Fréttir

Próteinin eftir líkamsræktina úr þorski, fiskinum sem við þekkjum svo vel?

Codland í Grindavík er tilnefnt til Menntaverðlauna atvinnulífsins 2014, sem Menntasproti ársins. Þess má geta að Codland á í farsælu samstarfi við fyrirtæki á borð við Þorbjörn og Vísir í Grindavík, Ísfiskur í Kópavogi, Matís og öðrum framsæknum fyrirtækjum, Grindavíkurbæ og nemendum.

Hörður G. Kristinsson sviðsstjóri hjá Matís og rannsóknastjóri fyrirtækisins er til að mynda einn þeirra sem lagt hafa til samstarfs með Þorbirni og Ísfiski í því að nota afskurð frá þorski til að búa til fæðubótarefni sem hægt væri að nota til framleiðslu á hágæða próteinum sem svo vinsælt er að nota í fæðubótarefni.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá viðtal við Erlu Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Codland, en hennar sýn er skýr hvað sjávarútveginn varðar og tækifærin til enn frekari vinnslu á þeim gula, eins og þorskurinn er stundum kallaður. Erla tekur fram að nýsköpun í sjávarútvegi skapi ný og spennandi störf á landsbyggðinni, atvinnulífið verður fjölbreyttara og atvinnutækifærum ungs fólks fjölgi.  Myndbandið er af vef Samtaka atvinnulífsins, www.sa.is.

Matís óskar Erlu og samstarfsfólki hennar hjá Codland innilega til hamingju með tilnefninguna til Menntaverðlauna atvinnulífsins.

Codland í Grindavík er tilnefnt til Menntaverðlauna atvinnulífsins 2014

Fréttir

Má bjóða þér aðstoð við vöruþróun?

Auglýst eftir hugmyndum að nýsköpun í matvælaframleiðslu. Ísland fer með formennsku í norræna ráðherraráðinu á þessu ári og leggur áherslu á nýsköpun í hinu norrænna lífhagkerfi til þess að styrkja svæðisbundinn hagvöxt.

Matís mun leiða nýsköpunar- og vöruþróunarverkefni sem unnin verða á þessu sviði næstu þrjú árin. Um er að ræða verkefni sem snúa að nýsköpun í matvælaframleiðslu, aukinni sjálfbærni í matvælaframleiðslu og aukinni framleiðslu lífmassa.

Fyrsti hluti vöruþróunarverkefnanna er nú að fara í gang og auglýsir Matís því eftir hugmyndum frá áhugasömum aðilum um vöruþróunarverkefni hér heima og í nágrannalöndunum.  Markmiðið í þessum fyrsta hluta er að þróa matvörur eða matvælatengdar vörur, með það að markmiði að frumgerðir þeirra liggi fyrir í júní 2014.

Hægt er að sækja um þátttöku í verkefninu á Google Docs til 13. mars 2014.

Um er að ræða sérfræðiaðstoð við vöruþróun á matvöru, aðstoð við nauðsynlegar mælingar og/eða uppsetningu gæðakerfis við framleiðslu. Mögulegt er að nýta framleiðsluaðstöðu í matarsmiðjum Matís sem staðsettar eru í Reykjavík, Höfn og á Flúðum. Ekki verður greitt fyrir eigin vinnu umsækjanda, hráefni eða tækjakaup. Gert er ráð fyrir að vöruþróun hefjist í mars og verði lokið um mánaðarmót maí/júní 2014.

Nánari upplýsingar veita Gunnþórunn Einarsdóttir og Ingunn Jónsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Hagræðing í rekstri með bættri vatnsnotkun

Rekstrarfélagið Eskja hafði forgöngu um verkefni sem snéri að því að kanna hvort hægt væri að bæta vatnsnotkun í fiskvinnslum. Í forverkefninu var grunnupplýsinga um vatnsnotkun í fiskvinnslu auk lífrænna efna sem tapast í frárennslinu.

Með bættri vatnsnotkun er hægt að ná fram hagræðingu í rekstri og auka virði framleiðslunnar með nýtingu aukaafurða úr frárennsli vinnsluvatns. Vatnsnotkun á Íslandi er mun meiri en í nágrannalöndum. Reglugerðir setja strangari skilyrði með auknum skorðum á losun á úrgangi og sóun á vatni. Kröfur og reglugerðir koma til með að herðast þegar kemur að vatnsnotkun og losun frárennslis eftir að framkvæmdatímabil vatnatilskipunarinnar tekur gildi 2016. Með innleiðingu á bættu verklagi og uppsetningu á búnaði má minnka vatnsnotkun töluvert og auka nýtingu hráefna sem tekin eru til fiskvinnslu.

Staða þekkingar var könnuð m.t.t fyrrgreindra atriða til að greina ávinning af hreinni framleiðslutækni í fiskvinnslu. Með hreinni framleiðslutækni að leiðarljósi voru tilgreindar aðferðir og tillögur að endurbótum á vinnsluferlum með áherslu á bolfiskvinnslu – sem aðgengilegar eru í Matís skýrslu 39-12. Afrakstur þessa verkefnis gefur til kynna að hægt er að gera betur til að minnka sóun á vatni og nýta lífræn efni sem tapast í frárennslinu.

Aukinn sparnaður eða aukin arðsemi í rekstri getur falist í bættri vatnsnotkun sem afrakstur af fjárfestingu á nýjum búnaði og bættum verkferlum. Reikna má með að tækjaframleiðendur geti unnið að því að þróa hagkvæma lausnir fyrir fiskvinnslur. Leiða má að því líkum að til mikils sé að vinna við að einangra þær aukaafurðir sem tapast með staðbundnu vinnsluvatni.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.

Fréttir

Kæling ferskfisks bætt með varmaflutningslíkönum

Meginmarkmið verkefnisins Hermun kæliferla – varmafræðileg hermun vinnslu- og flutningaferla, sem hófst í júní 2008, var að endurbæta verklag og búnað fyrir vinnslu og flutning á sjávarafurðum.

Kæling ferskfisks bætt með varmaflutningslíkönum

Í verkefninu var notast við ferlagreiningu, tilraunir og tölvuvædd varma- og straumfræðilíkön til að ná settum markmiðum. Afleiðingar bættrar hitastýringar í vinnslu- og flutningaferlum eru aukin gæði, stöðugleiki og öryggi, sem auka um leið verðmæti vörunnar. Samstarfsaðilar í verkefninu voru Matís, Háskóli Íslands, Promens Tempra, Eimskip Ísland, Samherji, Brim (ÚA), Festi og Eskja.

Dæmi um afurðir verkefnisins eru varmaflutningslíkön af ferskfiskafurðum í frauðkassa, sem gera kleift að spá fyrir um fiskhita út frá umhverfishitasögu. Varmaflutningslíkön voru notuð til að endurhanna 3, 5 og 7 kg frauðkassa Promens Tempra með lágmörkun hæsta fiskhita í kössunum undir hitaálagi að markmiði. Tilraunir staðfestu yfirburði nýju kassanna umfram hefðbundnar kassagerðir, bæði m.t.t. hitastýringar og gæða vöru undir hitaálagi. Nýju kringdu frauðkassarnir hafa leyst eldri gerðir frauðkassa Promens Tempra af hólmi (sjá mynd 1) og hafa þar með aukið samkeppnisfærni íslenskra ferskfiskafurða, sér í lagi þeirra flugfluttu. Niðurstöður annarrar tilraunar sýna að geymsluþol ferskra fiskflaka í hornkössum heils bretti í flugflutningskeðju getur verið um 1 – 1,5 dögum styttra en flaka í kössum í miðju brettastaflans. Hitadreifing í mismunandi kælikeðjum var kortlögð og sérstök áhersla lögð á forkælingu flaka fyrir pökkun og hitadreifingu í mismunandi tegundum kæligáma með mismunandi hleðslumynstur. Niðurstöður verkefnisins hafa ekki aðeins nýst flugflutningskeðjum heldur hafa þær einnig stuðlað enn frekar að auknum möguleikum á öruggum flutningi ferskfiskafurða með skipum.  

Mynd 1. Silungsflök í nýrri gerð kringdra frauðkassa frá Promens Tempra
Mynd 2. Hitakort í lóðréttu sniði gegnum fjögurra raða stafla frauðkassa á bretti undir hitaálagi hermt með varma- og straumfræðihugbúnaðinum ANSYS FLUENT

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.

Fréttir

Minnka má vöðvadrep í humri og auka þar með verðmætin

Lokið er samstarfsverkefninu Lágmörkun vöðvadreps í leturhumri með ensímhindrun og undirkælingu sem AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi styrkti (R 052-10). Rannsóknaverkefnið var unnið í samstarfi, Skinneyjar Þinganess, Rammans, Vinnslustöðvarinnar og Matís.

Niðurstöður verkefnisins eru aðgengilegar í Matísskýrslu 25-11. Meðal niðurstaðna verkefnisins voru verklagsleiðbeiningar varðandi undirkælingu og ensím meðhöndlun humars vinnubrögð sem hafa styrkt stoðir humarveiða hér við land og þar með humarvinnslu hér á landi. Áður en ráðist var í verkefnið kom það fyrir að upp undir þriðjungur og jafnvel allt að helmingur afla, í einstökum afmörkuðum tilfellum, bæri einkenni vöðvadreps. Við upphaf verkefnisins var áætlað að vegna vöðvadreps væri verðmæti humarafurða um 10% lægra en ella. Það er mat þátttakenda að með nýju verklagi hafi mátt helminga vöðvadrep og eru því líkindi til þess að bætt verklag skili um 5% aukningu verðmæta humarafurða, miðað við forsendur verkefnisins í upphafi þess.

Þáttakendur tóku fram að án stuðnings AVS hefði ekki orðið af verkefninu sem hafi bætt samkeppnistöðu íslenskrar humarvinnslu.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.

Fréttir

Vefur Matís, www.matis.is, valinn besti vefurinn

Íslensku vefverðlaunin voru afhent fyrir nokkru við hátíðlega athöfn í Gamla Bíói. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var heiðursgestur verðlaunahátíðarinnar.

Íslensku vefverðlaunin eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins á Íslandi, haldin með það að markmiði að efla iðnaðinn, verðlauna framúrskarandi verkefni og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2000 og hafa vaxið og dafnað með hverju árinu sem líður.

Að þessu sinni voru veitt verðlaun í 14 flokkum en fjöldi flokkanna endurspeglar breidd þeirra verkefna sem vefiðnaðurinn á Íslandi kemur að.

Vefur Matís valinn besti vefurinn í flokknum „Besti opinberi vefurinn“ og eru Matís-ingar ótrúlega stoltir af þessum verðlaunum. Efst er í huga þakklæti til Hugsmiðjunnar fyrir mjög gott samstarf og til dómnefndar fyrir að hafa kosið www.matis.is besta vefinn í þessum flokki.

Umsögn dómnefndar er sérstaklega áhugaverð enda hafa starfsmenn lagst á eitt frá stofnun Matís að sýna fram á að fyrirtækið er öflugt á sviði rannsókna og ráðgjafar í matvæla- og líftækniiðnaði, þar ríkir skemmtilegt andrúmsloft og finna má fyrir mikilli „dínamík“ í öllu starfi fyrirtækisins, allt hlutir sem gera starfsseminni kleift að aðlaga sig hratt að breyttum aðstæðum.

Umsögn dómnefndar:

„Besti opinberi vefurinn

Dómnefnd til mikillar ánægju var samkeppnin hörð um besta opinbera vefinn og margir frambærilegir í framboði. Vefurinn sem var valinn besti opinberi vefurinn er aðlaðandi, skemmtilegur og áhugaverður og kemur efninu vel til skila. Uppsetningin á vefnum er einföld en notendavæn og náði að tengjast notandanum á hátt sem margar opinberar stofnanir eru hikandi við að beita, en skilar þjónustunni og upplýsingum mun betur til notandans en strípaðir „bjúró-speak“ stofnanavefir fortíðarinnar.

Besti opinberi vefurinn er: www.matis.is. Samstarfsaðili er Hugsmiðjan“

Fréttir

Klárast fiskurinn? Hvernig skal bregðast við?

Vitað er, að ætli Íslendingar að höndla með líkt hlutfall alins fiskmetis og við höfum aflað, má reikna með að tvöhundruðfalda þurfi eldisframleiðslu hér við land. Búist er við aukinni eftirspurn á heimsvísu eftir lagarafurðum, matvælum sem eiga uppruna ýmist í fersku vatni eða söltum sjó. Hin aukna eftirspurn mun knýja á um aukna framleiðslu, nýjar lausnir og betri nýtingu.

Rannsóknir á umhverfisáhrifum í virðiskeðjum matvæla eru og verða mikilvægar í framtíðinni því með sífellt vaxandi mannfjölda, álagi á auðlindir jarðarinnar ásamt vaxandi umhverfisáhrifum er þörf á róttækum breytingum og nýjum nálgunum í framleiðsluaðferðum.

Birgir Örn Smárason hjá Matís hefur hafið doktorsnám við Háskóla Íslands á sviði umhverfis- og auðlindafræða. Starfsaðstaða Birgis er í starfsstöð Matís á Akureyri á Borgum við Norðurslóð, hvar áhersla er lögð á sjálfbæra nýtingu auðlinda norðurslóða. Doktorsnám Birgis er í anda nýlegs rammasamnings Matís og Háskólans á Akureyri þá einkum um að samþætta rannsókna- og þróunarverkefni á sviði sjálfbærrar auðlindanýtingar.

Í doktorsnáminu er lagt upp með að greina möguleika á notkun nýrra hráefna í fiskafóður úr annarskonar lífefnum en hefbundin notkun miðast við. Því verður umhverfisálag virðiskeðja fiskveiða og fiskeldis skoðað með vistferilsgreiningu m.t.t. auðlindanotkunar í samanburði við aðra matvælaframleiðslu. Greining þessara virðiskeðja, verður tvíþætt því með nýjum hugmyndum og lausnum í nýtingu auðlinda er nauðsynlegt að hafa mælanlegan samanburð til að meta áhrif af breytingum í virðiskeðjunum. Þá verður greind þróun og möguleikar lífefna í fóður út frá nýtingu auðlinda, samsetningu fóðurs og líf- og næringafræði, ásamt því að þróa nýjar fóðurtegundir.

Eitt af lykilatriðunum í hagsæld til framtíðar litið eru rannsóknir og þróun í lífhagkerfinu (e. Bioeconomy). Lífhagkerfið vísar til þess að notkun takmarkaðra auðlinda, eða óendurnýjanlegra auðlinda er lágmörkuð eða skipt út með notkun endurnýjanlegra auðlinda, sjálfbærra lifnaðarhátta og framleiðslu þar sem efni og orka eru endurnýjuð eins hratt og við notum þau. Styrkingu hnattræns lífhagkerfis fylgja jákvæðar afleiðingar, s.s. hagvöxtur og fjölgun starfa í dreifbýli, minni notkun og eftirspurn á jarðefnaeldsneyti, bætt fæðuöryggi og bætt efnahagsleg og umhverfisleg sjálbærni frum-framleiðslu og framleiðslufyrirtækja ásamt því að tryggja betur áframhaldandi tilvist umhverfisins.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða hjá Matís.

Fréttir

Íslendingar leiða rannsóknaverkefni upp á tæpan einn milljarð króna – fiskveiðistjórnunin í Evrópu í brennidepli

Ísland fer með forystuhlutverk í nýju fjölþjóðaverkefni sem 7. rannsóknaráætlunin í Evrópu styrkir og er metið á 943 milljónir króna (6 milljónir evra).

MareFrame verkefnið: “Co-creating Ecosystem-based Fisheries Management Solutions“

Matís og Háskóli Íslands gegna forystuhlutverki í nýju umfangsmiklu fjölþjóðaverkefni sem 7. rannsóknaráætlun Evrópu hefur ákveðið að styrkja til fjögurra ára. Stuttheiti verkefnisins er MareFrame og ber enska titilinn: „Co-creating Ecosystem-based Fisheries Management Solutions“. Styrkurinn hljóðar upp á 6 milljónir evra, en heildarkostnaður við verkefnið er 7.8 milljónir evra. Hlutur Íslands í verkefninu nemur um 275 milljónum íslenskra króna sem skiptast á milli Matís, Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar. Styrkurinn er meðal stærstu verkefnastyrkja sem veittir eru í Evrópu á þessu sviði.

Matís er verkefnastjóri MareFrame, en í því felst að Matís ber m.a. ábyrgð á að stjórna framgangi verkefnisins og samskiptum við fjármögnunaraðila. Allt styrktarféð rennur til Matís sem síðan greiðir innlendum og erlendum samstarfsaðilum sínum. Mikil samkeppni er um rannsóknarstyrki 7. rannsóknaráætlunarinnar. MareFrame hlaut 14 stig af 15 mögulegum í mati fagnefndarinnar, sem er frábær árangur. Með þessu festa íslenskir vísindamenn sig enn frekar í sessi í alþjóðlegu vísindasamstarfi.

Í MareFrame verkefninu verður þróað fjölstofna fiskveiðistjórnunarkerfi og fundnar leiðir til að auðvelda innleiðingu þess í Evrópu. Áhersla er lögð á vistvæna, sjálfbæra, félagslega og hagræna stjórnun. Einnig er lögð áhersla á samstarf við sjómenn, útgerðir og vinnslu ásamt öðrum hagsmunaaðilum sem koma að stjórnun fiskveiða.

Þrír af hverjum fjórum fiskistofnum Evrópusambandsins eru ofveiddir í dag, þar af 47% stofna í Atlantshafi og 80% í Miðjarðarhafinu því er mikil þörf fyrir nýjar leiðir í fiskveiðistjórnun. Fiskveiðistefna Evrópusambandsins er í endurskoðun og er m.a. verið að leita leiða til að stemma stigum við ofveiði.

Eitt af markmiðum MareFrame verkefnisins er að byggja á því sem vel hefur tekist í fiskveiðistjórnun, m.a. notkun á íslenska fjölstofnalíkaninu „Gadget“ sem er einnig notað víða erlendis. Jafnframt því er horft til aukins samstarfs við þá sem starfa að veiðum og vinnslu í sjávarútveginum sem og annarra hagsmunaaðila við þróun fiskveiðistjórnunarkerfa, en það er lykilatriði við innleiðingu fiskveiðistjórnarkerfisins.  MareFrame mun m.a. þróa sjónrænt viðmót, tölvuleiki og tölvustudda námstækni til að koma niðurstöðum og stjórnunarleiðum á framfæri, en sú námstækni er að hluta til afrakstur íslenskra rannsókna.

Að MareFrame verkefninu koma alls 28 stofnanir, fyrirtæki og háskólar í 10 Evrópulöndum (Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Pólland, Bretland, Spánn, Ítalía, Rúmenía, Noregur og Ísland) ásamt vísindamönnum frá Suður Afríku, Ástralíu og Nýja Sjálandi.

Dr. Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri hjá Matís, er verkefnisstjóri og dr. Gunnar Stefánsson, prófessor hjá Raunvísindadeild Háskóla Íslands er vísindalegur verkefnisstjóri.

Upphafsfundur MareFrame verkefnisins verður haldinn í húsakynnum Matís í Reykjavík dagana 11. – 13. febrúar 2014.

Fréttir

Mjög vel heppnaðir samráðsfundir

Matís, Matvælastofnun (MAST) og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið buðu í gær til samráðsfundar um örugg matvæli | Neytendavernd og viðskiptahagsmunir

Örugg matvæli | Neytendavernd og viðskiptahagsmunir

Gríðarlega góð mæting var á fundinn sem haldinn var í Sjávarútvegshúsinu Skúlagötu 4, sem og samskonar fund sem Matvælastofnun bauð til eftir hádegi á Selfossi. Húsfyllir var á báðum fundum og miklar og góðar umræður sköpuðust. Tilgangur þessara samráðsfunda var að kynna verkefnið Örugg matvæli og ræða stöðu matvælaöryggis á Íslandi.

Verkefnið Örugg matvæli var upphaflega hluti af IPA áætlun vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB, en hefur nú verið hrint úr vör í formi tvíhliða verkefnis milli þýskra og íslenskra stjórnvalda. Staða matvælaöryggis á Íslandi verður rædd í ljósi þess að geta selt matvæli bæði innanlands og á alþjóðlegum markaði.Fundargestum verður gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum og fyrirspurnum á framfæri í pallborðsumræðum í lok fundar.

Verkefninu Örugg matvæli er ætlað að tryggja matvælaöryggi og vernda íslenska neytendur. Verkefnið gerir íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna betur kleift að framfylgja löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd. Örugg matvæli er unnið í samvinnu Matís, Matvælastofnunar, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Federal Ministry of Food and Agriculture (BMEL), Federal Institute for Risk Assessment (BfR) og Lower Saxony State Office for Consumer Protection and Food Safety (LAVES) í Þýskalandi.

Örugg matvæli | Food safety

Verkefnið Örugg matvæli verður án vafa mikill stökkpallur fyrir íslenska neytendur, eftirlitsaðila og ekki hvað síst fyrir framleiðendur og söluaðila. Neytendur vilja nánari upplýsingar um efnin sem eru og eru ekki í matvælum sem þeir neyta og framleiðendur og söluaðilar vilja einnig fá þessar upplýsingar til að auka enn frekar traust neytenda á þeirra vörum.

Nánari upplýsingar má nálgast í skjalinu Örugg matvæli | Aðgerðir og afrakstur og hjá Margréti Björk Sigurðardóttur frá Matvælastofnun (MAST) og hjá Helgu Gunnlaugsdóttur frá Matís.

Fréttir

Matís á Framadögum háskólanna 2014

Framadagar Háskólanna 2014 verða haldnir þann 5. febrúar í Sólinni í Háskólanum í Reykjavík á milli kl 11-16.

Að venju verður Matís með stóran bás og mun kynna starfsemi sína allan daginn.

Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu Framadaga og hjá Jóni Hauki Arnarsyni, mannauðsstjóra Matís eða Steinari B. Aðalbjörnssyni, markaðsstjóra Matís.

Um Framadaga

Framadagar er árlegur viðburður í háskólalífinu þar sem nokkur af helstu fyrirtækjum landsins kynna starfsemi sína fyrir háskólanemendum. AIESEC stúdentasamtökin skipuleggja Framadaga á hverju ári. Framadagar Háskólanna árið 2014 verða haldnir í Háskólanum í Reykjavík miðvikudaginn 5. febrúar frá kl. 11-16. Þar mæta nemendur allra háskóla á landinu á staðinn til að kynnast mannauðsstjórum helstu fyrirtækja landsins – og vonandi ef heppnin er með í för – sækja um vinnu.

Framadagar 2014

Þetta árið hafa 60 spennandi fyrirtæki boðað komu sínu og margir fyrirlestrar komnir á dagskrá. Hér er hægt að skoða bækling Framadaga 2014.

IS