Fréttir

Ársskýrsla Matís 2013

Ársskýrsla Matís fyrir starfsárið 2013 er nú komin út. Matvæla- og fæðuöryggi er meginþema skýrslunnar að þessu sinni. Hægt er að nálgast útgáfuna á rafrænu formi hér neðar í fréttinni en prentuð útgáfa verður aðgengileg í næstu viku.

Skilgreiningar:

  • Matvælaöryggi (Food safety) fjallar um hversu örugg matvæli eru til neyslu og hvort þau valdi heilsutjóni hjá neytendum
  • Fæðuöryggi (Food security) fjallar um aðgengi að fæðu og framboð af heilnæmum og öruggum matvælum

Neytendur þurfa að geta treyst á öryggi matvæla. Tvö lykilsvið Matís eru tileinkuð rannsóknum og þjónustu á sviði matvælaöryggis. Þar eru m.a. framkvæmdar faggildar örveru og efnamælingar, en þær eru sívaxandi krafa í eftirliti og viðskiptum með matvæli. Jafnframt fara þar fram rannsóknir á sviðum örverufræði, efnafræði og erfðafræði, auk vöktunar og öryggisþjónustu.

Fæðuöryggi framtíðar, þ.e. góður aðgangur almennings að öruggum og heilnæmum matvælum, verður einungis tryggt með nýsköpun og bættri nýtingu auðlinda. Undanfarin ár hefur mikil og jákvæð þróun verið í matvælaframleiðslu hér á landi og hefur Matís verið þar í fararbroddi, með rannsókna og nýsköpunarstuðningi við atvinnulífið.

Fréttir

Efling menntunar og starfsþjálfunar í matvælaframleiðslu

„Með sviði um menntun og matvælaframleiðslu gerum við starfsemi og hlutverk Matís meira áberandi og tengjum betur saman atvinnulífið, menntun, rannsóknir og þróun á matvælum,“ segir Guðjón Þorkelsson sviðsstjóri.

Styrkir bæði Matís og matvælafyrirtækin

Guðjón segir að með samstarfi við menntastofnanir og starfsþjálfun sé Matís að fylgja eftir áherslum á rannsóknir og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis.

„Önnur aðalástæða samstarfsins er hagkvæmni í formi samnýtingar á starfsfólki og aðstöðu. Hin ástæðan, og sú sem skiptir Matís og matvælafyrirtækin miklu máli, er að fá nemendur til að vinna að hagnýtum rannsóknarverkefnum og öðlast þannig þjálfun til að verða framtíðarstarfmenn fyrirtækjanna. Matís er mjög stórt rannsóknafyrirtæki á íslenskan mælikvarða og hér er mikil sérfræðiþekking og reynsla sem nýta þarf í kennslu, leiðsögn og starfsþjálfun í matvælavinnslu. Einnig erum við svo heppin að hafa fengið fyrsta flokks aðstöðu á mörgum stöðum á landinu sem einnig nýtast í sama tilgangi,“ segir Guðjón.

Kennsluþátturinn þegar orðinn umfangsmikill

Þrátt fyrir að kennsla, starfsfræðsla og leiðsögn nemenda í rannsóknanámi hafi til þessa ekki verið á föstu og skipulögðu formi sem svið innan Matís segir Guðjón umfang þessara þátta mjög mikið.

„Starfmenn Matís kenna á um 25 námskeiðum í grunn- og framhaldsnámi og hafa umsjón með flestum þeirra. Þá hafa fjölmargir nemendur í meistara- og doktorsnámi við íslenska háskóla unnið að rannsóknaverkefnum sínum hjá Matís og nær alltaf í samvinnu við atvinnulífið. Við erum í góðu samstarfi og með sameiginlega starfsmenn með Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Samstarfið við Háskóla Íslands er mest við matvæla- og næringarfræðideild en einnig mikið við verkfræði- og náttúruvísindasvið og félagsvísindasvið. Matís vinnur mikið með viðskipta- og raunvísindasviði Háskólans á Akureyri og þá helst í fiskeldi og sjávarútvegsfræðum. Vegna fyrri starfa og rannsókna hef ég mikinn hug á að endurvekja og efla samstarfið við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þá eru Háskólinn á Hólum og Matís í sameiginlegu húsnæði í Verinu á Sauðárkróki og vinna saman að mörgum verkefnum.

Allir þessir aðilar hafa unnið að verkefni við að koma á alþjóðlegu meistaranámi í matvælafræðum í tengslum við matvælaiðnaðinn í landinu. Þetta nám hefur verið leitt af Matís og Háskóla Íslands og hófu 12 nemendur námið haustið 2012 og hefur orðið enn frekari fjölgun síðan,“ segir Guðjón en stærstur hluti kennslunnar er hjá Matís í Reykjavík en kennsla fer einnig fram á Akureyri. Í tengslum við námið voru tveir sérfræðingar Matís, þau Hörður G. Kristinsson og Helga Gunnlaugsdóttir, skipuð gestaprófessorar við Háskóla Íslands.

„Ég hef fulla trú á að alþjóðlega meistaranámið eflist og verði mjög áberandi á næstu árum. Samstarf um aðrar greinar verður líka eflt. Verkefni okkar verður líka að tengja iðnnám, tæknifræðinám og annað háskólanám sem tengist matvælum við atvinnulífið. Einnig þurfum við að vinna að eflingu starfsnáms/starfsendurhæfingar tengdu matvælum með áherslu á smáframleiðslu matvæla og samstarf við Beint frá býli,“ segir Guðjón.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón hjá Matís.

Fréttir

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna veitir UNU-FTP viðurkenningu

Á fundi allsherjarþings Sameinuðu Þjóðanna í New York 9. desember 2013 var viðurkennt sérstaklega framlag Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (UNU-FTP) við að byggja upp sjávarútveg í þróunarríkjum. 

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna viðurkennir mikilvægi starfs Sjávarútvegsskóla Háskóla SÞ á Íslandi

Á fundi allsherjarþings Sameinuðu Þjóðanna í New York 9. desember 2013, var samþykkt regluleg ályktun um sjálfbærar fiskveiðar (fiskveiðiályktun allsherjarþingsins). Í ályktuninni, sem er ávöxtur samningaviðræðna milli ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, var að þessu sinni viðurkennt sérstaklega framlag Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi við að byggja upp sjávarútveg í þróunarríkjum.

Í ályktuninni segir að allsherjarþingið meti mikils 15 ára starf skólans við að byggja upp þekkingu, færni og verkkunnáttu í þróunarríkjunum, en alls  hafi 280 nemendur frá 47 löndum útskrifast frá skólanum. Að auki hafi skólinn staðið fyrir 36 styttri námskeiðum í 12 löndum.

Um samstarf UNU-FTP og Matís

Meðal samstarfsverkefna sem Matís tekur þátt í er Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna en auk Matís standa að skólanum Hafrannsóknastofnunin, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskólans á Hólum. Verkefni nemenda við skólann eru öll unnin með þarfir í heimalöndum nemendanna í huga. Þannig hafa verkefni í gegnum tíðina fjallað um gerð gæðastuðulsskala fyrir makríl, um áhrif sorbats og kítosans á geymsluþol makríls, um kennsluefni fyrir gerð HACCP kerfis í fiskiðnaði í Norður-Kóreu og um uppsetningu rekjanleikakerfis á innanlandsmarkaði í Kína svo örfá dæmi séu tekin.

Samstarf Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Matís hefur aukist stöðugt undanfarin ár. Auk grunnnáms, sem allir nemendur skólans fá hjá Matís, annast fyrirtækið sex vikna sérnám og á hverju ári vinna nokkrir nemenda skólans lokaverkefni hjá Matís. Því til viðbótar stundar reglulega nokkur fjöldi nema skólans doktors- og meistaranám hjá fyrirtækinu og því má í raun með sanni segja að Matís sé hluti af skólanum.

Heimasíða Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Ofangreind frétt er tekin að hluta af heimasíðu atvinnuvegaráðuneytisins.

Fréttir

Matís tekur við rekstri SAFE

Á árinu 2013 tók Matís við framkvæmdastjórn og rekstri SAFE Consortium, evrópskum samstarfsvettvangi rannsóknastofnana á sviði matvælaöryggis. Þátttakendur í SAFE eiga það allir sameiginlegt að leggja áherslu á mikilvægi matvælaöryggis og þann samfélagslega ávinning sem hlýst af rannsóknum og þekkingaruppbyggingu á því sviði.

SAFE eflir alþjóðleg tengsl

Í krafti samvinnunnar fá þátttakendur SAFE aukinn hljómgrunn á alþjóðavettvangi og aukið vægi í stefnumörkun hins opinbera er lýtur að matvælaöryggi.

 „Það er hætt við því að umræða um matvælaöryggi týnist í almennri umræðu um heilbrigðis- og umhverfismál og missi því vægi sitt sem sér málaflokkur. Með þátttöku okkar í SAFE skapast mikilvæg tengsl við hagsmunaaðila, alþjóðasamtök og háskólasamfélagið víða um heim. Tengsl sem efla möguleika okkar til að hafa áhrif á umræðuna um matvælaöryggi og beina sjónum á mikilvægi langtímarannsókna á því sviði, “ segir Oddur Már Gunnarsson, sviðsstjóri Viðskiptaþróunar og framkvæmdastjóri SAFE.

„Tryggur aðgangur að nægum öruggum matvælum er grundvallaratriði fyrir almenna lýðheilsu og mikilvægt fyrir iðnaðinn að ekki leiki vafi á öryggi þeirra afurða sem verslað er með. Hér á landi varðar það beinlínis útflutningshagsmuni og efnahagsstöðu ef okkar stærsta útflutningsafurð, fiskurinn, er ekki öruggur til neyslu og geta því óörugg matvæli ekki eingöngu ógnað heilsu okkar og hreysti, heldur einnig valdið markaðstjóni.“

Oddur segir að yfirleitt komi skammtímaáhrif heilsuspillandi matvæla skjótt í ljós, en langtímaáhrifin séu ekki eins kunn. Því sé eitt af markmiðum SAFE að vekja athygli á þeim áhrifaþáttum í matvælum sem geta skaðað heilsu fólks hægt og bítandi. Saman leggja þátttakendur SAFE þyngri lóðir á vogarskálarnar við að efla þennan málaflokk á alþjóðavísu og skapa dýpri þekkingu á matvælaöryggi og gildi rannsókna á þessu sviði.

Sem leiðandi aðili innan SAFE skapast tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á stefnumörkun á þessu sviði, auk þess að styrkja ímynd Matís þegar kemur að fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem snúa að matvælaöryggi.

Nánari upplýsingar veitir Oddur Már.

Heimasíða SAFE Consortium: www.safeconsortium.org/

Fréttir

Frá vísindum til verðmæta

Liðinn er um áratugur síðan mörkuð var stefna um metnaðarfullt rannsókna- og þróunarstarf í íslenskum sjávarútvegi, með stofnun AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi 2003. Síðan hafa vísindi og verðmætasköpun í sjávarútvegi gengið hönd í hönd að hagnýta ónotuð tækifæri til lands og sjávar. 

Verdmaeti-&-nyting-1993-2012
 Þróun afla, nýtingar og útflutningsverðmæta

Niðurstaðan: Nýting afla í útflutningsafurðir er um fjórðungi meiri en áður og meira en tvöfalt hærri útflutningstekjur koma inn í landið úr hverju tonni afla. Þetta er frábær árangur, sem sannarlega sýnir hversu arðsöm fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun getur verið.

Hvað liggur að baki?

Bætt nýting hefur náðst í kjölfar bættrar meðhöndlunar hráefnis og fjárfestingar í bættum ferlum, t.a.m. við flutning og kælingu. Lögð hefur verið áhersla á að tengja saman virðiskeðju sjávarfangs þannig að hægt sé að veita upplýsingar um uppruna hráefnis og nýta reynslu fyrri ára til stöðugra umbóta.  Í þessu augnamiði er upplýsingatækni hagnýtt, t.d. með nýjum ísreikni fyrir snjallsíma á formi smáforrits (e. app), sem gefur þeim sem höndla með fisk möguleika á að sjá á augabragði hversu mikla kælingu afli þarf. Viðfangsefnin hafa dregið dám af umhverfinu, frá því að menn og konur reyndu að bjarga verðmætunum.

Afurðir eða úrgangur?

Á sama tíma og kappkostað er að sem mestum hluta hvers fisks sé ráðstafað til framleiðslu verðmætustu aðalafurðar hefur sjónum verið beint að því sem ekki er eins verðmætt. Fyrir 10 árum var talað um afurðir og úrgang. Ef heill fiskur er fluttur úr landi verða afurðir til hliðar við aðalafurð ekki framleiddar hér á landi og alls óvíst hvort þær yrðu yfirhöfuð framleiddar. Í dag sjáum við tækifæri í öllu hráefni og framleiðum afurðir í hæstu gæðaflokkum.  Útflutningur á niðursoðinni lifur er nálægt 30 milljón dósum á ári, að verðmæti um 3 milljarðar. Þurrkaðar afurðir eru meginuppistaðan í útflutningi til Nígeríu, hvers verðmæti nema um 16 milljörðum á ári. Hagnýting líftækni hefur rutt sér til rúms og þar eru tækifærin gríðarleg. Það sem áður var marningur er orðið að lífvirkum peptíðum í dag, úr slógi unnin verðmæt ensím og roð nýtt til framleiðslu lækningavara.  Framsækin fyrirtæki eins og Kerecis, Zymetech og Primex hafa litið dagsins ljós, svo einhver séu nefnd, og með þolinmæði haslað sér völl á afmörkuðum syllum.

Mannauður er mikilvægasta auðlindin

Í þekkingariðnaði eins og framleiðslu sjávarafurða er mannauðurinn mikilvægasta auðlindin. Vel menntað fólk er í dag ráðið til starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum þar sem það skapar fyrirtækjunum og byggðarlögunum sem þau starfa í aukin verðmæti.  Fyrirtæki styðja við og taka þátt í doktorsnámi, þar sem saman koma rannsóknastofnanir, fyrirtæki og háskólar. Með samstarfi Matís við háskóla landsins, m.a. við Háskóla Íslands um matvælafræðinám og Háskólann á Akureyri um auðlindanýtingu og tengingu framhaldsnáms við nýsköpun í sjávarútvegi, er grunnur lagður að frumkvöðlum framtíðarinnar.

Hvort sem litið er á bolfisk, uppsjávarfisk eða aðrar sjávarafurðir, eru framundan fjölmörg tækifæri til sóknar ef rétt er á spilum haldið.  Aukin vöruþróun, þar sem áhersla verður á að nýta sérstöðu og heilnæmi íslensks sjávarfangs er meðal þessara tækifæra. Síðan AVS sjóðurinn var stofnaður hafa útflutningsverðmæti íslensks sjávarfangs ríflega tvöfaldast.  Með því að nýta tækifærin í samvinnu má bæta um betur, endurtaka leikinn, og meta ávinninginn með alþjóðlegum viðmiðunum.

Fréttir

Sagan um fisk

Nú nýverið opnaði Landsbankinn stórglæsilegan vef tileinkaðan sjávarútvegi, Sagan um fisk, en þar er meðal annars fjallað um verðmætasköpun í greininni.

Gaman er frá því að segja að Matís hefur unnið með stærstum hluta þeirra fyrirtækja sem fjallað er um á þessum glæsilega vef. Samstarf þessara fyrirtækja og Matís hefur verið af mismunandi toga en ávallt hefur tilgangur samstarfsins verið að bæta eða búa til nýja ferla sem leitt hafa til aukinnar verðmætasköpunar.

Matís er stoltur samstarfsaðili þessara fyrirtækja, og Landsbankans (Þetta er eitthvað annað samkeppnin), og óskar banka allra landsmanna til hamingju með stórglæsilegt vefsvæði.

Fréttir

Lausfrysting á grænmeti gefur góða raun

Lausfryst grænmeti, blómkál og spergilkál, var verkefni sem unnið var haustið 2012 af Matís og Sölufélagi garðyrkjumanna. Nú um ári síðar eru komnar allar niðurstöður um viðbrögð markaðarins.

Í byrjun verð gerð neytendakönnun hjá um 120 fjölskyldum sem gáfu mat á íslensku og innfluttu grænmeti í blindprófi. Einnig var grænmetið prófað í matvælavinnslu þar sem það var notað í samsetta rétti þar sem venjulega er notast við innflutt grænmeti og núna síðast var grænmetið boðið til sölu í völdum verslunum.

Það er samdóma álit allra sem reynt hafa þetta íslenska lausfrysta grænmeti, að það er mun betra en það innflutta, fyrst og fremst er það ferskleikinn og það er einnig mun léttara í sér en það innflutta þ.e. að það inniheldur mun minna vatn.

Í Vestmannaeyjum var það Grímur kokkur sem prófaði að setja grænmetið saman við fiskinnn í sínum frábæru fiskréttum, hann segir „að grænmetið hafi reynst gríðarlega vel“ fyrst og fremst vegna þess hve vatnsinnihaldið var lágt en þess má geta að engu vatni er bætt í grænmetið í vinnslunni né notuð efni sem binda það vatn sem í grænmetinu er.

Gunnlaugur Karlson hjá Sölufélagi garðyrkjumanna segir að viðbrögð markaðarins hafi verið mjög góð í þeim verslunum sem varan var boðin og er nokkuð ljóst að um samkeppnishæfa vöru er að ræða og ekki spurning um að gæði vörunnar og ferskleiki er mun meiri en í því innflutta.

Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís.

Fréttir

Klikki kælingin kemur klink í stað seðla

Sjávarútvegstengd fyrirtæki hafa í unnið saman að leysa flöskuhálsa sem þrengja að, frá því að bjarga þurfti verðmætum til þess að auka verðmætin.

Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa í auknum mæli innleitt ferla er miða að aukinni verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi og byggja þeir á lausnum sem þróaðar hafa verið í samstarfi milli ólíkra fyrirtækja og rannsóknaraðila. Fyrir nokkrum árum bjuggu Íslendingar við böl ofgnóttar og lögðu ekki allt kapp á gæði og nýtingu, heldur voru uppteknari af magni. Sjávarútvegsfyrirtæki hafa í gegnum tíðina unnið saman að rannsóknum og þróun, ætíð er áhersla lögð á að leysa þá flöskuhálsa sem þrengja mest að hverju sinni, allt frá því að talað var um að bjarga þyrfti verðmætum til þess dags í dag sem við kappkostum að auka verðmætin.

Daglega eru íslenskar sjávarafurðir seldar á eftirsóttu verði víðsvegar um heim. Þó Íslendingar framleiði ekki þjóða mest af sjávarafurðum er framleiðsla íslensks sjávarútvegs býsna verðmæt. Við höfum náð árangri með áherslu á gæði í stað magns. Þekking hefur aukið hagræðingu í sjávarútvegi og um leið meiri hagkvæmni og stuðlað að meiri verðmætasköpun.

Sérhver seljandi íslenskra sjávarafurða stefnir að því að selja sínar vörur ítrekað. Það kaupir enginn íslenskan fisk tilneyddur. Íslenskar útgerðir og fiskvinnslur selja í undantekningartilfellum þeim sem í raun kyngir munnbitanum. Eins og gámur, sem skipað er upp í höfn við Norðursjó, fer yfir nokkur landamæri á leið sinni uns úr honum er dreift á matarborð við Miðjarðarhafið, höndla nokkrir aðilar með íslenskan fisk frá verkun að verslun. Hver svo sem neytir, hvar svo sem sá gleypir, verður sá hinn sami að vera sáttur við verðinn. Ánægja með vöruvöndun eykur líkur á endurteknum viðskiptum. Lykilatriði er að neytendur séu sáttir við neysluvörur í því ástandi sem þeim eru þær afhentar. Hver sá sem höndlar með fisk þarf að gangast undir aga og beita tilhlýðilegum vinnubrögðum. Ónóg kæling hindrar möguleika á hæsta verði fyrir afurðir, rétt eins og óvönduð vinnubrögð við meðhöndlun afla draga úr gæðum afurða.

Kæling er ávísun á verðmæti

Hver einasti fiskur sem er úr hafinu umhverfis Ísland dreginn á möguleika á að vera seldur háu verði. Hvort aflinn verði að mestu mögulegu verðmætum veltur á meðhöndluninni. Vanda þarf til verka, kæla afla um borð og viðhalda kælingu fisks á meðan vinnslu stendur. Pakka má kældum flökum í einangraðar umbúðir með kælimiðli til varðveislu kalds ástands matvæla. Unnt er að flytja slíka vöru með skipum úr landi.

Með markvissri kælingu frá því að fiskurinn er fangaður í gegnum vinnslu fisksins og í flutningi er fiskvinnslum fær sú leið að flytja fersk fiskflök með skipi (f.f.m.s.) í stað þess að flytja fersk fiskflök með flugi (f.f.m.f.). Flutningur með skipum er mun ódýrari en flutningur með flugi. Veruleg aukning var í flutningi f.f.m.s á árinu 2012, þá var útflutningur f.f.m.s. um 41% af öllum útflutningi ferskra flaka og skilaði útflutningur f.f.m.s. um 13,4 milljörðum króna eða um 38% af útflutningsverðmætum allra ferskra flaka. Þessi útflutningur væri ekki mögulegur ef menn köstuðu til höndunum við blóðtæmingu fisks og ísun afla. Af virðingu fyrir hráefninu misbjóða menn því ekki með ónærgætinni meðhöndlun og af virðingu fyrir neytendum kappkosta menn að búa sem best um þá vöru sem neytandinn kaupir til að auka líkur á að viðkomandi leiti að fiski frá Íslandi á nýjan leik.

Kostir víðtæks samstarfs

Hvað kælingu verðar var brautin rudd með margþættu samstarfi. Að því samstarfi komu m.a. Matís, fiskvinnslurnar Tangi, nú HB Grandi Vopnafirði, Útgerðarfélag Akureyringa og Festi nú Rekstrarfélagið Eskja Hafnarfirði. Þá tóku tækjaframleiðendur þátt; Skaginn á Akranesi, þróaði ofurkælingartæki og loks hefur umbúðaframleiðandi, Promens, komið að málum hvort heldur sem viðhalda á hráefnum eða afurðum kældum. Samstarfið var styrkt af AVS Rannsóknasjóði í sjávarútvegi og Tækniþróunarsjóði Rannís auk erlendra rannsókna- og þróunarsjóða.

Kæling opnar fleiri dyr

Afsprengi kælingar liggur í þeirri staðreynd að með markvissri kælingu heils fisks eru meiri líkur til þess að vinna megi verðmæti með framleiðslu hliðarafurða úr hráefninu.

Nánari upplýsingar um kælingu má finna á vefsvæði Matís, Kæligátt. Auk þess veitir Arnljótur Bjarki Bergsson hjá Matís upplýsingar um kælingu.

Fréttir

Myndasaga frá veiðum til vöru

Matís hefur fengið styrk frá Rannsóknarsjóði síldarútvegsins til að taka saman hagnýtar upplýsingar um vinnslu á ferskum bolfisk frá veiðum í vöru og birta á rafrænu formi.  Verkefnið ber heitið „Myndasaga frá veiðum til vöru“. 

Fræðsluefnið byggir á myndrænu og talsettu efni þar sem farið verður skipulega yfir einstaka þætti við vinnslu á ferskum fiski og mismunandi afurðum. Niðurstöður rannsóknarverkefna síðustu ára verða nýttar og þeirri þekkingu komið á framfæri.  Gerð fræðsluefnis um vinnslu á frystum bolfiski yrði á síðari stigum eðlilegt framhald ef vel til tekst með gerð fræðsluefnis um ferskan fisk.

Gott aðgengi að upplýsingum styrkir nýsköpun og leit að nýjum tækifærum í framleiðslu sjávarfangs, en rannsóknir og þekkingaröflun eru grunnurinn að auknum verðmætum. Þetta rafræna fræðsluefni mun að sjálfsögðu nýtast þeim sem í greininni starfa og vera gott innlegg í fræðslu um vinnslu íslenskra sjávarafurða.

Nánari upplýsingar veitir Margeir Gissurarson hjá Matís.

Fréttir

App fyrir sjómenn til að reikna ísþörf

Matís hefur nú búið til sérstakt smáforrit (app) fyrir snjallsíma og spjaldtölvur sem gerir sjómönnum auðvelt að reikna út ísþörf vegna afla. Forritið var kynnt á Sjávarútvegsráðstefnunni í sl. viku.

Smáforritið er einkar hentugt og auðvelt í notkun og nýtist sjómönnum til að reikna út hversu mikil ísþörfin er fyrir þann afla sem veiddur er. Í forritinu er tekið tillit til aðstæðna eins og sjávarhita, lofthita og dagar á sjó og leiðbeiningar varðandi kg magn af ís gefnar út auk þess í fjölda skófla og fjölda fata.

Nú hefur aldrei verið auðveldara að finna út hversu mikið af ís þarf til að fara sem best með okkar dýrmæta hráefni.

Forritið má nálgast á Google Play eða með því að skanna QR kóðann hér að neðan. Forritið er aðgengilegt fyrir síma með Android stýrikerfi en á næstunni verður hægt að nálgast það fyrir síma frá Apple og síma með Windows stýrikerfi.

Ítarefni

QR fyrir ísreikni Matís | QR for Matís' ice app
IS