Upphaf maí mánaðar markaði formlegt upphaf MeCCAM verkefnisins, sem er evrópskt rannsóknar- og nýsköpunarverkefni sem ætlað er að þróa mótvægis og aðlögunaraðgerðir gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga fyrir sjávarútveginn.
MeCCAM er fjögurra ára verkefni sem er leitt af Sjókovanum í Færeyjum, en alls eru 16 samstarfsaðilar í verkefninu frá 9 Evrópulöndum. Verkefnið er fjármagnað af rammaáætlun Evrópu um rannsóknir og nýsköpun, Horizon Europe, með heildarfjármögnun upp á 4,5 milljónir evra.
Á næstu fjórum árum munu samstarfsaðilar MeCCAM þróa, innleiða og mæla með lausnum til að draga úr umhverfisáhrifum og auka seiglu og sjálfbærni evrópska fiskveiðigeirans. Lausnirnar eru hannaðar til að bregðast við fjölbreyttum áskorunum sem blasa við um alla Evrópu – frá Norðaustur-Atlantshafi til Miðjarðarhafsins. En MeCCAM mun:
- Rannsaka og spá fyrir um hvernig dreifing, vöxtur og framleiðni muni breyst út frá mismunandi sviðsmyndum varðand hlýnun sjávar.
- Þróa og prófa nýstárleg tól og tækni sem stuðla munu að bættri eldsneytisnýtingu og kjörhæfni.
- Þróa og prófa stafræna tækni til gagnasöfnunar og gagnaúrvinnslu, sem styður svo við upplýsta ákvarðanatöku. MeCCAM mun þannig þróa og sameina gagnalindir með það að markmiði að hagræða og hámarka sjálfbærar fiskveiðar í Evrópu.
MeCCAM mun framkvæma sex svæðisbundnar rannsóknir á Norðaustur-Atlantshafi, Norðursjó og Miðjarðarhafi til að prófa og sýna fram á fjölbreyttar aðgerðir til aðlögunar og mótvægisaðgerða gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga. Þessar tilvikarannsóknir hafa verið valdar sérstaklega til að endurspegla fjölbreyttar áskoranir sem evrópskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir. Íslenskir þátttakendur koma með beinum hætti að tveimum þessara tilvikarannsókna, en íslenskir þátttakendur í verkefninu eru Matís, Brim, Tracwell og Stika umhverfislausnir.
Hægt verður að fylgjast með framvindu verkefnisins hér