Fréttir

Brúin – farsæl tenging vísinda og atvinnulífs

Samstarf Háskóla Íslands og Matís á liðnum árum hefur verið farsælt og stuðlað að verðmætasköpun í matvælaiðnaðinum hér á landi auk þess að undirbúa afbragðs vísindamenn fyrir störf í tengslum við matvælafræði. Matvælafræðin er sú grein sem er ört stækkandi og kröfur um framúrskarandi menntun og þekkingu verður háværari með degi hverjum enda snertir greinin neytandann með margvíslegum hætti.

Þekking starfsmanna beggja aðila er mikil í matvælafræði, líftækni og erfðafræði og því er mikilvægt að samnýta þekkinguna í tengslum við í nýsköpun og aukna verðmætasköpun. Þessi samningur mun leggja grunn af enn frekari eflingu fræðilegrar og verklegrar menntunar á sviði matvælarannsókna auk þess að efla samstarfi á öðrum sviðum kennslu og rannsókna. Samkomulagið er mikilvægt skref í átt að formlegu samstarfi Matís og Háskóla Íslands um samnýtingu aðfanga, innviða rannsókna og mannauðs.

Stefna HÍ og Matís er að vera í fararbroddi á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur til.

Markmið og hlutverk samningsaðila

  • Efla fræðilega og verklega menntun háskólanema á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur til
  • Auka rannsóknir á sviði matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggis og vera jafnframt í fararbroddi í nýsköpun á þessum fræðasviðum
  • Vera leiðandi á völdum sérfræðisviðum og hafa faglega sérstöðu í því skyni að laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi
  • Tryggja að gæði rannsókna samningsaðila séu sambærileg á við það sem best gerist á alþjóðlegum vettvangi
  • Nýta möguleika til samreksturs tækja í þágu sameiginlegra verkefna
  • Fjölga nemendum í grunn- og framhaldsnámi á fræðasviðum samningsins.

Matís er stærsta rannsóknafyrirtæki landsins á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis. Stefna fyrirtækisins er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvæla-öryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni.

Háskóli Íslands hefur mótað sér stefnu til ársins 2016, þar sem m.a. er lögð áhersla á doktorsnám, framúrskarandi rannsóknir og kennslu, auk áherslu á samstarf við stofnanir og fyrirtæki eins og Matís.
Á vegum HÍ eru stundaðar víðtækar rannsóknir og kennsla á þeim fræðasviðum sem Matís fæst við, einkum á vettvangi heilbrigðisvísinda- og verkfræði- og náttúruvísindasviða skólans.

Gildistími samningsins er fimm ár.

Nánari upplýsingar veita Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Nánari upplýsingar um Matís Brúna má finna á www.matis.is/bruin/

Fréttir

Flugkassi með rakamottu betri en gámakassi með drengötum

Rannsóknir Matís hafa sýnt fram á að vel einangraðar pakkningar geta skipt sköpum fyrir hitastýringu í flutningi ferskfiskafurða og þar með hámörkun afurðagæða. Með tilliti til þessa hafa íslenskir útflytjendur ferskra hvítfiskafurða flestir notast við frauðkassa fyrir bæði flugflutning og sjóflutning í gámum.

Í gámaflutningi er ís gjarna komið fyrir ofan á flökum í frauðkössum með drengötum, sem þjóna þeim tilgangi að varna því að fiskurinn liggi í vökva í kassanum. Í flugflutningi eru frekar notaðar frosnar kælimottur en ís til kælingar í heilum (ógötuðum) kössum enda leyfa mörg flugfélög ekki notkun íss í ferskfiskpakkningum.

Megintilgangur tilraunar, sem fór fram í júní 2013, var að bera saman ofangreindar tvær pakkningalausnir, þ.e. gámakassa með götum annars vegar og ógataða flugkassa með rakamottu, m.t.t. gæðarýrnunar þorskhnakkastykkja við útflutning og dreifingu.

Borin var saman kæligeymsla á vörum pökkuðum (1) í 5-kg einingum í (H1) skipa- eða (H2) flugkössum; (2) í 3-kg einingum í (H3) flugkössum samanborið við H2; (3) með CO2-mottur (H4) til að draga úr örveruvexti í 5-kg einingum geymdum undir 93% vakúm í EPS kössum. Í öllum hópum var komið fyrir um 400 g af ís ofan á fiskinum og rakamottu með 600 mL rakadrægni undir fiskinum. Athyglisvert var að líftími afurða í gámakössunum (H1) var metinn hálfum til heilum degi styttri en líftími hinna hópanna. Ferskleikinn var mestur og líftíminn lengstur hjá H4, sem ber saman við hægari TVB-N/TMA myndun og örveruvöxt vegna CO2-myndunar og lægri vöruhita. Enginn marktækur munur var milli hópanna m.t.t. TVB-N og TMA gilda, sem voru hæst í H1 og H3.

Helstu niðurstöður tilraunarinnar má sjá í meðfylgjandi töflu og ágrip hennar er að finna hér: www.matis.is/media/matis/utgafa/21-13-Skyrsluagrip.pdf.


Meginniðurstaða tilraunarinnar er því að gæði þorskhnakkastykkja er ekki betur viðhaldið í götuðum gámakössum en ógötuðum flugkössum með rakamottu til að draga í sig bráðnaðan ís og drip úr fiskholdinu. Annar kostur við flugkassana er að þeir einangra betur viðkvæma kælivöruna frá umhverfishitaálagi, þó svo ekki hafi reynt á það í þessari tilraun.

Nánari upplýsingar veita Eyjólfur Reynisson (eyjolfur@matis.is) og Björn Margeirsson (bjorn.margeirsson@promens.com).

Fréttir

Íslendingar taka þátt í „Særimner“

Á dögunum fékk Matís Leonard styrk til að senda fulltrúa í fimm daga starfsnám til Svíþjóðar í tengslum við Særimner, sem er Norræn ráðstefna smáframleiðenda matvæla. Smáframleiðsla matvæla er „framleiðsla matvæla í smáum stíl sem byggir á handverkinu fremur vélverkinu“. Í hópnum verða auk starfsmanna Matís fimm samstarfsaðilar, sem hafa þróað vörur í samstarfi með Matís. Farastjóri hópsins er Gunnþórunn Einarsdóttir.

Særimner er sannkölluð hátíð þeirra sem tengjast smáframleiðslu matvæla á einn eða annan hátt, sem haldin verður dagana 8.-10. október í Svíþjóð. Í ár er þemað „Norræn matvælasköpun“ sem tengist verkefninu „Ný norræn matargerð“ (e. New Nordic Food). Þar munu smáframleiðendur hittast til að kynna sínar vörur, miðla reynslu sinni og kynnast öðrum vörum. Þar verður einnig hægt að smakka á framleiðslu annarra og bjóða upp á slíkt, vilji fólk koma sínum vörum á framfæri.

Á ráðstefnunni verða einnig fjölmargir fyrirlestrar og málstofur sem tengjast matvælaframleiðslu á einn eða annan hátt. Til dæmis verður framtíð norrænnar matvælasköpunar til umræðu, þar sem stjórnmálamönnum er boðið að tjá sig. Þá verður málstofa um fiskverkun áður fyrr, norræn ber og geymsluaðferðir, mat og viðskipti, auk þess sem Brynhildur Pálsdóttir mun segja frá verkefninu „Stefnumót bænda og hönnuða“, sem Matís tók þátt í. Þá verður í boði ráðgjöf til smáframleiðanda sem vilja þróa vörur sínar áfram. Það er því ljóst að allir áhugasamir um smáframleiðslu matvæla geta fundið eitthvað við sitt hæfi á ráðstefnunni.

Á Særimner verður sænska meistarakeppnin (SM) í matvæla-framleiðslu haldin í 17 skipti og að þessu sinni verður hún opin fyrir keppendum frá Norðurlöndunum. Keppt verður í fimm aðalflokkum sem eru: kjötvörur, fiskvörur, mjólkurafurðir, bökunarvörur og vörur úr berjum, ávöxtum og grænmeti. Undir hverjum aðal-flokki eru svo ýmsir vöruflokkar. Í ár verða nokkrir nýir og spennandi vöruflokkar eins og mjólkursýrt grænmeti,  sinnep, sætabrauð og nýsköpun í matvörum.   
 
Fjöldi dómara, sérfróðir á sínu matvælasviði, dæma keppnina, sem fer fram fyrir opnum tjöldum. Til mikils er að vinna því þær vörur sem hljóta verðlaun í keppninni fá góða athygli sem mun auðvelda markaðssetningu þeirra. Allir keppendur fá dóma um sínar vörur frá dómurum, sem hjálpar til við áframhaldandi þróun vörunnar.  Fulltrúi Íslands í dómarahópnum verður Óli Þór Hilmarsson, kjötiðnaðarmeistari og sérfræðingur hjá Matís.

Hátíðin er ætluð öllum sem hafa áhuga á matvælasköpun. Hún er mikilvægur vettvangur tengslanets milli smáframleiðanda, hugmyndaauðgandi og spennandi auk þess sem hún styrkir án efa smáframleiðendur í framleiðslu sinni.

Skráning á Eldrimner hófst 6. maí en opið er fyrir skráningar til 13. september. Eftir það er hægt að skrá sig gegn hærra skráningargjaldi. Öllum er frjálst að vera með og hvetjum við alla sem starfa á þessum vettvangi eða eru áhugasamir að láta sjá sig.

Nánari upplýsingar um hátíðina veita: Gunnþórunn Einarsdóttir og Óli Þór Hilmarsson

Heimasíða Særimner: www.eldrimner.com/

Fréttir

Fagur Fiskur II hefur göngu sína í sjónvarpi

Flestir muna eftir sjónvarpsþáttunum Fagur Fiskur sem sýndi voru í Ríkissjónvarpinu fyrir um tveimur árum síðan. Þættirnir hlutu fádæma áhorf en vel á annað hundrað þúsund manns horfðu á þættina í viku hverri. Þættirnir unnu til Edduverðlauna árið 2011.

Nú er framhald þessara þátta að hefja göngu sína og má búast við skemmtilegu sjóvarpsefni fimmtudagskvöld í haust.

Sjónvarpsþættir verða sýndir á RÚV á fimmtudagskvöldum, en þættirnir hafa það að markmiði að kynna fyrir áhorfendum alla þá ótrúlegu möguleika í því frábæra hráefni sem finnst í hafinu í kringum landið. Hugmyndin af þáttunum kviknaði hjá Gunnþórunni Einarsdóttur matvælafræðingi hjá Matís og Brynhildi Pálsdóttur vöruhönnuði. Mastersverkefni Gunnþórunnar í matvælafræði við Háskóla Íslands fjallaði um stöðu fiskneyslu hjá ungu fólki á Íslandi. Niðurstöður verkefnisins sýndu að mikil þörf væri fyrir að efla bæði þekkingu fólks og neyslu þess á sjávarfangi. Út frá þessu verkefni kviknaði sú hugmynd að gera sjónvarpsþætti þar sem sjávarfang landsins væri í aðalhlutverki. Þær Gunnþórunn og Brynhildur fengu Svein Kjartansson matreiðslumann, Áslaugu Snorradóttur ljósmyndara og Sagafilm í lið með sér til þess að láta hugmyndina verða að veruleika. Hugmyndin var þróuð áfram og útfærð af Áslaugu, Sveini og Hrafnhildi Gunnarsdóttur leikstjóra hjá Sagafilm.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís.

Kynningarmyndband fyrir þættina

Í fyrsta þættinum verður þari tekinn fyrir en það er eitt þessar dulafullu hráefna sem innihalda stórkostlega næringu.

Þari

Í Herdísarvík á sunnanverðu Reykjanesi má finna söl og annan þara sem gómsætt er að elda úr. Þóra Valsdóttir leiðir okkur í allan sannleik um leyndardóma þaratínslu og neyslu í fjöruborðinu. Dúkkah, fjörusoðningur og bleikjunúðlusalat með sölum kætir og gleður uppfinningamennina Jón Trausta Kárason og Sæmund Elíasson frá Matís  sem sýna listir sínar og útbúa þarapasta sem Sveinn Kjartansson setur mark sitt á.

Fyrsti þátturinn fjallar um þara

Fréttir

Viltu taka þátt í skemmtilegri rannsókn?

Rannsóknastofa í næringarfræði við Landspítala, Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Matís óska eftir þátttakendum í rannsókn sem hefur það að markmiði að kanna hversu vel líkaminn nýtir omega-3 fitusýrur frá mismunandi uppsprettum.

Fyrir utan að taka þátt í skemmtilegri rannsókn og fá ókeypis mat þá eiga allir sem ljúka við rannsóknina möguleika á veglegu gjafakorti.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Fréttir

Sjávarútvegsráðstefna – 6.september 2013

Þann 6. september 2013 verður haldin á Ísafirði Sjávarútvegsráðstefnan ‘Markaðsmál sjávarútvegs í ljósi rannsókna og þróunar‘.

Sjávarútvegsráðstefna – 6.september 2013

Á ráðstefnunni verður fjallað um rannsóknir og þróun í sjávarútvegi ásamt gæða- og markaðsmálum sjávarútvegs. Sérstök áhersla verður lögð á vestfirskan sjávarútveg og samkeppnishæfni.

Ráðstefnan er öllum opin á meðan húsrúm leyfir og ekkert ráðstefnugjald. Skráning á ráðstefnuna er hjá Þróunarsetri Vestfjarða, sími 450 3000 og í reception@uwestfjords.is

Fréttir

Verðlaunabrauð LABAK

Landssamband bakarameistara (LABAK) og Matís kynna verðlaunabrauð LABAK. Brauðið er afrakstur keppni sem efnt var til meðal félagsmanna fyrr í sumar og var valið úr 11 innsendum brauðum.

Höfundur uppskriftarinnar, Sigurður M. Guðjónsson Bernhöftsbakaríi tók við verðlaunum í húsakynnum Matís fyrir stuttu þar sem viðstöddum gafst kostur á að smakka á brauðinu og kynna sér það nánar.

Við það tækifæri sagði Jóhannes Felixson, formaður LABAK, frá tilurð keppninnar, en tilgangur hennar er að stuðla að bættri hollustu í fæði landsmanna. Hann nefndi að aðeins einn bakarameistari hefði verið í dómnefndinni en hins vegar lögð áhersla á að fá fólk á ólíkum aldri og af báðum kynjum til dómarastarfanna til að tryggja að mest áhersla væri lögð á bragðgæði og áferð. Verðlaunabrauð LABAK væri með réttu brauð fyrir allan almenning enda valið af almenningi sjálfum.

Embætti landlæknis tók þátt í að setja þær kröfur sem brauð þurftu að uppfylla til að taka þátt í keppninni.

Gerð var sú krafa að brauðin uppfylltu allar kröfur norræna skráargatsins auk þess að geta flokkast sem heilkornabrauð en það þýðir að a.m.k. helmingur mjölsins er heilmalað korn sem inniheldur öll upprunaleg næringarefni kornsins. Ennfremur var gerð sú krafa að a.m.k. 20% af mjölinu væri íslenskt bygg.

Dómnefnd skipuðu Ásgeir Þór Tómasson, bakarameistari, Hótel- og matvælaskólanum, Hólmfríður Þorgeirsdóttir, matvæla- og næringarfræðingur, Embætti landlæknis, Jóhanna Eyrún Torfadóttir, Lýðheilsufræðingur, Háskóla Íslands, Kári Steinn Karlsson, afreksíþróttamaður og Steinar B. Aðalbjörnsson, næringarfræðingur, Matís

Sala á verðlaunabrauðinu hófst í bakaríum innan LABAK föstudaginn 23. ágúst.

Fréttir

Samkeppni um bestu viðskiptahugmyndirnar í matvæla- og líftækniiðnaði

Matís og Landsbankinn hafa komið á fót nýsköpunarkeppni fyrir viðskiptahugmyndir í matvæla- og líftækniiðnaði sem byggjast skulu á íslensku hráefni eða hugviti.

Samkeppninni er ætlað að hvetja til uppbyggingar fyrirtækja og þróunar verkefna í matvæla- og líftækniiðnaði með það að markmiði að auka varanlega verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi. Samkeppnin ber yfirskriftina „Þetta er eitthvað annað“ og vísar til umræðu um nýjungar í atvinnulífi sem oft lýkur á þann hátt að „gera eigi eitthvað annað“, eða þess óskilgreinda sem margir tala um en hafa ekki nafn yfir. Í þessari samkeppni gefst tækifæri til að leggja fram hugmyndir um „eitthvað annað“.

Landsbankinn og Matís sameina krafta sína með það að markmiði að gefa hugmyndunum líf. Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum á sviði matvæla- og líftækni þar sem áhersla er lögð á nýsköpun, verðmætaaukningu og matvælaöryggi. Landsbankinn hefur lagt áherslu á að vera hreyfiafl í samfélaginu og veita stuðning og ráðgjöf á sviði nýsköpunar í atvinnulífi og menntakerfi.

 
Frá undirritun samstarfssamnings Landsbankans og Matís. Frá vinstri: Helgi Teitur Helgason framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs, Sveinn Margeirsson forstjóri Matís og Þorsteinn Stefánsson útibússtjóri Landsbankans í Grafarholti.

Peningaverðlaun og mikilvægur stuðningur

Veitt verða peningaverðlaun fyrir bestu hugmyndina auk þess sem Matís veitir þeim sem hlutskarpastir verða mikilvæga tæknilega ráðgjöf og aðstöðu. Höfundar nokkurra annarra framúrskarandi viðskiptahugmynda munu einnig fá tækifæri til að fræðast nánar um þróunar- og framleiðsluferla í matvæla- og líftækniiðnaði sem og áætlanagerð og tilhögun kynninga fyrir fjárfesta.

Þegar hefur verið auglýst eftir umsóknum og er umsóknarfrestur til og með mánudagsins 2. september. Allar hugmyndir á sviði matvæla- og líftækni sem eiga erindi á  markað og byggja á íslensku hráefni eru gjaldgengnar í samkeppnina.

Nánari upplýsingar má finna á vefsvæði Matís, www.matis.is/nyskopun, og Landsbankans, www.landsbankinn.is.

Fréttir

Matís horfir á eftir starfsmönnum sínum með bros á vör

Frá stofnun Matís árið 2007 hefur fjöldi nemenda verið við rannsóknartengd störf hjá fyrirtækinu og margir þeirra hafa kosið að starfa áfram hjá Matís að námi loknu. Enda hefur Matís lagt metnað sinn í að hlúa vel að nemendum sínum og í höfuðstöðvum fyrirtækisins er til að mynda stórt skrifstofurými ætlað þeim sem stunda rannsóknir í tengslum við nám sitt.

Ein af ástæðum þess hve margir nemendur hafa komið til starfa hjá Matís er gott samtarf við Háskóla Íslands sem og aðrar menntastofnanir hér á landi. Þá hefur rannsóknartengt nám í samstarfi við Matís verið stökkpallur fyrir marga nemendur út í atvinnulífið. Hvort sem þeir hefja störf innanhús eða annarstaðar að námi loknu, þá þykir ljóst að vinnan hjá Matís skilaði vel undirbúnum starfsmönnum út á vinnumarkaðinn.

Þá er það einnig svo að sumir þeirra sem héldu áfram að vinna hjá Matís að námi loknu eða meðfram framhaldsnámi sínu hafa getið sér svo góðs orðspors að þeim hefur verið boðin störf hjá öðrum fyrirtækjum, oftar en ekki samstarfsaðilum Matís, vegna þekkingar sinnar og hæfni. Þessi staðreynd er mikið gleðiefni fyrir Matís. Þrátt fyrir að fyrirtækið sjái allaf á eftir góðum starfsmönnum, þá er ekki síðra að sjá þá blómstra annarstaðar, vitandi hvar grunnurinn var lagður.

Við hjá Matís höfðum samband við nokkra fyrrum nemendur og starfsmenn sem hafa getið sér góðs orðspors annarstaðar og spurðum við hvað stæði helst upp úr, frá þeim tíma þegar þau störfuðu hjá fyrirtækinu:

Björn Margeirsson Hóf störf hjá Matís 2007 og starfaði hér meðfram doktorsnámi til 2012. Doktorsverkefnið sem snerist um kælingu á ferskum fiski og var unnið í samvinnu við pakkningaframleiðandann Promens Tempra, Eimskip, Samherja, Brim o.fl. Hann starfar nú sem rannsóknastjóri hjá Promens Tempra. Hann segir að Doktorsverkefnið og störf sín hjá Matís hafi gefið sér fræðilegan bakgrunn og innsýn í íslenskan sjávarútveg.  „Sem gerðu mér kleift að þróast í starfi og opna mér spennandi atvinnumöguleika hjá Promens, þar sem ég starfa nú sem rannsóknastjóri. Það sem stendur upp úr frá tíma mínum hjá Matís er ánægjulegt samstarf í síkviku umhverfi mitt á milli háskóla og iðnaðarins.” 

Guðmundur Gunnarsson Hóf störf hjá Rf/Matís 2006 og starfaði sem stöðvarstjóri á Höfn í Hornafirði. Hann hóf störf sem framleiðslustjóri hjá Skinney-Þinganes á Höfn árið 2010. „Sá tími sem ég vann hjá Matís hefur verið góður grunnur fyrir núverandi starf mitt.“ Þá segir hann að tíminn sem fór í að skilgreina starfsemi Matís við stofnun þess fyrirtækis standi uppúr auk þess að hafa komið upp Matarsmiðju á Höfn.

Hólmfríður Sveinsdóttir Starfaði sem sérfræðingur á lífefna- og líftæknisviði Matís á Sauðárkróki frá 2009 – 2013 en þá tók hún við sem framkvæmdastjóri Iceprotein ehf. „Hjá Matís öðlaðist ég reynslu, bæði sem vísindamaður og sem verkefnastjórnandi, sem nýtist mér tvímælalaust í mínu starfi í dag. Það sem stendur upp úr er það mikla traust sem mér var sýnt og sú mikla hvatning sem ég fékk frá mínum yfirmönnum hjá Matís. Þar fékk ég einnig tækifæri til að vinna með mjög færum sérfræðingum bæði innan Matís sem utan. Allt þetta styrkti mig mikið.“

Kristín Anna Þórarinsdóttir Hóf störf hjá Rf/Matís meðfram meistaranámi árið 1998. Eftir það vann hún við rannsóknir hjá Matís og fór svo í doktorsnám sem lauk 2010. Meistara- og doktorsverkefnin hennar fjölluðu um eðliseiginleika saltfisks og stýringu í saltfisksverkun. Kristín starfar í dag á sviði nýsköpunar hjá Marel. „Öll menntun á sviði matvælaframleiðslu og sjávarútvegs, eykur skilning á því sem menn eru að fást við í gegnum virðiskeðjuna, allt frá veiðum og þar til afurðin er komin á borð neytandans. Þannig er hægt að gera góða hluti enn betri og halda okkur í fremstu röð í veiðum og vinnslu á fiskafurðum. Hjá Matís öðlaðist ég færni sem hefur nýst mér vel hér hjá Marel og ég veit að svo mun halda áfram.“

Við gleðjumst yfir því að vera brúin sem tengir vísindin og atvinnulífið á skilvirkan og atvinnuskapandi hátt og geta þannig boðið nemendum okkar raunveruleg tækifæri til rannsókna og áhrifa.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Mokveiði á kostnað gæða

Illa blóðgaður illa kældur fiskur leiðir til lakari gæða hráefnis og afurða – „Það er aldrei hægt að breyta lélegu hráefni í fína afurð og við eigum að leggja meira upp úr gæðum og verðmætum en magni.“

Ný fyrir stuttu birtist viðtal í Fiskifréttum við Sigurjón Arason sérfræðing hjá Matís. Þar talar Sigurjon um meðferð á afla og segist hann hrökkva við þegar hann sjái myndir af drekkhlöðnum bátum þar sem óísaður fiskur flæði upp um lestarlúgur og renni út í alla króka og kima á þilfari.

Viðtalið sem Guðjón Einarsson, hjá Fiskifréttum tók við Sigurjón, má finna í heild sinni hér fyrir neðan.

Aflameðferð hefur tekið stórstígum breytingum til batnaðar hérlendis á undanförnum árum og sem betur fer leggja flestir meira upp úr gæðum en magni. Í þessum efnum er þó pottur brotinn eins og fram kemur á myndum sem maður sér á netinu af drekkhlöðnum bátum sem koma að landi með miklu meiri afla en þeir hafa möguleika á að ganga frá um borð með sómasamlegum hætti. Fiskurinn er óísaður og ekki látinn blæða þótt búið sé að skera á lífoddann. Maður hrekkur við að sjá þetta því svona aflameðferð kemur óhjákvæmilega niður á verðmæti afurðanna,“ segir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís og prófessor við Háskóla Íslands, í samtali við Fiskifréttir.

Gríðarlegir fjármunir í húfi

Hvað eiga menn að gera þegar þeir lenda öðru hverju í svona miklu fiskiríi? ,,Menn hljóta að þurfa að miða veiðina við það hversu miklum afla er hægt að ganga frá með góðu móti um borð en ekki eftir veiðigetu bátsins. Í góðu fiskiríi er hægt að fækka línum og jafnvel fara tvisvar út eftir aflanum ef því er að skipta. Umræðan um fiskveiðarnar á ekki að snúast um að ná sem mestum afla eins og áður var keppikeflið, heldur að gera sem mest úr þeim takmarkaða afla sem leyfilegt er að veiða. Gæðin grundvallast á því að fiskurinn sé blóðgaður um leið og hann er veiddur og honum látið blæða í rennandi sjó og hann síðan kældur niður. Þetta er lykilatriði ef ná á hámarksverðmætum út úr hráefninu.

Og það eru gríðarlegir fjármunir í húfi. Sem dæmi má nefna að góðir þorskhnakkar eru seldir á 1.500-2.000 krónur kílóið en skilyrðið er að hráefnið sé fyrsta flokks. Lakara hráefni endar í blokk og fyrir kílóið af henni fást ekki nema 500-800 krónur. Sama er að segja um verðmæti hausanna. Svartur haus af illa blóðguðum fiski selst í Nígeríu á 50% lægra verði en gulur, fallegur haus, svo dæmi sé tekið. Afurðaverðmætið speglast alltaf að lokum af hráefnismeðferðinni.“
Verðlagning endurspeglar ekki gæði

En er það þá ekki umhugsunarefni að ekki skuli vera meiri verðmunur en raun ber vitni á góðum fiski og miður góðum á íslensku fiskmörkuðunum? „Jú, það er vissulega áhyggjuefni því það stuðlar ekki að bættum hráefnisgæðum. Svo virðist sem skortur á fiski og sú staðreynd að það er meiri eftirspurn en framboð á fiskmörkuðunum leiði til þess að verðlagningin miðast ekki nægilega mikið við gæði.
Þeir sem ganga vel frá sínum fiski fá ekki þá umbun sem þeim ber. Að vísu veit ég til þess að sumir framleiðendur kaupa bara fisk af ákveðnum fiskmörkuðum eða ákveðnum bátum sem þeir þekkja af góðu einu.“

Stærsta sóknarfærið

„Það má alls ekki skilja orð mín svo að hér sé aflameðferð í miklum ólestri. Sem betur fer hafa orðið stórkostlegar framfarir á þessu sviði á liðnum árum og mjög víða er hráefnismeðferðin til fyrirmyndar. En það má gera mun betur. Ég hef það á tilfinningunni að í bættri aflameðferð felist eitthvert stærsta sóknarfæri okkar í sjávarútvegi. Það sóknarfæri er milljarða virði.

Eitt er víst: Það er aldrei hægt að breyta lélegu hráefni í fína afurð og við eigum að leggja meira upp úr gæðum og verðmætum en magni,“ sagði Sigurjón Arason.

IS