Fréttir

Nordtic – lífhagkerfi norðurslóða

Þann 25. júní verður haldin ráðstefna þar sem fjallað verður um Norræna lífhagkerfið (Nordic Bioeconomy) og lífhagkerfi norðurslóða (Arctic Bioeconomy).

Lífhagkerfið

Hugtakið lífhagkerfi (e. Bioeconomy) hefur verið notað til að ná yfir allar lífauðlindir, samspil þeirra og samhengi og áhrif þeirra á efnahagslega, umhverfislega og félagslega þætti. Rannsóknir á sviði lífhagkerfis ganga þannig þvert á atvinnugreinar og leitast við að hámarka ávinning auðlinda án þess að ganga á þær. Efling lífhagkerfisins Mikilvægur þáttur í starfsemi Matís er að efla og auka verðmætasköpun í lífhagkerfinu, meðal annars með verkefnum sem snúa að aukinni framleiðslu lífmassa og með því að hlúa að nýsköpun, vinna að bættri nýtingu og sjálfbærni í framleiðsluferlum og þar með hagfelldari afrakstri auðlinda. Starfsfólk Matís fagnar því norrænni áherslu á lífhagkerfið og vinnur náið með íslenskum stjórnvöldum að útfærslu þriggja ára formennskuverkefna á þessu sviði, en þau hófust á þessu ári þegar Ísland tók við formennsku í Norræna ráðherraráðinu.

Að þessu tilefni verður haldinn ráðstefna á hótel Selfossi 25. júní þar sem fjallað verður um þessi mál frá margvíslegum sjónarhornum.

Á vef Gestamóttökunnar/Yourhost er hægt að skrá sig á ráðstefnuna.

Nýsköpun í lífhagkerfi Norðurlanda og norðurslóða

Drög að dagskrá

  • 09:15 Coffee and registration
  • 10:00 Opening the conference | Sigurður Ingi Jóhannsson, Minister of Fisheries and Agriculture
  • 10:15 No standard = no market | Dr. dr. Andreas Hensel, President at BfR                 
  • 11:00 Product development in the Arctic Bioeconomy | Sigrún Elsa Smáradóttir, Research group leader, Matís                        
  • 11:30 Industry success stories | Faroe Islands, Iceland and Greenland   
  • 12:00 Lunch | Special taste of innovation
  • 13:30 Branding of Nordic food | Emil Bruun Blauert, CEO, Executive Advisor and Developer, WNEAT
  • 13:50 Microfeed: Turning wood into food | Clas Engström, Managing Director, SP Processum          
  • 14:10 Nutrition for the future – Possibilities of the Nordic areas? | Bryndís Eva Birgisdóttir, Associate professor, University of Iceland
  • 14:30 Coffee break             
  • 14:50 Food waste: Problem or growth opportunity? | Nils Kristian Afseth, Research Scientist, PhD, Nofima.       
  • 15:10 Investing in algae – Ingredients for future food production | Olavur Gregersen, Managing Director, Syntesa Partners & Associates               
  • 15:30 Assessing and mitigating risk in the Nordic Bioeconomy | Guðmundur Halldórsson, Research Coordinator, Soil Conservation Service of Iceland
  • 15:45 Reflection panel | Nordic and Arctic bioeconomy in local & global perspective
  • 16:30 End of conference

Meira um lífhagkerfi norðurslóða

Lífhagkerfið á norðurslóðum Eitt af þeim verkefnum sem Matís hefur haft forgöngu um er norræna verkefnið Arctic Bioeconomy en Sigrún Elsa Smáradóttir, fagstjóri á Viðskiptaþróunarsviði, er þar verkefnastjóri. Verkefnið er til tveggja ára og felur í sér kortlagningu á lífauðlindum á norðurslóðum, mati á afrakstri þeirra, og samanburði og greiningu milli svæða. Einkum er horft til Grænlands, Íslands og Færeyja en tæpt á lífauðlindum í norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. „Í verkefninu er sérstaklega horft til matvælaframleiðslu með tilliti til fæðuöryggis auk þess sem nýsköpunarhæfni svæðanna og einstakra greina verður metin. Þetta er gert til þess að hægt sé að meta tækifæri og ógnanir og ráðast í kjölfarið í verkefni sem styrkja svæðin á þessu sviði,“ segir Sigrún Elsa, en áætlað er að verkefninu ljúki í september 2014.

„Miklar lífauðlindir er að finna á norðurslóðum og eru þær mikilvægar fyrir efnahagslíf landanna, bæði beint og óbeint. Hér á Íslandi er sjávarútvegur ein helsta undirstöðuatvinnugreinin og gögn um stöðu sjávarútvegs í mjög góðu horfi, en gögn sem snúa að öðrum auðlindum, eins og til dæmis landnýtingu, eru síðri. Það er mikilvægt að ná saman yfirliti yfir auðlindir og afrakstur þeirra svo unnt sé að meta árangur og greina hvernig efla megi svæðin. Með því að auka verðmæti afurða, örva og styrkja lífhagkerfið og afkastagetu þess aukum við efnahagslegan árangur,“ segir Sigrún Elsa og bætir við að lífauðlindir þessa svæðis séu að breytast vegna hlýnunar jarðar. „Það er nauðsynlegt að fylgjast vel með þessum breytingum, í þeim geta falist bæði tækifæri og ógnanir. Mikilvægt er að nýta þá möguleika sem hugsanlega opnast til matvælaframleiðslu á þessu svæði vegna breyttra lífsskilyrða og umhverfisáhrifa. Enda er staðreyndin því miður sú að meðan möguleikar á þessu sviði á norðurslóðum kunna að aukast, þá dragast þeir saman annars staðar á sama tíma og fólksfjölgun í heiminum heldur áfram“.

FP7, Horizon 2020, Industrial Leadership, Sicentific Excellence, Grand ChallangesSigrún Elsa Smáradóttir

Verkefninu er ætlað að styrkja löndin til virkrar þátttöku í alþjóðlegum samstarfsverkefnum, meðal annars á norrænum vettvangi. „Þegar kemur að rannsóknaáætlunum og stuðningi við nýsköpun, liggur fyrir að mikil áhersla verður lögð á lífhagkerfið, bæði í norrænu og evrópsku samhengi,“ segir Sigrún Elsa.

Þannig hefur norræna nefndin um landbúnaðar – og matvælarannsóknir (NKJ) unnið stefnumörkun um „Norræna lífhagkerfið“ (e. The Nordic Bioeconomy Initiative). Í þeirri stefnumörkun er sérstaklega horft til sjálfbærni náttúruauðlinda og nýtingar lífmassa með svipuðum hætti og aðrar þjóðir á evrópskum vettvangi hafa gert. Í nefndinni sitja þrír Íslendingar, þeir Torfi Jóhannesson, sérfræðingur hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís og Sigurður Björnsson, sviðsstjóri hjá Rannís. Stefnumörkunin á fyrst og fremst að bæta og greiða fyrir norrænum samstarfsverkefnum sem snúa að rannsóknum á sviði lífhagkerfisins og stuðla að frekari stefnumótun á því sviði. Þannig er ætlunin að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu í grunnframleiðslu og afleiddum greinum.

„Ætlunin er að efla samstarf úrvinnslugreina, eins og til dæmis matvælaframleiðslu eða fóður- og áburðarframleiðslu, við grunnatvinnugreinar, eins og sjávarútveg og landbúnað, og vinna að heildstæðum lausnum sem ganga þvert á atvinnugreinar og hámarka ávinning af nýtingu auðlindanna án þess að ganga á þær. Sjálfbær framleiðsla og nýting lífmassa stuðlar að efnahagslegri og félagslegri styrkingu svæða sem liggja að auðlindunum, aukinni matvælaframleiðslu og þar með auknu fæðuöryggi. Jafnframt er horft til vistvænnar framleiðslu á orkugjöfum úr lífmassa til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi en þá er mikilvægt að leiðir verði fundnar til að slík framleiðsla verði ekki á kostnað matvælaframleiðslu. Mikil samkeppni um hráefni, annars vegar til matvælaframleiðslu og hins vegar til orkuframleiðslu, getur haft alvarlegar afleiðingar á matvælaverð og möguleika fólks í heiminum til að brauðfæða sig,“ segir Sigrún Elsa.

Íslenskt formennskuverkefni

Norrænu ríkin skiptast á um að fara með formennsku í Norræna ráðherraráðinu og leiða starfsemina eitt ár í senn. Á ár kemur það í hlut Íslendinga að gegna formennsku í ráðinu en samhliða því verður sett af stað þriggja ára formennskuáætlun á sviði lífhagkerfisins sem skila á beinum efnahagslegum ávinningi á Norðurlöndunum. Nú er að ljúka útfærslu formennskuverkefna á sviði lífhagkerfisins en Matís hefur verið virkur þáttakandi í þeirri útfærslu undir forystu Sveins Margeirssonar forstjóra Matís.

„Formennskuverkefnin munu kalla á aukið samstarf iðnaðarins og rannsókna- og menntakerfisins í hagnýtum virðisaukandi verkefnum. Horft verður til þess hvernig efla megi þekkingarsköpun og framþróun í sjálfbærri auðlindanýtingu og framleiðslu á lífmassa á Norðurlöndunum og yfirfæra þá þekkingu og tæknilausnir sem fyrir er milli svæða,“ segir Sigrún Elsa.

Í tengslum við formennskuverkefnið verður mynduð pallborðsnefnd, Nordic Bioeconomy panel, sem verður ráðgefandi fyrir rannsóknasjóði Norðurlandanna þegar kemur að rannsóknaköllum á sviði lífhagkerfisins. Að auki verður hlutverk nefndarinnar að kynna stöðu Norðurlandanna út á við þegar kemur að lífhagkerfinu og þannig greiða aðgang landana að alþjóðlegum rannsóknastyrkjum. Sameinaðir kraftar Norðurlandanna munu þannig hafa áhrif á þessu sviði.

„Það að Ísland gegni burðarhlutverki í slíku samstarfi, hafi forgöngu um metnaðarfulla formennskuáætlun á sviði lífhagkerfisins og gegni leiðandi hlutverki í rannsóknum því tengdu á norðurslóðum, beinir sjónum annarra að landinu sem áhugaverðs samstarfsaðila í verkefnum sem snúa að lífhagkerfinu. Breitt fjölþjóðlegt samstarf á þessu sviði, bæði í rannsóknum og þróun, er mikilvægur grunnur að eflingu lífhagkerfisins og þar með efnahagslegra framfara á Íslandi,“ segir Sigrún Elsa að lokum.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Elsa. Einnig má finna áhugavert efni um stóru áskoranirnar í nánustu framtíð á myndbandasíðu Matís.

Fréttir

Ráðstefna um smábátaveiðar í Norður-Atlantshafi

Ráðstefna um smábátaveiðar í Norður-Atlantshafi verður haldin í höfuðstöðvum Matís að Vínlandsleið 12 í Reykjavík dagana 25. – 26. mars nk.

Hægt verður að fylgjast með ráðstefnunni með því að fara inn á eftirfarandi vefslóð: https://meet.matis.is/jonas/3B0WBFFM

Smábátaveiðar og sjávarbyggðir víða í Norður Atlantshafi standa höllum fæti um þessar mundir. Erfið rekstrarskilyrði, lítil nýliðun, hár stofnkostnaður, mikil samkeppni frá öðrum atvinnugeirum og útgerðaflokkum, ásamt neikvæðri byggðaþróun eru meðal þeirra atriða sem gera þessum útgerðarflokki erfitt um vik. Það eru engu að síður einnig margir innan þessa geira að gera mjög góða hluti, þar sem menn hafa náð að aðlagast nýjum rekstrarskilyrðum og komið auga á ný tækifæri.

Rannsóknaraðilar og aðrir hlutaðilar tengdir smábátageiranum í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Færeyjum, Íslandi, Grænlandi og Nýfundnalandi hafa á síðustu mánuðum verið að kynna sér rekstrarskilyrði, helstu vandamál og möguleg tækifæri innan greinarinnar í sínum löndum. Þessir aðilar ætla nú að standa fyrir ráðstefnu í Reykjavík 25.-26. mars þar sem farið verður yfir stöðu smábátaútgerða í hverju þessara landa, ásamt því sem samanburður verður gerður á rekstrarumhverfi þeirra. Landssambönd smábátaeigenda í hverju af áðurnefndum löndum munu halda kynningu, sérfræðingar á sviði markaðssetningar m.t.t. markaðsaðgreiningar á smábátafiski munu kynna sínar rannsóknir, seljendur ýmissa lausna fyrir smábátageirann munu kynna sínar vörur, aðilar sem bjóða upp á smábátaveiðar fyrir túrista munu kynna sína starfsemi og margt fleira.

Þátttaka er ókeypis og öllum opin.

Meðhöndlun á fiski

Nánari upplýsingar má finna á vef Coastal Fisheries, www.coastalfisheries.net.

Hægt er að skrá sig á ráðstefnuna með því að senda tölvupóst á Jónas R. Viðarsson, jonas@matis.is.

Fréttir

Ný nálgun að stjórnun fiskveiða þróuð í Evrópu

Niðurstöður evrópsks rannsóknarverkefnis, EcoFishMan, voru kynntar á alþjóðlegu málþingi sem haldið var í National Research Council í Róm þann 28. febrúar 2014. Verkefnið var einnig kynnt 5. mars á alþjóðlegu ráðstefnunni Fisheries Dependent Information sem haldin var í aðalstöðvum FAO í Róm.

Í verkefninu hefur verið þróað nýtt gagnvirkt fiskveiðistjórnunarkerfi (e. Responsive Fisheries Management System (RFMS)) í samvinnu við helstu hagsmunaaðila í evrópskum fiskveiðum. Markmið EcoFishMan verkefnisins hefur verið að stuðla að algjörlega nýrri nálgun að stjórnun fiskveiða í Evrópu sem sé ásættanlegt jafnt fyrir hagsmunaaðila, stjórnvöld og fiskiðnaðinn og að hafa þannig umtalsverð áhrif á fiskveiðistefnu í framtíðinni.

RFMS lýsir því hvernig færa má ábyrgð á fiskveiðistjórnun til fiskimannanna, það er notenda auðlegðarinnar, að því tilskildu, að þeir setji sér og nái skilgreindum stjórnunarmarkmiðum. Tekið er tillit til umhverfis-, viðskiptalegra og félagslegra þátta og einnig leiða til að bæta samstarf og gagnkvæman skilning milli stefnumótunar- og hagsmunaaðila til að auðvelda innleiðingu kerfisins. Þátttaka hagsmunaaðila er styrkt með því að taka tillit til þekkingar þeirra og þarfa.

RFMS er innleitt í áföngum og sniðið að hverri tegund fiskveiða fyrir sig. Fyrsta skref í EcoFishMan verkefninu í þá átt að leggja til mismunandi kosti fyrir hverja tegund fiskveiða var að leggja mat á ólíkar leiðir í fiskveiðistjórnun. Samstarfið við hagsmunaaðila leiddi í ljós að þeir telja RFMS koma til greina sem stuðningstæki við fiskveiðistjórnun í heppilegum evrópskum tilraunaverkefnum. Það má einnig nota sem “forrit” til að semja drög að aðgerðum til að draga úr brottkasti, sem hluta af yfirstandandi endurbótum á fiskveiðistefnu Evrópusambandins (e. European Common Fisheries Policy (CFP)).

Mike Parrk hjá Samtökum skoskra bolfiskframleiðenda sagði: „Ég held að með þessari nýju nálgun að fiskveiðum, getum við tekið á núverandi göllum CFP, en þeir eru: óskýr markmið og skammsýnt og oft viðbrigðið ferli ákvarðanatöku, sem torveldar atvinnugreininni og hagsumaaðilum að innleiða breytingar”.

Nýja kerfið leggur fiskimönum auknar skyldur á herðar við að stjórna og greina frá starsemi sinni. Ábyrgðin á að úthluta einstökum kvótum og að fylgjast með að farið sé að settum reglum er flutt frá stjórnvöldum til fiskimannanna. Þetta mun auka staðbundið eignarhald á fiski og gögnum, og gegnsæi, bæði um ákvarðanir og brot á reglum, mun aukast.

Verkefnið var styrkt af sjöundu rannsóknaáætlun Evrópusambandsins, EU FP7. Styrkurinn var alls 3,8 miljón evrur og var til þriggja ára frá 1. mars 2011. Að EcoFishMan verkefninu koma alls 14 stofnanir, fyrirtæki og háskólar í átta Evrópulöndum, Dr. Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri hjá Matís, er verkefnisstjóri og dr. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, er í vísindanefnd verkefnisins. Þáttakendur eru Matis (IS), Eurofish (DK), CETMAR (ES), Syntesa (FO), Háskóli Íslands (IS), National Research Council/Institute of Marine Sciences (IT), Nofima Marin (NO), University of Tromsø (NO), Centro de Ciências do Mar (PT), IPMA (PT), MAPIX technologies Ltd (UK), Marine Scotland Science (UK), University of Aberdeen (UK) og Seafish (UK).

Nánari upplýsingar

Anna Kristín Daníelsdóttir, anna.k.danielsdottir@matis.is og Sveinn Margeirsson, sveinn.margeirsson@matis.is.

Fréttir

Nýsköpun og framtíðarsýn í sveitum

Búdrýgindi boða til málþings um nýsköpun og framtíðarsýn í sveitum.

Dagskrá á vegum Búdrýginda í Ársal Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, laugardaginn 8. mars 2014, klukkan 13 – 16.

Framsögumenn:

  • Vilhjálmur Egilsson rektor á Bifröst | Ávinningur af nýjum námskeiðum í matvælarekstrarfræði á Bifröst.
  • Dominique Pledel Jónsson, Slow Food Reykjavík | Slow food – íslenskar sveitir og samfélag.
  • Brynhildur Pálsdóttir hönnuður, Fundur bænda og hönnuða og Vík-Prjónsdóttir | Gildi hönnunar við vöruþróun og markaðssetningu
  • Gunnþórunn Einarsdóttir, Matís | Nýsköpun í matvælaframleiðslu – Nú er tækifæri til að koma hugmyndum í verk!
  • Arnheiður Hjörleifsdóttir, Bjarteyjarsandi | Sjálfbær fortíð og fókus til framtíðar
  • Davíð Freyr Jónsson, Arctic Seafood | Arctic Seafood og eldhússmiðja í Borgarbyggð
  • Guðrún Bjarnadóttir, meistaranemi við LBHÍ eigandi Hespu | Hespuhúsið – grasnytjar, ullarhandverk og fræðsla

Dagskrárstjóri er Kolfinna Jóhannesdóttir skólameistari Menntaskólans í Borgarnesi.

Málþingið er opið öllum og vonast er til þess að sem flestir bændur sjái sér fært að mæta  og allir áhugamenn um afurðaframleiðslu í sveitum.  Einnig þeir sem hafa áhuga á byggðamálum almennt.
Fyrirlestrarnir verða nokkuð stuttir og skorinortir, en fyrirlesararnir segja frá möguleikunum sem þeim sýnist framtíðin bera í skauti og standa vonir til að frjóar umræður skapist í kjölfar erindanna.

ALLIR VELKOMNIR !

Nánari upplýsingar má finna á Facebook síðu viðburðarins.

Fréttir

Matarsmiðja – hvað er það?

Matarsmiðja er það kallað þegar útbúin hefur verið aðstaða til fjölbreyttrar matvælavinnslu, sem hefur fengið leyfi þar tilbærra yfirvalda til rekstursins.

Aðstaðan getur verið mismunandi frá einni smiðju til annarrar, en sammerkt með þeim öllum er að til staðar er fjölbreytt úrval matvinnslutækja og áhalda og önnur aðstaða sem vinnslan krefst. Notendur fá kennslu á tækin og frjálsan aðgang til framleiðslu á þeim vörum sem gerlegt er m.t.t. aðstöðu og tækjabúnaðar og útgefnu leyfi  heilbrigðisyfirvalda.

Í matarsmiðjunum eru reglulega haldin námskeið um framleiðslu og verkun ýmissa framleiðsluvara auk námskeiða um innra eftirlit. Matarsmiðjur Matís eru á Flúðum, á Höfn í Hornafirði og í Reykjavík.

Fréttir

Endurbættur kæligámur fyrir ferskfisk

Meginmarkmið verkefnisins Endurbættur kæligámur fyrir ferskfisk, sem styrkt var af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi R093-11, var að endurbæta kæligáma og verklag við flutninga á ferskum sjávarafurðum með endurhönnun og prófunum. Samstarfsaðilar í verkefninu voru Matís, Háskóli Íslands, Eimskip Ísland og Samherji.

Markmiðið er að hönnunarúrbætur skili kæligámum sem ná jafnara hitastigi gegnum flutningaferlið. Leitast var við að ná viðunandi endurbótum á hefðbundnum kæligámum með einföldum og kostnaðarlitlum aðgerðum. Ávinningur bættrar hitastýringar í vinnslu‐ og flutningaferlum eru aukin gæði, stöðugleiki og öryggi, sem auka um leið verðmæti vörunnar. Þá hafa úrbætur á kælingu og aukið geymsluþol leitt til þess að framleiðendur hafa í auknum mæli nýtt sjóflutninga við flutning á ferskum fiski.

Í lokaskýrslu verkefnisins, Improved reefer container for fresh fish (Skýrsla Matís 01-13) er helstu niðurstöðum og afurðum verkefnisins lýst. Niðurstöður verkefnisins leiddu í ljós að þörf er á endurbótum í sjóflutningskeðjum og sýnt var fram á að hægt er að ná fram úrbótum með einföldum og kostnaðarlitlum aðgerðum. Hitastýringu við sjóflutninga má bæta með því að velja rétt markhitastig og kæligáma sem hæfa best til flutninga ferskra fiskafurða. Kortlagning á hitadreifingu kæligáma sýndi fram á breytileika bæði í flutningsferlinu og með tilliti til staðsetningar innan gámsins en hönnunarúrbætur sem miðuðu að því að þvinga loftflæði innan gámsins skiluðu jafnari hitadreifingu. Einnig var sýnt fram á mikilvægi verklags við hleðslu kæligáma og meðhöndlun þeirra frá framleiðanda til kaupanda.

Mælingar á kæligámum sýndu að munur á markhitastigi kæligáma getur verið upp á 1 til 1,5°C frá raunhitastigi og einnig getur verið 1-2°C hitastigsmunur eftir staðsetningu innan gámanna. Prófanir með mismunandi hleðsluform og klæðningar á botni gámanna, með plötum eða dúk, til að þvinga kaldasta loftið lengra aftur  skiluðu jafnari kælidreifingunu í gámunum. Vinna við verkefnið stóð yfir í hálft annað ár og skilaði þeirri megin niðurstöðu að hægt er að bæta kælinguna án þess að breyta grunnhönnun gámanna.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.

Fréttir

Próteinin eftir líkamsræktina úr þorski, fiskinum sem við þekkjum svo vel?

Codland í Grindavík er tilnefnt til Menntaverðlauna atvinnulífsins 2014, sem Menntasproti ársins. Þess má geta að Codland á í farsælu samstarfi við fyrirtæki á borð við Þorbjörn og Vísir í Grindavík, Ísfiskur í Kópavogi, Matís og öðrum framsæknum fyrirtækjum, Grindavíkurbæ og nemendum.

Hörður G. Kristinsson sviðsstjóri hjá Matís og rannsóknastjóri fyrirtækisins er til að mynda einn þeirra sem lagt hafa til samstarfs með Þorbirni og Ísfiski í því að nota afskurð frá þorski til að búa til fæðubótarefni sem hægt væri að nota til framleiðslu á hágæða próteinum sem svo vinsælt er að nota í fæðubótarefni.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá viðtal við Erlu Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Codland, en hennar sýn er skýr hvað sjávarútveginn varðar og tækifærin til enn frekari vinnslu á þeim gula, eins og þorskurinn er stundum kallaður. Erla tekur fram að nýsköpun í sjávarútvegi skapi ný og spennandi störf á landsbyggðinni, atvinnulífið verður fjölbreyttara og atvinnutækifærum ungs fólks fjölgi.  Myndbandið er af vef Samtaka atvinnulífsins, www.sa.is.

Matís óskar Erlu og samstarfsfólki hennar hjá Codland innilega til hamingju með tilnefninguna til Menntaverðlauna atvinnulífsins.

Codland í Grindavík er tilnefnt til Menntaverðlauna atvinnulífsins 2014

Fréttir

Má bjóða þér aðstoð við vöruþróun?

Auglýst eftir hugmyndum að nýsköpun í matvælaframleiðslu. Ísland fer með formennsku í norræna ráðherraráðinu á þessu ári og leggur áherslu á nýsköpun í hinu norrænna lífhagkerfi til þess að styrkja svæðisbundinn hagvöxt.

Matís mun leiða nýsköpunar- og vöruþróunarverkefni sem unnin verða á þessu sviði næstu þrjú árin. Um er að ræða verkefni sem snúa að nýsköpun í matvælaframleiðslu, aukinni sjálfbærni í matvælaframleiðslu og aukinni framleiðslu lífmassa.

Fyrsti hluti vöruþróunarverkefnanna er nú að fara í gang og auglýsir Matís því eftir hugmyndum frá áhugasömum aðilum um vöruþróunarverkefni hér heima og í nágrannalöndunum.  Markmiðið í þessum fyrsta hluta er að þróa matvörur eða matvælatengdar vörur, með það að markmiði að frumgerðir þeirra liggi fyrir í júní 2014.

Hægt er að sækja um þátttöku í verkefninu á Google Docs til 13. mars 2014.

Um er að ræða sérfræðiaðstoð við vöruþróun á matvöru, aðstoð við nauðsynlegar mælingar og/eða uppsetningu gæðakerfis við framleiðslu. Mögulegt er að nýta framleiðsluaðstöðu í matarsmiðjum Matís sem staðsettar eru í Reykjavík, Höfn og á Flúðum. Ekki verður greitt fyrir eigin vinnu umsækjanda, hráefni eða tækjakaup. Gert er ráð fyrir að vöruþróun hefjist í mars og verði lokið um mánaðarmót maí/júní 2014.

Nánari upplýsingar veita Gunnþórunn Einarsdóttir og Ingunn Jónsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Hagræðing í rekstri með bættri vatnsnotkun

Rekstrarfélagið Eskja hafði forgöngu um verkefni sem snéri að því að kanna hvort hægt væri að bæta vatnsnotkun í fiskvinnslum. Í forverkefninu var grunnupplýsinga um vatnsnotkun í fiskvinnslu auk lífrænna efna sem tapast í frárennslinu.

Með bættri vatnsnotkun er hægt að ná fram hagræðingu í rekstri og auka virði framleiðslunnar með nýtingu aukaafurða úr frárennsli vinnsluvatns. Vatnsnotkun á Íslandi er mun meiri en í nágrannalöndum. Reglugerðir setja strangari skilyrði með auknum skorðum á losun á úrgangi og sóun á vatni. Kröfur og reglugerðir koma til með að herðast þegar kemur að vatnsnotkun og losun frárennslis eftir að framkvæmdatímabil vatnatilskipunarinnar tekur gildi 2016. Með innleiðingu á bættu verklagi og uppsetningu á búnaði má minnka vatnsnotkun töluvert og auka nýtingu hráefna sem tekin eru til fiskvinnslu.

Staða þekkingar var könnuð m.t.t fyrrgreindra atriða til að greina ávinning af hreinni framleiðslutækni í fiskvinnslu. Með hreinni framleiðslutækni að leiðarljósi voru tilgreindar aðferðir og tillögur að endurbótum á vinnsluferlum með áherslu á bolfiskvinnslu – sem aðgengilegar eru í Matís skýrslu 39-12. Afrakstur þessa verkefnis gefur til kynna að hægt er að gera betur til að minnka sóun á vatni og nýta lífræn efni sem tapast í frárennslinu.

Aukinn sparnaður eða aukin arðsemi í rekstri getur falist í bættri vatnsnotkun sem afrakstur af fjárfestingu á nýjum búnaði og bættum verkferlum. Reikna má með að tækjaframleiðendur geti unnið að því að þróa hagkvæma lausnir fyrir fiskvinnslur. Leiða má að því líkum að til mikils sé að vinna við að einangra þær aukaafurðir sem tapast með staðbundnu vinnsluvatni.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.

Fréttir

Kæling ferskfisks bætt með varmaflutningslíkönum

Meginmarkmið verkefnisins Hermun kæliferla – varmafræðileg hermun vinnslu- og flutningaferla, sem hófst í júní 2008, var að endurbæta verklag og búnað fyrir vinnslu og flutning á sjávarafurðum.

Kæling ferskfisks bætt með varmaflutningslíkönum

Í verkefninu var notast við ferlagreiningu, tilraunir og tölvuvædd varma- og straumfræðilíkön til að ná settum markmiðum. Afleiðingar bættrar hitastýringar í vinnslu- og flutningaferlum eru aukin gæði, stöðugleiki og öryggi, sem auka um leið verðmæti vörunnar. Samstarfsaðilar í verkefninu voru Matís, Háskóli Íslands, Promens Tempra, Eimskip Ísland, Samherji, Brim (ÚA), Festi og Eskja.

Dæmi um afurðir verkefnisins eru varmaflutningslíkön af ferskfiskafurðum í frauðkassa, sem gera kleift að spá fyrir um fiskhita út frá umhverfishitasögu. Varmaflutningslíkön voru notuð til að endurhanna 3, 5 og 7 kg frauðkassa Promens Tempra með lágmörkun hæsta fiskhita í kössunum undir hitaálagi að markmiði. Tilraunir staðfestu yfirburði nýju kassanna umfram hefðbundnar kassagerðir, bæði m.t.t. hitastýringar og gæða vöru undir hitaálagi. Nýju kringdu frauðkassarnir hafa leyst eldri gerðir frauðkassa Promens Tempra af hólmi (sjá mynd 1) og hafa þar með aukið samkeppnisfærni íslenskra ferskfiskafurða, sér í lagi þeirra flugfluttu. Niðurstöður annarrar tilraunar sýna að geymsluþol ferskra fiskflaka í hornkössum heils bretti í flugflutningskeðju getur verið um 1 – 1,5 dögum styttra en flaka í kössum í miðju brettastaflans. Hitadreifing í mismunandi kælikeðjum var kortlögð og sérstök áhersla lögð á forkælingu flaka fyrir pökkun og hitadreifingu í mismunandi tegundum kæligáma með mismunandi hleðslumynstur. Niðurstöður verkefnisins hafa ekki aðeins nýst flugflutningskeðjum heldur hafa þær einnig stuðlað enn frekar að auknum möguleikum á öruggum flutningi ferskfiskafurða með skipum.  

Mynd 1. Silungsflök í nýrri gerð kringdra frauðkassa frá Promens Tempra
Mynd 2. Hitakort í lóðréttu sniði gegnum fjögurra raða stafla frauðkassa á bretti undir hitaálagi hermt með varma- og straumfræðihugbúnaðinum ANSYS FLUENT

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.

IS