Fréttir

Jón Gerald Sullenberg í Kosti er velkominn í viðskipti til Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Vegna greinar sem birtist í Morgunblaðinu, þar sem eigandi Kosts fjallar um matvælaeftirlit á Íslandi, vill Matís koma eftirfarandi á framfæri:

Matvælaeftirlit á Íslandi er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga (HES). Yfirumsjón og samræming á þessu eftirliti er í höndum Matvælastofnunar (www.mast.is).

Matís (www.matis.is) er öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvælaiðnaði. Matís hefur ekkert hlutverk í matvælaeftirliti annað en það að fyrirtækið getur, með áháðum hætti, rannsakað matvælasýni fyrir eftirlitsaðila, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga. Til að mynda getur Matís kannað hvort í matvælum séu aðskotaefni eða önnur óæskileg efni, hvort í matvælum séu þau efni sem sagt er að þar sé að finna og hvort um einhverja sérstaka virkni (lífvirkni) sé að ræða í vörum eða innihaldsefnum matvæla

En Jón Gerald er ævinlega velkominn í viðskipti til Matís og höfum við nú þegar boðið honum til samstarfs m.a. er varðar mælingar á ávöxtum og grænmeti sem Kostur flytur inn frá Bandaríkjum.

Jón Gerald hefur nú þegar leiðrétt ruglinginn en ekki er úr vegi að varpa enn frekara ljósi á starfsemi Matís og hvernig hún tengist ekki matvælaeftirliti á Íslandi.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís

IS