Fréttir

Íslendingar taka þátt í „Særimner“

Á dögunum fékk Matís Leonard styrk til að senda fulltrúa í fimm daga starfsnám til Svíþjóðar í tengslum við Særimner, sem er Norræn ráðstefna smáframleiðenda matvæla. Smáframleiðsla matvæla er „framleiðsla matvæla í smáum stíl sem byggir á handverkinu fremur vélverkinu“. Í hópnum verða auk starfsmanna Matís fimm samstarfsaðilar, sem hafa þróað vörur í samstarfi með Matís. Farastjóri hópsins er Gunnþórunn Einarsdóttir.

Særimner er sannkölluð hátíð þeirra sem tengjast smáframleiðslu matvæla á einn eða annan hátt, sem haldin verður dagana 8.-10. október í Svíþjóð. Í ár er þemað „Norræn matvælasköpun“ sem tengist verkefninu „Ný norræn matargerð“ (e. New Nordic Food). Þar munu smáframleiðendur hittast til að kynna sínar vörur, miðla reynslu sinni og kynnast öðrum vörum. Þar verður einnig hægt að smakka á framleiðslu annarra og bjóða upp á slíkt, vilji fólk koma sínum vörum á framfæri.

Á ráðstefnunni verða einnig fjölmargir fyrirlestrar og málstofur sem tengjast matvælaframleiðslu á einn eða annan hátt. Til dæmis verður framtíð norrænnar matvælasköpunar til umræðu, þar sem stjórnmálamönnum er boðið að tjá sig. Þá verður málstofa um fiskverkun áður fyrr, norræn ber og geymsluaðferðir, mat og viðskipti, auk þess sem Brynhildur Pálsdóttir mun segja frá verkefninu „Stefnumót bænda og hönnuða“, sem Matís tók þátt í. Þá verður í boði ráðgjöf til smáframleiðanda sem vilja þróa vörur sínar áfram. Það er því ljóst að allir áhugasamir um smáframleiðslu matvæla geta fundið eitthvað við sitt hæfi á ráðstefnunni.

Á Særimner verður sænska meistarakeppnin (SM) í matvæla-framleiðslu haldin í 17 skipti og að þessu sinni verður hún opin fyrir keppendum frá Norðurlöndunum. Keppt verður í fimm aðalflokkum sem eru: kjötvörur, fiskvörur, mjólkurafurðir, bökunarvörur og vörur úr berjum, ávöxtum og grænmeti. Undir hverjum aðal-flokki eru svo ýmsir vöruflokkar. Í ár verða nokkrir nýir og spennandi vöruflokkar eins og mjólkursýrt grænmeti,  sinnep, sætabrauð og nýsköpun í matvörum.   
 
Fjöldi dómara, sérfróðir á sínu matvælasviði, dæma keppnina, sem fer fram fyrir opnum tjöldum. Til mikils er að vinna því þær vörur sem hljóta verðlaun í keppninni fá góða athygli sem mun auðvelda markaðssetningu þeirra. Allir keppendur fá dóma um sínar vörur frá dómurum, sem hjálpar til við áframhaldandi þróun vörunnar.  Fulltrúi Íslands í dómarahópnum verður Óli Þór Hilmarsson, kjötiðnaðarmeistari og sérfræðingur hjá Matís.

Hátíðin er ætluð öllum sem hafa áhuga á matvælasköpun. Hún er mikilvægur vettvangur tengslanets milli smáframleiðanda, hugmyndaauðgandi og spennandi auk þess sem hún styrkir án efa smáframleiðendur í framleiðslu sinni.

Skráning á Eldrimner hófst 6. maí en opið er fyrir skráningar til 13. september. Eftir það er hægt að skrá sig gegn hærra skráningargjaldi. Öllum er frjálst að vera með og hvetjum við alla sem starfa á þessum vettvangi eða eru áhugasamir að láta sjá sig.

Nánari upplýsingar um hátíðina veita: Gunnþórunn Einarsdóttir og Óli Þór Hilmarsson

Heimasíða Særimner: www.eldrimner.com/

Fréttir

Fagur Fiskur II hefur göngu sína í sjónvarpi

Flestir muna eftir sjónvarpsþáttunum Fagur Fiskur sem sýndi voru í Ríkissjónvarpinu fyrir um tveimur árum síðan. Þættirnir hlutu fádæma áhorf en vel á annað hundrað þúsund manns horfðu á þættina í viku hverri. Þættirnir unnu til Edduverðlauna árið 2011.

Nú er framhald þessara þátta að hefja göngu sína og má búast við skemmtilegu sjóvarpsefni fimmtudagskvöld í haust.

Sjónvarpsþættir verða sýndir á RÚV á fimmtudagskvöldum, en þættirnir hafa það að markmiði að kynna fyrir áhorfendum alla þá ótrúlegu möguleika í því frábæra hráefni sem finnst í hafinu í kringum landið. Hugmyndin af þáttunum kviknaði hjá Gunnþórunni Einarsdóttur matvælafræðingi hjá Matís og Brynhildi Pálsdóttur vöruhönnuði. Mastersverkefni Gunnþórunnar í matvælafræði við Háskóla Íslands fjallaði um stöðu fiskneyslu hjá ungu fólki á Íslandi. Niðurstöður verkefnisins sýndu að mikil þörf væri fyrir að efla bæði þekkingu fólks og neyslu þess á sjávarfangi. Út frá þessu verkefni kviknaði sú hugmynd að gera sjónvarpsþætti þar sem sjávarfang landsins væri í aðalhlutverki. Þær Gunnþórunn og Brynhildur fengu Svein Kjartansson matreiðslumann, Áslaugu Snorradóttur ljósmyndara og Sagafilm í lið með sér til þess að láta hugmyndina verða að veruleika. Hugmyndin var þróuð áfram og útfærð af Áslaugu, Sveini og Hrafnhildi Gunnarsdóttur leikstjóra hjá Sagafilm.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís.

Kynningarmyndband fyrir þættina

Í fyrsta þættinum verður þari tekinn fyrir en það er eitt þessar dulafullu hráefna sem innihalda stórkostlega næringu.

Þari

Í Herdísarvík á sunnanverðu Reykjanesi má finna söl og annan þara sem gómsætt er að elda úr. Þóra Valsdóttir leiðir okkur í allan sannleik um leyndardóma þaratínslu og neyslu í fjöruborðinu. Dúkkah, fjörusoðningur og bleikjunúðlusalat með sölum kætir og gleður uppfinningamennina Jón Trausta Kárason og Sæmund Elíasson frá Matís  sem sýna listir sínar og útbúa þarapasta sem Sveinn Kjartansson setur mark sitt á.

Fyrsti þátturinn fjallar um þara

Fréttir

Viltu taka þátt í skemmtilegri rannsókn?

Rannsóknastofa í næringarfræði við Landspítala, Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Matís óska eftir þátttakendum í rannsókn sem hefur það að markmiði að kanna hversu vel líkaminn nýtir omega-3 fitusýrur frá mismunandi uppsprettum.

Fyrir utan að taka þátt í skemmtilegri rannsókn og fá ókeypis mat þá eiga allir sem ljúka við rannsóknina möguleika á veglegu gjafakorti.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Fréttir

Sjávarútvegsráðstefna – 6.september 2013

Þann 6. september 2013 verður haldin á Ísafirði Sjávarútvegsráðstefnan ‘Markaðsmál sjávarútvegs í ljósi rannsókna og þróunar‘.

Sjávarútvegsráðstefna – 6.september 2013

Á ráðstefnunni verður fjallað um rannsóknir og þróun í sjávarútvegi ásamt gæða- og markaðsmálum sjávarútvegs. Sérstök áhersla verður lögð á vestfirskan sjávarútveg og samkeppnishæfni.

Ráðstefnan er öllum opin á meðan húsrúm leyfir og ekkert ráðstefnugjald. Skráning á ráðstefnuna er hjá Þróunarsetri Vestfjarða, sími 450 3000 og í reception@uwestfjords.is

Fréttir

Verðlaunabrauð LABAK

Landssamband bakarameistara (LABAK) og Matís kynna verðlaunabrauð LABAK. Brauðið er afrakstur keppni sem efnt var til meðal félagsmanna fyrr í sumar og var valið úr 11 innsendum brauðum.

Höfundur uppskriftarinnar, Sigurður M. Guðjónsson Bernhöftsbakaríi tók við verðlaunum í húsakynnum Matís fyrir stuttu þar sem viðstöddum gafst kostur á að smakka á brauðinu og kynna sér það nánar.

Við það tækifæri sagði Jóhannes Felixson, formaður LABAK, frá tilurð keppninnar, en tilgangur hennar er að stuðla að bættri hollustu í fæði landsmanna. Hann nefndi að aðeins einn bakarameistari hefði verið í dómnefndinni en hins vegar lögð áhersla á að fá fólk á ólíkum aldri og af báðum kynjum til dómarastarfanna til að tryggja að mest áhersla væri lögð á bragðgæði og áferð. Verðlaunabrauð LABAK væri með réttu brauð fyrir allan almenning enda valið af almenningi sjálfum.

Embætti landlæknis tók þátt í að setja þær kröfur sem brauð þurftu að uppfylla til að taka þátt í keppninni.

Gerð var sú krafa að brauðin uppfylltu allar kröfur norræna skráargatsins auk þess að geta flokkast sem heilkornabrauð en það þýðir að a.m.k. helmingur mjölsins er heilmalað korn sem inniheldur öll upprunaleg næringarefni kornsins. Ennfremur var gerð sú krafa að a.m.k. 20% af mjölinu væri íslenskt bygg.

Dómnefnd skipuðu Ásgeir Þór Tómasson, bakarameistari, Hótel- og matvælaskólanum, Hólmfríður Þorgeirsdóttir, matvæla- og næringarfræðingur, Embætti landlæknis, Jóhanna Eyrún Torfadóttir, Lýðheilsufræðingur, Háskóla Íslands, Kári Steinn Karlsson, afreksíþróttamaður og Steinar B. Aðalbjörnsson, næringarfræðingur, Matís

Sala á verðlaunabrauðinu hófst í bakaríum innan LABAK föstudaginn 23. ágúst.

Fréttir

Samkeppni um bestu viðskiptahugmyndirnar í matvæla- og líftækniiðnaði

Matís og Landsbankinn hafa komið á fót nýsköpunarkeppni fyrir viðskiptahugmyndir í matvæla- og líftækniiðnaði sem byggjast skulu á íslensku hráefni eða hugviti.

Samkeppninni er ætlað að hvetja til uppbyggingar fyrirtækja og þróunar verkefna í matvæla- og líftækniiðnaði með það að markmiði að auka varanlega verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi. Samkeppnin ber yfirskriftina „Þetta er eitthvað annað“ og vísar til umræðu um nýjungar í atvinnulífi sem oft lýkur á þann hátt að „gera eigi eitthvað annað“, eða þess óskilgreinda sem margir tala um en hafa ekki nafn yfir. Í þessari samkeppni gefst tækifæri til að leggja fram hugmyndir um „eitthvað annað“.

Landsbankinn og Matís sameina krafta sína með það að markmiði að gefa hugmyndunum líf. Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum á sviði matvæla- og líftækni þar sem áhersla er lögð á nýsköpun, verðmætaaukningu og matvælaöryggi. Landsbankinn hefur lagt áherslu á að vera hreyfiafl í samfélaginu og veita stuðning og ráðgjöf á sviði nýsköpunar í atvinnulífi og menntakerfi.

 
Frá undirritun samstarfssamnings Landsbankans og Matís. Frá vinstri: Helgi Teitur Helgason framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs, Sveinn Margeirsson forstjóri Matís og Þorsteinn Stefánsson útibússtjóri Landsbankans í Grafarholti.

Peningaverðlaun og mikilvægur stuðningur

Veitt verða peningaverðlaun fyrir bestu hugmyndina auk þess sem Matís veitir þeim sem hlutskarpastir verða mikilvæga tæknilega ráðgjöf og aðstöðu. Höfundar nokkurra annarra framúrskarandi viðskiptahugmynda munu einnig fá tækifæri til að fræðast nánar um þróunar- og framleiðsluferla í matvæla- og líftækniiðnaði sem og áætlanagerð og tilhögun kynninga fyrir fjárfesta.

Þegar hefur verið auglýst eftir umsóknum og er umsóknarfrestur til og með mánudagsins 2. september. Allar hugmyndir á sviði matvæla- og líftækni sem eiga erindi á  markað og byggja á íslensku hráefni eru gjaldgengnar í samkeppnina.

Nánari upplýsingar má finna á vefsvæði Matís, www.matis.is/nyskopun, og Landsbankans, www.landsbankinn.is.

Fréttir

Matís horfir á eftir starfsmönnum sínum með bros á vör

Frá stofnun Matís árið 2007 hefur fjöldi nemenda verið við rannsóknartengd störf hjá fyrirtækinu og margir þeirra hafa kosið að starfa áfram hjá Matís að námi loknu. Enda hefur Matís lagt metnað sinn í að hlúa vel að nemendum sínum og í höfuðstöðvum fyrirtækisins er til að mynda stórt skrifstofurými ætlað þeim sem stunda rannsóknir í tengslum við nám sitt.

Ein af ástæðum þess hve margir nemendur hafa komið til starfa hjá Matís er gott samtarf við Háskóla Íslands sem og aðrar menntastofnanir hér á landi. Þá hefur rannsóknartengt nám í samstarfi við Matís verið stökkpallur fyrir marga nemendur út í atvinnulífið. Hvort sem þeir hefja störf innanhús eða annarstaðar að námi loknu, þá þykir ljóst að vinnan hjá Matís skilaði vel undirbúnum starfsmönnum út á vinnumarkaðinn.

Þá er það einnig svo að sumir þeirra sem héldu áfram að vinna hjá Matís að námi loknu eða meðfram framhaldsnámi sínu hafa getið sér svo góðs orðspors að þeim hefur verið boðin störf hjá öðrum fyrirtækjum, oftar en ekki samstarfsaðilum Matís, vegna þekkingar sinnar og hæfni. Þessi staðreynd er mikið gleðiefni fyrir Matís. Þrátt fyrir að fyrirtækið sjái allaf á eftir góðum starfsmönnum, þá er ekki síðra að sjá þá blómstra annarstaðar, vitandi hvar grunnurinn var lagður.

Við hjá Matís höfðum samband við nokkra fyrrum nemendur og starfsmenn sem hafa getið sér góðs orðspors annarstaðar og spurðum við hvað stæði helst upp úr, frá þeim tíma þegar þau störfuðu hjá fyrirtækinu:

Björn Margeirsson Hóf störf hjá Matís 2007 og starfaði hér meðfram doktorsnámi til 2012. Doktorsverkefnið sem snerist um kælingu á ferskum fiski og var unnið í samvinnu við pakkningaframleiðandann Promens Tempra, Eimskip, Samherja, Brim o.fl. Hann starfar nú sem rannsóknastjóri hjá Promens Tempra. Hann segir að Doktorsverkefnið og störf sín hjá Matís hafi gefið sér fræðilegan bakgrunn og innsýn í íslenskan sjávarútveg.  „Sem gerðu mér kleift að þróast í starfi og opna mér spennandi atvinnumöguleika hjá Promens, þar sem ég starfa nú sem rannsóknastjóri. Það sem stendur upp úr frá tíma mínum hjá Matís er ánægjulegt samstarf í síkviku umhverfi mitt á milli háskóla og iðnaðarins.” 

Guðmundur Gunnarsson Hóf störf hjá Rf/Matís 2006 og starfaði sem stöðvarstjóri á Höfn í Hornafirði. Hann hóf störf sem framleiðslustjóri hjá Skinney-Þinganes á Höfn árið 2010. „Sá tími sem ég vann hjá Matís hefur verið góður grunnur fyrir núverandi starf mitt.“ Þá segir hann að tíminn sem fór í að skilgreina starfsemi Matís við stofnun þess fyrirtækis standi uppúr auk þess að hafa komið upp Matarsmiðju á Höfn.

Hólmfríður Sveinsdóttir Starfaði sem sérfræðingur á lífefna- og líftæknisviði Matís á Sauðárkróki frá 2009 – 2013 en þá tók hún við sem framkvæmdastjóri Iceprotein ehf. „Hjá Matís öðlaðist ég reynslu, bæði sem vísindamaður og sem verkefnastjórnandi, sem nýtist mér tvímælalaust í mínu starfi í dag. Það sem stendur upp úr er það mikla traust sem mér var sýnt og sú mikla hvatning sem ég fékk frá mínum yfirmönnum hjá Matís. Þar fékk ég einnig tækifæri til að vinna með mjög færum sérfræðingum bæði innan Matís sem utan. Allt þetta styrkti mig mikið.“

Kristín Anna Þórarinsdóttir Hóf störf hjá Rf/Matís meðfram meistaranámi árið 1998. Eftir það vann hún við rannsóknir hjá Matís og fór svo í doktorsnám sem lauk 2010. Meistara- og doktorsverkefnin hennar fjölluðu um eðliseiginleika saltfisks og stýringu í saltfisksverkun. Kristín starfar í dag á sviði nýsköpunar hjá Marel. „Öll menntun á sviði matvælaframleiðslu og sjávarútvegs, eykur skilning á því sem menn eru að fást við í gegnum virðiskeðjuna, allt frá veiðum og þar til afurðin er komin á borð neytandans. Þannig er hægt að gera góða hluti enn betri og halda okkur í fremstu röð í veiðum og vinnslu á fiskafurðum. Hjá Matís öðlaðist ég færni sem hefur nýst mér vel hér hjá Marel og ég veit að svo mun halda áfram.“

Við gleðjumst yfir því að vera brúin sem tengir vísindin og atvinnulífið á skilvirkan og atvinnuskapandi hátt og geta þannig boðið nemendum okkar raunveruleg tækifæri til rannsókna og áhrifa.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Mokveiði á kostnað gæða

Illa blóðgaður illa kældur fiskur leiðir til lakari gæða hráefnis og afurða – „Það er aldrei hægt að breyta lélegu hráefni í fína afurð og við eigum að leggja meira upp úr gæðum og verðmætum en magni.“

Ný fyrir stuttu birtist viðtal í Fiskifréttum við Sigurjón Arason sérfræðing hjá Matís. Þar talar Sigurjon um meðferð á afla og segist hann hrökkva við þegar hann sjái myndir af drekkhlöðnum bátum þar sem óísaður fiskur flæði upp um lestarlúgur og renni út í alla króka og kima á þilfari.

Viðtalið sem Guðjón Einarsson, hjá Fiskifréttum tók við Sigurjón, má finna í heild sinni hér fyrir neðan.

Aflameðferð hefur tekið stórstígum breytingum til batnaðar hérlendis á undanförnum árum og sem betur fer leggja flestir meira upp úr gæðum en magni. Í þessum efnum er þó pottur brotinn eins og fram kemur á myndum sem maður sér á netinu af drekkhlöðnum bátum sem koma að landi með miklu meiri afla en þeir hafa möguleika á að ganga frá um borð með sómasamlegum hætti. Fiskurinn er óísaður og ekki látinn blæða þótt búið sé að skera á lífoddann. Maður hrekkur við að sjá þetta því svona aflameðferð kemur óhjákvæmilega niður á verðmæti afurðanna,“ segir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís og prófessor við Háskóla Íslands, í samtali við Fiskifréttir.

Gríðarlegir fjármunir í húfi

Hvað eiga menn að gera þegar þeir lenda öðru hverju í svona miklu fiskiríi? ,,Menn hljóta að þurfa að miða veiðina við það hversu miklum afla er hægt að ganga frá með góðu móti um borð en ekki eftir veiðigetu bátsins. Í góðu fiskiríi er hægt að fækka línum og jafnvel fara tvisvar út eftir aflanum ef því er að skipta. Umræðan um fiskveiðarnar á ekki að snúast um að ná sem mestum afla eins og áður var keppikeflið, heldur að gera sem mest úr þeim takmarkaða afla sem leyfilegt er að veiða. Gæðin grundvallast á því að fiskurinn sé blóðgaður um leið og hann er veiddur og honum látið blæða í rennandi sjó og hann síðan kældur niður. Þetta er lykilatriði ef ná á hámarksverðmætum út úr hráefninu.

Og það eru gríðarlegir fjármunir í húfi. Sem dæmi má nefna að góðir þorskhnakkar eru seldir á 1.500-2.000 krónur kílóið en skilyrðið er að hráefnið sé fyrsta flokks. Lakara hráefni endar í blokk og fyrir kílóið af henni fást ekki nema 500-800 krónur. Sama er að segja um verðmæti hausanna. Svartur haus af illa blóðguðum fiski selst í Nígeríu á 50% lægra verði en gulur, fallegur haus, svo dæmi sé tekið. Afurðaverðmætið speglast alltaf að lokum af hráefnismeðferðinni.“
Verðlagning endurspeglar ekki gæði

En er það þá ekki umhugsunarefni að ekki skuli vera meiri verðmunur en raun ber vitni á góðum fiski og miður góðum á íslensku fiskmörkuðunum? „Jú, það er vissulega áhyggjuefni því það stuðlar ekki að bættum hráefnisgæðum. Svo virðist sem skortur á fiski og sú staðreynd að það er meiri eftirspurn en framboð á fiskmörkuðunum leiði til þess að verðlagningin miðast ekki nægilega mikið við gæði.
Þeir sem ganga vel frá sínum fiski fá ekki þá umbun sem þeim ber. Að vísu veit ég til þess að sumir framleiðendur kaupa bara fisk af ákveðnum fiskmörkuðum eða ákveðnum bátum sem þeir þekkja af góðu einu.“

Stærsta sóknarfærið

„Það má alls ekki skilja orð mín svo að hér sé aflameðferð í miklum ólestri. Sem betur fer hafa orðið stórkostlegar framfarir á þessu sviði á liðnum árum og mjög víða er hráefnismeðferðin til fyrirmyndar. En það má gera mun betur. Ég hef það á tilfinningunni að í bættri aflameðferð felist eitthvert stærsta sóknarfæri okkar í sjávarútvegi. Það sóknarfæri er milljarða virði.

Eitt er víst: Það er aldrei hægt að breyta lélegu hráefni í fína afurð og við eigum að leggja meira upp úr gæðum og verðmætum en magni,“ sagði Sigurjón Arason.

Fréttir

Upplýsingar vegna IPA verkefnisins Örugg matvæli – fréttatilkynning frá Matvælastofnun (MAST) og Matís

Að gefnu tilefni skal upplýst að verkefnið Örugg matvæli, sem var hluti af IPA áætluninni, er mikilvægt til að tryggja enn frekar matvælaöryggi og vernda íslenska neytendur óháð inngöngu í ESB.  Verkefnið gerir íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun (MAST) og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna (HES) betur kleift að framfylgja reglugerðum um matvælaöryggi og neytendavernd, en þær hafa nú þegar verið innleiddar á Íslandi í gegnum EES samninginn.

  • Samkvæmt  reglugerð er skylda að mæla að minnsta kosti 190 varnarefni í matvælum og krafist er getu um að mæla minnst 300 varnarefni.
  • Í dag eru einungis mæld 63 varnarefni og því ekki vitað hvort önnur varnarefni séu til staðar í matvælum hér á landi.
  • Sýni af náttúrulegum eiturefnum s.s. sveppaeiturefnum og sýni til mælinga á eiturefnum í skelfiski þarf í dag að greina erlendis.
  • Árið 2011 mældust 8 af 276 eftirlitssýnum vegna varnarefna yfir leyfilegum mörkum, en árið 2012 mældust 3 af 275 eftirlitssýnum yfir leyfilegum mörkum. Það sem af er árinu hafa 5 af 140 eftirlitssýnum innihaldið varnarefni yfir leyfilegum mörkum.
  • Nýjasta dæmið er að 6. ágúst 2013 var innflutt spínat innkallað af neytendamarkaði vegna varnarefnis sem greindist í vörunni og sem ekki er heimilt að nota við ræktun matjurta í Evrópu.

Bakgrunnur

Ísland hefur haft undanþágu til að greina færri varnarefni í matvælasýnum, en EES reglur gera kröfu um, á meðan unnið væri að úrbótum á efnagreiningum. Forsendur fyrir þessari undanþágu og nauðsynlegum úrbótum falla burt ef ekkert verður af framkvæmd verkefnisins „Örugg matvæli“, sem jafnframt nær til fleiri aðskotaefna og efnisþátta í matvælum. Eins og horfur eru í dag og ef íslensk stjórnvöld geta ekki brugðist við, er matvælaöryggi á Íslandi stefnt í hættu frekar en að vinna að nauðsynlegum úrbótum í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir og skuldbindingar.

Neytendur verða að geta gengið að því vísu að matvæli hérlendis ógni ekki heilsu þeirra og ofangreint verkefni er liður í að tryggja það. Því tengist þetta verkefni fyrst og fremst því að framfylgja núgildandi reglugerðum sem snúa að bættu matvælaöryggi á Íslandi.

Það er grundvallaratriði fyrir neytendur að geta treyst því að sá matur sem þeir kaupa og neyta ógni ekki heilsu þeirra. Lykilmarkmið þessa verkefnis er að auka enn frekar matvælaöryggi á Íslandi og vernda neytendur með því að tryggja heilnæmi matvæla á íslenskum markaði. Verkefnið er því knýjandi til að Ísland geti staðið við allar þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist með samþykkt og framkvæmd matvælalöggjafar á EES.

Stuttur viðbragðstími er lykilatriði við uppákomur sem ógna matvælaöryggi. Ísland er landfræðilega einangrað og því þarf að tryggja að nauðsynleg rannsókna- og öryggisþjónusta sé ávallt til staðar í landinu. Í því skyni hefur MAST gert öryggis- og forgangsþjónustusamning við Matís um matvælaöryggi. Matís er opinber rannsóknastofa sem m.a. ber ábyrgð á að greina helstu sýkla og mengun í matvælum sem líklegt er að finnist á Íslandi en fyrirtækið veitir líka ráðgjöf um sýnatöku, greiningu á matvælasýnum og tekur þátt í áhættumati um matvælaöryggi.

Verkefnið Örugg matvæli var sett af stað til að vinna að uppbyggingu nauðsynlegs tækjabúnaðar til að greina varnarefni, aðskotaefni og önnur efni sem geta fundist í matvælum. Starfsfólk rannsóknaaðila og eftirlitsaðila á jafnframt að þjálfa í notkun búnaðar, löggjöf, sýnatökum og gæðamálum, sem tengjast matvælaeftirliti og matvælarannsóknum. Þetta eru verkefni sem í raun felast í núgildandi löggjöf, sem gerir kröfur um sýnatökur og greiningar, ásamt því að eftirlitsfólk fái nauðsynlega þjálfun og eftirlit byggist á áhættumati og skráðum verklagsreglum.

Upphaflega stóð til að fjármögnun verkefnisins kæmi í gegnum IPA styrk, en í ljósi þess að sá styrkur fæst að líkindum ekki, er nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld fjármagni verkefnið og vinni þá jafnvel að lausn þess með aðkomu erlendra samstarfsaðila MAST og Matís, sem eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum.

Nánari upplýsingar veita Ingibjörg Jónsdóttir hjá Matvælastofnun og Hrönn Ólína Jörundsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Ölum við fiska á diska framtíðarinnar?

Vöxtur fiskeldis á Íslandi hefur verið hægari en ætla mætti vilji Íslendingar gegna sama hlutverki við matavælaframleiðslu úr fiskmeti og þeir hafa gert hingað til. Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri hjá Matís telur að frekari rannsóknir og þróunarvinnu þurfi til að efla fiskeldi hérlendis.

Samkvæmt spám síðustu ára mun eftirspurn eftir fiskmeti og sjávarfangi aukast umtalsvert en ljóst þykir að veiðar á villtum fiski muni ekki anna þeirri eftirspurn ef fram fer sem horfir. Því eru vonir bundnar við fiskeldi og að eldisfiskur muni mæta aukinni eftirspurn.

„Fiskeldi hefur vaxið hratt á heimsvísu, en sami gangur hefur ekki verið í íslensku fiskeldi,“ segir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Vinnslu, virðisaukningar og eldis hjá Matís. Hann segir Íslendinga hafa aflað upp undir 2% af heimsafla veidds fisks, en Íslendingar ali eingöngu um 0,01% af heildar fiskeldisframleiðslu heimsins. „Vilji Íslendingar gegna sama hlutverki við matvælaframleiðslu úr fiskmeti hér eftir sem hingað til, er ljóst að mikið verk er fyrir höndum,“ segir Arnljótur og bætir við að Íslendingar hafi gert sér vonir um mun öflugra fiskeldi hér á landi en reyndin hefur orðið.  „Hvort sem sjónum er beint að fæðuöryggi á norðurslóðum eða öryggi þeirra matvæla sem framleidd eru hér og seld víða um heim, er augljóst að íslenskt fiskeldi verður að vaxa. Því verður að vanda til verka við rannsóknir í þágu fiskeldis og við þróun þess hér á landi. Bleikja sem hefur fram að þessu borið uppi fiskeldi á Íslandi  er smátegund í hnattrænu samhengi,“ segir Arnljótur.

Lengi býr að fyrstu gerð

Arnljótur segir að við uppbyggingu á eldi sé að mörgu að hyggja og mikilvægt að beita vönduðum faglegum vinnubrögðum á öllum stigum eldisferla. „Margir þættir þar á meðal hreysti fiska er háð arfgerð þeirra. Vísbendingar eru um að þróun á fyrstu stigum eldis geti skilað ávinningi á síðari stigum og því þarf að huga vel að fyrstu gerð í eldinu þar sem gjörvileiki fiska getur komið í ljós snemma á lífsleiðinni. Til að hámarka arðsemi fiskeldis þarf að vanda atlæti fiskanna og huga að að hagkvæmni einkum við fóðurgerð og fóðrun.“

Veldisvöxtur ekki sjálfgefinn

„Sú var tíðin að spár um fiskeldi í framtíðinni virtust byggja á veldisvexti en nú eru spár Landsambands fiskeldisstöðva grundvallaðar á varfærnara mati þ.e. spá, háspá og lágspá. Þó Íslendingar ætli sér ekki að tvöhundraðfalda fiskeldisframleiðslu fram til 2030,  er ljóst að tækifæri eru til aukins eldis á Íslandi. Eldi á framandi tegundum kann að reynast tekjumyndandi fyrir samfélagið, einkum þar sem aldar tegundir gefa af sér afurðir sem seljast við hátt verð s.s. sæeyra eða Senegalflúra. Eins getur gæðalax skapað gjaldeyri, þó okkar sigur vinnist varla á magni geta gæði skilað verðmætum. Innkoma nýrra aðila í íslenskt fiskeldi, á borð við Fjarðarlax, Arnarlax og Stolt Sea Farm, gefur fyrirheit um að Íslendingar geti haslað sér völl í eldi fiska sem seljast á velborgandi mörkuðum.“

Að mati Arnljóts verða nýir og stórir sigrar vart unnir í fiskeldi nema með öflugu rannsókna- og þróunarstarfi. Hið sama gildir hvorttveggja um eldi og veiðar að meiru skiptir að sem hæst verð fáist fyrir allt það sem er framleitt fremur en að leggja ofurkapp á magn. Vert er að hafa það í huga þar sem útlit er fyrir að umfang fiskeldis á Vestfjörðum nái fyrr en seinna að jafna umfang veiða Vestfirðinga á villtum fiski.[1] „Með því að leggja fram fjármuni til að sinna rannsókna- og þróunarstarfi, má vinna markvisst að því að aðlaga fiskeldi að íslenskum aðstæðum sem eru ekki í einu og öllu sambærilegar við eldisaðstæður samkeppnislanda okkar.“

Rannsóknir og þróun lykilatriði

Menn leita stöðugt betri lausna og velta því steinum, stórum og smáum, innanlands sem utan til að auka, bæta og vanda fiskeldi. Við höfum mýmörg dæmi um rannsókna- og þróunarvinnu sem hefur t.a.m. birst sem niðurstöður í Matís skýrslum jafnt sem ritrýndum fræðigreinum, og eru hagnýttar við kennslu í fiskeldi hjá Hólaskóla, og verið innleiddar í starf Hafrannsóknarstofnunarinnar. Niðurstöður slíkra rannsókna hafa þó ekki síst komið fiskeldisfyrirtækjum til góða og orðið til hagræðingar og virðisaukningar í starfsemi þeirra. Nýleg dæmi um vinnu af þessum toga má t.a.m. finna í sértækri ábendingu um hvar þörf sé á frekari rannsóknum hvað varðar fitusýrusamsetningu fóðurs fyrir feitari fiska.[2] Þá má einnig benda á greiningu SINTEF og fleiri á mögulegri þróun norræns fiskeldis til ársins 2030.[3]

 
 Úr skýrslu Trond Rosten ofl. Perspectives for sustainable development of Nordic aquaculture. [4] Matís var meðal þátttakenda í PABAN verkefninu. Myndin sýnir mikilvæg svæði fyrir vöxt norræns fiskeldis.
IS