Fréttir

Áhættugreining til að tryggja matvælaöryggi og neytendavernd

Matís heldur námskeið um áhættugreiningu á sviði matvæla- og næringarfræði dagana 16., 19. og 20.  nóvember en áhættugreining er vel skilgreind aðferð til að skilja og meta áhættu vegna neyslu matvæla og hvernig hægt er að minnka hana. Mikill áhugi er á þessum málaflokki og nú er svo komið að fullt er orðið á námskeiðið.

Á námskeiðinu munu erlendir sérfræðingar frá Federal Institute for Risk Assessment (BfR) í Þýskalandi flytja áhugaverða fyrirlestra um meginþætti áhættugreiningar (en. Risk analysis) í tengslum við neyslu matvæla þ.e.a.s. áhættumat, áhættustjórnun og áhættukynning. Sömuleiðis verður farið yfir nýleg hagnýt dæmi um matvælavá sem byggja á raunverulegum tilfellum í heimalandi sérfræðinganna.

Þessir fyrirlestar eru hluti af kennslu í námskeiðinu Matvælaöryggi sem er kennt í fyrsta sinn á þessu haustmisseri í meistaranámi í matvælavísindum, en þetta framhaldsnám er ávöxtur samvinnu Háskóla Íslands, þriggja annarra ríkisháskóla og Matís.  Sérfræðingarnir frá BfR sem við höfum fengið til liðs við okkur eru þau; Dr. Anja Buschulte dýralæknir og sérfræðingur á sviði matvælaöryggis og Prof. Matthias Greiner sérfræðingur á sviði áhættumats vegna neyslu matvæla.

Um er að ræða einstakt námskeið um áhættugreiningu á sviði matvæla- og næringarfræði sem hentar þeim sem vilja efla og dýpka þekkingu sína á því hvernig má nýta áhættugreiningu á þessu sviði.

Námskeiðið verður haldið á ensku og nánari upplýsingar um dagskrá er að finna hér:

Föstudagur 16.11.2012
8.30-9.10Dr. Anja BuschulteInvestigation of Food-borne Outbreaks in Germany
9.20-10.00Dr. Anja BuschulteInvestigation of Food-borne Outbreaks in Germany
10.10-10.50Dr. Anja BuschulteLessons learned from Food-borne Outbreaks
11.00-11.40Dr. Anja BuschulteRisk communication and Management
Mánudagur 19.11.2012
8.30-9.10Dr. Anja BuschulteGeneral Introduction to Risk Assessment
9.20-10.00Prof. Matthias GreinerRisk Assessment -Risk modelling; basics of probabilistic risk assessment
10.10-10.50Prof. Matthias GreinerRisk Assessment -Risk modelling; fitting statistical distributions to empirical data or expert assumptions
11.00-11.40Prof. Matthias GreinerRisk Assessment -Risk modelling; Monte Carlo simulation
11.50-12.30Prof. Matthias GreinerRisk Assessment -Risk modelling; Practical application
Þriðjudagur 20.11.2012
8.30-9.10Prof. Matthias GreinerDose response analysis; basic concepts
9.20-10.00Prof. Matthias GreinerDose response analysis; comparative applications in microbiology and toxicology
10.10-10.50Prof. Matthias GreinerDose response analysis; Practical application
11.00-11.40Prof. Matthias GreinerPredictive microbiology; basic concepts
11.50-12.30Prof. Matthias GreinerPredictive microbiology; Practical application

 Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Viltu taka þátt í að auka veg staðbundinna matvæla innan ferðaþjónustunnar?

Matar-málþing í Breiðabliki á Snæfellsnesi föstudaginn 16. nóv. kl. 14:30-18:00

Ferðaþjónusta er ein af þeim atvinnugreinum sem taldar eru til vaxtarsprota Íslands. Enþrátt fyrir mikinn vöxt í greininni undanfarin áratug hefur það ekki skilað sér sem skildi íauknum hagvexti á landsbyggðinni. Ein leið til að styrkja ferðaþjónustuna  og aukahagræn áhrif hennar í sveitum landsins er að efla tengsl og auka samstarf  ferðaþjónustuog staðbundinnar matvælaframleiðslu.

Markmið málþingsins er að:

  • Vekja athygli á möguleikum sem felast í heimavinnslu matvæla og sölu beint frá býli.
  • Varpa ljósi á þróunarferlið – frá hugmynd til heimavinnslu.
  • Hvetja til samtals og samstarfs milli matvælaframleiðenda í héraði og ferðaþjónustuaðila.

Dagskrá:
Fundarstjóri: Halla Steinólfsdóttir, Ytri-Fagradal

14:30   Málþing sett. Margrét Björk Björnsdóttir, SSV
14:40   Uppbygging á matartengdri ferðaþjónustu – reynslusögur frumkvöðla

     Arnheiður Hjörleifsdóttir, Bjarteyjarsandi 
     Þorgrímur E. Guðbjartsson, Erpsstöðum.

15:30   Kaffihlé
15:45   Uppbygging sveitamarkaðsverslunar & matarklasa í Ríki Vatnajökuls. Rósa Björk Halldórsdóttir, Markaðsstofa Vesturlands
16:00   Samstarf matvælaframleiðanda, ferðaþjónustu og stoðkerfis í héraði. Þóra Valsdóttir, Matís
16:15   Matarmerki og svæðisbundin matvæli. Margrét Björk Björnsdóttir, SSV
16:25   Sýn söluaðila á handgerðar og heimaunnar vörur. Eirný Sigurðardóttir, Búrið
16:45   Hvað er beint frá býli? Hlédís Sveinsdóttir, Beint frá býli
16:55   Heimilisiðnaðareldhús – hugmyndafræði, framkvæmd og nýting. Margrét Björk Björnsdóttir, SSV
17:10   Samantekt og umræður. Halla Steinólfsdóttir, Ytri-Fagradal

Allir áhugasamir velkomnir – Aðgangur ókeypis

Nánari upplýsingar veitir Margrét Björk Björnsdóttir, forsvarsmaður „Sveitaverkefnis“  maggy@ssv.is.

Fréttir

Margir merkilegir fyrirlestrar á Sjávarútvegsráðstefnunni

Sjávarútvegsráðstefnunni lauk núna í hádeginu.  Mjög margt áhugavert kom fram og voru einir fjórir starfsmenn Matís með erindi en auk þess var Sveinn Margeirsson forstjóri Matís með fundarstjórn og Anna Kristín Daníelsdóttir situr í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar.

Sarah Helyar hélt fyrirlestur um genarannsóknir og notkun þeirra í fiskeldi og Sigurjón Arason hélt erindi um hvað er tæknilega framkvæmanlegt þegar kemur að nýtingu aukahráefna um borð í fiskiskipum. Hólmfríður Sveinsdóttir hélt fyrirlestur sem vakti verðskulda athygli en erindi hennar fjallaði um tækifærin í vinnslu á aukahráefni. Að lokum á þessum fyrsta degi var erindi frá Matís um hvaða tækifæri það eru sem liggja í fullvinnslu á uppsjávarfiski en Guðmundur Stefánsson fór með þann fyrirlestur í fjarveru Vígfúsar Þ. Ásbjörnssonar, stöðvarstjóra Matís á Höfn í Hornafirði.

Matís var auk þess með bás þar sem þarapasta úr byggi var kynnt, UNA Skincare húðvörur (unaskincare.com) og Gunna á Rifi sem á og rekur Reykhöll Gunnu kynnti líka dásemtar reyktan ufsa sem hún hefur þróað í nánu samstarfi við Matís.

Gunna í Rifi hefur unnið við íslenskt sjávarfang í fjöldamörg ár. Hún er faglærð í meðhöndlun þess og íslenskt sjávarfang hefur verið og er eitt af hennar áhugamálum. Markmið umsækjenda er að styrkja stoðir fyrirtækis hennar, Reykhallar Gunnu, með auknu vöruúrvali og bæta markaðslegt útlit fyrirtækisins. Með því telja umsækjendur að hægt sé að auka umsvif fyrirtækisins sem mun nýtast nær umhverfi þess með auknum störfum á svæðinu og ekki síður styrkja samstarf frumkvöðla eins og Gunnu við fyrirtæki á svæðinu.

Verkefnið er þróun á nýrri vöru á íslenskummarkaði, sætreyktum fisk, byggt á aldagamalli uppskrift indíána norður-Ameríku. Markmiðið er að þróa nýja vöru úr íslensku hráefni með áherslu á uppruna þess frá Snæfellsnesi. Hugmyndafræði verkefnisins er að búa til fullunna vöru með samstarfi á milli fyrirtækis í fullvinnslu og hráefnisframleiðanda. Með því er verið að auka virði hráefnis á svæðinu og um leið að búa til matarminjagrip fyrir ferðamenn á svæðinu og nýja vöru fyrir íslenskan neytendamarkað. Til þess að það gangi upp telja umsækjendur að jafnframt þurfi að bæta vörumerki og markaðsmál Reykhallar Gunnu.

Reykhöll Gunnu á Rifi

Með verkefninu er verið að hvetja frumkvöðul eins og Gunnu til frekari afreka og gera fyrirtæki hennar kleift að skapa sér sess á meðal fyrirtækja á svæðinu. Framtíðarsýnin er sú að fullvinna fleiri sjávar- og jafnvel landbúnaðarafurðir undir merkjum Reykhallar Gunnu. Með þessu samstarfi er verið að leggja grunninn að nánara samstarfi fyrirtækjanna í framtíðinni varðandi vöruþróun og fullvinnslu. Fyrir hráefnisframleiðanda eins og Sjávariðjunna getur orðið ómetanlegt að vera í nálægð við sterkt fullvinnslufyrirtæki eins og ætlunin er að Reykhöll Gunnu geti orðið.

Afurð verkefnisins er ný vara unnin úr hráefni á svæðinu sem mun skila verðmætaaukningu og nýrri þekkingu. Í verkefninu verður til vinnsluferill fyrir nýja vöru; sætreyktan fisk. Slík vara er þekkt erlendis og hefur skapað sér fastan sess. Ákveðnir þættir þessarar framleiðslu eru ekki nægilega vel þekktir hér á landi til að skila samkeppnishæfri vöru en með verkefninu verður sú þekking til. Afurð verkefnisins er því nýtt vinnsluferli, ný þekking, ný vara og sterkara vörumerki á fullunni vöru frá Snæfellsnesi.

Með þessu samstarfsverkefni er verið að styðja við nýsköpun og vöruþróun hjá frumkvöðli sem vill efla vöruframboð, auka virði vöru og samkeppnishæfni sína. Með verkefninu er verið að auka umsvif og skapa fleiri störf í nánustu framtíð hjá Reykhöll Gunnu í Rifi.

Aðkoma Matís að verkefninu mun stuðla að yfirfærslu þekkingar á vinnsluferlum og meðhöndlun hráefnisins. Að sama skapi mun aðkoma Sjávariðjunnar að verkefninu efla  samstarf við Reykhöll Gunnu en ætlunin er að Sjávariðjan komi að hráefnismeðhöndlun fyrir reykingu og leggi hönd á plóg við aðstöðu fyrir þurrkun. Þannig mun verkefnið stuðla að aukinni atvinnuuppbyggingu í Snæfellsbæ. Samstarf fyrirtækjanna í verkefninu mun efla þekkingu Reykhallar Gunnu, auka framboð á vöru, efla vöruþróun og afla nýrrar þekkingar á sviði reykingar sem auka verðmæti hráefnis á svæðinu.

Alla dagskrá Sjávarútvegsráðstefnunnar má finna hér.

Fréttir

Staða mengunar þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið – ný skýrsla Matís

Mengun þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, eins og fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið (skýrsla 28-12).

Styrkur kadmíns í íslenskum kræklingi er hinsvegar hærri en almennt gerist í kræklingi frá hafsvæðum Evrópu og Ameríku og er ástæðan rakin til náttúrlegs kadmíum bakgrunns frá jarðlögum.

Frá árinu 1989 hefur verið í gangi árlegt vöktunarverkefni á mengunarefnum í lífríki hafsins við Ísland. Verkefnið er fjármagnað af Umhverfisráðuneytinu, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Matís ohf. Umhverfisstofnun er umsýsluaðili verkefnisins.

Markmiðið með vöktunarverkefninu er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Ýmis mengandi efni í hafinu geta borist í sjávarlífverur eða lífverur sem nærast á sjávarfangi. Í mörgum tilfellum stafar þessi mengun af mannavöldum og eru vaxandi áhyggjur af þeirri þróun. Mengandi efni berast með loft- og sjávarstraumum frá meginlandi Evrópu og Ameríku auk mengunar frá Íslandi. Það er því mikilvægt að fylgjast með magni mengandi efna hér við land, bæði í umhverfi og lífverum sem lifa við landið. Þá er ennfremur mikilvægt að geta borið saman stöðu lífríkis hafsins í kringum Ísland við ástandið í öðrum löndum, ekki síst vegna mikilvægis sjávarafurða fyrir þjóðina. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi bæði á innlendum og erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á með vísindalegum gögnum að íslenskur fiskur sé veiddur í ómenguðu umhverfi.

Í skýrslu Matís (skýrsla 28-12 á vef Matís) eru birtar niðurstöður mælinga á mengandi efnum fyrir árin 2010 og 2011. Í rannsókninni eru mæld snefilefnin blý, kadmín, kvikasilfur, kopar og sink, arsen og selen, þrávirku lífrænu efnin HCH, HCB, PCB, klórdan, trans-nonachlor, toxaphen, DDT og PBDE. Fram kemur í skýrslunni að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín stundum mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er svæðisbundinn og talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Niðurstöður sýna breytingar í mynstri styrks klórlífrænna efna í kræklingi sem safnað var nálægt Hvalstöðinni í Hvalfirði í september 2010 sem eru sambærilegar við niðurstöður frá sama stað frá árinu 2009. Ekki voru sýnilegar breytingar í styrk þessara efna á söfnunarstað kræklings við Hvammsvík í Hvalfirði né á neinum öðrum söfnunarstað í kringum landið sem rannsakaður var 2010. Mikilvægt er að fylgjast með þessum breytingum í mynstri styrks klórlífrænna efna í kræklingi í vöktunarverkefninu á næstu árum til að sjá hvort þær eru enn til staðar. Ítarleg tölfræðigreiningu á gögnunum er í gangi þ.a. hægt verði að meta með vísindalegum aðferðum aukningu eða minnkun mengandi efna í lífríki sjávar hér við land.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Matís stjórnar erlendu samstarfsverkefni um minni saltnotkun í matvælavinnslu

TASTE er verkefni skipulagt af hópi evrópskra smárra og millistórra fyrirtækja (SMEs) úr matvæla og sjávarþörungaiðnaði  í þeim tilgangi að finna lausnir á því hvernig minnka má notkun salts við matvælaframleiðslu með notkun sjávarþörunga.

Meginmarkmið verkefnisins er að þróa bragðefni úr þremur tegundum brúnþörunga (Ascophyllum nodosum, Saccharina latissima og Fucus vesiculosus) með það að markmiði að skipta út natríum í matvælum en mörg matvæli innihalda mikið magn af salti.

Þróun nýrra aðferða og tækni til að draga úr saltnotkun er mikilvægt viðfangsefni fyrir matvælaiðnaðinn. Margar þjóðir glíma við of mikla saltneyslu þó svo að færst hafi til betri vegar undanfarin áratug. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) gefur út ráðleggingar um að heildar saltneysla sé minni en 5 gr. á dag en slíkt samsvarar til 2 gr. af natríum. Það má því segja að matvælaiðnaðurinn standi frammi fyrir mikilli áskorun um að minnka magn af salti sem notað er við framleiðslu.

Leitast hefur verið við að skipta út salti og setja þess í stað blöndu steinefna, náttúruleg sölt og fleira. Neysluhæfir sjávarþörungar innihalda efni sem gætu komið þar að gagni. Þeir innihalda yfirleitt mikið magn af bragðaukandi efnum, steinefnum auk salts, en þó í minna mæli.

Nánari upplýsinga veitir Rósa Jónsdóttir, fagstjóri hjá Matís en einnig má finna upplýsingar um verkefnið hér (á ensku).

Fréttir

Matvælalandið Ísland er fjársjóður framtíðarinnar

Ráðstefna um matvælaframleiðslu verður haldin 6. nóvember nk. Sveinn Margeirsson forstjóri Matís situr í pallborði ásamt atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra

Hagmunaaðilar og fyrirtæki í matvælaframleiðslu hafa tekið höndum saman og boðað til ráðstefnu um Matvælalandið Ísland á Hótel Sögu þriðjudaginn 6. nóvembernæstkomandi. Spurt verður hvernig auka eigi verðmætasköpun og nýta þær matarauðlindir sem landið býr yfir. Að mati ráðstefnuhaldara eru fjölmörg tækifæri sem liggja í aukinni framleiðslu og sölu á íslenskum mat og tengdri þjónustu.

Hvernig framleiðum við meiri og betri mat?
Aðalfyrirlesari dagsins verður Daði Már Kristófersson, auðlindahagfræðingur, en hann fjallar um það hvernig þjóðin geti framleitt meiri og betri mat. Á eftir Daða Má verða örstutt erindi sem fjalla um viðfangsefnið frá ólíkum sjónarhornum. Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, mun ræða um aukna verðmætasköpun í sjávarútvegi og Finnbogi Magnússon, landbúnaðartæknifræðingur, rýnir í möguleika jarðræktarinnar. Þá mun Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, tala um markaðssetningu og vörumerkjastjórnun í landbúnaði og Sigrún Elsa Smáradóttir hjá Matís fjalla um grósku í smáframleiðslu matvæla.

Hvernig á að metta milljón ferðamenn?
Eftir kaffihlé verður sjónum beint að ferðaþjónustunni og útflutningi á mat. Þar mun Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS, ríða á vaðið og segja frá markaðssetningu á skyri og ræða um Ísland sem vörumerki. Jón Baldur Þorbjörnsson hjá Ísafold Travel talar um matarmenningu og ferðaþjónustu og matreiðslumeistarinn Friðgeir Ingi Eiríksson leitast við að svara því hvernig metta eigi milljón ferðamenn í framtíðinni. Að lokum fjallar Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri hjá Íslandsstofu, um íslenska matarmenningu á alþjóðavettvangi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í  umræðum
Eftir erindin verða pallborðsumræður þar sem sitja Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF, Jón Ásbergsson, forstjóri Íslandsstofu, Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, Sindri Sigurgeirsson, bóndi í Bakkakoti, og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís. Ráðstefnustjóri er Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins.

Þeir sem standa að ráðstefnunni koma úr ólíkum áttum en eiga það sameiginlegt að eiga mikið undir mat og matvælaframleiðslu. Í hópnum eru Bændasamtök Íslands, Íslandsstofa, Matís, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fiskvinnslustöðva, Samtök iðnaðarins og Þróunarvettvangur á sviði matvæla.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis
Ráðstefnan um Matvælalandið Ísland er öllum opin og aðgangur er ókeypis. Hún hefst kl. 12.30 þriðjudaginn 6. nóvember og er haldin í ráðstefnusalnum Kötlu á Hótel Sögu á 2. hæð. Áætluð ráðstefnulok eru kl. 16.00.

Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir að skrá sig á vef Samtaka iðnaðarins, www.si.is.

Nánari upplýsingar um viðburðinn veitir Tjörvi Bjarnason, sviðsstjóri útgáfu- og kynningarsviðs BÍ, í síma 862-3412 eða netfangið tjorvi@bondi.is.

Fréttir

Hönnuðir og Bændur – Skapandi nálgun á upplifunum frá Nýnorræna eldhúsinu

Nýr norrænn matur, eða Nýnorræna eldhúsið eins og það er oft kallað, er stöðugt að hefja ný samstarfsverkefni og koma sér inn á nýjan vettvang með því markmiði að sameina reynslu í matreiðslu og skapandi atvinnugreinum.

Þann 4.-6. nóvember nk. verður stefnan sett á Reykjavík þar sem alþjóðlega ráðstefnan „You Are In Control“ (YAIC) fjalla um verkefnið „Stefnumót hönnuða og bænda” sem er einn af mörgum liðum á dagskrá ráðstefnunnar sem fela í sér mat og skapandi matreiðslu.

YAIC er ráðstefna sem haldin er árlega og kannar þróun í skapandi atvinnugreinum í tónlist, listum, hönnun, fjölmiðlum, leikjum, bókmenntum, listrænni tjáningu og kvikmyndum. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðstefnan verður haldin með ívafi matargerðar.

Stefnumót hönnuða og bænda er samstarfsverkefni vöruhönnuða úr Listaháskóla Íslands og bænda sem hafa þróað í sameiningu einstök matvæli byggð á hefðbundnum íslenskum vörum. Matís kom auk þess að þessu samstarfi og var hönnuðum og bændum innan handar með tæknileg atriði matvælaþróunarinnar og framleiðslunnar sem fylgdi í kjölfarið.

Á fyrstu þremur árunum samstarfsins þróaði hópurinn fjögur algjörlega ný matvæli. Þessar vörur eru frá fjórum bændum frá mismunandi landshlutum og hafa verið þróaðar og samsettar af hönnuðum og nú bornar alla saman fram á hlaðborði á ráðstefnunni. YAIC og Stefnumót hönnuða og bænda, ásamt skapandi framtaki frá matreiðslumönnum Hörpu, gefa  þátttakendum tækifæri á að njóta einstakrar matarupplifunar.

Stefnumót hönnuða og bænda verður til kynningar á ráðstefnunni, mánudaginn 5. nóvember klukkan 12:00. Í kjölfarið munu aðstandendur New Nordic Food og verkefnisins sýna verk sín. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra mun sækja ráðstefnuna, ásamt öðrum opinberum gestum.

Á hlaðborðinu verða meðal annars hægt að fá rúgbrauðsrúllutertu, sem er ný túlkun á rúllutertu, en einnig verður boðið upp á rabarbarakaramellu og skyrkonfekt. Þetta verður borið fram með íslenskum berjum og ávaxtadrykkjum ásamt salati hússins, sem ræktað er í garði Hörpunnar. Bjarni Gunnar Kristjánsson yfirkokkur Hörpunnar segir að hugmyndin hafi komið frá hans eigin garði þar sem hann ræktar sínar eigin jurtir og salat fyrir sumartímann. „Okkur langaði að gera tilraunir með gestum og gefa þeim tækifæri til að velja sjálf í sitt eigið salat“.

“Þetta verður örugglega fyrsta skrefið í átt að framtíðar samstarfi með nýjum alþjóðlegu og skapandi fólki. Ég held að við höfum tekið rétta ákvörðun, einstaka landið Ísland fyrir nýja skapandi norræna matarupplifun”, segir Elisabet Skylare, verkefnastjóri hjá Food and Creative Industries og New Nordic Food.

„Það er nýtt og spennandi að sjá mat sem verðmæti ásamt fjölda annarra skapandi greina eins og tónlistar, fjölmiðla, lista, bókmennta, kvikmynda, listrænnar tjáningar, hönnunar og leikja. Okkur finnst þetta frumkvæði hafa sýnt nýjar leiðir í samstarfi. Matarhefð eykur upplifun gesta en þarna mætast einnig hagsmunaaðilar úr mismunandi áttum í skapandi iðnaði“, segir  Anna Hildur, Nomex, Nordic Music Export og formaður YAIC.

Nánari upplýsingar:
You Are In Control
www.youareincontrol.is

Stefnumót hönnuða og bænda
www.designersandfarmers.com

Viðburður þessi er mögulegur vegna samstarfs YAIC, Stefnumót hönnuða og bænda, Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhús, Miðstöðvar skapandi greina, Íslandsstofu og Nýs norræns matar (www.nynordiskmad.org).

Tengiliðir:
New Nordic Food, Elisabet Skylare, (+45) 2620 7579
You Are In Control,  Anna Hildur Hildibrandsdóttir, 854 5763

Fréttir

Verðmætt norrænt samstarf á sjávarútvegssviðinu

Matís tekur á margvíslegan hátt þátt í samstarfsverkefnum með hinum Norðurlöndunum. Bæði á það við um einstök verkefni þar sem koma að önnur rannsóknafyrirtæki, stofnanir og framleiðslufyrirtæki og í mörgum tilfellum leiðir Matís aðrar íslenskar stofnanir eða fyrirtæki til slíkra norrænna verkefna.

Þessi verkefni eiga ekki hvað síst við um sjávarútveg, enda grunnatvinnugrein á Íslandi og sjávarútvegur um margt líkur á Norðurlöndunum. Auk þess eru sumir fiskistofnar í Norðurhöfum deilistofnar eða flökkustofnar, sem þýðir að veiðar úr sama stofninum eru innan fleiri en einnar fiskveiðilögsögu.

Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís, situr fyrir hönd Íslands í tveimur vinnuhópum þar sem lagðar eru línur um rannsóknir og samstarf á sjávarútvegssviðinu á Norðurlöndum. Vinnuhóparnir heyra undir Norrænu ráðherranefndina. Annars vegar er um að ræða embættismannahópinn EK-FJLS sem mótar stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar í sjávarútvegi og fiskeldi og hins vegar svokallaðan AG-Fisk starfsvettvang sem hefur umsjón með þessum verkefnum og miðlar m.a. fjármagni í formi styrkja til hinna ýmsu verkefna embættismannahópsins. Sigurjón segir þátttöku í þessu norræna samstarfi mjög mikilvæga. Í því felist verðmæti fyrir Íslendinga sem fiskveiðiþjóðar, auk þess sem aðrar þjóðir njóti þeirrar reynslu og þekkingar sem Íslendingar hafa fram að færa úr sínum sjávarútvegi. „Verkefnin í þessu norræna starfi eru fjölbreytt, lúta t.d. að nýtingu sjávarauðlinda, fiskvinnsluþróun og fiskvinnslutækni. Markmið með öllum slíkum verkefnum er auðvitað fyrst og fremst að bæta lokaafurðina, skapa aukin verðmæti sjávarfangs og skapa þannig betri stöðu á markaði. En einnig koma á okkar borð mál sem snúa að pólitískum úrlausnarefnum, svo sem nýtingu sameiginlegra fiskistofna. Grunnur að lausnum í slíkum málum liggur oft í samtali og samstarfi vísindamanna,“ segir Sigurjón.

Þrátt fyrir að íslenskur sjávarútvegur eigi margt sameiginlegt með norskum og færeyskum sjávarútvegi segir Sigurjón mikils virði að afla einnig reynslu annarra norrænna þjóða á sjávarútvegssviðinu, til að mynda Dana, Finna og Svía sem eru þátttakendur í Evrópusambandinu og sjávarútvegsstefnu þess. „Allt skilar þetta okkur árangri, bæði rannsókna-fyrirtækinu Matís, öðrum íslenskum fyrirtækjum og stofnunum og í rauninni Íslandi sem framsækinni fiskveiðiþjóð,” segir Sigurjón.

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís.

Fréttir

Háskólafélag Suðurlands og Matís taka höndum saman!

Matís og Háskólafélag Suðurlands auglýsa stöðu starfsmanns á Suðurlandi. Starfsmaðurinn mun sinna jöfnum höndum verkefnum tengdum Matarsmiðju Matís á Flúðum í Hrunamannahreppi og uppbyggingu menntamála á Suðurlandi.

Nánari upplýsingar má finna hér: www.matis.is/atvinna

Fréttir

Breytileiki þorsks getur haft veruleg áhrif á gæði saltfisks og heildarnýtingu

Þriðjudaginn 23. október kl. 15:30, mun meistaraneminn Paulina Elzbieta Romotowska halda fyrirlestur hjá Matís, Vínlandsleið 12, um meistaraverkefnið sitt við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands: „Stöðugleiki fitu í þorskvöðva eftir árstímum – áhrif söltunar og koparsklóriðs (II) á oxun fitu.“

Þriðjudaginn 23. október kl. 15:30, mun meistaraneminn Paulina Elzbieta Romotowska halda fyrirlestur um meistaraverkefnið sitt við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands: „Stöðugleiki fitu í þorskvöðva eftir árstímum – áhrif söltunar og koparsklóriðs (II) á oxun fitu.“ (Seasonal variation in lipid stability of salted cod muscle – Effect of copper (II) chloride on lipid oxidation ).

Nánari upplýsingar
Meistaraprófsfyrirlestur á Matís, Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík.
Leiðbeinandi: Sigurjón Arason dósent, Kristberg Kristbergsson próf., PhD  og Kristín A. Þórarinsdóttir, verkefnastjóri PhD.
Prófdómari: Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor PhD
Staðsetning: Fundarsalur Esja (311),  23 .okt kl.15:30-16:30
Fyrirlesturinn (á ensku) verður á Matís, Fundarsalur Esja (311)  og er öllum opinn

Ágrip
Þorskur (Gadus morhua) er ein af algengustu fisktegundum í saltfiskvinnslu hér á landi. Framleiðsla á saltfiski hefur breyst mikið í tímanna rás. Meðal annars hafa vinnsluferlarnir verið gerðir markvissari.

Lögð er áhersla á að varðveita einkennandi bragð og áferð saltfisksins við flutning og geymslu. Nýjustu rannsóknir hafa leitt í ljós að ástand hráefnisins hefur áhrif á stöðugleika þorsks í söltunarferlinu. Breytileiki hráefnis eftir veiðisvæðum og árstímum getur haft veruleg áhrif á gæði saltfisksins og heildarnýtingu. Sveiflur í ástandi og efnasamsetningu vöðvans eru árstíðabundnar vegna breytileika í fæðuframboði og hegðun fisksins, einkum í tengslum við hrygningu. Myndun hrogna og svilja og einnig fæðan hefur mikil áhrif á eðliseiginleika þorskvöðva. Þessar breytur geta haft áhrif á stöðugleika fitu, oxunarvirkni, samsetningu fitusýru (FAC), magn fjölómettaðra fitusýra (PUFA), gulumyndun (b *) og þránun.

Markmið verkefnisins var að fylgjast með og afla upplýsinga um oxun fitu, sem á sér stað við framleiðslu og geymslu á söltuðum þorski, veiddum á mismunandi árstíma. Þránunarferli (oxun) fitu, fitusamsetning og litabreyting afurða í söltunarferli og við geymslu var mælt. Myndun á fríum fitusýrum (ffa) og breytingar á fosfólípíðum og heildarfituinnihaldi var rannsakað. Þá var styrkleiki flúrljómunar mældur til að fylgjast með niðurbroti við oxun. Niðurstöður rannsókna sýndu að árstíðabundnar breytingar hafa áhrif á stöðugleika fitu. Oxun fitu í saltfiski var meiri í þorski sem veiddist í nóvember en að vori eða sumri (mars og maí), en fitan var stöðug í söltunarferlinum í ágúst.

Niðurstöður sýna að oxun fitu í söltunarferlinum og við geymslu, eykur magn af peroxíði (PV), thiobarbituric-gildið (TBARS), hvetur gulumyndun (b * gildi), eykur innihald af fríum fitusýrum (ffa) og stuðlar að lækkun á PUFA, polyene efnis (PI), fosfólípíða og heildarinnihaldi fitu.

Í verkefninu var bætt við kopar-jónum í saltpækilinn og áhrif þeirra á oxun fitu voru rannsökuð. Niðurstöður sýndu að kopar flýtti marktækt oxun fitu í söltuðum þorski og hraðar samtímis gulumyndun við framleiðslu og geymslu.

Lykilorð: saltfiskur, árstíðabundnar sveiflur, oxun, kopar (II), geymslutími.

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason hjá Matís.

IS