Fréttir

Miklir möguleikar í þörungaiðnaðinum

Fyrir stuttu hélt Matís, í samstarfi við Bláa Lónið og Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja, ráðstefnu um þörunga. Ráðstefna fór fram í Bláa Lóninu og tókst hún í alla stað mjög vel.

Miklir möguleikar liggja í þörungaiðnaðinum. Þörunga er hægt að bæta í matvæli og þannig gera þau næringarríkari og bragðbetri. Hjá Matís hefur t.d. verið þróað þaraskyr sem vakið hefur mikla athygli (http://www.matis.is/matis/frettir/nr/3331).  Bláa Lónið hefur notað þörunga í Blue Lagoon snyrtivörur, en rannsóknir hafa sýnt að þörungar Bláa Lónsins draga úr öldrun húðarinnar.

Þörungar hafa auk þess verið notaðir í matvæli til dæmis til þess að minnka notkun á salti t.d. í stað MSG en einnig eru þekkt dæmi um að þörungar hafi verið notaðir í fæðubótarefni og í dýrafóður. Miklir möguleikar felast í þörungarækt, vinnslu og nýtingu hér á landi þar sem hafsvæðið umhverfis landið hentar vel t.a.m. vegna hreinleika.

Neytendavakning hefur átt sér stað bæði hér á landi og annars staðar er varðar næringarinnihald þörunga. Möguleikar á verðmætasköpun eru því miklir þegar kemur að þörungarækt.

Norrænt verkefni og samstarf um þörunga hófst þann 1. mars sl. Verkefnið nefnist „Nordic Algae Network“ og var ráðstefnan sem haldin ráðstefna þann 15. maí þessu tengt. Matís skipulagði ráðstefnuna og var hún styrkt af Bláa Lóninu og Samtökum íslenskra líftæknifyrirtækja. Mikill fjöldi sótti ráðstefnuna en ætlunin var að koma saman fólki úr iðnaðinum og þeim sem stunda rannsóknir á þörungum bæði hérlendis og erlendis. Markmið ráðstefnunnar var að skiptast á þekkingu og verkkunnáttu með tilliti til hagnýtingar á þörungum til orkunotkunar og í verðmæt efni.

Dagskrá ráðstefnunnar var á þessa leið:

09:00  Welcome – Hordur G. Kristinsson, Matís, Reykjavík, Iceland
09:10  Nordic Algae Network – Lars Nikolaisen, Danish Technological Institute, Aarhus, Denmark
09:20  The situation in Denmark on macroalgae – Lars Nikolaisen, Danish Technological Institute, Aarhus, Denmark
09:40  Algalíf: A company takes its first steps towards establishing large-scale microalgae production in Iceland – Paul       Lebeau, Algalíf, Norway
10:00  State-of-the-art on macroalgae in Ireland – Anna Soler, National University of Ireland, Galway, Ireland
10:40  Value added products from macroalgae – Sarah Hotchkiss, Cybercolloids Ltd., Carrigaline, Ireland
11:00  Icelandic macroalgae – past and present utilization – Karl Gunnarsson, Marine Research Institute, Iceland
11:20  Icelandic R&D activities on macroalgae – Hordur G. Kristinsson, Matís, Reykjavík, Iceland
11:40  Microalgae cultivation at the Blue Lagoon – Halldór Guðfinnur Svavarsson, Blue Lagoon Ltd., Grindavík, Iceland
12:00  Development of a sustainable macro-  and microalgae sector in Norway, with considerations of commercialization and markets – Anne Mugaas, Det Kongelige Selskap for Norges Vel, Norway

„Nordic Algae Network“ er styrkt af Norræna Nýsköpunarmiðstöðinni, NICe, og má finna nánari upplýsingar á vefsíðu verkefnisins, www.nordicinnovation.org/nordicalgae

Nánari upplýsingar veitir Hörður G. Kristinsson, sviðsstjóri Líftækni- og lífefnasviðs og rannsóknastjóri Matís.

Fréttir

Matís leggst á árarnar með heimamönnum við Breiðafjörðinn og sunnanverða Vestfirði

Matís leggst á árarnar með heimamönnum beggja vegna Breiðafjarðar og hefur blásið til sóknar í matavælaframleiðslu og tengdum greinum á svæðinu. Liður í þeirri sókn er ráðning tveggja starfsmanna sem hefja munu störf á Patreksfirði á næstu dögum en þessir starfsmenn bætast í hóp þeirra tveggja sem nýlega voru ráðnir til starfa á Grundarfirði á Snæfellsnesi. 

Starfsmennirnir fjórir munu starfa í nánu samstarfi sín á milli og við aðra starfsmenn Matís, um allt land.
 
Um alllangt skeið hefur Matís litið til tækifæra á sunnanverðum Vestfjörðum enda eru þar sem  annarsstaðar í nágrenni Breiðafjarðar miklir möguleikar á aukinni verðmætasköpun tengt matvælum. Matís hefur nú ráðið tvo starfsmenn til þess að styðja við og vinna með heimamönnum að uppbyggingu á matvælaframleiðslu og tengdum atvinnuvegum á svæðinu.

Matís mun vinna með fyrirtækjum, sveitastjórnum og einstaklingum á svæðinu sem munu geta nýtt sér sérfræðiþekkingu Matís til uppbyggingar sinnar eigin starfsemi. Starfsemi Matís við Breiðafjörð byggir á traustu og öflugu samstarfi við heimamenn enda hafa þeir haft frumkvæði að þeirri uppbyggingu sem Matís ræðst nú í.
 
Mikil tækifæri felast á svæðinu. Sjávarútvegur er lykilatvinnugrein í stöðugri þróun en auk þess liggja sóknarfæri í uppbyggingu fiskeldis og nýtingu annarra hráefna á svæðinu. Á sunnanverðum Vestfjörðum er mikil gróska í fiskeldi kröftug uppbygging á því sviði. Starfsemi Matís mun styðja við nauðsynlega rannsókna- og þróunaruppbyggingu í tengslum við fiskeldi, en horft er til þess að þjónusta við eldistengda starfsemi verði eitt helsta viðfangsefni starfsmanna Matís á svæðinu.  Þar sem stærsti kostnaðarliður fiskeldis liggur í fóðri og fóðrun er ekki hvað síst horft til þróunar er lýtur að lágmörkun fóðurkostnaðar.
 
Efling matvælaframleiðslu mun gegna lykilhlutverki í aukinni verðmætasköpun á sunnaverðum Vestfjörðum og við Breiðafjörðinn. Starfsfólk Matís hlakkar til að takast á við komandi verkefni með sveitarfélögunum á svæðinu, fyrirtækjum og heimamönnum öllum.

Frekari upplýsingar veita Haraldur Hallgrímsson 858 5054 og Steinar B. Aðalbjörnsson 858-5111.

Fréttir

Spennandi hlutir að gerast í Verinu á Sauðárkróki

Í tilefni þess að Verið hefur stækkað verður opið hús miðvikudaginn 16. maí kl. 13:30-16:00 til að kynna starfsemi í Verinu. Einnig verða niðurstöður styrkveitinga AVS sjóðsins þetta árið kynntar.

Dagskrá

13.30 Húsið opnað og gestir geta skoðað sig um
14.00 Ávörp
Gísli Svan Einarsson framkvæmdastjóri VERSINS Vísindagarða setur samkomuna
Jón Eðvald Friðriksson framkvæmdastjóri FISK Seafood
Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Lárus Ægir Guðmundsson formaður AVS skýrir úthlutun sjóðsins
Skúli Skúlason rektor Hólaskóla – Háskólans á Hólum
Sveinn Margeirsson forstjóri Matís

Boðið verður í kaffi.

VERIÐ er að Háeyri 1.
Gengið inn að austan

Um starfsemi Matís í Verinu

Líftæknismiðja Matís ohf. er staðsett á Sauðárkróki. Starfsemi Matís í Líftæknismiðjunni er margþætt. Í fyrsta lagi hefur Matís komið upp sérhæfðri rannsóknastofu á sviði líftækni og lífefna.  Í öðru lagi starfrækir Matís tilraunaverksmiðju í vinnslusal Líftæknismiðjunnar, þar sem fyrirtækið Iceprotein ehf. hefur byggt upp starfsemi sína. Að lokum vinnur starfsfólk Matís í Líftæknismiðjunni með fyrirtækjum í Skagafirði og NV-landi að ýmsum umbóta-og hagræðingarverkefnum.

Með Líftæknismiðjunni hefur skapast rannsóknaraðstaða með tilheyrandi vinnsluaðstöðu þar sem vísindamenn og frumkvöðlar í líftækni geta þróað vörur sínar og vinnsluferla í samvinnu við Matís. Á rannsóknastofu Líftæknismiðjunnar er unnið að mælingu á lífvirkum eiginleikum lífefna úr íslenskri náttúru. Líftæknismiðjan er opin öllum landsmönnum og þar geta einstaklingar og fyrirtæki fengið aðstöðu til skemmri tíma til framleiðslu afurða. Smiðjan verður nokkurs konar klakstöð nýrra sprotafyrirtækja í líftækni og mikilvæg í styttingu ferlis frá hugmynd til markaðar. Með vali á staðsetningu Líftæknismiðjunnar er litið til nærumhverfisins sem matarkistan Skagafjörður er.

Markviss uppbygging á rannsóknaaðstöðu á sér stað í Líftæknismiðju Matís, sem nú þegar er þátttakandi í víðtæku fjölþjóðlegu samstarfi. Líftæknismiðjunni er ætlað að leggja af mörkum sérhæfða rannsóknaraðstöðu, þróunaraðstöðu með vinnsluleyfi og sérfræðiþekkingu í samstarfsverkefnum framtíðarinnar. Í vinnslusal Líftæknismiðjunnar er m.a. aðstaða til að einangra protein og þurrka. Líftæknismiðjunni er ætlað að vinna í nánu samstarfi við matvælafyrirtækjum á landinu.

Stöðvarstjóri Matís á Sauðárkróki er Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Vinnslu, virðisauka og eldi.

Fréttir

Ferðasnakk úr svínakjöti

Petrína Þórunn Jónsdóttir, sem býr í Laxárdal í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er að vinna að forvitnilegum verkefnum í aðstöðu matarsmiðju Matís á Flúðum þar sem hún vinnur afurðir í tengslum við svínabúskapinn í Laxárdal.

„Ég er að prófa að þurrka svínakjöt, beikon úr hryggvöðva, lifrarkæfu og buffkökur. Þurrkað svínakjöt er unnið úr besta vöðvanum úr svíninu. Öll sýnileg fita er skorin í burtu, svo er kjötið hakkað, kryddað og þurrkað. Markmiðið er að búa til eins konar ferðasnakk, kjötið er ekki kælivara og á endingartíminn að vera nokkrir mánuðir. Lifrarkæfan er unnin á hefðbundinn hátt. Hryggjarbeikon er fituminna, einungis þunn fiturönd á kjötinu sem hægt er að taka í burtu og er það sneitt í mun þykkari sneiðar en fólk er vant hér. Grísabuffin eru tilbúin á grillið eða á pönnuna, í þau nota ég íslenskar kryddjurtir. Ástæðan fyrir því að þetta eru svona mismunandi tegundir sem ég er með er til að ég geti unnið vörur úr öllum grísnum,“ sagði Petrína. Hún segist vera hæstánægð með aðstöðuna á Flúðum en Vilberg Tryggvason stöðvarstjóri kynnti hana fyrir Óla Þór Hilmarssyni kjötiðnaðarmeistara og hefur hann leiðbeint henni með úrbeiningu og vinnsluaðferðir.

Nánari upplýsingar veitir Vilberg Tryggvason hjá Matís.

Ofangreind frétt birtist fyrst á DFS.is, Fréttablaði Suðurlands.

Fréttir

Ert þú með góða hugmynd en átt heftir að koma henni í framkvæmd?

Þriðjudaginn 15. maí næstkomandi mun Matarsmiðjan á Flúðum í samstarfi við Grímsnes og Grafningshrepp kynna starfsemi sína.

Fer kynningin fram í félagsheimilinu að Minniborg klukkan 20:00.

Farið verður yfir það hvernig smiðjan er rekin og hvernig einstaklingar og fyrirtæki eru að nýta sér hana. Uppbyggingu- og fjármögnun verkefna. Kynnt það helsta sem er að gerast í staðbundinni framleiðslu og hvaða markaðir eru að opnast á þeim vetfangi. Almenn umræða.

Allir hvattir til að mæta og þeir sem hafa áhuga á þróun og vinnslu matvæla eru sérstaklega hvattir til að mæta.
Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í síma 858-5133 eða með tölvupósti á póstfangið vilberg@matis.is.

Fréttir

Örverufræðileg greining í þremur ólíkum náttúrulaugum á Íslandi

Niðurstöður rannsóknar meistaranemanda í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ benda til þess að töluverð saurmengun verður í náttúrulaugum ef rennsli er lítið og gestafjöldi er mikill.

Meistarafyrirlestur í Umhverfis- og auðlindafræði – Berglind Ósk Þ. Þórólfsdóttir
Leiðbeinandi: Viggó Þór Marteinsson, Matís.
Prófdómari: Eva Benediktsdóttir

Hvenær hefst þessi viðburður:
15. maí 2012 – 11:00 to 12:30

Staðsetning viðburðar: Askja
Nánari staðsetning:
Stofa 131

Útdráttur
Náttúrulaugar eru skilgreindar sem laugar með jarðhitavatni sem ekki er meðhöndlað með sótthreinsun, geislun eða annarri hreinsun. Með aukningu ferðamanna á Íslandi verður aukið álag á vinsælustu náttúrulaugar landsins, en það getur haft áhrif á heilnæmi þeirra og öryggi. Í dag gilda engar ákveðnar reglur um náttúrulaugar, þar sem vatnið er ekki til neyslu og laugarnar eru ekki skilgreindar sem sundlaugar í rekstri. Lítið hefur því verið skoðað hvort að laugarnar séu í reynd eins heilnæmar og nú er talið. Í þessari rannsókn var gerð örverufræðileg greining í þremur ólíkum náttúrulaugum á Íslandi; að Lýsuhóli, á Hveravöllum og í Landmannalaugum. Heildarbakteríufjöldi var rannsakaður með frumutalningu og með ræktun við 22°C, 37°C og 50°C. Skimað var fyrir Escherichia coli, Enterococcus spp., Pseudomonas aeruginosa og Nóróveirum. Ræktaðar og óræktaðar bakteríur úr laugunum voru tegundagreindar með 16S rRNA gena raðgreiningu. Öryggisþættir náttúrulauga voru einnig metnir m.t.t. hætta og bornir saman við kröfur gerðar til sundlauga, ásamt því að ábyrgðarþáttur ferðaþjónustuaðila var metinn með könnun. Útkoman leiddi til skiptingu lauga upp í þrjá flokka. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að töluverð saurmengun verður í náttúrulaugum ef rennsli er lítið og gestafjöldi er mikill. Þá er fjöldi Pseudomonas spp. mikill í náttúrulaugum, og nokkrar tegundir flokkast til tækifærissýkla. Nóróveira greindist ekki í laugunum þremur. Örverufjölbreytileikinn sem greindist með 16S rRNA gena klónun og raðgreiningum var nokkuð fjölbreyttur og var ólíkur milli lauga. Öryggismálum er ábótavant við þær laugar sem að falla í 3. flokk, en það eru þær laugar sem að verða hugsanlega í rekstri og munu fylgja regluverki til fulls í framtíðinni.

Fréttir

Matís til fyrirmyndar árið 2012

Niðurstöður könnunarinnar um Stofnun ársins voru kynntar við hátíðlega athöfn á Hótel Nordica á föstudaginn. Matís ásamt Umferðarstofu, Ríkisskattstjóra, Fríhöfninni, Skipulagsstofnun, Skattrannsóknarstjóra ríkisins, Sýslumanninum á Siglufirði og Blindrabókasafni Íslands eru Fyrirmyndarstofnanir árið 2012

Mikið er lagt upp úr jákvæðu starfsumhverfi hjá Matís. Að Vínlandsleið 12 í Reykjavík, þar sem aðalstöðvar Matís eru hýstar, er frábært mötuneyti þar sem boðið er upp á hollan og góðan heimilismat. Starfsmenn komast í líkamsrækt því í húsinu er fyrirmyndar aðstaða og t.a.m. er körfuboltavöllur í porti við húsið. Boðið er upp á svokallaðan samgöngusamning þar sem gefið er tækifæri á að fá greitt fyrir að nota almennan samgöngumáta annan en einkabílinn. Á þennan hátt næst fram umhverfisvænni ferðamáti, beinn sparnaður starfsmanna og hvatning til að stunda líkamsrækt í gegnum hjólreiðar eða göngu.

Frá upphafi hefur Matís byggst á neti starfsstöðva um allt land. Starfsstöðvar eru nú átta talsins, að höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík meðtöldum og eru starfsmenn þeirra tengdir öllum fagsviðum fyrirtækisins.

Með starfi út um landið undirstrikar Matís vilja fyrirtækisins til að vinna með aðilum heima í héröðunum að fjölbreyttum verkefnum sem treyst geta atvinnulíf, aukið nýsköpun og fjölgað störfum. Stefna Matís er að á komandi árum efli fyrirtækið þessa áherslu enn frekar um allt land.

Matís er fyrst íslenskra fyrirtækja til þess, í samstarfi við Lýsi, að aðstoða starfsmenn sína til þess að vinna bug á D-vítamínskorti sem er orðinn býsna algengur hjá Íslendingum. Á hverjum morgni, á tímabilinu frá september til maí, gefst starfsmönnum kostur á því að fá Omega-3 lýsisbelgi sem eru með viðbættu D-vítamíni en auk þessu hefur hefðbundið lýsi verið í boði um nokkurt skeið á hverjum morgni.

Matís veit að ánægður starfsmaður er starfsmaður sem leggur sitt af mörkum í framgangi fyrirtækisins, Íslendingum öllum til heilla. Því tekur fyrirtækið það alvarlega sitt hlutverk í því að aðstoða hvern starfsmann í því að vera heilbrigð sál í hraustum líkama.

Nánari upplýsingar veitir Jón Haukur Arnarson, mannauðsstjóri Matís.

Ítarlegar niðurstöður könnunarinnar um stofnun ársin má lesa hér.

Fréttir

Sókn á Snæfellsnesi – Matís opnar starfsstöð

Matís hefur tekið höndum saman með sveitarfélögum Snæfellsnesi og blásið til sóknar í matvælaframleiðslu á svæðinu. Fyrirtækið hefur ráðið tvo starfsmenn til starfa í nýrri starfsstöð fyrirtækisins á Snæfellsnesi og taka þeir til starfa á næstu dögum.

Um alllangt skeið hefur Matís litið til tækifæra á Snæfellsnesi enda eru mikli möguleikar á aukinni verðmætasköpun tengd matvælum við Breiðafjörðinn. Mikil gróska og metnaður einkennir mannlífið á Snæfellsnesi en bæði sveitarfélög og atvinnurekendur styðja framtakið. Matís vill styðja og vinna með heimamönnum að uppbyggingu á matvælaframleiðslu og tengdum atvinnuvegum á svæðinu, öllum aðilum til heilla.

Mikil tækifæri liggja í Breiðafirðinum. Sjávarútvegur er þar sterkur en auk þess liggja sóknarfæri í nýtingu á öðrum og stundum vannýttum hráefnum á svæðinu. Til dæmis felast miklir möguleikar í betri nýtingu á slógi, þara og þangi.
Eitt helsta viðfangsefni starfsmanna Matís á svæðinu mun snúa að rannsóknum og hagnýtingu á lífvirkni hinna fjölbreyttu hráefna sem finnast á svæðinu. Vonir standa til að hægt sé að þróa verðmætar eiginlegar neytendavörur eða innihaldsefni í matvæli og aðrar vörur. Sem dæmi um slíkar vörur má nefna t.d. nefna þaraskyr sem þróað var af starfsmönnum Matís í samvinnu við aðila á svæðinu. Í skyrið, sem vakið hefur mikla athygli, er einmitt notaður marínkjarni úr Breiðafirðinum. Fleiri tækifæri liggja til framleiðslu almennrar matvæla, markfæðis og fæðubótarefna úr þessum virku hráefnum.

Starfsfólk Matís hlakkar til að takast á við ókomin verkefni með sveitarfélögunum á svæðinu, fyrirtækjum og heimamönnum öllum. Matvælaframleiðsla á svæðinu mun eflast sem mun leiða til aukins árangurs og aukinnar verðmætasköpunar í matvælaiðnaði á Snæfellsnesi, við Breiðafjörð og fyrir samfélagið allt.  

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís í síma 422-5000.

Fréttir

Verðmætasköpun við Háskóla Íslands – samstarf við Matís skiptir miklu máli að mati rektors

Í morgunblaðinu í dag er ítarlegt viðtal við Kristínu Ingólfsdóttur rektor Háskóla Íslands. Þar kemur hún m.a. inn á HÍ sé í hópi 300 bestu háskóla í heimi.

Viðtalið í heild sinni við Kristínu má sjá hér.

Um Matís
Matís varð til fyrir fimm árum og hefur á þeim tíma skapað sér sess í íslensku samfélagi á mjög margan hátt. Til Matís er horft sem leiðandi fyrirtækis í matvælarannsóknum. Matís er drifkraftur í atvinnunýsköpun og sprotastarfsemi, fyrirtækið leiðir saman rannsóknarsamfélagið, háskólasamfélagið og atvinnulífið. Matís er í fararbroddi í framtíðartækifærum til atvinnusköpunar og er sérstaklega vert að nefna líftæknirannsóknir sem nú þegar hafa skapað störf og aukið áhuga erlendra aðila á samstarfsverkefnum með fyrirtækinu. Þetta er dæmi um hvernig sóknin er besta vörnin.

Matís hefur á fimm árum skapað sér orðspor og traust í íslensku samfélagi sem er verðmætt veganesti inn í framtíðina. Þetta hefur til að mynda verið gert með markvissri þátttöku fyrirtækisins og starfsmanna þess í umfjöllun miðla í samfélaginu. Á hverjum degi er unnið að stórmerkum verkefnum innan veggja fyrirtækisins sem snerta fólk og fyrirtæki út um allt samfélagið og mikilvægt er að efla sem best almenna þekkingu fólks á því fyrir hvað Matís stendur og hvernig fyrirtækið leggur íslensku samfélagi til verðmæti.

Með sanni má segja að Matís brúi bilið á milli rannsókna og háskólasamfélagsins annars vegar og atvinnulífsins hins vegar.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Ráðstefna um tækifæri í þörungum

Norrænt verkefni og samstarf um þörunga hófst þann 1. mars sl. Verkefnið nefnist “Nordic Algae Network” og verður haldin ráðstefna þann 15. maí nk. þessu tengt. Matís skipuleggur ráðstefnuna og er hún styrkt af Bláa Lóninu og Samtökum íslenskra líftæknifyrirtækja.

Nánar um ráðstefnuna hér.

Nánari upplýsingar veitir Hörður G. Kristinsson, sviðsstjóri Líftækni og lífefnasviðs Matís en hann gegnir einnig starfi rannsóknastjóra fyrirtækisins.

IS