Fréttir

Matís og samstarfsaðilar tryggja sér 2,5 milljarða króna í styrki frá rammaáætlun Evrópu um rannsóknir og nýsköpun

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Nú í aðdraganda jóla bárust þær ánægjulegu fréttir frá Brussel að þrjú alþjóðleg rannsókna- og nýsköpunarverkefni sem Matís kemur að hafi verið valin til fjármögnunar af Horizon Europe rammaáætluninni.  Mikil samkeppni er um að fá slík verkefni fjármögnuð og ljóst að aðeins allra bestu verkefnin ná því að vera útvalin til fjármögnunar.  Matís fær um 310 milljónir króna úthlutaðar og innlendir samstarfsaðilar um 270 milljónir króna. Öll snúa þessi verkefni að því að auka sjálfbærni í fiskveiðum og fiskeldi, draga úr umhverfisáhrifum, og gera greinarnar betur reiðubúnar til að mæta áhrifum loftslagsbreytinga, sem og aukinna krafna um að fyrirtæki sýni fram á að sjálfbærnimarkmið séu höfð að leiðarljósi í rekstri. Frekari upplýsingar um verkefnin má sjá hér að neðan.

MarineGuardian verkefnið hefur það að markmiði að efla sjálfbærar fiskveiðar og stuðla að verndun sjávarvistkerfa í Atlantshafi og Norðuríshafi, með aukinni þekkingu og þróun lausna sem draga úr meðafla, brottkasti, olíunotkun, neikvæðum áhrifum á botnvistkerfi, auka afla á sóknareiningu, og tryggja bætta gagnaöflun og úrvinnslu til ákvarðanatöku og framsetningu sjálfbærniskýrslna. Matís leiðir verkefnið sem hlotið hefur styrk upp á 1.2 milljarða króna (8 millj. EUR), en þátttakendur í verkefninu eru alls 21, en þar eru í lykilhlutverkum íslensku fyrirtækin og stofnanirnar Trackwell, Brim, Hampiðjan og Hafrannsóknastofnun, auk þess sem verkefnið mun kaupa þjónustu frá Stiku umhverfislaustnum. Verkefnisstjóri er Jónas R. Viðarsson jonas@matis.is.

MeCCAM verkefnið hefur það að markmiði að þróa mótvægis og aðlögunaraðgerðir fyrir sjávarútvegsfyrirtæki og aðra hagaðila í Evrópu. Verkefnið hlýtur um 650 milljónir króna (4.5 millj. EUR) styrk og er stýrt af SJÓKOVANUM í Færeyjum, en Matís stýrir verkþætti og tilvikarannsóknarsvæði (case study) í verkefninu. Að verkefninu koma 16 samstarfsaðilar vítt og breitt frá Evrópu, en þátttakendur frá Íslandi auk Matís eru Trackwell, Brim og Stika umhverfislaustnir. Tengiliður Matís í verkefninu er Katrín Hulda Gunnarsdóttir katrinh@matis.is.

OCCAM er systurverkefni MeCCAM þar sem því er ætlað styðja fiskeldisiðnaðinn við mótvægisaðgerðir og aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga. Verkefnið er styrkt um 650 milljónir króna (4.5 millj. EUR) og er því stýrt af NOFIMA í  Noregi, en Matís stýrir verkþætti og tilvikarannsóknarsvæði (case study) í verkefninu. Að verkefninu koma 22 samstarfsaðilar vítt og breitt um Evrópu, en þátttakendur frá Íslandi auk Matís eru Samherji fiskeldi. Tengiliður Matís í verkefninu er Valur N. Gunnlaugsson valur@matis.is.

Þátttaka innlendra aðila í alþjóðlegum rannsókna- og nýsköpunarverkefnum skiptir miklu fyrir íslenskt samfélag, enda fá þar fyrirtæki og stofnanir tækifæri til að vinna á jafningjagrundvelli með þeim aðilum sem fremstir standa í sínum greinum. Jafnframt skapar slíkt samstarf tækifæri til að miðla þekkingu, tileinka sér nýjar aðferðir og stuðla að þróun sem leiðir til nýsköpunar, aukinnar sjálfbærni, arðsemi, fæðuöryggis og  framþróunar í íslensku atvinnulífi.

Fréttir

Matís leitar að fagstjóra örverumælinga

Matís leitar að fagstjóra örverumælinga. Starfið felur í sér samskipti við viðskiptavini, stjórnun og stefnumótun. Fagstjóri heyrir undir sviðsstjóra þjónustu.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Stjórnun og ábyrgð á rekstri og starfsmannahaldi faghópsins (8 manna teymi).
  • Samskipti við fyrirtæki og hagaðila.
  • Stefnumótun, skipulagning, forgangsröðun og samhæfing mælinga og verkefna.

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Háskólamenntun á sviði örverufræði, matvælafræði, líffræði, lífefnafræði eða sambærileg menntun. Framhaldsmenntun er kostur.
  • Rík samskipta- og skipulagshæfni.
  • Frumkvæði, sjálfstæði og metnaður.
  • Leiðtogahæfileikar.
  • Reynsla af örverumælingum er æskileg.
  • Reynsla af rekstri, stjórnun og markaðsmálum er kostur.
  • Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku.

Starfshlutfall er 100%. Viðkomandi mun starfa hjá Matís í Reykjavík.

Matís er leiðandi á sviði matvælarannsókna og líftækni. Hjá okkur starfar kraftmikill hópur sem brennur fyrir því að finna nýjar leiðir til að hámarka nýtingu hráefnis, auka sjálfbærni og efla lýðheilsu. Hlutverk Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs og tryggja matvælaöryggi, lýðheilsu og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu. Matís leggur áherslu á hagnýtar rannsóknir sem auka verðmæti íslenskrar matvælaframleiðslu, stuðla að öryggi og heilnæmi afurða og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Umsóknum skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf. Öll kyn eru hvött til að sækja um.

Upplýsingar veitir Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.is

Sækja um starf

Fréttir

Námskeið um meðhöndlun matvæla fyrir starfsfólk mötuneyta og eldhúsa

Tengiliður

Óli Þór Hilmarsson

Verkefnastjóri

oli.th.hilmarsson@matis.is

Matís býður upp á námskeið, varðandi meðhöndlun á matvælum, hreinlæti, helstu áhættur og matvælaöryggi, sem er sérstaklega miðað að starfsfólki í mötuneytum, eldhúsum og veitingahúsum. Tilgangur námskeiðanna er að tryggja að þekking og skilningur aðila sem meðhöndla matvæli á matvælaöryggi og hreinlæti, sé gott, til að lágmarka áhættu á að skaðlegar sýkingar berist í matvæli og ógni þar með heilbrigði og öryggi neytenda. Námsefnið er viðurkennt af Matvælastofnun. Boðið verður upp á námskeiðið bæði sem staðnámskeið og vefnámskeið.

Matís og sérfræðingar þess eru bakhjarlar þessa verkefnis, en námsefnið er viðurkennt af Matvælastofnun. Fræðsluefnið er unnið úr ýmsum gögnum s.s. þeim lögum og reglugerðum sem fjalla um matvæli, úr fyrri rannsóknum og því náms- og kynningarefni sem útbúið hefur verið hjá Matís og Matvælastofnun.

Áætlað er að tvær til þrjár kennslustundir (3×45 mín) taki nemanda að lesa yfir og tileinka sér það sem borið er fram og að taka próf í lok námskeiðs. Hafi þátttakandi staðist prófið, er gefið út vottorð s.k. matvælaöryggis skírteini. Skírteinið er staðfesting á að þátttakandi hafi aflað sér staðgóðrar þekkingar vegna vinnu við meðhöndlun matvæla samkvæmt kröfum þeirra reglugerða sem mötuneytum og veitingahúsum ber að fara eftir. Krafist er 80% réttrar svörunnar og mögulegt er að endurtaka prófið tvisvar.

Farið er í eftirfarandi þætti:

1 Matvælaöryggi

Samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni deyja um 240 þúsund manns ár hvert af völdum matarsýkinga eða matareitranna, og þriðjungur eru börn undir fimm ára aldri. Það má því segja að matvælaöryggi sé dauðans alvara. Í þessum hluta er farið yfir helstu hættur í matvælum og hver er hugsanlegur uppruni þeirra. Sérstök áhersla er lögð á sjúkdómsvaldandi örverur, hverjar eru þær helstu og hvernig komast þær í matvæli. Þá er einnig rætt um hvernig þær ná að fjölga sér og hverjar eru helstu afleiðingar nái þær að sýkja neytendur.

Fjallað er um hvaða hættur tengjast matvælum og farið yfir flokkana (eðlis-, efna- og líffræðilegar hættur, þar sem fjallað er um hvers konar hættur þar er að finna og hvar þær gætu verið). Þá er fjallað um hvernig á að verjast því að hætturnar komið í matvæli og neytendur. Farið er yfir meðhöndlun og geymslu matvæli og einnig fjallað um þrif og umgengni um matvæli. Að lokum er farið yfir nauðsyn skráninga.

2 Meðhöndlun og geymsla matvæla

Í þessum hluta er fjallað um hvernig verja má matvæli frá utanaðkomandi smiti. Þá fariðyfir mikilvægi rétts hitastigs við matreiðslu, framreiðslu, kælingu og geymslu matvæla.

3 Hreinlæti

Farið yfir mikilvægi þrifa og sótthreinsunar á umhverfi og áhöldum sem notuð eru við tilbúning matar og sérstök áhersla lögð á hreinlæti og heilbrigði þeirra sem meðhöndla óvarin matvæli.

4 Hættugreining og mikilvægir stýristaðir (HACCP)

Matvælareglugerðir kveða á um að öll meðhöndlun og vinnsla matvæla skuli byggð á HACCP hugmyndafræðinni. Farið er yfir hvað það þýðir og hvaða kröfur eru gerðar til mismunandi fyrirtækja og stofnana.

5 Ofnæmisvaldar

Ákveðin matvæli og innihaldsefni geta kallað fram sterk ofnæmisviðbrögð hjá vissum einstaklingum. Fjallað er um hvaða matvæli og innihaldsefni það eru og hvaða kröfur eru gerðar til þeirra sem bjóða fram matvæli sem innihalda slík efni.

Verð á vefnámskeiði eru 22 þúsund krónur. Dagsetningar verða auglýstar síðar.

Frekari upplýsinar veitir Óli Þór Hilmarsson, olithor@matis.is.

Mynd: Shutterstock

Fréttir

Matís leitar eftir metnaðarfullum sérfræðingi í matvælaörverufræði

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Matís er leiðandi á sviði matvælarannsókna og líftækni. Hjá Matís starfar um 100 manna öflugur hópur starfsfólks sem brennur fyrir því að finna nýjar leiðir til að hámarka nýtingu hráefnis, auka sjálfbærni og efla lýðheilsu. Hlutverk Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs og tryggja matvælaöryggi, lýðheilsu og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Almennar örverurannsóknir með faggildum aðferðum
  • Þátttaka í færni-prófunum á sviði matvæla og lyfja
  • Þátttaka í innri samanburðarsýnaprófunum á ýmsum matvælasýklum
  • Þátttaka í verkefnum sem heyra undir tilvísunarrannsókna fagsviðsins
  • Uppbygging faglegrar áherslu varðandi þjónustumælinga í örverufræði

Hæfnikröfur

  • Menntun í matvælafræði, lífeindafræði, líffræði eða skyldum greinum er skilyrði
  • Reynsla af rannsóknum og mælingum er æskileg
  • Jákvætt viðmót og lipurð í mannlegum samskiptum eru skilyrði
  • Samstarfshæfni og sveigjanleiki
  • Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
  • Frumkvæði og faglegur metnaður
  • Góð almenn íslensku- og enskukunnátta bæði í tali og riti.
  • Góð almenn tölvukunnátta

Starfshlutfall er 100%. Viðkomandi mun starfa á rannsóknastofu Matís við Vínlandsleið 12, Reykjavík.

Umsóknum skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf.

Öll kyn eru hvött til að sækja um.

Upplýsingar veitir Sæmundur Sveinsson, fagstjóri örverumælinga og erfðagreininga, saemundurs@matis.is, 422 5130.

Fréttir

E. coli STEC í nauthakki – Uppruni matarborins smits staðfestur með heilraðgreiningu á Matís

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Matís getur greint hvort E.coli STEC sé í matvörum

Undanfarnar tvær vikur hafa sérfræðingar Matís unnið hörðum höndum að því að rekja uppruna hópsýkingar af völdum E. coli STEC sem upp kom í leikskóla í Reykjavík um miðjan október. Rannsóknin var unnin í nánu samstarfi við Matvælastofnun, Sóttvarnarlækni, sýkla- og veirufræðideild Landspítala og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.

Fjöldi matvæla, sem lágu undir grun, voru skimuð fyrir
E. coli STEC en þessi baktería getur leynst víða. Fljótlega kom í ljós að hakk, sem notað var í matseld á leikskólanum, var langlíklegasti uppruni smitsins. Mikill fjöldi bakteríustofna var ræktaður úr hakkinu og að lokum tókst að einangra þrjá stofna sem innihéldu einkennandi meinvirknigen og voru af sömu sermisgerð og stofn sem einangraður var úr sjúklingi. Erfðamengi þessara fjögurra stofna var að lokum heilraðgreint á Matís. Sú greining leiddi í ljós að stofnar úr hakkinu og sjúklingi voru erfðafræðilega eins. Matís var brautryðjandi í innleiðingu þessarar aðferðafræði hér á landi til að rekja uppruna matarborinna sýkinga.

Matís vill að lokum vekja athygli á að fyrirtækið býður upp á greiningar á E. coli STEC í matvælum. Matís er tilvísunarrannsóknastofa (NRL) í þessum greiningum hér á landi. Það þýðir að Matís uppfærir sífellt aðferðir sínar í samræmi við nýjustu þekkingu og aðferðir í Evrópu. E. coli STEC er baktería sem getur valdið alvarlegum veikindum.

Fréttatilkynning MAST

Fréttir

Mikilvægi rannsóknainnviða fyrir þróun lífhagkerfisins

Tengiliður

Katrín Hulda Gunnarsdóttir

Verkefnastjóri

katrinh@matis.is

Þann 5-6. September stóðu Matís og RISE frá Svíþjóð fyrir vinnustofu fyrir hönd Evrópuverkefnisins BIO2REG. Vinnustofan bar heitið “BIO2REG expert workshop on research infrastructure and living labs” og fjallaði um tengingu lífhagkerfisins við rannsóknarinnviði og „living labs“. Þar voru leiddir saman sérfræðingar á ýmsum sviðum lífhagkerfisins og fræddust þeir um verkefni sem tengjast lífhagkerfum, þróun síðustu áratuga og mikilvægi grænnar orku.

Degi 1 var eytt í heimsóknir. Dagurinn hófst í Brim þar sem gestir fengu kynningu á starfsemi fyrirtækisins, en lífhagkerfi Íslands byggir að stórum hluta á fiskveiðum. Því næst var haldið í Vaxa Impact Nutrition á Hellisheiði og fræðst um þeirra starfsemi, en þar eru örþörungar framleiddir á einstakan hátt. Daginum lauk í fiskeldisrannsóknar stöð Matís, MARS, og starfsemi þeirra kynnt. Dagur 2 fór fram í höfuðstöðvum Matís. Þar voru kynningar frá fjölda fyrirlesara, m.a. Matís, RISE, Orkídeu og Forschungszentrum Jülich. Komið var víða við og líflegar umræður sköpuðust.

Sven-Ole Meiske, prófunarstjóri fiskeldisstöðvar Matís, kynnir starfsemi stöðvarinnar fyrir gestum vinnustofunnar

Vinnustofan var ein af þeim fimm sem verkefnið stóð fyrir. Hinar fjórar fjölluðu um menntun á sviði lífhagkerfis, félagsþætti lífhagkerfa, virðiskeðjur og fjármögnun. Niðurstöður vinnustofanna verða notaðar til að ná markmiðum BIO2REG verkefnisins, en markmið þess er að auðvelda iðnaðarsvæðum sem losa mikið af gróðurhúsalofttegundum að ná fram grænni umbreytingu. Fyrir frekari upplýsingar um BIO2REG er hægt að heimsækja verkefnasíðu og heimasíðu verkefnisins. BIO2REG er þriggja ára Everkefni og eru þátttakendur 9, víðsvegar að úr Evrópu. BIO2REG er samhæfingar- og stuðningsverkefni (CSA) styrkt af Evrópusambandinu.

Fréttir

Ársfundur Natalie á Gran Canaria

Dagana 14.-16. október hittust allir 43 þátttakendur Evrópuverkefnisins Natalie í Las Palmas á Gran Canaria til þess að ræða framgang verkefnisins fyrsta árið og næstu skref. Þar gafst þátttakendum líka tækifæri til þess að hittast í eigin persónu, margir hverjir í fyrsta skipti. Í verkefninu koma saman 43 fyrirtæki og stofnanir víðsvegar úr Evrópu með það að markmiði að þróa náttúrutengdar lausnir sem auka eiga viðnámsþrótt svæða gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Verkefnið er til fimm ára og er styrkt af Horizion áætlun Evrópusambandins.

Í kringum 100 manns tóku þátt í fundinum og voru fulltrúar flestra samstarfsaðila mættir, ásamt hagsmunaaðilum á svæðinu og fleiri hluteigandi. Umræður fundarins snerust m.a. að eftirfarandi:

Staða verkefnisins eftir fyrsta árið

Verkefnið nær til margra þátttakenda í ólíkum löndum þar sem þarfir eru fjölbreyttar. Að fara yfir stöðuna saman gaf því tækifæri til þess að fá innsýn í hvað er í gangi annars staðar í Evrópu. Hvert rannsóknarsvæði uppfærði samstarfsaðila um hvað hafði gengið vel og hverjar helstu ákoranirnar hefðu verið undanfarið ár. 

Rannsóknarsvæðið á Gran Canaria heimsótt. Á myndinni sést uppbyggt votlendi með mælitæki.
Hluti þátttakenda í CS7. Frá vinstri : Annar Berg Samúelsdóttir (Matís), Tinna Halldórsdóttir (Austurbrú), Gabríel Arnarsson (Austurbrú), Katrín Hulda Gunnarsdóttir (Matís) og Jess Penny (University of Exeter).

Undirbúningur næstu vinnustofu

Mikilvægur þáttur verkefnisins er að tengjast hagsmunaaðilum á svæðinu og til þess eru haldnar fjórar vinnustofur. Sú fyrsta hefur þegar farið fram en á fundinum var farið yfir hvernig væri hagkvæmast að halda þá næstu.

Næstu skref

Í lok fundar gafst þátttakendum tækifæri til þess að setjast saman niður og skipuleggja næstu skref. Í svona umfangsmiklu verkefni eru margir þættir sem þarf að hafa yfirsýn yfir og því mikilvægt að allir séu á sömu blaðsíðu.

Þar að auki var farið í vettvangsheimsókn á eitt rannsóknarsvæðanna og fengu þátttakendur þar góða hugmynd um raunveruleg áhrif þess að innleiða náttúrutengda lausn á nærumhverfið. Eftir langa, en árangursríka fundardaga, fara fulltrúar Matís fullir tilhlökkunar inn í næsta ár verkefnisins.

Um verkefnið

Verkefnið Natalie snýr að þróun náttúrutengdra lausna sem auka eiga viðnámsþrótt svæða gegn loftslagsbreytingum. Austurland var valið sem sjöunda rannsóknarsvæði (CS7) verkefnisins og þátttakendur í CS7 eru Matís, Austurbrú, University of Tromsø og University of Exeter. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins.

Natalie Leaflet (PDF)

Fréttir

Hvernig gerum við matvælakerfi framtíðar sjálfbærari?

Alþjóðlegt ráðstefna um nýprótein fyrir mat og fóður verður haldin í Berlín dagana 3.-5. desember næstkomandi. Matís er einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar, en um er að ræða mikilvægan vettvang þar sem leitað er leiða til stuðla að sjálfbærum landbúnaðarháttum og matvælakerfum, sem nær yfir framleiðslu og neyslu, á heildrænan hátt og samþætta nýsköpun og umhverfisvernd.

Matvæla- og fóðurkerfi um allan heim standa frammi fyrir áskorunum við að tryggja fæðuöryggi og næringu fyrir alla jarðarbúa, á sama tíma og þau þurfa að tryggja lífsviðurværi bænda og annarra hagsmunaaðila í fæðukeðjunni og viðhalda sjálfbæru umhverfi.

Nýprótein (e. alternative protein) eins og skordýr, sveppir, þörungar og örverur fylla skarð sjálfbærrar, næringarríkrar og öruggrar fæðu í framtíðinni.

Á ráðstefnunni verður fjallað um sjálfbær nýprótein og kannað hvernig þau geta umbreytt núverandi matvælakerfum. Áhersla er á öryggi og næringu, auk skynjun neytenda og efnahagslegan grundvöll.

Sem fyrr segir fer ráðstefnan fram í Berlín dagana 3.–5. desember 2024, en það er einnig hægt að sitja ráðstefnuna í gegnum netið, svo þú getur tekið þátt hvar þú ert.

Skipuleggjendur ráðstefnunnar eru:

  • German Federal Institute for Risk Assessment (Bundesinstitut für Risikobewertung, BfR)
  • European Food Safety Authority (EFSA)
  • U.S. Food and Drug Administration (FDA)
  • Singapore Food Agency (SFA)
  • Matís ohf.

Frekari upplýsingar og skráningu má finna hér.

Fréttir

Doktorsvörn í matvælafræði – Anna Þóra Hrólfsdóttir

Föstudaginn 1. nóvember næstkomandi ver Anna Þóra Hrólfsdóttir doktorsritgerð sína í matvælafræði við Háskóla Íslands í samvinnu við Matís. Ritgerðin ber heitið: Bætt nýting, varðveisla og gæði brúnþörunga.

Doktorsvörnin fer fram í Hátíðarsal Aðalbyggingar Háskóla Íslands klukkan 9:00 til 12:00.

Andmælendur verða dr. Susan Løvstad Holdt, dósent við Matvælastofnun Danska tækniháskólans,DTU, og dr. Marthe Jordbrekk Blikra, vísindamaður við norsku matvælarannsóknarstofnunina Nofima.

Umsjónarkennari er María Guðjónsdóttir og leiðbeinendur auk hennar eru Hildur Inga Sveinsdóttir, lektor og sérfræðingur hjá Matís, og Sigurjón Arason, prófessor emeritus og sérfræðingur hjá Matís. Auk þeirra situr Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, prófessor, í doktorsnefnd.

Ólöf Guðný Geirsdóttir, prófessor og forseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 9.00.

Eftirfarandi ágrip af ritgerðinni:
Þrátt fyrir gífurlega aukningu í stórþörungaframleiðslu á síðustu áratugum eru þeir enn frekar vannýtt auðlind í Evrópu. Hins vegar hefur áhugi á stórþörungum aukist verulega í Evrópu undanfarin ár og spáð hefur verið að framleiðslan gæti aukist gríðarlega næstu áratugi. Með aukinni framleiðslu stórþörunga er mikilvægt að fullnýta, varðveita og meðhöndla lífmassann á viðeigandi hátt til að hámarka gæði afurðarinnar. Því var markmið rannsóknarinnar að kanna og bæta virðiskeðjur valinna brúnþörunga, með áherslu á fullnýtingu hráefnis í mjölvinnslu úr klóþangi, varðveislu og geymsluþol á ræktuðum beltisþara og marinkjarna, og meta nýtingu fjöllitrófsmyndgreiningartækni (MSI) til að meta gæði stórþörunga innan iðnaðarins. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna tækifæri í því að auka verðmæti stórþörunga með bættum framleiðsluferlum. Enn fremur benda niðurstöðurnar til þess að sýring gæti hentað vel sem varðveisluaðferð fyrir ræktaða brúnþörunga og að MSI gæti verið notuð til gæðamats á stórþörungum innan iðnaðarins.

Fréttir

Nýr gagnagrunnur um örverur í matvælum og framleiðsluumhverfi

Tengiliður

Sigurlaug Skírnisdóttir

Verkefnastjóri

sigurlaug.skirnisdottir@matis.is

Örverur eru hluti af matnum okkar. Þekking á því hvaða örverur finnast í matvælum og í framleiðsluumhverfi er þó enn takmörkuð. Nýleg rannsókn, sem Matís tók þátt í, hefur veitt nýja innsýn í þetta viðfangsefni. Niðurstöðurnar munu stuðla að betri skilningi á áhrifum örvera á ýmsa þætti matvæla, eins og geymsluþol, öryggi, gæði og bragð.

Rannsóknin var hluti af Evrópuverkefninu MASTER,  sem sameinaði 29 samstarfsaðila frá 14 löndum. Eitt af markmiðum verkefnisins var að skapa gagnagrunn utan um örverur í matvælum  með því að raðgreina erfðaefni úr 2533 sýnum sem tekin voru  úr ýmsum matvælum og framleiðsluumhverfi þeirra. Matís sá um að rannsaka sýni úr íslenskum fiskvinnslum en rannsóknarverkefnið náði til allra helstu fæðuflokka. Þetta er stærsta rannsókn sem hefur verið gerð á örverusamsetningu í matvælum og framleiðsluumhverfi en betri skilningur á þessum örverum gæti stuðlað að bættri heilsu fólks þar sem sumar örverur úr matvælum geta orðið hluti af örveraflóru okkar.

Alls voru 10899 fæðutengdar örverur greindar í þessum sýnum, þar sem helmingur þeirra voru áður óþekktar tegundir. Niðurstöðurnar sýndu að matvælatengdar örverur mynda að meðaltali um 3% af þarmaflóru fullorðinna en um 56% af þarmaflóru ungbarna.

„Þessar niðurstöður benda til þess að sumar örverur í þörmum okkar komi beint úr mat, eða að mannkynið hafi sögulega fengið þær úr  fæðunni, þar sem þær hafa síðar aðlagast og orðið hluti af þarmaflóru mannsins,“ segir Nicola Segata, örverufræðingur við háskólann í Trento og Evrópsku krabbameinsstofnunina í Mílanó.  Þótt 3% kunni að virðast lágt hlutfall, þá geta þessar örverur haft mikil áhrif á virkni þarmaflórunnar. Gagnagrunnurinn er því mikilvægt framlag til vísinda og lýðheilsu, þar sem hann mun nýtast við rannsóknir á áhrifum matvælatengdra örvera á heilsu okkar.

Þó að fáar sjúkdómsvaldandi örverur hafi verið greindar í matvælasýnunum, voru nokkrar tegundir sem geta verið óæskilegar vegna áhrifa þeirra á bragð eða geymsluþol matvæla. Þekking á því hvaða örverur tilheyra ákveðnum matvælum getur því verið gagnlegt  fyrir framleiðendur, bæði  stóra og smáa, til að bæta vörugæði. Einnig geta þessar upplýsingar aðstoðað við matvælaeftirlit við að skilgreina hvaða örverur ættu og ættu ekki að vera til staðar í tilteknum matvælum ásamt því að rekja og votta uppruna þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar 29. ágúst síðastliðinn í tímaritinu Cell Press og gagnagrunnurinn er nú aðgengilegur. Niðurstöður sem sérstaklega varða sjávarafurðir hafa einnig verið birtar í tímaritinu Heliyon sem er gefið út af Cell Press.  Rannsóknin er sem fyrr segir hluti af evrópska rannsóknaverkefninu MASTER og var styrkt af Horizon 2020, Horizon Europe, Utanríkisráðuneyti Ítalíu, Evrópska rannsóknarráðinu, Spænska vísinda- og nýsköpunarráðuneytinu, Vísindastofnuninni á Írlandi og Írska landbúnaðar-, matvæla- og sjávarútvegsráðuneytinu.

IS