Fréttir

Ís, ís, ís og meiri ís

Það verður seint of mikið fjallað um mikilvægi góðrar meðhöndlunar á þeim afla sem dreginn er úr sjó. Blóðgun, slæging, þvottur og síðast en ekki síst kæling eru þeir þættir sem skipta öllu máli ef markmiðið er að koma með fyrsta flokks fisk á markað.

Til þess að auðvelda áætlaða ísþörf í róður þá hefur Matís látið útbúa einfalda reiknivél til að sýna hvað þarf mikinn ís til að kæla og viðhalda kælingu afla þegar tekið er tillit til sjávar- og umhverfishita og geymslutíma.

Þessi reiknivél gefur fyrirtaks vísbendingu um magn íss, en vissulega er þetta svolítið breytilegt eftir gerð þess íss sem notaður er.

Reiknivélina má finna á fræðsluvef Matís: Ísþörf (ísreiknir)

Fréttir

Viltu taka þátt í skemmtilegri rannsókn?

Rannsóknastofa í næringarfræði við Landspítala, Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Matís óska eftir þátttakendum í rannsókn sem hefur það að markmiði að kanna hversu vel líkaminn nýtir omega-3 fitusýrur frá mismunandi uppsprettum.

Fyrir utan að taka þátt í skemmtilegri rannsókn og fá ókeypis mat þá eiga allir sem ljúka við rannsóknina möguleika á veglegu gjafakorti.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Fréttir

Af tilefni upphafs strandveiða þetta árið

1. maí sl. hófst strandveiðitímabilið. Af því tilefni langar Matís að benda veiðimönnum og öðrum á neðangreinda fræðslusíðu.

Ný reglugerð um kælingu afla er að finna á þessari síðu ásamt nýjum ísreikni, sem aðstoðar sjómenn við að ákveða hversu mikinn ís þarf að nota til að gæði hráefnis haldist sem allra best og lengst.

Nánari upplýsingar a www.alltummat.is/fiskur/smabatar/

Fréttir

Tækifærin eru á landsbyggðinni

Alla þessa vikuna verða þrír starfsmenn Matís á ferð hringinn í kringum landið. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar á landsbyggðinni hvað matvæla- og lífefnaframleiðslu varðar.

Starfsmennirnir munu hitta smáa sem stóra aðila í matvælaframleiðslu og verða þeim innan handar og gefa ráð varðandi hin ýmsu mál sem snúa að matvælaframleiðslu þá sérstaklega smáframleiðslu matvæla.

Drög að dagskrá:

  • Mánudagur 13. maí – Skagafjörður, Siglufjörður, Ólafsfjörður og Akureyri
  • Þriðjudagur 14. maí – Akureyri, Svalbarðseyri, Laugar, Húsavík, Kópasker, Raufarhöfn
  • Miðvikudagur 15. maí – Raufarhöfn
  • Fimmtudagur 16. maí – Egilsstaðir og aðrir staðir á Austurlandi/Austfjörðum
  • Föstudagur 17. maí – Austfirðir

Allir þeir sem áhuga hafa á matvælaframleiðslu eru hvattir til að hafa samband við þessa starfsmenn Matís.

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Hallgrímsson í síma 858-5054.

Fréttir

Laust starf ritara

Laust er til umsóknar starf ritara til að starfa með s.k. „Resident Twinning Advisor (RTA)“ í  erlendu verkefni.

Verkefnið heitir„Institutional and laboratory capacity building to ensure food safety“ og mun standa yfir í 12 mánuði.  Aðsetur mun vera hjá Matís ohf. Í Reykjavík og mun starfið helst felast í að aðstoða RTA við að samhæfa heimsóknir þýskra sérfræðinga til Matís og MAST (Matvælastofnunar).  Gerð er krafa um ritfærni og góða kunnáttu í þýsku, íslensku og  ensku. Um er að ræða fullt starf.

Helstu verkefni:

  • Aðstoða RTA við stjórnsýslu og skipulag verkefnisins í heild
  • Skipuleggja ferðalög RTA og þýskra sérfræðinga
  • Aðstoð með tungumál og þýðingar RTA og þýskra sérfræðinga
  • Skipulagning funda og ráðstefna
  • Samantekt á gögnum og skýrsluskrif
  • Þýðingar (íslenska/enska, enska/íslenska)

Nánari upplýsingar:

http://www.eurojobs.com

Fréttir

Framkvæmdastjóri hjá PepsiCo á leið til landsins

Dr. Gregory L. Yep, framkvæmdastjóri langtímarannsókna hjá PepsiCo (Senior Vice President, PepsiCo R&D), mun halda fyrirlestur á morgunverðarfundi Matís á Hilton 4. júní nk.

Sjá nánar auglýsingu frá Matís. Taktu morguninn þann 4. júní frá!

Þetta er opinn fundur og er aðgangur ókeypis!

Nánar síðar en upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís

Fréttir

Hvað geta lífefni gert fyrir okkur?

Þann 15. maí næstkomandi munu þær Ásta María Einarsdóttir, mastersnemi við matvælafræði og Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, doktorsnemi við matvælafræði, halda fyrirlestra sem fjalla um rannsóknir og þróun lífefna úr matvælum.

Kl. 15:00 – 15:30
Ásta María Einarsdóttir flytur erindi um Fucoidan úr brúnþörungum 

Kl. 15:30-16:00
Sigrún Mjöll Halldórsdóttir flytur erindi um líflæknisfræðilega (biomedical) notkun þorskatrypsíns 

Ásta María mun fjalla um lífefnið fucoidan sem er fjölsykra úr frumuveggjum brúnþörunga sem sýnt hefur fjölbreytta lífvirkni í nýlegum rannsóknum. Í fyrirlestrinum verður farið yfir niðurstöður nýrrar yfirlitsgreinar þar sem helstu rannsóknum á lífvirkni fucoidan eru gerð skil (Vo TS and Kim SK (2013). “Fucoidans as a natural bioactive ingredient for functional foods.” Journal of Functional Foods 5(1): 16-27). Rætt verður um áhrif fucoidan á þætti í blóðstorknun, áhrif fucoidans á veirur, æxli og bólgur auk andoxunarvirkni fucoidan.

Sigrún Mjöll fjallar um þorskatrypsín og notkunarmöguleika þess í líflæknisfræði. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þorskaensímin út frá nýrri yfirlitsgrein (Gudmundsdottir A, Hilmarsson H and Stefansson B (2013). “Review Article – Potential Use of Atlantic Cod Trypsin in Biomedicine”.  BioMed Research International, published online http://dx.doi.org/10.1155/2013/749078). Rannsóknir sýna að þorskatrypsín hefur margvíslega virkni t.d. gegn ýmsum veirum, húðvandamálum og sárum. Þorskatrypsín er einangrað úr viðbótarafurðum í fiskvinnslu og vinnsla þess stuðlar að fullnýtingu þorsks. Nú þegar eru ýmsar vörur á markaði sem innihalda þorskaensím undir nafninu ®Penzyme. 

Fyrirlestrarnir verða haldnir í húsnæði Matís að Vínlandsleið 12, á efstu hæð í sal 311 (Esja) frá kl.15 til kl.16, miðvikudaginn 15. maí (fuciodan kl.15 og þorsk trypsín kl.15:30).

Allir velkomnir!

Fréttir

Jón Gerald Sullenberg í Kosti er velkominn í viðskipti til Matís

Vegna greinar sem birtist í Morgunblaðinu, þar sem eigandi Kosts fjallar um matvælaeftirlit á Íslandi, vill Matís koma eftirfarandi á framfæri:

Matvælaeftirlit á Íslandi er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga (HES). Yfirumsjón og samræming á þessu eftirliti er í höndum Matvælastofnunar (www.mast.is).

Matís (www.matis.is) er öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvælaiðnaði. Matís hefur ekkert hlutverk í matvælaeftirliti annað en það að fyrirtækið getur, með áháðum hætti, rannsakað matvælasýni fyrir eftirlitsaðila, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga. Til að mynda getur Matís kannað hvort í matvælum séu aðskotaefni eða önnur óæskileg efni, hvort í matvælum séu þau efni sem sagt er að þar sé að finna og hvort um einhverja sérstaka virkni (lífvirkni) sé að ræða í vörum eða innihaldsefnum matvæla

En Jón Gerald er ævinlega velkominn í viðskipti til Matís og höfum við nú þegar boðið honum til samstarfs m.a. er varðar mælingar á ávöxtum og grænmeti sem Kostur flytur inn frá Bandaríkjum.

Jón Gerald hefur nú þegar leiðrétt ruglinginn en ekki er úr vegi að varpa enn frekara ljósi á starfsemi Matís og hvernig hún tengist ekki matvælaeftirliti á Íslandi.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís

Fréttir

Skeiðgenið nú greint á Íslandi

Matís, sem sér um foreldragreiningar hesta, hefur nú hafið DNA greiningar á geninu DMRT3, hinu svokallaða skeiðgeni. Mikil umræða skapaðist meðal hestamanna í lok ársins 2012 þegar fréttir bárust af því að búið væri að finna gen í hrossum sem stjórnaði skeiðgangi þeirra.

Rannsakendurnir, Lisa Andersson hjá Capilet Genetics AB, ofl  sem uppgötvuðu þetta gen telja að þetta sé afar merkilegur fundur sem getur bætt kynbótastarf íslenska hestsins.

Hestar geta haft eina af þremur arfgerðum. Ein arfgerðin er þegar hestar eru arfhreinir fyrir þessu geni (AA) og búa slíkir hestar yfir skeiði. Séu tvö arfhrein hross með góðu skeiði pöruð saman þá gefa þau af sér arfhreint alhliðahross (AA). Aðrir erfðaþættir og umhverfisáhrif geta hins vegar haft áhrif á hversu gott það afkvæmi verður sem alhliða hross. Önnur arfgerðin gefur af sér arfblendna (CA) hesta og eru slíkir hestar yfirleitt  fjórgangshross en séu þeir paraðir við arfhreinan eða arfblendin einstakling geta þeir gefið af sér alhliða afkvæmi í 50% eða 25% tilfella. Þriðja arfgerðin er arfhrein án skeiðgensins (CC) og hestar með þessa arfgerð eru í flestum tilfellum gangtreg hross. Séu slík hross pöruð saman við arfhreinan einstakling með skeiði eða arfblendin einstakling munu afkvæmi annaðhvort verða klárhestar með tölti eða hreinir klárhestar.

Með því að DNA greina hross fyrir þessu geni geta ræktendur valið undaneldisgripina með tilliti til þess hvort þeir séu alhliða hestar (arfhreinir), klárhestar með tölti (arfblendnir) eða hreinir klárhestar.

Frekari upplýsingar um DNA greiningar fyrir skeiðgenið er hægt að nálgast með því að senda tölvupóst á alexandram@matis.is

Fréttir

Ferskara gerist hráefnið ekki

Ásbjörn Jónsson matvælafræðingur hjá Matís fór í eina veiðiferð með fullkomnasta línuveiðiskipi heims þar sem hann hafði hönd í bagga með að framleiða nokkrar spennandi niðursuðuvörur úr afbragsfersku hráefni.

Í Noregi er að finna línuveiðiskipið „Fröyanes“ en þar um borð er stefnt að því að nýta allt hráefni sem inn fyrir borðstokkinn kemur. Lítil niðursuðuverksmiðja er um borð og er markmiðið að nýta til niðursuðu lifur, hrogn, svil, skötubörð og gellur.

Fröyanes er eitt fullkomnasta línuveiðiskip heimsins og því mikill akkur fyrir sérfræðinga Matís að taka þátt í vöruþróun um borð í þessu skipi.

Ferð Ásbjörns voru gerð mjög góð skil í Fiskifréttum 11. apríl sl. (©Mynd af Fröyanes: www.fiskifrettir.is).

Fréttin í Sunnmörsposten laugardaginn 23. mars sl. (opna nr. 10).

IS