Fréttir

Viltu koma þinni vöru á framfæri erlendis?

Særimner hátíðin verður haldin dagana 8.-10. október í Svíþjóð. Þemað í ár er norræn matvælasköpun og hefur verið opnað fyrir skráningar, fyrir þá sem vilja kynna vörur sínar og taka þátt í sænsku meistarakeppninni í matvælaframleiðslu.

Særimner er sannkölluð hátíð þeirra sem tengjast smáframleiðslu matvæla á einn eða annan hátt, hún verður haldin dagana 8.-10. október í Svíþjóð. Í ár er þemað „Norræn matvælasköpun“ sem tengist verkefninu „Ný norræn matargerð“ (e. New Nordic Food). Þar munu hittast smáframleiðendur til að kynna sínar vörur, miðla reynslu sinni og kynnast öðrum vörum. Þar verður einnig hægt að smakka á framleiðslu annarra og bjóða upp á slíkt, vilji fólk koma sínum vörum á framfæri.

Á ráðstefnunni verða einnig fjölmargir fyrirlestrar og málstofur sem tengjast matvælaframleiðslu á einn eða annan hátt. Til dæmis verður framtíð norrænnar matvælasköpunar til umræðu, þar sem stjórnmálamönnum er boðið að tjá sig. Þá verður málstofa um fiskverkun áður fyrr, norræn ber og geymsluaðferðir, mat og viðskipti, auk þess sem Brynhildur Pálsdóttir mun segja frá verkefninu „Stefnumót bænda og hönnuða“, sem Matís tók þátt í. Þá verður í boði ráðgjöf til smáframleiðanda sem vilja þróa vörur sínar áfram. Það er því ljóst að allir áhugasamir um smáframleiðslu matvæla geta fundið eitthvað við sitt hæfi á ráðstefnunni.

Sænska meistarakeppnin í matvælaframleiðslu

Á Særimner verður sænska meistarakeppnin (SM) í matvælaframleiðslu haldin í 17. skipti og að þessu sinni verður hún opin fyrir keppendum frá Norðurlöndunum. Keppt verður í 5 aðalflokkum sem eru: kjötvörur, fiskvörur, mjólkurafurðir, bökunarvörur og vörur úr berjum, ávöxtum og grænmeti. Undir hverjum aðalflokki eru svo ýmsir vöruflokkar. Í ár verða nokkrir nýir og spennandi vöruflokkar eins og mjólkursýrt grænmeti,  sinnep, sætabrauð og nýsköpun í matvörum. Fjöldi dómara, sérfróðir á sínu matvælasviði, dæma keppnina, sem fer fram fyrir opnum tjöldum. Til mikils er að vinna því þær vörur sem hljóta verðlaun í keppninni fá góða athygli sem mun auðvelda markaðssetningu þeirra. Allir keppendur fá dóma um sínar vörur frá dómurum, sem hjálpar til við áframhaldandi þróun vörunnar. Fulltrúi Íslands í dómarahópnum verður Óli Þór Hilmarsson, kjötiðnaðarmeistari og sérfræðingur hjá Matís.

Hátíðin er ætluð öllum sem hafa áhuga á matvælasköpun. Hún er mikilvægur vettvangur tengslanets milli smáframleiðanda, hugmyndaauðgandi og spennandi auk þess sem hún styrkir án efa smáframleiðendur í framleiðslu sinni.

Skráning á Eldrimner hófst 6. maí en opið er fyrir skráningar til 13. september. Eftir það er hægt að skrá sig gegn hærra skráningargjaldi. Öllum er frjálst að vera með og hvetjum við alla sem starfa á þessum vettvangi eða eru áhugasamir að láta sjá sig.

Frekari upplýsingar um hátíðina veita: Gunnþórunn Einarsdóttir, gunnthorunn.einarsdottir@matis.is og Óli Þór Hilmarsson, oli.th.hilmarsson@matis.is

Heimasíða Særimner: http://www.eldrimner.com/

Fréttir

3X Technology semur við HB Granda

Samstarfsaðili Matís til langs tíma skrifaði á dögunum undir samning við HB Granda sem leggur þar með grunninn að fyrirkomulagi um borð í ísfisktogurum til framtíðar.

3X Technology hefur nú gengið frá samningi við HB Granda um hönnun, smíði og innleiðingu heildarlausnar á vinnsludekki um borð í Helgu Maríu AK, en sem kunnugt er hefur Helga María lokið sinni síðustu veiðiferð sem frystitogari og mun verða gerð út sem ísfisktogari að afloknum breytingum. Lausnin byggir á rannsóknum, mælingum og vöruþróun sem unnin hefur verið í samstarfi íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, Matís og 3X Technology á undanförnum árum.

Jóhann Jónasson framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir samstarfið með Matís hafa skipt sköpum: „Samstarf okkar og sú staðfasta sannfæring starfsfólks Matís og 3X Technology um að framtíð og megin tækifæri íslensk sjávarútvegs felist í að byggja á gæða framleiðslu er að skila þessu í höfn, því að fyrirtæki á borð við HB Granda er sömu skoðunar og þeir horfa til framtíðar með það fyrir augum að skila framúrskarandi og stöðugum gæðum til sinna viðskiptavina.“

Samningur sem þessi skiptir máli

„HB Grandi er án efa eitt öflugasta félag landsins og því er þessi samningur mikil viðurkenning fyrir okkar ágæta samstarf. Það er ríflega eitt ár síðan að þetta verkefni með HB Granda hófst og þessi áfangi er okkur afar kær og hafa margir starfsmenn frá þessum þremur fyrirtækjum lagt hönd á plóginn og skapað þennan árangur“.

Jóhann þakkar Matís kærlega fyrir samstarfið og segist hlakka til áframhaldandi samstarfs, enda hafi það gefið fyrirtækinu byr undir báða vængi. „Vinnsludekkið um borð í Helgu Maríu er eitt það fullkomnasta sem við hjá 3X höfum komið að í ísfisktogara og mun leggja sterkan grunn að framtíðar fyrirkomulagi um borð í slíkum skipum“.

Munur á afurðum

„Fyrr í vetur seldum við í  3X Technology íslenskum saltfiskverkanda, Fiskkaupum ROTEX búnað um borð í línu- og netaskipið Kristrúnu RE-177, en Fiskkaup selur saltfisk m.a. til Ítalíu. Ítalskir viðskiptavinir þeirra voru sáttir við vörurnar áður en eru nú mjög ánægðir, þeir segja að fiskurinn hafi nú bjartari blæ en áður. Það styður allt hvort annað, þó við sáum ekki auðveldlega mun á fisknum þegar hann var tekinn í hús þá er hann hvítari þegar hann er kominn á markað, það er eins og kom í ljós þegar fiskurinn, hráefnið, var mælt hjá Matís og niðurstöður þeirra mælinga bentu til að munur væri á fiski sem væri meðhöndlaður á hefðbundinn hátt og fiski sem fór í gegnum okkar ROTEX skipalausnir“.

Matís óskar 3X Technology innilega til hamingju með áfangann!

 
 Tölvuteikning af Rótex vinnsludekki

Fréttir

„Það gerir enginn gull úr skít“

Í dag afhenti Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðstjóri hjá Matís, Einari Kristni Guðfinnssyni forseta Alþingis 63 eintök af bæklingnum „Mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski“, sem Matís lét endurprenta nú fyrir skemmstu.

Sjávarútvegsmál standa Íslendingum nærri, enda hefur sjávarútvegurinn verið ein af undirstöðu atvinnugreinum landsins og gjöful tekjulind. Því er ekki að undra að flestir hafi skoðun á sjávarútveginum og sérstaklega þingmenn. Í umræðu um sjávarútveg er þó sjaldan rætt um það sem öllu máli skiptir ef verðmæti á að vinna úr afurðunum, það er að segja, mikilvægi góðrar meðhöndlunar fisks frá því að hann er dreginn úr sjó, svo varðveita megi þau gæði sem fiskurinn býr yfir. Gæði eru grunnur verðmæta.

Því þótti við hæfi að afhenda alþingismönnum bæklinginn: „Mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski“, sem var endurprentaður í sumar af Matís. Bæklingurinn tekur einkum á þeim fimm þáttum sem mestu skipta við meðhöndlun á fiski, nýdregnum úr sjó; blóðgun, slægingu, þvott, hreinlæti og kælingu. Víðtæk þekking á mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski á erindi við alla, ekki síður við þá sem ræða um stjórn veiða en þá sem veiðarnar stunda.

Forseti Alþingis ánægður með gjöfina

Einar Kristinn Guðfinnsson forseti Alþingis og fyrrverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, tók við bæklingnum fyrir hönd alþingismanna. Hann var mjög ánægður með framtakið og sagði: „Þetta er mjög þarft og gott frumkvæði af hálfu Matís. Góð hráefnismeðhöndlun felur í sér enn frekari tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg og getur stuðlað að stóraukinni  verðmætasköpun. Fiskveiðistjórnarkerfi okkar hvetur til góðrar nýtingar á hráefninu. Þeir sem nýta fiskveiðiauðlindina hafa til ráðstöfunar tiltekið magn og  fyrir vikið skapast hvati til  sjómanna, útgerða og fiskvinnslu að búa til sem mest verðmæti  úr takmörkuðum aflaheimildum. Þeirra hagsmunir eru þess vegna í því fólgnir að fara vel með auðlindina hámarka afraksturinn.  Við höfum líka séð að verðmætasköpun á hvert veitt kíló hefur aukist ótrúlega mikið á síðustu árum. Það breytir því þó ekki að það er hægt að gera enn betur.“

„Við erum fjarri því að vera komin að einhverjum endimörkum. Tækifærin liggja víða, svo sem í bættri aflameðferð allt frá veiðum og þar til fiskurinn er orðinn að fullunninni vöru sem seld er á kröfuharða markaði, en einnig í alls konar aukaafurðum sem ekki voru nýttar en eru núna orðnar að miklum verðmætum. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þróuninni á þessu sviði sem og samstarfi vísindamanna og þeirra sem í greininni starfa. Höfum það ávallt í huga að góðar auðlindir eru ekki  ávísun á verðmætasköpun, heldur það hvernig þær eru nýttar.“

Matvælaöryggi er grunnur fæðuöryggis

Hjá Matís er mikil áhersla lögð á nýsköpun og verðmæta aukningu sjávarafurða, en ljóst er að grunnur allrar matvælaframleiðslu er gott hráefni og sé ætlunin að hámarka verð afurðanna er ljóst að meðhöndlun hráefnisins þarf að vera eins og best verður á kosið, eða eins og Sigurjón Arason yfirverkfræðingur  Matís, hefur sagt: „það gerir enginn gull úr skít“, sem eru sannarlega orð að sönnu. Því lítilsvert er, að hafa nóg af fæðu, ef hún er ekki hæf til mannelds.

Fréttir

Fagur er kældur fiskur

Í Morgunblaðinu í dag birtist frétt um endurprentun Matís á bæklingi sem fjallar mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski. Bæklingurinn er ætlaður öllum þeim sem starfa á sjó við meðhöndlun fisks. Hægt er að nálgast hann hér á heimasíðunni.

Fyrir stuttu var bæklingur um mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski endurprentaður af Matís. Bæklingurinn er tekur einkum á þeim fimm þáttum sem mestu skipta og er ætlaður nýliðum og þrautreyndum sjómönnum. Fyrri útgáfu var vel tekið, upplagið var uppurið, því var bæklingurinn endurprentaður. Morgunblaðið hafði samband við Arnljót Bjarka þar sem Vinnslu, virðisaukningar og eldissvið Matís stóð fyrir útgáfu og prentun bæklingsins.

Hér má lesa greinina eins og hún birtist í Morgunblaðinu:

Matís hefur endurprentað bæklinga um mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski, nýdregnum úr sjó. Þar er einkum minnt á þá fimm þætti sem skipta mestu; blóðgun, slægingu, þvott, hreinlæti og kælingu.

Nýliðun hefur verið töluverð í útgerð smábáta en talsmaður Matís bendir þó á að leiðbeiningunum sé beint til allra sjómanna, hvort sem þeir starfa á smábátum eða stærri fiskiskipum. Vísbendingar séu þó um að sjómenn meðhöndli aflann með mismunandi hætti.

Starfsmenn Matvælastofnunar; MAST, og Fiskistofu framkvæmdu hitastigsmælingar í júnímánuði á lönduðum afla 240 báta. Mælingarnar voru alls 548 og fóru fram víðs vegar um landið. Þar reyndist hitastig aflans að jafnaði vera 3,2 gráður en samkvæmt gildandi reglugerð skal hitastigið vera undir 4 gráðum, fjórum klukkustundum eftir að aflinn er tekinn um borð. Um 70% aflans voru undir tilskildum mörkum. Um þriðjungur var því ekki með rétt hitastig. Um 7% bátanna komu með ókældan fisk að landi.

Lengi býr að fyrstu gerð

Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri vinnslu, virðisaukningar og eldis hjá Matís, segir aldrei of oft minnt á mikilvægi þess að meðhöndla fiskinn rétt, þannig að gæði hans séu tryggð til áframhaldandi vinnslu. Mælingar MAST og Fiskistofu bendi til að menn þurfi að taka sig á.

„Lengi býr að fyrstu gerð. Það skiptir máli að fiskur sé fagmannlega höndlaður frá því að hann er fangaður svo gera megi sem mest verðmæti úr aflanum. Gæðin eru grunnur allra verðmæta,“ segir Arnljótur.

„Blóðgun, blæðing og kæling eru lykilatriði um borð í þeim bátum sem rúma ekki slægingu, en þar sem því verður við komið eru blóðgun, blæðing, slæging og kæling lykilatriðin,“ segir hann ennfremur.

Arnljótur bendir á að sumarþingið hafi breytt stærðarmörkum krókaaflamarksbáta og heimili nú stærri báta. Í stærri bátum sé mikilvægt að hafa góða aðstöðu um borð fyrir slægingu. Kæling sé mjög mikilvægt atriði og nauðsynlegt að halda lágu hitastigi á aflanum alla leiðina í land. „Aflinn þarf að standast þær kröfur sem fiskvinnslan gerir til hans. Vinnsla og sala á fiski snýst um traust. Menn þurfa að tryggja að geta selt fisk aftur. Fæstir leggja upp með að þetta séu einskiptis-viðskipti, menn vilja væntanlega geta endurtekið leikinn. Þetta snýst alltaf um virðingu fyrir umhverfi, hráefni og neytendum,“ segir Arnljótur Bjarki.

Matís hefur búið til ísreikni sem gefur upplýsingar um áætlaða ísþörf miðið við aðstæður hverju sinni. Reiknivélina má nálgast á fræðsluvef Matís: Ísþörf (ísreiknir)

Bæklingurinn: http://www.matis.is/media/matis/utgafa/Mikilvaegi-godrar-medhondlunar-a-fiski.pdf 

Einblöðungur: http://www.matis.is/media/einblodungar/a4_medhondlun_fisks.pdf   

Frétt MAST. https://www.mast.is/is/um-mast/frettir/frettir/afli-skal-vera-undir-4c-egar-honum-er-landa

Fréttir

Matís tekur þátt í „Fiskideginum mikla“

Bæjarhátíðin „Fiskidagurinn mikli“ verður haldin laugardaginn 10. ágúst á Dalvík. Á hátíðinni gefst gestum og gangandi tækifæri til að smakka margvíslega fiskrétti og súpur. Matís mun verða einn af styrktaraðilum hátíðarinnar á næsta ári.

Fiskidagurinn mikli er árviss bæjarhátíð á Dalvík þar sem fiskneysla er í forgrunni. Fiskidagurinn mikli er haldinn laugardaginn eftir verslunarmannahelgi. Þar bjóða fiskverkendur og heimamenn upp á ýmsa fiskrétti sem almenningur fær að smakka. Í boði eru oft á tíðum nýstárlegir réttir sem minna á að sjávarfang er úrvals hráefni sem býður upp á mikla möguleika. Einn vinsælasti réttur Fiskidaga er til að mynda fiskborgarar sem eru grillaðir á 8 metra löngu grilli.

Allir fá að borða eins og þeir geta í sig látið af fisk

Á föstudagskvöldinu fyrir Fiskidaginn mikla er Fiskisúpukvöldið mikla haldið, en þá bjóða bæjarbúar gestum og gangandi að smakka heimagerða fiskisúpu sem hver og ein fjölskylda hefur lagaða eftir sínu höfði.

Hátíðin byggir því að miklu leyti á jákvæðri upplifun af fiskneyslu og ýtir þar með undir hana. Það er ákaflega jákvætt, enda teljum við hjá Matís að aukinn fiskneysla sé góð fyrir lýðheilsu þjóðarinnar. Á Íslandi hefur fiskneysla átt undir högg að sækja þrátt fyrir að heilsusamleg áhrif séu vel þekkt. Þar sem eitt af markmiðum Matís er að bæta lýðheilsu leggjum við áherslu á að hvetja til fiskneyslu og stuðla að nýsköpun í matvælaframleiðslu. Því er einstaklega ánægjulegt að taka þátt í þessari hátíð. Í ár mun Matís kynna starfssemi sína með Grími Kokk, en fyrirtækin hafa átt í góðu samstarfi síðan 2008 og vinna nú að þróun á neytendavænum vörum sem auðgaðar hafa verið með lífrænum efnum úr sjávarafurðum.

Þá er okkur sönn ánægja að tilkynna að Matís verður styrktaraðili Fiskidagsins mikla 2014!

Ferkari upplýsingar um hátíðina má nálgast á heimasíðu Fiskidagsins mikla.

Fréttir

Mun matvælaskortur leiða til átaka?

Sveinn Margeirsson forstjóri Matís var í viðtali í Morgunútvarpinu þriðjudaginn 9. júlí. Þar talaði hann um þau vandamál sem steðja að heimsbyggðinni hvað varðar matvælaframleiðslu og fæðuöryggi í dag og í nánustu framtíð.

Í þættinum ræðir Sveinn það hvort tækniþróun muni  leysa þau vandamál sem steðja að matvælaframleiðslu sökum fólksfjölgunar og samdráttar í matvælaframleiðslu. En rannsóknir benda til þess að aukning á matvælaframleiðslu sé að minnka og komið sé að náttúrulegum þolmörkum jarðvegs. Sveinn bendir þó á að enn séu talsverðir möguleikar í nýtingu sjávar og sjávarafurða. En Íslendingar hafa verið leiðandi í rannsóknum og þróun á fullvinnslu fisks.

Hann bendir á að næsta stóra rannsóknaráætlun Evrópusambandsins  „Horizon“ 2020 miði að því að tækla vandamál á borð við fæðuöryggi og meðhöndlun lífhráefna. Ísland er þáttakandi í þessu verkefni og hluti af verkefnum Matís um þessar mundir tengjast þessari rannsóknaráætlun.  

„Matvæli, matvælaverð og fæðuframleiðsla verður áfram stórt málefni sem þarf virkilega að huga að. Eins og stríð fortíðar snerust að einhverju leyti um olíu og aðgang að þeim auðlindum þá finnst mér ekkert ósennilegt að deilur framtíðar munu að einhverju leyti snúast um aðgengi að landssvæðum, hafssvæðum og mögulega tækni sem hjálpar okkur við matvælaframleiðslu. Svona í stóra samhenginu má ekki gleyma að margar af stærri byltingum sögunnar hafa komið fram þegar matvælaverð hefur hækkað eða þegar það hefur verið skortur á fæðu, franska byltingin er bara ágætis dæmi.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild á vefsíðu RÚV.

Fréttir

Rannsóknarúrræði bætt í Tansaníu

Nýtt og glæsilegt rannsóknarskip hefur verið afhent stjórnvöldum í Tansaníu. Það mun nýtast við rannsóknir á fiskistofnum í Tanganyikavatni, en fiskur þaðan er ein megin fæðuuppsprettan í landinu sem og í nágrannalöndunum Búrundí, Kongó og Zambíu.

Nýlega afhentu starfsmenn Matís stjórnvöldum í Tansaníu vel útbúið rannsóknarskip fyrir Tanganyikavatn í Tansaníu. Með afhendingu skipsins lýkur formlega tveggja ára þróunarsamvinnuverkefni Matís í Tansaníu sem meðal annars miðaði að því að þróa vinnsluaðferðir á fiski og bæta rannsóknarúrræði og skilning á lífríki í vatninu.  Fjöldi fólks byggir lífsviðurværi sitt af veiði í vatninu enda annað stærsta ferskvatn í heimi, þó aðferðir við veiðar og vinnslu séu frumstæðar.

Stuðlar að sjálfbærri þróun

„Með aukinni þekkingu á efnasamsetningu vatnsins og lífríki er hægt að stuðla að sjálfbærri þróun fiskistofna og efla samþættingu veiða. Skipið mun því koma vel að notum við rannsóknir og mat á stofnstærðum fiska og til að skilja efnafræðilega þróun í vatninu,“ segir Margeir Gissurarson, verkefnastjóri  hjá Matís.  

Tanganyikavatn er á landamærum Búrundí, Kongó, Tansaníu ogZambíu og er mikilvæg fiskveiðiauðlind með einstakt líffræðilegt vistkerfi.  Vatnið er um 32 þúsund ferkílómetrar að stærð eða um þriðjungur af flatarmáli Íslands.

Matís tekur reglulega þátt í þróunarsamvinnuverkefnum víða um heim. Í þessu samstarfi er til að mynda stuðlað að uppbyggingu þekkingar í matvælaiðnaði í þróunarlöndum við Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Háskóla Sameinuðu þjóðanna og annarra er vinna að þróunarsamvinnu.


 
 
 Skipið sem var gert upp Nýja skipið er útbúið nákvæmum tækjum

Fréttir

Nýleg samantektarskýrsla afhjúpar eiturefni í umhverfinu

Nýleg yfirlitsskýrsla um per- og  polyflúoreruð alkanefni (PFC) leiddi í ljós að talsvert vantar af eðlisefnafræðilegum gögnum um stóran hluta þessara efna. En vísbendingar er um að þau geti valdið alvarlegum eituráhrifum og skaðað heilsu manna og dýra.

Markmið verkefnisins var að afla frekari upplýsinga um hvernig PFC efni eru notuð og losuð á Norðurlöndunum og á Norðurheimsskautssvæðinu. Samantektarskýrslan var unnin af Matís í samstarfi við hóp sérfræðinga á Norðurlöndunum, fyrir KLIF (Norwegian Climate and Pollution Agency) og Norræna efnafræðihópinn (NKG) sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina (Nordic Council of Ministers).

Hafa áhrif á æxlun

PFC efni eru mjög stór og flókinn hópur af lífrænum efnum sem hafa fjölbreytta virkni. Þau hafa verið framleidd í um 50 ár með efnasmíðum en þau myndast ekki af náttúrunnar hendi. Þau eru víða notuð í iðnaði og inn á heimilum. Notkun þeirra hefur hingað til verið talin örugg og því verið töluverð. Hinsvegar fóru áhyggjur vísindamanna að vakna þegar víðtæk útbreiðsla efnanna uppgötvaðist í umhverfinu (m.a. í ísbjörnum), sérstaklega í ljósi þess að rannsóknir benda til  þess að PFC efni geti t.d. haft áhrif á æxlun og að þau brotni sérstaklega hægt niður í náttúrunni.

Í kjölfar þessara uppgötvana hefur athygli ESB nú beinst að því að skoða notkun þessara efna og flokkun. OECD hefur skráð samtals 853 mismunandi flúorefnasambönd og fleiri eiga eftir að bætast í hópinn. Þessi tala gefur til kynna að fjöldi flúoreraðara efna eru notuð í dag, á sama tíma og lítið er vitað um uppsprettur efnanna og enn minna um dreifingu þeirra og umhverfisáhrif.

Verkefnavinnunni var skipti í þrjá aðalþætti. Í fyrsta lagi greiningu á helstu per- og polyflúoreruðu efnunum og notkun þeirra í ýmsum atvinnugreinum á norrænum markaði. Í öðru lagi greiningu á mögulegri losun og áhrifum í norrænu umhverfi og í þriðja lagi samantekt á þekkingu á eituráhrifum forgangsefna í þessari könnun. Bæði voru skoðuð áhrif á menn og dýr.

Fáar vísindarannsóknir um PFC efni

Niðurstöðurnar bera það með sér að töluverður upplýsingaskortur er um flest PFC efna á norrænum markaði. Í afar fáum tilfellum liggja fyrir nákvæmar markaðsupplýsingar um efnasamsetningu, magn, framleiðslu og notkun þeirra. En samkvæmt núverandi löggjöf er ekki skylt að birta upplýsingar um tiltekin PFC efni. Þessar eyður eru til komnar vegna vanþekkingar og viðskiptaleyndamála. Einungis fáeinar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar um flest PFC efni í norrænu umhverfi og litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar um áhrif efnanna á menn. Hinsvegar hafa eiturverkunarrannsóknir á dýrum sýnt að einstök PFC efni geta haft neikvæð áhrif á eðlilega þróun, æxlun og ónæmiskerfi með því að minnka líkamsþyngd, valda lifrareitrun og hafa áhrif á innkirtla kerfið, þ.á.m. kyn- og skjaldkirtilshormón.

Þegar eituráhrifa gætir vegna PFC efna er sjaldnast einu efni um að kenna, heldur er yfirleitt um blöndu af ýmsum PFC efnum að ræða í bland við aðra umhverfisþætti. Í framtíðar rannsóknum á PFC efnum þarf því að leggja áherslu á áhrif blöndunar PFC efna og afleiður þeirra. Auk þess sem þörf er á viðmiðunarefni til greiningar, gögn um eiturefnafræði og upplýsingar um tilvist þeirra í mönnum og umhverfi. 

Rannsóknarskýrslan var birt sem Tema Nord skýrsla og má nálgast hana á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Fréttir

Íslenskt sjávarsalt bætir nýtingu saltfisks

Íslendingar hafa lengi verið þekktir fyrir saltfiskframleiðslu sína, en hún hefur verið ein af undirstöðum íslensks efnahags, þrátt fyrir að saltið sé að mestu innflutt. Nýleg rannsókn bendir þó til þess að sé íslenskt salt notað til verkunarinnar, eykst nýtni vörunnar.

Söltun hefur verið ein helsta geymslu aðferð Íslendinga, ásamt þurrkun og súrsun um aldir. Hérlendis var þó oft erfitt að nýta söltunina þar sem talsverður skortur var á salti á Íslandi allt fram á 17. öld, þar sem hér var ekki nægileg þekking til staðar á vinnslu salts úr sjó. Hér er heldur ekki nægileg sól til sólþurrkunnar salts eins og þekkist víða erlendis. Því þurfti að flytja saltið inn og varð saltfiskverkun vinsæl hér á landi, eftir því sem aðgengi að salti jókst. Útflutningur á saltfisk hófst svo í kringum 1800 og fljótlega urðu Íslendingar meðal stærstu saltfiskframleiðanda í heimi og hefur hann síðan verið ein okkar mikilvægasta útflutningasvara og lengi vel undirstaða íslensk efnahags.

Neysla saltfisks byggir á gamalli hefð og er neyslan sérstaklega mikil í Suður-Evrópu og Rómönsku-Ameríku. Því er saltfiskverkun enn mikilvægur hluti af bolfiskvinnslu, þrátt fyrir að nútímatækni bjóði upp á aðrar geymsluaðferðir eins og kælingu eða frystingu. Ástæða þess eru þau sérstöku bragðeinkenni sem saltfiskur hefur og myndast við verkun hans þar sem lykt, útlit og áferð breytist.

Saltfiskur hefur mikið geymsluþol og byggir það helst á því að saltið dregur úr hlutfalli vatns í fiskvöðvanum sem hindrar vöxt örvera. Við saltfiskverkun er lykilatriði að nota hágæða matvælasalt, til að tryggja gæði vörunnar. Á Íslandi hafa verið gerðar tilraunir til að vinna salt innanlands og nýverið var unnin rannsókn hér hjá Matís í samstarfi við fyrirtækið Agnir ehf. og Orku- og tækniskóla Keilis, sem miðaði að því að nýta jarðsjó á Reykjanesi til að framleiða salt, sem meðal annars mætti nota við saltfisk framleiðslu. Verkefnið var styrkt af AVS rannsóknarsjóð í sjávarútvegi og Tækniþróunarsjóðs Íslands.Aðferð var þróuð til að framleiða salt með með jarðhita á Reykjanesi. Þessi framleiðslu aðferð hentaði vel til að stýra efnasamsetningu saltsins, sem er einkar mikilvægt til að tryggja rétta verkun. Saltið sem unnið var úr jarðsjó var borið saman við innflutt salt frá Miðjarðarhafi við framleiðslu á söltuðum þorskflökum. Niðurstöður leiddu í ljós að hærri nýting fékkst í saltfiskverkun með salti unnu úr jarðsjó, ásamt því að verkunin tók styttri tíma þar sem upptaka salts í þorskvöðva var meiri í samanburði við innflutta saltið. Salt unnið úr jarðsjó var því algjörlega sambærilegt innfluttu salti að gæðum. Það sannast því enn og aftur að hér á Íslandi höfum við einstakar náttúruauðlindir sem við getum nýtt á sjálfbæran hátt, hreinleiki þeirra og gæði gera það einnig að verkum að þessar vörur eru fullkomlega samkeppnishæfar og eftirsóttar.

Fréttir

Lífshættulegur faraldur á vesturlöndum

Hvernig á að bregðast við lífsstílstengdum sjúkdómum? – Viðtal við Svein Margeirsson forstjóra Matís.

Í dag er talið að rúmlega 2 milljarðar einstaklinga í heiminum þurfi að kljást við afleiðingar ofþyngdar og offitu á sama tíma og tæplega milljarður manna er vannærður. Langstærstur hluti þeirra sem kljást við offitu búa á vesturlöndum, en þar eru lífsstíls tengdir sjúkdómar nú helsta ógnin á meðan malaría og HIV er helsti áhættu þátturinn á vannærðari svæðum heims. Ógn lífsstílssjúkdóma er raunveruleg og hefur vaxið mikið síðastliðinn  áratug.  Í dag er talið að 86% dauðsfalla í Evrópu megi rekja til þeirra.[1] En hvað er til ráða? þarf að efla lyfjaiðnaðinn eða má finna aðrar lausnir?

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís telur að til þess að snúa þróuninni við þurfi hugarfarsbreytingu almennings og samstillt átak á sviði rannsókna og nýsköpunar í matvæla- og líftækniiðnaði. Hann segir lýðheilsu vera viðfangsefni morgundagsins, ef stemma eigi stigu við lífsstílssjúkdómum sem eru raunverulegur faraldur á Vesturlöndum. En eitt af megin hlutverkum Matís er einmitt að stuðla að bættri lýðheilsu.

Hvernig er hægt að bregðast við ástandinu?

„Í baráttunni við sjúkdóma á borð við skyrbjúg, berkla og mislinga spilaði menntun og upplýsing lykilhlutverk sem og rannsóknir. Það sama á við um lífstílssjúkdómana.  Við ættum  horfa til menntunar og rannsókna, í takti við atvinnulífið.  Með rannsóknum vísindamanna, í samstarfi við lyfja-og matvælafyrirtæki má ná umtalsverðum árangri. En til að það sé raunhæft þarf að leita nýrra leiða og forgangsraða rétt og vel má vera að meiri árangur fyrir heildina náist með því að rannsaka, þróa og mennta, til að koma í veg fyrir lífstílssjúkdómana í stað þess að takast á við þá í risavöxnu og sífellt stækkandi heilbrigðiskerfi. Og í raun ættu allir mennta-, fjármála- og nýsköpunarráðherrar hins vestræna heims spyrja sig hvor leiðin sé fýsilegri og skili meiru til samfélagsins til langtíma litið.“

Hvað hefur Matís lagt á vogaskálarnar? 

„Við lítum svo á að öflugt atvinnulíf, í formi stofnana og fyrirtækja sé forsenda velferðar og lífsgæða. Sjálfbær nýting auðlinda er önnur forsenda og til þess að hægt sé að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt þarf mikla þekkingu. Því haldast „þekkingariðnaðurinn“ og „hráefnaiðnaðurinn“ hönd í hönd en eru ekki andstæður eins og stundum er lagt upp með.

„Þess vegna höfum við lagt mikla áherslu á auknar tengingar við menntastofnanir og segja má að Matís hafi orðið vel ágengt í þeirri brúarsmíð sem þarf að verða milli menntastofnana, rannsóknarfyrirtækja og atvinnulífsins. Reynslan sýnir hversu miklu sú brú getur skilað til aukinnar verðmætasköpunar. Auk þess þá fer matvælaframleiðsla á Íslandi að stórum hluta fram utan höfuðborgarsvæðisins og frá stofnun Matís hefur verið lögð áhersla á rekstur starfsstöðva út um land allt til að fylgja eftir áherslum og tækifærum á hverju svæði fyrir sig, í samvinnu við heimamenn, sem hefur gefið góða raun.“ 

Hvernig sér Matís fyrir sér að hægt verði að breyta neyslu mynstri fólks?

„Við getum án efa horft til Noregs og lært af því hvernig þeir hafa þróað rannsóknar- og þróunarprógramm sem gengur út á að nýta og undirbyggja styrkleika Norðmanna; sjávarútveg, á sama tíma og horft er til framtíðar og sjónum beint að því hvernig norskur sjávarútvegur getur stuðlað að því að leysa úr þeirri áskorun sem lífstílssjúkdómar eru. Norðmenn meta hlutina svo að framtíðarneytendur matvæla muni horfa til heilsufarslegra áhrifa þeirra, ekki síður en til þess að fá magafylli. Fiskeri og Havbruksfonden, sem í raun er risavaxin markáætlun Norðmanna í sjávarútvegi, undir stjórn greinarinnar þar í landi er drifkraftur þessa átaks, í góðu samstarfi við rannsóknastofnanir, háskóla, norska sjávarútvegsráðuneytið og norska heilbrigðisráðuneytið.“

 „Hér á landi vantar töluvert upp á að við nýtum okkur sjávarafurðir til neyslu og til þess að það verði þarf að breyta orðræðunni um sjávarútveg í samfélaginu sem um þessar mundir snýst aðallega um kvóta og veiðileyfagjald, en ekki ávinninginn af neyslu sjávarafurða. Í dag borðar ungt fólk, á aldrinum 17-26 ára að meðaltali rúm 30-40 g af fiski á dag, sem samsvarar um það bil einum munnbita, sem er merkilegt í ljósi þess hvað við vitum mikið um heilnæmi sjávarfangs og áhrif lífstílssjúkdóma á heilbrigðiskerfið.[2] Aukin neysla sjávarfangs er vitaskuld einungis eitt dæmi um aðgerð sem gæti stuðlað að bættri lýðheilsu.“

„Það felast mikil tækifæri í því að virkja alla virðiskeðju menntunar, rannsókna, þróunar og nýsköpunar á þessu sviði.  Við eigum markvisst að takast á við hin stóru viðfangsefni á sviði lýðheilsu, með rannsóknir og þróun í vopnabúrinu.  Annars er hætt við að heilbrigðiskerfið ráði ekki við vandamálið, sem sligi þjóðfélagið.  Við eigum að geta gert betur en það.“


[1] Hannes Hrafnkelsson: „Langvinnir lífsstílssjúkdómar – mesta ógn nútímans við heilbrigði“, Læknablaðið 5. tbl, 99. árg 2013.

[2] Gunnþórunn Einarsdóttir, „Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða“, Ritgerð til MA prófs frá Háskóla Íslands 2008. Sjá: http://www.avs.is/media/avs/Vidhorf_og_fiskneysla.pdf

IS