Fréttir

Saltfiskhandbók fyrir framleiðendur

Nýlokið er við að taka saman hagnýtar upplýsingar fyrir saltfiskframleiðendur. Þessi handbók byggir á rannsóknum og þróunarverkefnum sem unnin hafa verið á Matís í samvinnu við saltfiskframleiðendur undanfarin ár.

Fyrir allnokkrum árum tók Dr. Jónas Bjarnason, efnaverkfræðingur, saman handbók fyrir saltfiskframleiðendur. Sú bók naut mikilla vinsælda og þótti geyma mikinn og gagnlegan fróðleik. Upplag bókarinnar gekk til þurrðar fyrir nokkrum árum og hafa saltfiskframleiðendur óskað eftir nýju riti sem lýsti betur þeim aðferðum sem notaðar hafa verið á síðustu árum.

Rannsókna- og þróunarverkefni fyrir saltfiskframleiðendur hafa lengi verið fyrirferðamikil í starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og síðar Matís. Afrakstur þessara verkefna hefur verið birtur í allmörgum skýrslum og nú þótti tímabært að draga fram það helsta á einn stað.

Þessi handbók byggir því á rannsóknum margra einstaklinga og hæpið að telja þá alla upp, en þó ber að nefna að Sigurjón Arason, verkfræðingur hjá Matís og kennari við Háskóla Íslands, hefur verið nokkurs konar samnefnari margra þeirra, Dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir, matvælafræðingur, vann við saltfiskrannsóknir um árabil og lauk doktorsprófi að rannsóknum loknum. Gerð þessarar handbókar og samantekt efnisins var að stórum hluta í höndum Kristínar Önnu áður en Páll Gunnar Pálsson, matvælafræðingur, tók við og sá um að koma handbókinni á þetta form. En handbókin verður aðeins fáanleg á rafrænu formi (pdf), sem gefur tækifæri til að bæta og breyta með litlum tilkostnaði.

Handbókina má nálgast á heimasíðu Matís (www.matis.is/saltfiskhandbokin)

Fréttir

Sjávarþörungar vannýtt auðlind á Íslandi

„Íslensku sjávarþörungarnir eru vannýtt auðlind að minnsta kosti hér á Íslandi, en það er ýmislegt í gangi sem tengist þörungum og þeir koma víða við í okkar rannsóknum,“ segir Jón Trausti Kárason sérfræðingur en hann er einn þeirra sem tengjast þörungarannsóknum hjá Matís.

Jón Trausti segir að um 8 vísindamenn hjá Matís starfi öðru fremur að þörungarannsóknum þó fleiri tengist þeim verkefnum með einum eða öðrum hætti. Meðal nýlegra afurða sem byggja á þörungarannsóknum vísindamanna Matís eru húðvörur sem sprotafyrirtækið Marinox hefur sett á markað en þær innihalda lífvirk andoxunarefni sem eru unnin úr þangi og þykja sérstaklega góð fyrir húðina. Af öðrum afurðum sem eru væntanlegar á markað innan tíðar nefnir Jón Trausti meðal annars þörungaskyr og byggpasta sem er bætt með þörungum.

„Reyndar var það hópur nemenda sem var hjá okkur í fyrrasumar sem byrjaði þróun þörungaskyrsins og afurðin keppti fyrir Íslands hönd í Ecotrophelia, sem er nemendakeppni í vistvænni nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þetta gekk það vel að þróunarvinnunni var haldið áfram og núna er þörungaskyrið að koma á markað. Hér er á ferðinni matvara sem er skyr og þaramjöl í grunninn en bragðbætt með bláberjum og hunangi,“ segir Jón Trausti.

Nánari upplýsingar veitir Jón Trausti Kárason.

Fréttir

Vöruþróunarsetur sjávarafurða eykur verðmætasköpun

Það má segja að þetta sé nokkurs konar regnhlíf fyrir mörg smá verkefni sem unnin eru innan Matís í samstarfi við fyrirtæki og einstaklinga víða um land og miða að því að auka verðmæti sjávarfangs.

„Verkefnasjóður sjávarútvegsins gerði okkur kleift að veita nýjum og smáum verkefnum brautargengi án þess að þurfa að leita eftir stuðningi fyrir hvert þeirra með umsóknum til stærri sjóða,“ segir Páll Gunnar Pálsson, verkefnisstjóri, um tilurð Vöruþróunarseturs sjávarafurða.

„Oft er það þannig að við hér innan Matís erum í sambandi við einstaklinga eða fyrirtæki sem þurfa á aðstoð að halda til að koma hugmynd í framkvæmd eða hjálp til að ljúka verkefnum. Gjarnan eru þau þess eðlis að þau eru of lítil eða ekki komin á það stig að þau rími við áherslur samkeppnissjóðanna vegna styrkjaúthlutana. Við skynjuðum að mikil þörf var á nýjum farvegi fyrir þessi verkefni, enda höfum við innan Matís mikið að bjóða með okkar sérfræðiþekkingu og aðstöðu. Þetta getur því verið allt frá rannsóknum eða greiningum yfir í ráðgjöf um húsnæði, tæknilausnir, vöruþróun eða markaðsstarf. Í grunninn eru þetta lítil verkefni, afmörkuð í tíma, en þau geta síðan vissulega stækkað í framhaldinu og færst þá yfir á það stig sem hentar stuðningskerfi samkeppnissjóðanna,“ segir Páll Gunnar.

Páll Gunnar segir verkefnin sem Vöruþróunarsetur sjávarafurða vinnur að mjög fjölbreytt. Sum hver hafi þegar skilað afurðum á markað og séu jafnvel grunnurinn að stofnun lítilla fyrirtækja.

 „Sem dæmi má nefna þaraskyrið sem innan tíðar fer í framleiðslu, UNU húðvörur sem eru komnar á markað og byggja á notkun lífvirkra efna úr bóluþangi og Reykhöll Gunnu á Rifi sem fékk aðstoð við vöruþróun og gæðaeftirlit. Á þessu ári eru verkefnin komin vel á fjórða tuginn og er þar m.a. verið að vinna að bættri nýtingu á grásleppu, fæðubótarefnum úr þangi, fersklýsi úr lifur, umbúðum fyrir lifandi humar, upplýsingum um sjávarfang fyrir markaðs- og sölufyrirtæki svo eitthvað sé nefnt.

 Staðsetning starfsstöðva Matís vítt og breitt um landið hefur auðveldað frumkvöðlum að leita eftir samstarfi og stuðningi. Við tökum vel á móti öllum og leggjum okkur fram um að styrkja verkefnahugmyndirnar með okkar sérþekkingu svo árangurinn verði aukin verðmæti sjávarfangs.“

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar.

Fréttir

Þörungaþykkni með skilgreinda andoxunarvirkni

Matís og fyrirtækið Grímur kokkur hafa unnið saman að verkefnum um auðgun sjávarrétta með lífefnum eins og þörungaþykkni með skilgreinda andoxunarvirkni, hýdrólysötum til að auka próteininnihald og fiskiolíum til að auka omega-3 fitusýrur fyrst í verkefni styrktu af AVS sjóðnum (R 041-10) frá 2010 til 2012.

Fyrir um ári hófst tveggja ára  norrænt verkefni styrkt af Nordic Innovation.  Í norræna verkefninu eru einnig  fyrirtæki sem framleiða íblöndunarefni í matvæli sprotafyrirtækið Marinox sem framleiðir þörungaduft, fyrirtækið Norður með próteinhydrolysöt og  norska fyrirtækið BioActiveFoods sem nýverið hefur sett á markað bragðlaust omega-3 duft. Í verkefninu eru einnig rannsóknafyrirtækið VTT í Finnlandi ásamt finnsku fyrirtæki sem framleiðir sjávarrétti.

Fyrirtækið Grímur kokkur sem er landsþekkt fyrir  vörur sínar úr sjávarfangi flutti rekstur sinn nýverið í  nýtt húsnæði  í Eyjum sem innréttað er algjörlega að þörfum fyrirtækisins. Jafnframt hefur Sigurður Gíslason matreiðslumaður tekið til starfa í fjölskyldufyrrtækinu og mun efla áframhaldandi vöruþróun og nýsköpun. Í norræna verkefninu er vöruþróun á auðguðum sjávarréttum að fara í fullan gang og tveir meistaranemendur við matvæla- og næringarfræðideild HÍ í samstarfi við Rannsóknastofu í Næringarfræði munu vinna sín lokaverkefni innan verkefnisins. Miklar vonir eru bundnar við afrakstur þessa verkefnis en þarna vinna saman nýsköpunar- og matvælafyrirtæki í tengslum við háskóla og þekkingarfyrirtæki.   

Frétt á Eyjunni.

Mynd á fundi tekin í gær Sigurður Gíslason og Grímur Gíslason frá Grími kokki, Emilía Martinsdóttir, Kolbrún Sveinsdóttir, Rósa Jónsdóttir og Valgerður Lilja  Jónsdóttir  meistaranemi.

Fundur í Matís

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir hjá Matís.

Fréttir

HACCP námskeið

HACCP námskeið verður haldið hjá Matís þann 6. og 7. febrúar nk.

Um er að ræða ítarlegt tveggja daga námskeið þar sem meðal annars verður farið yfir helstu hættur í matvælum og fyrstu aðgerðir við uppsetningu HACCP-kerfis.

Námskeiðið verður haldið í húsakynnum Matís, Vínlandsleið 12,  6. og 7. febrúar frá kl. 9:00 til 16:00 báða dagana.

Fréttir

Suðurland er hjarta grænmetisframleiðslunnar

Í árslok 2012 var tekin ákvörðun um að ráða sameiginlegan starfsmann með Háskólafélagi Suðurlands að matarsmiðju Matís á Flúðum.

Haraldur Hallgrímsson, sviðsstjóri Nýsköpunar og neytenda, segir þetta mjög mikilvægt skref í uppbyggingu matarsmiðjunnar og til marks um aukið gildi hennar í nýsköpun og þróun matvælavinnslu á Suðurlandi.

„Starfsmaður matarsmiðjunnar kemur til með að kortleggja og styðja uppbyggingu á matvælatengdu námi á svæðinu, safna upplýsingum um þarfir fyrirtækjanna og vinna með þeim, jafnframt því að annast þau verkefni sem snúa beint að matarsmiðjunni. Þetta rímar mjög vel við þá áherslu sem við höfum í matarsmiðjunum og ég met það svo að á Suðurlandi séu mjög mikil tækifæri fyrir Matís til þess að styðja framþróun í matvælavinnslu. Við erum á Flúðum í hjarta grænmetisframleiðslunnar á Íslandi og eitt af því sem við horfum til er að nýta reynslu sem við getum yfirfært úr sjávarútvegi yfir í þá grein, t.d. hvað varðar vinnsluaðferðir, kælingu, dreifingartækni og svo framvegis.

Ég hef trú á að grænmetisframleiðslan eigi eftir að vaxa á Suðurlandi á komandi árum og við sjáum líka möguleika í nýsköpun tengdri bæði landbúnaði og sjávarútvegi á svæðinu. Kornræktin er dæmi um þetta og má í því samhengi benda á framleiðslu hjá bændunum á Þorvaldseyri. Matarsmiðja Matís á Suðurlandi hefur því farið vel af stað á fyrsta starfsárinu og við erum að stíga skref til að efla hana enn frekar,“ segir Haraldur.

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Hallgrímsson.

Fréttir

Fjölgun starfa og hátt menntunarstig hjá Matís í Skagafirði

Matís er með starfsstöð í Skagafirði. Þar er svokölluð Líftæknismiðja staðsett og er lífvirkni hinna ýmsu efna úr íslenskum sjó rannsökuð þar.

Það sem er auk þess áhugavert við starfsstöðina er hversu hátt menntunarstig starfsmenn Matís hafa. Af þeim fimm starfsmönnum sem þar starfa eru þrír með meistaragráðu og tveir með doktorsgráðu. Með slíkri þekkingu er hægt að halda úti margþættri og áhugaverðri starfsemi sem skiptir máli fyrir nærumhverfið og ekki síður fyrir landið í heild.

Starfsemi Matís í Líftæknismiðjunni er margþætt. Í fyrsta lagi hefur Matís komið upp sérhæfðri rannsóknastofu á sviði líftækni og lífefna.  Í öðru lagi starfrækir Matís tilraunaverksmiðju í vinnslusal Líftæknismiðjunnar, þar sem fyrirtækið Iceprotein ehf. hefur byggt upp starfsemi sína. Að lokum vinnur starfsfólk Matís í Líftæknismiðjunni með fyrirtækjum í Skagafirði og NV-landi að ýmsum umbóta-og hagræðingarverkefnum.

Með Líftæknismiðjunni hefur skapast rannsóknaraðstaða með tilheyrandi vinnsluaðstöðu þar sem vísindamenn og frumkvöðlar í líftækni geta þróað vörur sínar og vinnsluferla í samvinnu við Matís. Á rannsóknastofu Líftæknismiðjunnar er unnið að mælingu á lífvirkum eiginleikum lífefna úr íslenskri náttúru. Líftæknismiðjan er opin öllum landsmönnum og þar geta einstaklingar og fyrirtæki fengið aðstöðu til skemmri tíma til framleiðslu afurða. Smiðjan verður nokkurs konar klakstöð nýrra sprotafyrirtækja í líftækni og mikilvæg í styttingu ferlis frá hugmynd til markaðar. Með vali á staðsetningu Líftæknismiðjunnar er litið til nærumhverfisins sem matarkistan Skagafjörður er.

Markviss uppbygging á rannsóknaaðstöðu á sér stað í Líftæknismiðju Matís, sem nú þegar er þátttakandi í víðtæku fjölþjóðlegu samstarfi. Líftæknismiðjunni er ætlað að leggja af mörkum sérhæfða rannsóknaraðstöðu, þróunaraðstöðu með vinnsluleyfi og sérfræðiþekkingu í samstarfsverkefnum framtíðarinnar. Í vinnslusal Líftæknismiðjunnar er m.a. aðstaða til að einangra prótein og þurrka. Líftæknismiðjunni er ætlað að vinna í nánu samstarfi við matvælafyrirtækjum á landinu.

Myndband um starfsstöðina má finna hér.

Stöðvarstjóri Matís á Sauðárkróki er Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Vinnslu, virðisauka og eldi.


Matís á Sauðárkróki:

Háeyri 1, 550 Sauðárkrókur

Starfsmenn:

  • Arnljótur B. Bergsson, M.Sc., sviðsstjóri, sími 422 5013
  • Hólmfríður Sveinsdóttir, PhD, sérfræðingur, sími  422 5064
  • Patricia Y. Hamaguchi PhD, sérfræðingur, sími 422 5041
  • Hilma Eiðsdóttir Bakken, M.Sc., rannsóknarmaður, sími 422 5064
  • Annabelle Vrac, M.Sc., rannsóknarmaður, sími 422 5064

Fréttir

Verðmætasköpun er lykilorðið – Mikilvægt að þekkingin verði að vöru og verðmætum

Hjá Matís er lögð áhersla á hagnýtingu og markaðshugsun í öllum verkefnum og starfsemi fyrirtækisins því skjót útbreiðsla og hagnýting þekkingar er ekki síður mikilvæg en grunnrannsóknirnar sjálfar þegar koma á vörum á markað.

Mikil tækifæri liggja í því fyrir Matís að koma afrakstri rannsókna og þróunarverkefna í framkvæmd og á markað en slíkt leiðir til aukinnar verðmætasköpunar fyrir íslenskar atvinnugreinar og til hagsældar fyrir almenning á Íslandi.

Verðmætasköpun er því lykilorð í öllu starfi Matís hvort sem það er í samstarfi við aðila innanlands eða erlendis. Hér má sjá örfá dæmi um verkefni sem Matís hefur átt hlutverki að gegna og skilað hafa nú þegar verðmætum til handa þeirra aðila sem að verefnunum komu, hvort sem horft er til Matís sem fyrirtækis, starfsmanna þess, viðskiptavina eða eigenda, þ.e. íslenska ríkisins.

Fréttir

Ársskýrsla Matís 2012 er komin út

Ársskýrsla Matís fyrir starfsárið 2012 er komin út. Í skýrslunni er lögð mikil áhersla á verðmætasköpun og hvernig matvæla- og líftækniiðnaðurinn getur verið kjölfesta varanlegrar verðmætasköpunar fyrir íslenska þjóð.

Mikilvægt að þekkingin verði að vöru og verðmætum
Hjá Matís er lögð áhersla á hagnýtingu og markaðshugsun í öllum verkefnum og starfsemi fyrirtækisins því skjót útbreiðsla og hagnýting þekkingar er ekki síður mikilvæg en grunnrannsóknirnar sjálfar þegar koma á vörum á markað. Mikil tækifæri liggja í því fyrir Matís að koma afrakstri rannsókna og þróunarverkefna í framkvæmd og á markað en slíkt leiðir til aukinnar verðmætasköpunar fyrir íslenskar atvinnugreinar og til hagsældar fyrir almenning á Íslandi.

Verðmætasköpun er því lykilorð í öllu starfi Matís hvort sem það er í samstarfi við aðila innanlands eða erlendis. Í ársskýrslunni má sjá örfá dæmi um verkefni þar sem Matís hefur átt hlutverki að gegna og skilað hafa nú þegar verðmætum til þeirra aðila sem að verkefnunum komu, hvort sem horft er til Matís sem fyrirtækis, starfsmanna þess, viðskiptavina eða eigenda, þ.e. íslenska ríkinu.

Skýrsluna má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Miklir nýsköpunarmöguleikar í matvælavinnslu

„Möguleikar til nýsköpunar í matvælavinnslu á Íslandi eru að mínu mati mjög miklir“, segir Haraldur Hallgrímsson, sviðsstjóri hjá Matís.

„Þetta er ein af stóru atvinnugreinunum á Íslandi og við erum mjög góð í því að framleiða fyrsta flokks matvæli. Þegar við horfum á heimsmyndina til framtíðar þá er ljóst að aukinn fólksfjöldi kallar á meiri og betri matvæli og með aukinni velmegun í þróunarríkjunum hækkar heimsverð matvæla. Við Íslendingar höfum alla burði til að nýta okkur tækifærin sem því fylgja og Matís hefur margt fram að færa til þeirrar verðmætasköpunar,“ segir Haraldur Hallgrímsson sem tók á árinu 2012 við stöðu sviðsstjóra Nýsköpunar og neytenda.

Væntingar neytenda þarf að uppfylla
Styrkur Matís í þjónustu við matvælaiðnaðinn segir Haraldur grundvallast af mjög mörgu. Framleiðslu- og tækniþekkingu, ráðgjöf um meðferð vöru og hráefna, flutningstækni, ráðgjöf um vöruþróun, umbúðum, markaðssetningu, aðstoð við fjármögnun nýsköpunarverkefna og mörgu öðru.

„Á sviðinu  vinnum við að því að styðja markaðsdrifna virðiskeðju íslensks matvælaiðnaðar með því að hugsa alltaf fyrst um markaðinn, skilgreina og rannsaka væntingar og vilja neytenda. Síðan förum við til framleiðendanna og hjálpum þeim að uppfylla þessar væntingar. Það er grunnurinn að vel heppnaðri vöru sem nýtur hylli á markaði,“ segir Haraldur en hans svið er það  sviða Matís sem vinnur hvað mest með frumkvöðlum í matvælaframleiðslu. Haraldur undirstrikar þó að viðskiptavinir sviðsins spanni alla flóruna, frá þeim smæstu til þeirra stærstu.

„Öll verkefni og fyrirtæki hafa verið lítil í byrjun en síðan vaxið. Ég er þess fullviss að út um allt land eru góðar nýsköpunarhugmyndir í matvælaframleiðslu sem hægt er að hjálpa út á réttar brautir, þróa fyrir rétta markaði og ná góðum árangri. Þá á ég ekki aðeins við framleiðslu fyrir innlendan markað heldur einnig fyrir erlendan markað. Það er langt í að við verðum magnframleiðendur sem keppa á verðgrundvelli í öðru en fiski en við viljum ekki keppa á grundvelli lágra launa heldur á grundvelli gæða, hátækni og með öflugri markaðssetningu. Þar af leiðandi eigum við að horfa til þess að þjóna sérmörkuðum sem borga hærra verð. Þar eru tækifæri,“ segir Haraldur.

Farsælast að vinna með heimamönnum
Undir sviðið heyra matarsmiðjur á Höfn og Flúðum en matarsmiðjan á Höfn hefur fest sig rækilega í sessi á undanförnum árum. Í gegnum matarsmiðjurnar hafa mörg nýsköpunarverkefni orðið að veruleika sem tengjast smáframleiðslu í landbúnaði en áhersla verður lögð á að efla enn frekar vinnu með frumkvöðlum í sjávarútvegi á næstu misserum. Sumarið 2012 opnaði Matís  starfsstöðvar í Grundarfirði og á Patreksfirði sem Haraldur segir undirstrika þá stefnu fyrirtækisins að taka höndum saman við heimaaðila um verkefni þar sem byggt er á svæðisbundnum auðlindum og tækifærum.

„Reynsla okkar er að það tekst best til þegar við tökum höndum saman við heimaaðila um verkefni. Þau eiga þá meiri samhljóm í nærsamfélaginu og árangurinn verður meiri og sýnilegri fólkinu á svæðunum. Okkar aðkoma frá Matís er að styðja frumkvöðla og fyrirtæki á svæðunum til að framkvæma þeirra hugmyndir,“ segir Haraldur en í Grundarfirði er starfsstöðin í húsnæði með framhaldskóla Snæfellinga. Markmiðið með starfsstöðinni er að styðja við verkefni sem byggja á nýtingu sjávarfangs úr Breiðafirði, til að mynda lífefnavinnslu úr stórþörungum og nýtingu á vannýttu hráefni á borð við fiskslóg.

Með staðsetningu starfsstöðvar Matís á Patreksfirði segir Haraldur ætlunina að styðja við uppbyggingu í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum. „Þessar nýju starfsstöðvar við Breiðafjörðinn starfa þétt saman. Líkt og heimamenn horfum við til möguleika svæðisins í heild, allt frá Snæfellsnesi til suðurhluta Vestfjarða,“ segir Haraldur.

IS