Fréttir

Vöxtur í víðum skilningi

Þegar nýtt ár gengur í garð er ekki úr vegi að líta til ársins sem nú er að ljúka. Sveinn Margeirsson fer hér yfir árið 2012 í starfssemi Matís en vöxtur einkenndi öðru fremur starfsemi fyrirtækisins á árinu.

Vöxturinn birtist á mörgum sviðum, bæði sem stærsta ár í sögu fyrirtækisins hvað veltu varðar en ekki síst í víðtækari verkefnaþátttöku Matís bæði erlendis og ekki síður innanlands.Starfsmönnum hefur einnig farið fjölgandi og þekkingargrunnur vaxið. Allt gerist þetta á þrengingartímum í efnahagslífinu og segir mikið um styrk fyrirtækisins og starfsmanna þess.

Matís er á margan hátt í takti við sókn matvælavinnslu á Íslandi og mikilvægi virðiskeðjunnar hefur æ betur komið í ljós. Verðmætasköpunin er á þann hátt í mörgum hlekkjum keðjunnar; hún verður í þróun, framleiðslu og ekki síður markaðssetningu. Styrkleiki Matís liggur einmitt í aðkomu þekkingar að hinum ýmsu hlutum virðiskeðjunnar, við styðjum matvælaframleiðsluna í sinni uppbyggingu um leið og við rækjum hlutverk okkar hvað varðar matvælaöryggi og eftirlit. Neytendur þurfa að hafa tiltrú og traust á framleiðsluvörunum.

Erlendar tekjur Matís nema nú hátt í 25% af ársveltu og hafa þær aldrei verið hærra hlutfall. Það endurspeglar árangur okkar í erlendum verkefnum, stöðu og styrk Matís í alþjóðlegu rannsóknarumhverfi. Við höfum einnig aukið þátttöku í innlendum verkefnum og þétt net Matís á landsvísu. Á árinu 2012 opnaði fyrirtækið tvær nýjar starfsstöðvar, á sunnanverðum Vestfjörðum og á Snæfellsnesi. Þær hafa að leiðarljósi verðmætasköpun á þessum svæðum með sérstaka áherslu á Breiðafjörðinn þar sem er að finna miklar auðlindir í matvæla- og líftækni. Í Breiðafirðinum er mikið magn þörunga sem líftæknirannsóknir okkar hafa sýnt að vinna má úr dýrmætar afurðir en samhliða nýsköpuninni getur Matís hjálpað til við að samtvinna þessar nýju áherslur við þá matvælaframleiðslu sem fyrir er á svæðinu. Lykilatriðið er að vinna eftir því leiðarljósi sem tryggir sem mesta verðmætasköpun.

Matvælaframleiðsla á Íslandi fer fram að stórum hluta utan höfuðborgarsvæðisins og við höfum góða reynslu af rekstri starfsstöðva út um landið til að fylgja eftir áherslum og tækifærum á hverju svæði fyrir sig, í samvinnu við heimamenn. Þrátt fyrir að uppbyggingu starfsstöðvanna fylgi umtalsverður kostnaður þá teljum við engu að síður mikil verðmæti fólgin í þessu neti. Við höfum lagt mikla áherslu á auknar tengingar við menntastofnanir og segja má að Matís hafi orðið vel ágengt í þeirri brúarsmíð sem þarf að verða milli menntastofnana, rannsóknafyrirtækja og atvinnulífsins. Reynslan sýnir hversu miklu sú brú getur skilað til aukinnar verðmætasköpunar.

Neytendur þurfa að geta treyst á öryggi matvælaframleiðslu. Þeir þurfa líka að geta treyst því að þeim takmörkuðu fjármunum sem veitt er til rannsókna- og þróunarstarfsemi sé varið til viðgangs og vaxtar fyrir íslenskt samfélag. Þar tel ég að starfsmönnum Matís hafi tekist vel til – líkt og vöxtur fyrirtækisins á árinu 2012 staðfestir.

Fréttir

Jólamarkaður með matvæli á Höfn

Mjög vinsæll jólamarkaður með matvæli og handverk hefur verið haldin á Höfn í Hornafirði í desembermánuði undanfarin misseri.

Þeir aðilar sem að markaðnum standa eru Matís, Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Ríki Vatnajökuls. Á markaðnum er á boðstólnum mikið af matvöru sem framleidd er í héraðinu svo sem þurrkað ærkjöt úr öræfum, heitreyktur makríll, reyktar svínaafurðir frá Miðskersbúinu, grænmetisafurðir frá Hólabrekku, heitreyktur áll, sjávarfang frá Skinney Þinganes, ís úr Árbæ, birkisalt og fleira. Markaðurinn verður opinn laugardagana 15. og 22. des næstkomandi  frá kl. 13:00 -16:00.

Jólamarkaðurinn er útimarkaður og er haldin í sölubásum sem smíðaðir voru í sumar. Mikið var vandað við smíði básana þar sem var lagt upp með að þeir myndu líta út eins og hákarlahjallar sem gerir það að verkum að markaðurinn hefur mjög íslenskt og gamaldags yfirbragð. Boðið er upp á ýmsa viðburði á markaðnum svo sem kórsöng og fl. til þess að skapa ekta Hornfirska jólastemmingu. Góð ásókn hefur verið á markaðinn og bera matvælaframleiðendur sem selja matvæli á markaðnum sig vel, enda hefur fólk verið að koma frá austurlandi á markaðinn til þess að ná sér í gómsæt matvæli sem framleidd eru í héraðinu í hátíðarmatinn.

Jólamarkaður Höfn 2012

Nánari upplýsingar veitir Vigfús Þórarinn Ásbjörnsson hjá Matís.

Fréttir

Sjávarþörungar eru vannýtt auðlind á Íslandi

„Íslenskir sjávarþörungarnir eru vannýtt auðlind að minnsta kosti hér á Íslandi, en það er ýmislegt í gangi sem tengist þörungum og þeir koma víða við í okkar rannsóknum,” segir Jón Trausti Kárason sérfræðingur en hann er einn þeirra sem tengjast þörungarannsóknum hjá Matís.

Jón Trausti segir að um átta vísindamenn hjá Matís starfi öðrum fremur að þörungarannsóknum þótt fleiri tengist þeim verkefnum með einum eða öðrum hætti. Meðal nýlegra afurða sem byggja á þörungarannsóknum vísindamanna Matís eru húðvörur sem sprotafyrirtækið Marinox hefur sett á markað en þær innihalda lífvirk andoxunarefni sem eru unnin úr þangi og þykja sérstaklega góð fyrir húðina.

Af öðrum afurðum sem eru væntanlegar á markað innan tíðar nefnir Jón Trausti meðal annars þörungaskyr og byggpasta sem er bætt með þörungum. „Reyndar var það hópur nemenda sem var hjá okkur í fyrrasumar sem byrjaði þróun þörungaskyrsins og afurðin keppti fyrir Íslands hönd í Ecotrophelia, sem er nemendakeppni með vistvæna nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þetta gekk það vel að þróunarvinnunni var haldið áfram og núna er þörungaskyrið að koma. Hér er á ferðinni matvara sem er skyr og þaramjöl í grunninn en bragðbætt með bláberjum og hunangi,” segir Jón Trausti.

Jón Trausti, ásamt fleirum hjá Matís, er fulltrúi ungu kynslóðarinnar. Hann kom til Matís áður en hann lauk námi, þá í verkefnum tengdum námi sínu. Í kjölfarið sköpuðust svo tækifæri, þar sem bilið á milli iðnaðarins og vísindasamfélagsins var brúað með og er Jón Trausti, ásamt öðrum starfsmönnum Matís, mikilvægur hlekkur í þeirri virðiskeðju. Fyrir ungu kynslóðina er það spennandi verkefni að vera í miðju hringiðu matvælaframleiðslu á Íslandi en þó með stóran snertiflöt við menntakerfið. Hugsjón þessarar ungu kynslóðar er háleit og spennandi. Hún er m.a. að efla stöðu Íslands sem matvælaframleiðsluþjóðar en breytingar í umhverfinu hafa skapað aðstæður sem gera það að verkum að við Íslendingar sjáum tækifæri til stórsóknar í framleiðslu úr hráefnum sem e.t.v. hefur ekki verið litið til í áratugi.

Nánari upplýsingar veitir Jón Trausti Kárason hjá Matís.

Fréttir

Hráefnisnýting langbest á Íslandi

Þetta kom fram í erindi Hauks Más Gestssonar hagfræðings, sem starfar innan Sjávarklasans, á Sjávarútvegsráðstefnunni í Reykjavík á dögunum og einnig er stutt síðan Sigurjón Arason yfirverkfræðingur Matís gerði þessu góð skil í fréttum Stöðvar 2.

Nýting þorsks í ríkjunum við Norður-Atlantshaf er áberandi best á íslandi eða 76% á meðan hún er 50% í Færeyjum, 45% í Kanada og 43% á Grænlandi. „Ég tel helstu ástæðu betri nýtingar hér vera meiri nýtingu á aukaafurðum og þar má eflaust þakka bæði regluverkinu og góðu samstarfi fyrirtækja við Matís en góð flakanýting spilar ugglaust inn í líka. Lifrin er gott dæmi um afurð sem er vel nýtt hér á landi. Megnið af henni fer í lýsi auk þess sem hún er soðin niður. Hrogn eru einnig nýtt.

Nýtingin að aukast
Sama er að segja um hausa og beingarða. Nær allir þorskhausar sem koma hér á land fara til þurrkunar og sömuleiðis vaxandi hluti af þorskhausum sem til fellur á frystitogurum. Þessar afurðir eru seldar til Nígeríu. Af meðfylgjandi línuriti má ætla að nýtingin hafi versnað hér á landi frá 2009. Haukur segir að svo þurfi ekki að vera. „Það verður að fara varlega í að bera saman nýtinguna milli einstakra ára. Vara sem er til dæmis framleidd árið 2009 kemur stundum ekki fram í  útflutningstölum fyrir árið á eftir. Það er því meira vit í að skoða línuritið yfir lengri tímabil og samkvæmt því er nýtingin að aukast. Aftur á móti má lesa af skýringarmyndinni að nýting í hinum löndunum hefur heldur verið á niðurleið. Ég hef enga skýringu á því.”

Norðmenn öflugir

Að sögn Hauks hafði hann ekki nægilega góð gögn til að hafa Noreg með í þessum samanburði. „Norðmenn hafa skoðað þetta sjálfir og samkvæmt því er nýtingin hjá þeim um 41% en þar sem þar var notuð önnur aðferð en ég notaði ber að fara varlega í að bera þessar tölur saman. Norðmenn eru öflugri en flestar aðrar þjóðir í að kanna tækifærin í aukaafurðum, til dæmis með útflutning á hrognum og sviljum til Asíu. Þar voru sérstök samtök stofnuð, RUBIN, sem fengu mikið fjármagn til að rannsaka aukaafurðir en þessa stofnun er reyndar nýbúið að leggja niður í dag.”

Innyfli og hausar nýtast illa
„Ég tel að íslendingar eigi að geta stigið skrefinu lengra til betri nýtingar á til dæmis slógi, hausum og beingörðum og hámarka virði þess. Hausinn er milli 20 og 30% af hverjum fiski og samkvæmt könnun Matís er ekki nema lítill hluti hausanna nýttur ef þorskurinn er frátalinn,” segir Haukur Már Gestsson að lokum.

Ofangreind frétt birtis fyrst í Viðskiptablaðinu 29. nóvember 2012. Pistlahöfundur er Vilmundur Hansens, vilmundur(at)fiskifrettir.is.


Hér má finna fréttir Stöðvar 2 frá 19. október sl. Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís.

Fréttir

Vöruþróunarsetur sjávarafurða miðar að aukinni verðmætasköpun

Staðsetning starfstöðva Matís vítt og breitt um landið hefur auðveldað frumkvöðlum að leita eftir samstarfi og stuðningi.

Páll Gunnar Pálsson matvælafræðingur hjá Matís segir að meðal algengustu viðfangsefna fyrirtækisins sé þátttaka í vöruþróun og skipulagi verkferla hjá matvælafyrirtækjum. „Helsta leiðarljós Matís er að auka gæði, verðmæti, hollustu og öryggi framleiðslunnar og efla þannig samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs á alþjóðlegum vettvangi og stuðla að betri lýðheilsu.“

Tíu starfsstöðvar

„Meginaðsetur Matís er í Reykjavík en þar að auki eru starfræktar níu starfsstöðvar um allt land. Starfsemin er margvísleg en með sérstakri áherslu á samvinnu við fyrirtæki og einstaklinga. Starfsmannafjöldi Matís er um eitthundrað og innan þess hóps eru margir af helstu sérfræðingum landsins í matvæla- og líftækni auk fjölda meistara- og doktorsnema í rannsóknatengdu nám.“

Páll Gunnar segir að mörg verkefnin séu smá og afmörkuð og eigi því  ekki möguleika á styrkjum hjá samkeppnissjóðunum auk þess sem umsóknafrestur og afgreiðslutími sjóða getur verið það langur að verkefnin lognast út af meðan beðið er..

Nauðsynlegt að bregðast hratt við

„Öflun sjávarfangs er háð árstíðum og ef ekki tekst að koma verkefni í gang á tilteknum tíma getur biðtími orðið langur. Það er því mikilvægt að hægt sé að bregðast skjótt við og hefja vinnu strax við mikilvægar verkefnahugmyndir sem vakna.

Undanfarin ár hefur Mátís lagt ríka áherslu á samstarf við einstaklinga og fyrirtæki sem eru að leita leiða til að auka verðmæti eða eru að undirbúa vinnslu nýrra afurða.

Vegna þessa settum við á laggirnar verkefnið Vöruþróunarsetur sjávarafurða með stuðningi Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Innan þess er unnið að fjölbreyttum vöruþróunarverkefnum á sviði sjávarútvegs út um allt land.  Verkefninu er ætlað að mæta þörf íslensks sjávarútvegs fyrir vöruþróun og frekari fullvinnslu. Í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af starfseminni hefur mikilvægi þess að geta brugðist við óskum fyrirtækja og einstaklinga um aðstoð við vöruþróun aukist,“ segir Páll Gunnar.

Páll Gunnar Pálsson
Páll Gunnar Pálsson

Tökum vel á móti öllum

Páll Gunnar segir að verkefni sem rati inn á borð hjá Matís séu oftar en ekki komin frá fyrirtækjum og einstaklingum á landsbyggðinni og hefur efling starfsemi Matís á landsbyggðinni haft mikil áhrif þar á.

„Við tökum sem sagt vel á móti öllum sem hafa góða hugmynd að vöruþróun eða þurfa aðstoð við að koma hugmynd sinni í rétta búning og við getum hafist handa mun fyrr en ef við þyrftum að reyna fjármögnun í gegnum hið hefðbundna sjóðakerfi.

Á þessum tveimur árum sem verkefnið hefur verið starfrækt hefur Matís komið að ríflega 50 verkefnum og hafa sum þeirra  þegar skilað vörum og nýrri starfsemi. Má þar nefna afurðir byggðar á þara eins og þaraskyr og  smyrsl. Sem stendur er unnið að þróun fæðubótarefna úr þara, byggþarapasta, reykingu á ufsa, olíu unninni úr humar, heilsusnakki úr sjávarfangi, bættri nýtingu grásleppu, leiðbeiningum fyrir fólk sem búa vill til sinn eigin saltfisk, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Páll Gunnar.

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson.

Fréttir

Myndbönd um starfsstöðvar Matís

Myndbönd frá nokkrum starfsstöðvum Matís hafa nú verið framleidd. Myndböndin eru um 4 mínútur hvert að lengd og þar er margt merkilegt að sjá og heyra.

Ólafur Rögnvaldsson hjá Axfilms ehf. átti veg og vanda að framleiðslu þessara myndbanda.

Myndböndin, bæði á íslensku og ensku, má finna hér.

Fréttir

Hvernig býr maður til góðan saltfisk?

Matís hefur nú gefið út rit um hvernig búa á til góðan saltfisk. Páll Gunnar Pálsson hjá Matís hefur átt veg og vanda af útgáfunni.

Ritið er fyrst og fremst ætlað fyrir einstaklinga sem áhuga hafa á því að búa til hollan og góðan saltfisk úr afbragðs hráefni. Síðar meir mun Matís gefa út bækling sem varpar ljósi á vinnslu saltfisks í stærra samhengi, til framleiðslu og sölu.

Ritið má sjá hér.

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson hjá Matís.

Fréttir

Starfsmaður Matís ver doktorsritgerð sína

Mánudaginn 26. nóvember n.k. fer fram doktorsvörn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Þá ver J. Sophie R.E. Jensen lyfjafræðingur doktorsritgerð sína: „Lífvirk náttúruefni úr íslenskum soppmosum – frumdýra- og krabbameinsfrumuhemjandi virkni“ (enska: „Bioactive compounds from Icelandic liverworts – anti-protozoal and cytotoxic activity“).

Mánudaginn 26. nóvember n.k. fer fram doktorsvörn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Þá ver J. Sophie R.E. Jensen lyfjafræðingur doktorsritgerð sína: Lífvirk náttúruefni úr íslenskum soppmosum – frumdýra- og krabbameinsfrumuhemjandi virkni“ (enska: „Bioactive compounds from Icelandic liverworts – anti-protozoal and cytotoxic activity“).

Andmælendur eru Dr. Lars Bohlin, prófessor við Uppsalaháskóla í Svíþjóð og Dr. Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri og deildarstjóri líftækni- og lífefnadeildar Matís.

Leiðbeinandi í verkefninu var Dr. Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor og meðleiðbeinandi Dr. Sesselja Ómarsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild HÍ.

Dr. Már Másson, forseti Lyfjafræðideildar HÍ, stjórnar athöfninni sem fer fram í hátíðasal, Aðalbyggingu og hefst klukkan 14.

Soppmosar er hópur frumstæðra mosa, sem framleiða óvenjuleg lífvirk efnasambönd. Þessar plöntur hafa verið notaðar í austurlenskum alþýðulækningum um aldir, aðallega sem þvagræsandi, við krabbameini, bakteríu- og sveppasýkingum.

Markmið rannsóknarinnar var að einangra og ákvarða sameindabygginar efnasambanda úr íslensku soppmosunum Marchantia polymorpha og Chiloscyphus pallescens, með áherslu á lífvirkni gegn krabbameinsfrumum og frumdýrum. Lífvirknileidd einangrun krabbameinsfrumuhemjandi efna, leiddi til bis-bíbensýl efnasambandsins marchantin A. Það hindraði frumufjölgun hjá nokkrum tegundum brjóstafruma, auk þess að sýna samverkandi, frumudrepandi áhrif á krabbameinsfrumur þegar það var gefið með Aurora-A kínasa hindranum MLN8237. Einnig var sýnt fram á hindrandi áhrif marchantin A á nokkur sjúkdómsframkallandi frumdýr, þ.m.t. Plasmodium falciparum sem veldur malaríu. Auk þess sýndi marchantin A hindrun á ensímið PfFAbZ í lifrarformi frumdýrsins sem gæti bent til sjúkdómsfyrirbyggjandi notkunarmöguleika.

Samantekið þá hafa niðurstöður verkefnisins aukið þekkingu á efnafræði þessara tveggja soppmosategunda og sýnt fram á áður óþekkta lífvirkni á sjúkdómsframkallandi frumur í rækt, sem gætu haft lyfjafræðilegt gildi.

Sophie vann um nokkra mánaða skeið að verkefni sínu hjá samstarfsaðilum í Kaupmannahöfn. Virknipróf á frumdýrum fóru fram hjá samstarfsaðilum, Dr. Morten A. Nielsen við Kaupmannahafnarháskóla og Dr. Deniz Tasdemir við Lyfjafræðideild Lundúnarháskóla. Auk þess var verkefnið að hluta unnið á Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum við Læknadeild HÍ hjá Dr. Helgu M. Ögmundsdóttur sem jafnframt sat í doktorsnefnd Sophie. Auk hennar og leiðbeinenda voru í nefndinni Dr. Jerzy W. Jaroszewski prófessor við Kaupmannahafnarháskóla (hann lést 18. október 2011) og Dr. Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild HÍ.

English abstract
Liverworts are a group of primitive mosses that produce unique compounds of potential interest for pharmacological research. They have been applied in oriental folk medicine as diuretics, anti-tumour, anti-bacterial and anti-fungal agents. The general aim of the project was to isolate and characterise bioactive compounds from the Icelandic liverworts Marchantia polymorpha and Chiloscyphus pallescens, with focus on cytotoxic and anti-protozoal bioactivity. Bio-guided isolation led to the bis-bibenzyl compound marchantin A, which proved cytotoxic to several types of breast cancer cells. Further studies on cancer cells showed that marchantin A and the Aurora-A kinase inhibitor MLN8237 act synergistically. Furthermore, marchantin A was shown to be parasitocidal against several types of pathogenic protozoa, including the malaria parasite Plasmodium falciparum, as well as showing malaria prophylactic potential by inhibiting the PfFAbZ enzyme of the liver stage of the infection.

The results have contributed significantly to the knowledge of distribution of liverworts compounds in the two Icelandic liverwort species and furthermore demonstrated previously unknown biological effects of therapeutic interest.

Um Sophie
J. Sophie R.E. Jensen (f. 1979) lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Lyfjafræðideild HÍ 2006 og tók 1 misseri í skiptinámi við Kaupmannahafnarháskóla 2004. Á árunum 2006-7 tók Sophie 3 mánuði í starfsnám á rannsóknastofu hjá Novartis í Boston í Bandaríkjunum, ferðaðist í 3 mánuði um Asíu og Eyjaálfu og vann í hlutastarfi hjá Lyfju og hjá Íshestum. Sophie hóf doktorsnám 2008.

Foreldrar Sophie eru Elsa Jensen og Peter Ydregård. Eiginmaður Sophie er Sigurður Arnar Friðriksson og dóttir þeirra er Sól Lilja.

Fréttir

Vestfirskar aðventukrásir í Víkinni 22. nóvember

Félagið Matur-saga-menning verður með kynningu á þjóðlegum vestfirskum matarhefðum í Víkinni, sjóminjasafninu í Reykjavík, fimmtudaginn 22. nóvember frá kl. 20.00-22.00.

Vestfirðingarnir Halldór Hermannsson skipstjóri á Ísafirði flytur erindi um vestfirska skötu. Halldór hefur verið ötull í að kynna skötuhefð í gegnum tíðina. Kolbrún Ösp Guðrúnardóttir úr Stykkishólmi fjallar um vestfirskar hveitikökur, sem hún fékk í sveitinni hjá ömmu sinni á Ingjaldssandi og hafa þær lengi verið ómissandi hluti af jólunum. Kolbrún hefur selt í Jólaþorpinu í Hafnarfirði við góðar undirtektir. Þá mun Guðrún Pálsdóttir Flateyri flytja erindi um vestfirskan harðfisk. Hún hefur áralanga reynslu af harðfiskverkun og rekur ásamt fjölskyldu sinni EG Harðfiskverkun á Flateyri.

Enginn aðgangseyrir og allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Heitt verður á könnunni.

Félagið Matur-saga-menning
facebook: matur saga menning

Fréttir

Mikilvægi aðgreiningar á bolfiski úr Norður-Atlandshafinu frá ódýrari hvítfisktegundum

Málstofa um markaðsaðgreiningu bolfisks frá Norður-Atlantshafi. Niðurstöður rannsókna á markaðsaðgreiningu bolfisks frá Norður-Atlantshafi verða kynntar á málstofu hjá Matís þann 4. desember næstkomandi.

Niðurstöðurnar koma úr verkefninu WhiteFishMaLL sem styrkt er af Norrænu Nýsköpunarmiðstöðinni (Nordic Innovation Centre) og aðilar frá Noregi, Íslandi, Færeyjum og Kanada vinna að. Markmið verkefnisins er að tryggja frekari aðgreiningu á bolfiski úr Norður-Atlandshafinu frá ódýrari hvítfisktegundum, sem nú streyma inn á okkar helstu markaðssvæði, sér í lagi inn á Bretlandsmarkað.

Vinna við verkefnið hófst í byrjun árs og hafa farið fram markaðsrannsóknir í Bretlandi á meðal fiskneytenda, auk þess sem viðtöl og fundir hafa verið haldnir með aðilum sem starfa í þessum geira við vinnslu, sölu og markaðsstarf. Viðhorf rýnihópa sem samanstanda af dæmigerðum fiskneytendum í Bretlandi hafa hefur verið könnuð gagnvart bolfiskafurðum frá N-Atlantshafi og hvernig bæta megi upplifun þeirra við innkaup, matreiðslu og neyslu.

Í framhaldinu var gerð skoðanakönnun á meðal 1500 neytenda í Bretlandi þar sem þeir voru spurðir útí fjölmarga þætti sem viðkoma fiski og hvernig bæta má aðgengi, upplifun og auka fræðslu til að sinna þörfum neytenda enn betur. Eftirfarandi áhersluþættir hafa þróast í framhaldinu og mynda þeir grunninn að markaðsaðgreiningunni:

  • Gagnsæi upplýsinga og rekjanleiki í tengslum við virðiskeðju fisks.
  • Persónulegra viðmót í markaðsstarfi verslana í tengslum við afurðir.
  • Upplýsingar um sjálfbærni afurða byggð á staðreyndum og áreiðanlegum gögnum.
  • Áhersla á þægindi og heilnæli afurða.
  • Aðferðafræðileg lausn á því hvernig söluaðilar geta komið til móts þarfir neytenda.

Á málstofunni er ætlunin að meta áhersluþætti sem mótaðir hafa verið í verkefninu við að draga fram sérstöðu afurða og er ætlunin að þróa þetta áfram næstu tvö árin. Því er mikilvæg að fulltrúar úr atvinnulífinu taki virkan þátt í málstofunni og rýni niðurstöðurnar með þeim sem að verkefninu standa.

Málstofan mun fara fram á ensku og er öllum opin, en nauðsynlegt er að skrá sig á heimasíðu verkefnisins (www.whitefishmall.com), athugið takmarkað sætaframboð. Málstofan fer fram á Matís, Vínlandsleið þriðjudaginn 4. desember.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís, jonast.r.vidarsson@matis.is, 858-5107.

IS