróun vinnsludekks á línuskipum.
  • Codland – Rannsókna- og þróunarsamstarf, aðstoð við formun verkefna, mælingar og prófanir, eðlisgreining kollagens, norrænar tengingar, hreinsun lýsis.
  • Eimskip – Rannsóknir sem stuðluðu að þróun flutnings ferskra sjávarafurða.
  • FISK – Vinnsluspá þorsks, léttsöltun fiskflaka, ferlastýring á vinnsludekki bolfiskskipa, ofurkæling, aflameðferð bolfisks, kæling makríls, rannsóknir á þorsklifur, vistferlagreining fiskafurða.
  • Frostmark – Úttektir og prófanir búnaðar.
  • Grímur kokkur – Samstarf um auðgun sjávarrétta, ráðgjöf um framleiðsluferli.
  • HB Grandi – Samstarf í rannsókna- og þróunarstarfi þ.m.t. á sviði aflameðferðar og vinnslu uppsjávarfiska, s.s. gæði og stöðugleiki karfaafurða, ferlastýring á vinnsludekki bolfiskskipa, rafþurrkun fiskimjöls, stöðugleiki ferskra flakaafurða í útflutningi.
  • Icelandair – Rannsóknir sem stuðluðu að þróun flutnings ferskra sjávarafurða.
  • Iceprotein – Þjálfun starfsmanna, uppsetning aðferða, samstarf í verkefnum í tengslum við matvælavinnslu.
  • Ísfélag Vestmannaeyja – Aflameðferð, kæling makríls og stöðugleiki afurða.
  • Kerecis – Aðstaða í Reykjavík og aðstaða á Ísafirði í upphafi reksturs, rannsóknir á eiginleikum þorskroðs.
  • Landsamband smábátaeigenda – Aflameðferð; blóðgun, blæðing, þvottur og kæling –  kennsluefni, leiðbeiningar, smáforrit og námskeið, átaksverkefnið Fallegur fiskur, verðmætasköpun úr grásleppu.
  • Laxá – Þróun á fóðri til fiskeldis.
  • Lýsi – Rannsóknir á breytileika og stöðugleika þorsklifrar, gæðaflokkun lifrar.
  • Marel – Margvíslegt samstarf m.a. um sjálfvirkan beinskurð hvítfiskflaka, þróun mælitækni, forsnyrting flaka, erindi á Whitefish ShowHow.
  • Margildi – Aðstaða, ráðgjöf, greining eiginleika og stöðugleika lýsis, uppsetning markaðsefnis.
  • Oddi hf. – Þróun vinnsluferla við framleiðslu saltfisks, vistferlagreining fiskafurða.
  • Prentsmiðjan Oddi – prófun á umbúðum.
  • Primex – Þjálfun þróunarstjóra, samstarf í rannsókna- og þróunarverkefnum varðandi nýtingu afurða Primex til lengingar geymsluþols ferskfisks.
  • Reiknistofa fiskmarkaðanna – aðstoð við bætta starfshætti á fiskmörkuðum og þátttaka í þarfagreiningu uppboðskerfis.
  • Samherji – Vinnsluspá þorsks, aflameðferð og vinnsla uppsjávarfiska sérstaklega makríls, þróun framleiðslu umbúða og flutnings ferskra sjávarafurða, ofurkæling fiskflaka.
  • Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi – Samstarf um upplýsingar um næringarefnainnihald íslenskra sjávarafurða.
  • Síldarvinnslan – Aflameðferð makríls og stöðugleiki afurða, vinnsluþróun loðnuhrogna, makrílflaka, rauðátu, ofurkæling uppsjávarfiska, bætt nýting aukaafurða uppsjávarfiska, öryggi afurða, flökun á síld.
  • Skaginn 3X – Filtrex búnaður, Rótex búnaður, ofurkæling, þróun vinnsluferla í bolfiski sem og uppsjávarfiski, frysting uppsjávarfisks.
  • Skinney Þinganes – Þróun vinnsluferla við framleiðslu saltfisks, stöðugleiki makríl afurða, humarverkefni.
  • Sæplast – Hönnun og prófanir á umbúðum.
  • Thor-Ice – Þróun kæliferla með vökva ís, makríl og bolfisk.
  • True Westfjords – Þróun nýs framleiðsluferils bolfiskslýsis, könnun á aðgreiningarmöguleikum lýsis út frá fitusýrusamsetningu.
  • Vignir G. Jónsson – Fiskiperlur, aðstaða til prófana vegna vöruþróunar.
  • Vinnslustöðin – Þróun vinnsluferla við framleiðslu saltfisks.
  • Vísir – Vinnsluspá þorsks, ferlastýring við saltfiskframleiðslu, vísindaleg úttekt á vinnsluferli og eiginleikum nýrra saltfiskafurða, úttekt á áhrifum söltunaraðferða á eðliseiginleika afurða, þróun vinnsludekks á línuskipum.
  • Þorbjörn – Ferlastýring við saltfiskframleiðslu, vísindaleg úttekt á vinnsluferli og eiginleikum nýrra saltfiskafurða, úttekt á áhrifum söltunaraðferða á eðliseiginleika afurða.

Og það er meira til!

Greinin hér að ofan birtist fyrst í Fiskifréttum: http://www.fiskifrettir.is/…/hvers-virdi-er-starfse…/142433/

Skýrslur

Markets for Sea Urchins: A Review of Global Supply and Markets / Ígulkerjamarkaðir: Yfirlit yfir heimsframboð og markaði

Útgefið:

31/10/2017

Höfundar:

Guðmundur Stefánsson (Matís) Holly Kristinsson (Matís), Nikoline Ziemer (Royal Greenland), Colin Hannon (GMIT) and Philip James (NOFIMA)

Styrkt af:

Northern Periphery and Arctic Programme 2014-2020

Tengiliður

Guðmundur Stefánsson

Fagsviðsstjóri

gudmundur.stefansson@matis.is

Markets for Sea Urchins: A Review of Global Supply and Markets / Ígulkerjamarkaðir: Yfirlit yfir heimsframboð og markaði

Framboð af ígulkerum á heimsvísu hefur minnkað síðastliðin ár vegna minnkandi veiði, eða frá um 120 þúsund tonnum árið 1995 til núverandi meðalársafla sem er um 75 þúsund tonn. Afli hjá helstu veiðiþjóðum s.s. Japan, Chile, Bandaríkjunum og að hluta Kanada hefur minnkað. Rússland og Perú eru að veiða meira en þau gerðu árið 1995 en engin nýr stór aðili hefur komið inn á markaðinn. Markaðurinn fyrir ígulker er mjög hefðbundinn þar sem Japan neytir um 80-90% af heildarheimsaflanum. Hjá sumum löndum sem veiða ígulker einkum í Chile, Nýja Sjálandi og á Filipseyjum er hefð innanlands fyrir neyslu. Í Evrópu, er notkun ígulkera einnig hefðbundin einkum í Miðjarðarhafslöndunum Ítalíu, Frakklandi og á Spáni. Vegna vaxandi fólksflutninga m.a. innan Evrópu, eru víða hópar fólks sem þekkja ígulker og því geta í ýmsum löndum verið litlir staðbundir markaðir en þess utan þykja ígulker bæði óvenjuleg og spennandi. Líklega er þörf á Japansmarkaði fyrir góð ígulker á réttu verði, sérstaklega í ljósi þess að það er minna framboð inn á markaðinn. Það geta því verið möguleikar fyrir innkomu nýrra aðila á markaðinn t.d. frá NPA svæðinu (Northern Periphery and Arctic areas) að því gefnu að þeir finni hagkvæma flutningsleið til Japans og nái að tryggja stöðugt framboð ígulkera af réttum gæðum. Þó verður að hafa það í huga að skilaverð mun ekki verða eins hátt og á Evrópumarkaði (Frakklandi), þar sem flutningskostnaður til Japan er hár, lægri verð fást fyrir innfluttar vörur í samanburði við innlendar og gera þarf ráð fyrir vinnslukostnaði ígulkera fyrir sölu. Fyrir lönd eins og Ísland, Grænland, Írland og Noreg þá er augljósasti kosturinn að horfa til Frakklandsmarkaðar. Veiðar Frakka eru litlar nú miðað við landanir á tímabilinu 1970-1980 og framboð á ígulkerum frá öðrum löndum t.d. Spáni er lítið. Ísland hefur á undanförnum árum flutt út með góðum árangri ígulker á Frakkland og er nú stærsti birginn á markaðnum. Markaðurinn í Frakklandi er hins vegar lítil eða áætlaður um 350-450 tonn af ígulkerum á ársgrundvelli. Það getur verið þörf fyrir meira magn af ígulkerum á markaðinn á réttu verði þar sem markaðurinn var stærri á árum áður eða um 1.000 tonn. Ítalía getur einnig verið valkostur en fara þarf varlega þar sem stór hluti af ígulkerum á markaðnum á Ítalíu er frá ólöglegum eða óheimiluðum veiðum. Það geta einnig verið möguleikar á sölu ígulkera inn á staðbundna hágæða veitingahúsa markaðinn í Evrópu t.d. í Skandinavíu, Þýskalandi og Englandi. Þótt markaðurinn borgi vel þá er hann á sama skapi erfiður þegar kemur að stöðugri eftirspurn meðan ígulkerin eru af réttum gæðum á vertíð.

Worldwide the supply of sea urchins has diminished in the last few years, from the peak landings of about 120 thousand tonnes in 1995 to the current levels of about 75 thousand tonnes. The traditional harvesters such as Japan, Chile, US and to a lesser level, Canada, have all experienced reduced catches. Russia and Peru are supplying larger quantities to the global market than they did in 1995, but no new major entrants have emerged in the last few years. The market for sea urchins is very traditional with Japan consuming about 80- 90% of the total current global supply. There is a domestic market in many sea urchins harvesting countries, especially in Chile, New Zealand and the Philippines. In Europe, the market is also traditional and is mainly in the Mediterranean countries, Italy, France and Spain. Sea urchins seem to be novel and trendy and due to growing ethnic populations, small niche markets may exist in various countries, including those in Europe. There is likely an unmet demand on the Japanese market for good quality sea urchin products at the appropriate price, particularly with less current supply to the market. This may indicate options for a new entrant e.g. from the Northern Periphery and Arctic areas, if a logistic route from harvest to market can be economically established and high consistent quality product supplied. However, the value of this product will never be as high as in the European (French) market. This is due to the logistics of getting the product to Japan, the lower value placed on any imported product in this market and the need to add processing costs to product prior to selling in the market. For the NPA countries Iceland, Greenland, Ireland and Norway, supplying to markets such as France is the obvious choice; the production in France is low compared to the relatively high landings in the 1970s and 1980s and supply from other countries e.g. Spain appears small. Iceland has in the past years successfully exported green sea urchins to the French market and is currently the main supplier to the market. The overall French market appears however to be small, or estimated as 350-450 tonnes of whole sea urchins based on harvest and import figures. There may be an unmet demand on the market, assuming an appropriate selling price, as there are indications that the supply to the market has been about 1,000 tonnes in the recent past. There may be options to supply to Italy as well but care must be taken in export as a large part of the current supply in Italy may be from unlegal or unlicencesed fisheries. There may also be options to supply the apparent emerging high end restaurant niche market in various European countries such as in Scandinavia, Germany and England. Although this market may be lucrative, it is at the same time quite unpredictable when it comes to regular supply during harvest.

Skoða skýrslu

Fréttir

Flutningskostnaður fiskflutningaskipa í bakafragt getur lækkað um nærri 40%

Rannsókna- og þróunarverkefnið T-KER er samvinnuverkefni Sæplasts, Matís, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, ITUB og Icefresh í Þýskalandi.

Markmiðið er að þróa ný flutningaker, sem ætluð eru fyrir heilan fisk, fersk flök og flakabita til að byrja með en gætu hæglega reynst vel fyrir önnur fersk matvæli. Hönnun nýju keranna, sem nefnd eru tvíburaker og staflast í pörum, miðar að því að bæta rúmmálsnýtingu í bakafragt um 60-75% og minnka þar með flutningskostnað í bakafragt um nærri 40%. Kerunum, sem væntanlega verða um 10-15 cm grynnri en hefðbundin 460 L fiskiker, er einnig ætlað að varðveita fiskgæði og stöflunaröryggi jafn vel eða betur miðað við núverandi ker fyrir hvítfisk og einnota frauðkassa fyrir lax. Jákvæð umhverfisáhrif nýju keranna stafa því bæði af bættri rúmmálsnýtingu í flutningi og aukinni notkun á endurnýtanlegum umbúðum í stað einnota umbúða.

Björn Margeirsson, rannsóknastjóri Sæplasts, um nýja verkefnið og nýju kerin.

Fréttir

Húsfyllir að Hvanneyri – fyrsta skrefið í að þrefalda verðmætasköpun og arðsemi íslensks landbúnaðar

Mjög góð mæting var á fund á Hvanneyri um aukið virði landbúnaðarafurða sem Samtök ungra bænda, Landbúnaðarháskóli Íslands og Matís buðu til í gærkvöldi. Þar stigu á stokk forsvarsmenn fundarboðenda og fulltrúar frá öllum helstu framboðum til alþingiskosninganna um næstu helgi. Á næstu dögum munum við fjalla um fundinn og draga fram það helsta sem þar fór fram.

Margt áhugavert kom fram í erindi frambjóðenda og sitt sýndist hverjum um hvernig hægt er að auka virði landbúnaðarafurða en öll framboðin voru þó sammála um að nýsköpun, rannsóknir og þróun eru grunnatriðin sem þurfa að vera til staðar til að aukin verðmætasköpun geti átt sér stað í landbúnaði. Slíkt er athyglivert í ljósi þess að í fjárlagafrumvarpi næsta árs og ríkisfjármálaáætlun næstu fimm ára er lagt til af núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að fjármagn til Matís verði skorið niður um 12% eða um 51 milljón. Slíkt er algerlega á skjön við stefnu allra flokka um eflingu nýsköpunar á Íslandi.

Ásmundur Einar Daðason frá Framsóknarflokki sagðist hafa fylgst með uppbyggingu Matarsmiðja Matís allt í kringum landið í gegnum tíðina. Hann sagði að á meðan niðurskurðaráform liggi fyrir þá væri Matís væntanlega að takast á við þau áform og undirbúa sig. Á sama tíma gæti félagið ekki sótt fram með eðlilegum hætti og unnið áfram að þeim flottu verkefnum sem í gangi væru allt í kringum landið. Niðurskurðurinn væri því í mikilli mótsögn við efni fundarins, aukið virði landbúnaðarafurða.

Fréttir

Getum við notað íslenskar olíur í viðarvörn?

Vitað er að fiskolíur hafa verið notaðar sem viðarvörn fyrr á öldum og reynst vel. Þekkingin hefur hins vegar mikið til glatast. Með aukinni áherslu á afturhvarf til eldri tíma og hráefna og betri þekkingu, skapast lag til að nýta fiskolíur, sem núna falla í úrgangsflokk, til verulega aukinna verðmæta en leysa þarf framleiðslu- og vöruþróunarvandamál áður en lengra er haldið. 

Nýtt verkefni er u.þ.b. að hefjast hjá Matís í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Magla ehf. með fjárstyrk frá AVS sjóðnum. Markmið verkefnisins er að þróa afurð úr fiskolíum til notkunar sem hluta af viðarvörn en ákvarða þarf framleiðsluferla til að breyta óhreinu hrálýsi og þá hvaða lýsi í verðmæta viðarolíu. Heildarstyrkur verkefnisins er sjö milljónir. 

Verkefnastjóri er Ásbjörn Jónsson auk hans eru Heiða Pálmadóttir og starfsfólk efnastofu Matís þátttakendur í verkefninu. Verkefnið hefst í nóvember 2017 og líkur í nóvember 2018.

Fréttir

Skýrsla starfshóps um endurskoðun löggjafar um dýrasjúkdóma og dýralækna

Þann 23. maí 2016 var skipaður starfshópur um endurskoðun löggjafar um dýrasjúkdóma og dýralækna, með það að markmiði að búa til ein heildarlög um heilbrigði dýra, sem hefði þann tilgang að bæta almennt heilbrigði búfjár og gæludýra hvað alla sjúkdóma varðar. Starfshópurinn afhenti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu skýrslu sína 17. október 2017.

Helstu áherslur í tillögum starfshópsins eru meðal annars að tryggja skilvirkni í tilkynningum og viðbrögðum við sjúkdómum, vanhöldum og slysum á dýrum, og að rekin sé öflug stofnun sem sinni rannsóknum, ráðgjöf og áhættumati vegna dýrasjúkdóma. Þá er lagt til að stofnað verði sérstakt ráð sem fari með leyfisveitingar, réttindamál og endurmenntun dýralækna og heilbrigðisstarfsmenn dýra, og fjalli um kærur, álitamál o.fl.  

Lagt er til að starfsemin á Keldum verði efld og að hún færist undir yfirstjórn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og verði annað hvort sjálfstæð stofnun eða verði sameinuð öðrum stofnunum, að hluta eða öllu leyti (bls. 74). 

Skýrslan kemur til með að nýtast vel við vinnslu frumvarpa en vinna við þau mun hefjast fljótlega. Skýrslan er lögð fram til kynningar og er öllum frjálst að koma með athugasemdir eða ábendingar við efni hennar.  

Fréttin birtist fyrst á vef Stjórnarráðsins.

Fréttir

Um þróun í sjávarútvegi

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu þann 14. október sl. þakkar Arnljótur Bjarki Bergsson Sigurjóni Þórðarsyni fyrir grein í Morgunblaðinu 7. október. Tilefni greinarskrifa Sigurjóns er frétt á vef Matís frá 29. september að lokinni velheppnuðum viðburði World Seafood Congress. Í frétt Matís er hvorki talað um met né eru lýsingarorð í efstastigi notuð. Í fréttinni á vef Matís er bent á að útflutningsverðmæti á hvert kg afla þorsks hafi aukist um ríflega 350% frá árinu 1981. Sigurjón bendir réttilega á að verð þorskflaka á Bretlandsmarkaði hafi hækkað meira á sama tíma. Hér að neðan er ítarlegra svar Arnljóts Bjarka við grein Sigurjóns.

Í fréttinni á vef Matís er jafnframt þróun verðmætasköpunar í sjávarútvegi frá árinu 2003-2016 rakin. Árið 2003 var tekin stefnumarkandi ákvörðun um að auka verðmæti sjávarfangs (AVS) með rannsóknum og þróun; leggja meiri áherslu á verðmæti afurða en magn hráefna. Í því samhengi skiptir skynsamlegt umhverfi auðlindastýringar vissulega máli. Á hinn bóginn er það okkar skoðun að áhersla á vinnslu og virðiskeðjuna skili samfélaginu mun meiri árangri. Því var í fréttinni á vef Matís ekki fjallað um kvótakerfi.

Fjármögnun verkefna er fyrst og fremst í gegnum samkeppnissjóði, slík fjármögnun er flokkuð sem sértekjur og er hlutfall sértekna Matís hátt m.t.t. áþekkra eininga hér heima. Fjármögnun starfsemi Matís er Sigurjóni hugleikin og er það vel. Óskandi væri að fleiri alþingismenn, núverandi, fyrrverandi og verðandi, sýndu viðlíka áhuga. Fjárveiting ríkisins í gegnum þjónustusamning við Matís, á grunni fjárheimilda til Matvælarannsókna var á árinu 2016 435 milljónir kr. Að sköttum og opinberum gjöldum greiddum, stóðu eftir 80 milljónir. Sértekjur Matís árið 2016 námu 1180 milljónum. Þar af var 481 milljón aflað úr alþjóðlegum samkeppnissjóðum og 252 milljónum úr innlendum samkeppnissjóðum. Vart þarf að geta þess að árangur Matís í sókn í alþjóðlega samkeppnissjóði, s.s. Horizon 2020 áætlunina, þykir eftirtektarverður. Meðal samstarfsaðila okkar í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum eru Landssamband smábátaeigenda, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Háskóli Íslands og Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna. Ráðstefnan og hliðarviðburðir hennar voru fjármögnuð í víðtæku samstarfi eins og sjá má á heimasíðu WSC2017

Fjárfesting í nýsköpun er forsenda framfara í matvælaiðnaði. Því miður er fjárfesting í nýsköpun í evrópskum matvælaiðnaði eingöngu helmingur þess sem er í bandarískum matvælaiðnaði og þriðjungur, sé miðað við Japan. Mikið þarf til að halda í horfinu, hvað þá að vera leiðandi í síbreytilegum heimi. Rétt er að sjávarútvegur, fiskvinnsla sérstaklega, stendur öðrum matvælaiðnaði að baki á heimsvísu, þó eftir athöfnum íslensks sjávarútvegs sé tekið víða um heim eins og umræður á nýliðinni ráðstefnu báru með sér. Í því ljósi má nefna ásókn Norðmanna og Færeyinga í íslenska þekkingu og tækni á sviði sjávarútvegs.

Nýsköpun í sjávarútvegi felst m.a. í bættri meðhöndlun afla, nýjum kæliaðferðum, sjálfvirkni, nýjungum í vöruframboði og nýjum leiðum til markaðssetningar. Allt eru þetta dæmi um aðferðir sem hafa haft áhrif á verðmæti íslenskra þorskflaka á breska markaðnum frá 1981. Það ár var verulegur hluti þorsks fluttur út heill, án nokkurrar vinnslu. Ástand hráefnis var oft ábótavant. Það sem unnið var á Íslandi var flutt út blokkfryst að verulegu leyti. Í dag er verulegur hluti þorskafurða sem fluttur er til Bretlands, við stýrðar aðstæður, ferskir flakabitar sem hlotið hafa góða meðhöndlun í gegnum virðiskeðjuna. Þetta er ein af lykilástæðum þess að verð á breskum neytendamarkaði hafa hækkað svo sem raun ber vitni. 

Íslendingar hafa verið fyrirferðamiklir með sitt sjávarfang um langt skeið því hefur þróun í íslenskum sjávarútvegi við veiðar sem og vinnslu haft áhrif á vöruframboð og verð á breska markaðnum. Þegar meira var lagt upp úr magni en gæðum tíðkaðist það að fiskiskip sigldu með afla og seldu sem slíkan á uppboðsmörkuðum í breskum höfnum, þá jafnvel uppundir 12-14 daga gamlan, nú er meira um það að fiskur sé flakaður og snyrtur á Íslandi og jafnvel sneiddur í flakabita, þökk sé íslenskri tækniþróun (t.d. Marel og samkeppnisaðilar), fyrir flutning, við stýrðar aðstæður, til Bretlands. Þannig geta íslenskar sjávarafurðir komist nær neytendum eftir þær fara úr landi. Flökun á Íslandi og sú þróun á vörusamsetningu sem flutt er úr landi hefur áhrif á verðþróun og verðmætasköpun. Það er virðingarvert að rýna gögn frá erlendum stofnunum. Þó höfundur sé ekki hagfræðingur má sjá að aðgengilegustu gögn hagstofu Bretlands um fisk sýna smásöluverðþróun á fiskflökum, sem er ekki það sama og innflutningsverð í Bretlandi eða útflutningsverð frá Íslandi. Breytingar urðu á verðgildi breska sterlingspundsins á árinu 2016 gagnvart örðum gjaldmiðlum, slíkt kann að hafa áhrif á smásöluverð matvæla. Þróun gjaldmiðla er mismunandi og þeir eru misgamlir og misstöðugir. Vissulega er verðþróun fiskflaka veigamikill þáttur í verð þróun þorskafurða. Fiskflök í smásölu í Bretlandi hafa breyst á síðustu 35 árum minna er um það að gamall fiskur er flakaður í versluninni, þó eitthvað sé um að fiskflök séu þýdd upp í verslunum, og fiskflök séu enn seld frosin í Bretlandi er nú oftar að finna flakabita sem fluttir hafa verið sem slíkir kældir frá Íslandi. Fiskflök sem unnin væru með samahætti og gerðist og gekk fyrir 35 árum myndu ekki seljast við sama verði og fiskflök sem meðhöndluð eru með þeim þætti sem algengt er í dag. Sé litið á einstaka markaði má ekki gleyma því að íslenskar þorskafurðir eru í það minnsta fluttar héðan beint til þriggja heimsálfa, þá má horfa til verðþróunar (vísitölu sjávarafurða) á öðrum mörkuðum. Munur á þróun verðmætasköpunar úr öllum þorskafurðum Íslendinga og verðþróun þorskflaka í smásölu á Bretlandsmarkaði, má að hluta til skýra með því að matvælahrávörur hafa ekki hreyfst jafn mikið allstaðar.


Verð hrávöru (e. Commodity) hefur breyst hægar en sérvöru eins og flaka. Matvælaverðsvísitala Alþjóðabankans (e. World Bank) hækkaði um 38% frá 1981 til 2016. Matvælaverðsvísitala Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) hækkaði um 51% á samatíma á verðlagi hvers árs. Sé litið til fiskverðs sérstaklega hefur fiskverð á heimsvísu hækkað um ríflega 51% frá 2003 til ársins 2016, meðan hafa fiskflök í Bretlandi hækkað um 57%. Á sama tíma hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða Íslendinga hækkað um 145% í SDR, úr 0,53 SDR/kg afla í 1,3 SDR/kg afla eins og greint var frá í frétt Matís. Þökk sé þróun sem m.a. hefur verið drifin áfram af samstarfi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja- og samtaka, menntastofnana, Matís, iðnfyrirtækja og fleiri hagaðila í sjávarútvegi. 

Til að að íslenskt atvinnulíf geti náð árangri hefur Matís lagt mikið upp úr því að rækta mannauð, m.a. með samstarfi við íslenska háskóla, samstarf sem vonandi verður hægt að fjármagna til framtíðar, þrátt fyrir boðaðan niðurskurð í fjárlagafrumvarpi 2018. Nauðsynlegt er að hafa góð gögn til að byggja á þegar taka þarf ákvarðanir. Of oft þarf að benda á að þriðja verðmætasta fisktegundin í útflutningstölum Íslendinga sé annar afli. Með nothæf gögn í handraðanum skulum við ræða málin opinskátt, án upphrópana, og setja þau í samhengi. Hver eru t.d. áhrif þess að hætta að bjarga verðmætum og mæta þess í stað þörfum? Hvernig getum við enn bætt samstarf og samhæfingu íslenskra aðila? Samstarf Matís í gegnum tíðina við hagaðila í sjávarútvegi, ekki síst Landssamband smábátaeigenda, hefur skilað árangri við aflameðhöndlun og verðmætasköpun. Nú þurfum við að horfa til framtíðar og sækja enn lengra fram á vettvangi verðmætasköpunar á grunni þekkingar og auðlinda sjávar við Ísland og um allan heim.

Fréttir

Dregið úr ákjósanlegri fjárfestingu

Í frumvarpi til fjárlaga, sem lagt var fram 12. september sl., kemur fram áætlun um að lækka fjármagn ríkisins til matvælarannsókna (Matís) um 51 milljón á næstu tveimur árum, úr 441 milljón í 390 milljónir. Þetta er þvert á þörf fyrir nýsköpun í landbúnaði og sjávarútvegi um allt land og mun reynast skammgóður vermir fyrir ríkissjóð, enda hefur rekstur Matís gengið vel og skilað samfélaginu miklum ávinningi. Að teknu tilliti til skattgreiðslna og tryggingagjalds stóðu einungis um 80 milljónir eftir af þeim 435 milljónum sem þjónustusamningur um matvælarannsóknir skilaði Matís árið 2016.

Þess er skemmst að minnast að sumarið 2017 greip yfirstjórn Matís til aðhaldsaðgerða til að koma í veg fyrir tap á yfirstandandi ári, enda hefur traustur rekstur verið í fyrirrúmi hjá Matís frá upphafi. Að aðhaldsaðgerðunum loknum leit út fyrir að Matís gæti stutt vöxt í lífhagkerfinu af krafti. Viðbúið er að boðaður niðurskurður skaði getu Matís til að þjóna lögbundnu hlutverki sínu við að auka verðmætasköpun, matvælaöryggi og að bæta lýðheilsu.

Sértekjur Matís árið 2016 námu 1180 milljónum. Fjárfesting ríkisins í matvælarannsóknum er nauðsynleg til mótfjármögnunar samkeppnissjóða, en fyrir hverja krónu sem ríkið leggur til matvælarannsókna sækir metnaðarfullt starfsfólk Matís 2,6 krónur í sértekjur og vega þar þyngst erlendir samkeppnissjóðir, s.s. Horizon 2020, sem skiluðu Matís 481 milljón á árinu 2016 og íslensku nýsköpunarsamfélagi enn meiru. Ef litið er til þeirra fjármuna frá hinu opinbera, sem Matís hefur úr að spila að lokinni greiðslu skatta og opinberra gjalda (80 milljónir) lætur nærri að starfsfólk Matís hafi náð að ávaxta þá fjárfestingu fimmfalt með sókn í erlenda sjóði og þrefaldað fjárhæðina með innlendum styrkjum á sama tíma.  Slík ávöxtun þætti flestum fjárfestum góð og eru þá vantalin þau áhrif sem rannsóknaverkefni Matís hafa á samfélagið um allt land.

Dæmi um alþjóðlegt verkefni sem nýtist íslensku rannsóknasamfélagi er FarFish, sem Matís sótti í Horizon 2020 á árinu 2016. Matís leiðir verkefnið og meðal mikilvægra samstarfsaðila er Sjávarútvegsskóla háskóla sameinuðu þjóðanna (UNUFTP). Búast má við að tekjur UNUFTP, sem er hýst hjá Hafrannsóknastofnun, af verkefninu nemi um 279 þúsund Evrum á næstu árum, sem jafngildir 69% af væntum tekjum Hafrannsóknastofnunar, rannsókna og ráðgjafarstofnunar Hafs og vatna af rannsókna og þróunar verkefnum fjármögnuðum með stuðningi Horizon 2020.  

Í stað þess að skera niður fjárfestingu ríkisins í matvælarannsóknum og hefta þannig metnaðarfulla sókn Matís í alþjóðlega samkeppnissjóði, væri skynsamlegra að auka fjárfestinguna til eflingar Matvælalandsins sem Ísland getur verið og varðveislu Matarauðs okkar.

Fréttir

Loftslagsmaraþon í fyrsta sinn á Íslandi!

Tengiliður

Justine Vanhalst

Verkefnastjóri

justine@matis.is

Hefurðu áhuga á loftslagsmálum og langar að leggja þitt af mörkum? Taktu þátt í sólarhringshakki um loftslagsmál 27. október nk. í Matís (3. hæð). Climathon/loftslagsmaraþon er sólarhringsáskorun um nýsköpun í loftslagsmálum sem haldin er samtímis í 237 borgum um allan heim. Unnið verður hörðum höndum í 24 klst. að útfæra nýjar hugmyndir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðra loftmengun. Dómnefnd velur bestu lausnirnar og veitir verðlaun.

Loftslagsmaraþon er samkeppni sem er öllum opin. Fólk getur skráð sig sem einstaklingar, hópar, nemendur, frumkvöðlar og allir sem láta sig loftslagsmál varða. Rafmagnað andrúmsloft, hollur matur, innblásnar vinnustofur, hópumræður, afslappað andrúmsloft og svefnkrókar og fjölda óvæntra uppákoma bíður þeirra sem taka þátt. Dagur B. Eggertsson setur loftslagsmaraþonið af stað með hvatningarræðu klukkan 13:00 þann 27. október.

Viðburðurinn á Facebook

Skráðu þig til leiks hér

Hlökkum til að sjá þig! 

Fréttir

Matís í samstarfi hafríkja

Á ný yfirstöðnum fundi stórra hafþjóða um bláan vöxt (e. Large Ocean Nations Forum on Blue Growth), þann 3. október s.l. undirrituðu Høgni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja og Sveinn Margeirsson forstjóri Matís viljayfirlýsingu um samstarf (e. Letter of Intent). 

Fundurinn var skipulagður sjávarútvegsráðuneyti Færeyja, Norrænuráðherranefndinni og Norður-Atlantshafssamstarfinu NORA. Síðustu tvö ár hefur í auknum mæli verið rætt um hafsvæði sem tilheyra þjóðum og ríkjum þeirra fremur en flatarmál þess svæðis sem upp úr hafinu stendur.

HHogSM

Høgni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja og Sveinn Margeirsson forstjóri Matís.

Einu ári áður skilaði nefnd um endurskoðun á fiskveiðistjórnun í Færeyjum skýrslu. Eðli málsins samkvæmt var fjallað um fleira en fiskveiðistjórnun eina og sér og farið er í skýrslunni í margbreytileika sjávarútvegs, markmið og mögulegan ávinning af veiðum, vinnslu, dreifingu og sölu sjávarfangs með hagnýtingu nýsköpunar og rekjanleika.

Í samræmi við tillögu í skýrslunni um að hið opinbera í Færeyjum ásamt færeysku atvinnulífi leggi sig fram um að menntun og rannsóknir í matvælaframleiðslu verði framarlega í forgangsröðun í Færeyjum. Í því sambandi var hreyft við þeirri hugmynd að kanna kosti þess að setja á fót matvælarannsóknaeiningu í Færeyjum með Matís sem fyrirmynd.

Viljayfirlýsingin sem undirrituð var í síðustu viku undirstrikar áform Fiskimálastýrisins í Færeyjum og Matís á Íslandi um að taka saman höndum til að auka verðmæti, matvælaöryggi og lýðheilsu meðal stórra hafþjóða.

Samstarfið verður þróað frekar með samstarfsverkefnum. Áherslu er lögð á að auka verðmætasköpun, byggða á hagnýtingu vísinda- og nýsköpunar, í færeyskum sjávarútvegsfyrirtækjum og efla enn frekar vísindalegt samstarf milli færeyskra, íslenskra og alþjóðlegra rannsókna og iðnaðaraðila. Samstarfið mun styðja við markmið nýlega kynntra áforma um umbætur í Færeyskum sjávarútvegi.

IS