Fréttir

Starfsfólk Matís lætur ekki sitt eftir liggja…..né heldur annarra

Af tilefni dag umhverfissins og græns apríl tóku starfsmenn Matís sig til og týndu upp rusl í kringum höfuðstöðvar fyrirtækisins að Vínlandsleið 12.

Ekki var vanþörf á því að týna upp ruslið enda mikið sem hafði safnast saman eftir veturinn.

Grænn apríl 2012 - rusl týnt

Fréttir

Hermun hitastigsbreytinga í flutningi ferskra fiskafurða

Miðvikudaginn 2. maí fer fram doktorsvörn í vélaverkfræði við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands. Hermun hitastigsbreytinga í flutningi ferskra fiskafurða (Modelling of temperature changes during transport of fresh fish products).

Sjá frétt á vef Háskóla Íslands

Andmælendur eru Trygve Magne Eikevik,  prófessor í vélaverkfræði, Norwegian University of Science and Technology (NTNU) í Þrándheimi og dr. Jean Moureh, Refrigerating Process Engineering Research Unit, IRSTEA, Frakklandi.

Dr. Ólafur Pétur Pálsson, prófessor og forseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og hefst klukkan 14:00.

Ágrip úr rannsókn

Hitastýring í flutningi ferskrar matvöru frá vinnslu til markaðar hefur afgerandi áhrif á skemmdarferla vörunnar. Ferskar fiskafurðir eru dæmi um slíkar afurðir. Markmið þessarar ritgerðar er að greina og bæta hitastýringuna í kælikeðjum ferskra fiskafurða frá vinnslu til markaðar með tilraunum og stærðfræðilegum varmaflutningslíkönum. Niðurstöður umhverfis- og vöruhitamælinga í raunverulegum flug- og sjóflutningsferlum eru notaðar til hönnunar á flutningshermitilraunum, þar sem mismunandi pakkningalausnir eru bornar saman með tilliti til einangrunargildis og gæða fiskafurða, sem þær innihalda. Niðurstöður hermitilraunanna eru notaðar til að sannreyna niðurstöður þrívíðra varmaflutningslíkana af ferskum og/eða ofurkældum hvítfiski pökkuðum í staka kassa eða kassastafla á bretti undir hitaálagi.

Niðurstöður benda til töluverðra vandamála í hitastýringu í flugflutningi, einkum í tilfelli farþegaflugvéla, en síður í gámaflutningi með skipum. Þó er enn þörf fyrir endurbætur í  sumum sjóflutningskeðjum. Sýnt er fram á mikilvægi forkælingar fyrir pökkun til að viðhalda réttum fiskhita í flutningi, einkum í flugi. Það sama á við um frosnar kælimottur, sem ráðlagt er að dreifa sem mest kringum fiskflök eða -bita í pakkningum og jafna þannig kæliáhrif þeirra. Mælingar gefa til kynna að búast megi við allt að 10,5 °C hitastigsmun innan heillar brettastæðu af ferskum flökum í illa hitastýrðum flugflutningi. Gera má ráð fyrir að þessi hitamunur valdi því að geymsluþol afurða í horn-kössum brettastæðunnar verði allt að 1–1,5 dögum styttra en afurða í miðju stæðunnar.

Einangrunargildi frauðkassa (EPS, expanded polystyrene) er hærra en sambærilegra kassa úr bylgjuplasti (CP, corrugated plastic). Í verkefninu er þrívítt líkan af horn-rúnnuðum  (kringdum) frauðkassa þróað í ANSYS FLUENT hugbúnaðinum með bætta einangrun kassa og afurðagæði að markmiði. Greining með líkani er grunnur nýs 5 kg frauðkassa, sem nú er framleiddur af stærsta framleiðanda frauðkassa á Íslandi. Önnur varmaflutningslíkön, sem þróuð hafa verið í verkefninu, eru m.a. af kælimottu ofan á ofurkældum þorskhnökkum í tveimur gerðum EPS-kassa og kældum flökum í CP-kassa án kælimottu. Enn fremur eru þróuð líkön af brettastæðum með kældum eða ofurkældum fiski til að rannsaka áhrif staðsetningar á bretti, stærðar brettastæða og forkælingar á þróun fiskhita undir hitaálagi.

Doktorsritgerðin er byggð á sex vísindagreinum og einni ráðstefnugrein. Fimm vísindagreinar hafa þegar verið birtar eða samþykktar til birtingar í alþjóðlegum vísindaritum.

Aðalleiðbeinandi var Halldór Pálsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Aðrir meðlimir doktorsnefndar voru Sigurjón Arason, dósent við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur Matís ohf., Magnús Þór Jónsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, Sjöfn Sigurgísladóttir fyrrverandi forstjóri Matís ohf. og Viktor Popov, sviðsstjóri hjá Wessex Institute of Technology.

Rannsóknin tengist verkefnunum „Hermun kæliferla“, sem styrkt var af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi (R 037-08), Tækniþróunarsjóði (081304508) og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og Evrópuverkefninu „Chill on“ (www.chill-on.com). Matís ohf. veitti rannsókn Björns aðstöðu.

Hefst: 02/05/2011 kl. 14:00
Staðsetning: Aðalbygging
Nánari staðsetning: Hátíðasalur

Um doktorsefnið
Björn Margeirsson er fæddur 1979 á Blönduósi. Hann lauk BS gráðu í vélaverkfræði við Háskóla Íslands árið 2003, starfaði hjá Almennu verkfræðistofunni frá 2003 til 2005 og lauk MS gráðu í vélaverkfræði við Chalmers University of Technology í Gautaborg árið 2007. Frá útskrift hefur hann starfað hjá Matís ohf. sem sérfræðingur, síðar verkefnastjóri og nú fagstjóri á Vinnslu-, virðisaukningar- og eldissviði.

Björn Margeirsson er giftur Rakel Ingólfsdóttur læknanema og þau eiga dótturina Örnu, sem fæddist árið 2010.

About the doctoral candidate
Björn Margeirsson was born in 1979 in Blönduós, Iceland. He finished his BSc degree in mechanical engineering at the University of Iceland in 2003, worked at Almenna Consulting Engineers from 2003 to 2005 and earned his MSc degree in mechanical engineering at Chalmers University of Technology in Gothenburg, Sweden in 2007. From graduation he has worked at Matis ltd as a research scientist, project manager and currently as a research group leader in the Value Chain, Processing and Aquaculture division. Björn is married to Rakel Ingólfsdóttir, medical student, and their daughter, Arna, was born in 2010.

Ritgerðina má nálgast á vef Matís, http://www.matis.is/media/utgafa/krokur/BMPhDThesis.pdf.

Abstract
Temperature control is a critical parameter to retard quality deterioration of perishable foodstuff, such as fresh fish, during distribution from processing to consumers. This thesis is aimed at analysing and improving the temperature management in fresh fish chill chains from processing to market by means of experiments and numerical heat transfer modelling. Ambient and product temperatures are mapped in real multi-modal distribution chains, which are both sea and air based. The results serve as a basis for simulation experiments, in which different packaging units and solutions are compared with respect to thermal insulation and product quality maintenance and more optimal ones are proposed. The experimental results are used to validate 3-D heat transfer models of fresh or superchilled whitefish, packaged in single boxes or multiple boxes assembled on a pallet, under thermal load.

Much more severe temperature control problems are measured in air transport chains, especially in passenger airplanes, compared to sea transport. However, space for improvement in sea transport chains has also been discovered. The results underline the importance of precooling whitefish products before packaging for air freight and applying well distributed cooling packs inside the packaging. The results imply that product temperature differences of up to 10.5 °C can occur in a non-superchilled fresh fish pallet load and the storage life difference between the most and the least sensitive boxes on a full size pallet in a real air transport chain can exceed 1–1.5 days. It is demonstrated that even though a widely used expanded polystyrene (EPS) box design with sharp corners offers better thermal insulation than a corrugated plastic (CP) box, the sharp-corner design can be significantly improved. Such design improvement has been accomplished by developing a numerical heat transfer model in ANSYS FLUENT resulting in a new 5-kg EPS box currently manufactured by the largest EPS box manufacturer in Iceland. Other temperature-predictive models of products, developed and validated in this thesis, consider a cooling pack on top of superchilled cod packaged in two types of EPS boxes, compared to fresh fish packaged in a CP box without a cooling pack. Finally, models are developed for pallet loads of different sizes containing either chilled or superchilled fish. The models are used to confirm the temperature-maintaining effect of precooling and estimate the effect of pallet stack size.

Fréttir

Íblöndun ómega-3 fitusýra í fiskibollur til aukningar á næringargildi

Verkefninu Auðgaðir sjávarréttir sem unnið var í samvinnu Matís og Gríms kokks í Vestmannaeyjum og Iceprotein á Sauðárkróki er nú að ljúka.

Þar voru þróaðar nokkrar frumgerðir af vörum úr íslensku sjávarfangi sem í hefur verið bætt lífefnum úr íslensku sjávarfangi eins og þörungaþykkni með skilgreinda lífvirkni, hýdrólysötum til að auka próteininnihald og lýsi til að auka ómega-3 fitusýrur.
Niðurstöðurnar sýna að vel er hægt að auka magn ómega-3 fitusýra í fiskibollum án þess að það komi niður á bragðgæðum. Sama má segja um íblöndun þörungadufts og einnig tókst vel að auka próteinmagn í fiskbollunum. Sem tæki í virkri og farsælli  vöruþróun með þátttöku neytenda  voru fengnir tveir rýnihópar fólks til að  fá innsýn í upplifun og vitneskju neytenda um auðgun, auðgaða sjávarrétti, neyslu þeirra á sjávarréttum og fæðubótarefnum og heilsutengdan lífsstíl.

Neytendakannanir voru framkvæmdar til að kanna smekk neytenda fyrir frumgerðunum í samanburði við hefðbundna vöru sem þegar er á markaði.  Upplýsingar um lífvirku efnin og virkni þeirra hafði áhrif á hvernig fólki geðjaðist að vörunum. Áhrif upplýsinga voru háð ýmsum þáttum, eins og viðhorfum til heilsu og matar, viðhorfum til innihaldsefna í þeirri vöru sem prófuð var, sem og þáttum eins og aldri og menntun.

Neytendakönnun á netinu sem yfir 500 manns tóku þátt í  sýndu að fólk er almennt jákvæðara gagnvart auðgun ef um er að ræða þekkt hollustuefni á borð við ómega-3. Einnig að betra er að veita upplýsingar um virkni þó að um þekkt efni sé að ræða, þar sem það eykur á jákvæða upplifun fólks af vörunni. Auðgun með þara virðist einnig vera raunhæfur kostur þar sem upplýsingar um notkunargildi þarans í vöru voru gefnar og svipað má segja varðandi fiskiprótein. Þessar vörur höfða almennt frekar til fólks sem leggur áherslu á hollustu matvæla, sem er nokkuð stór hópur samkvæmt þessum niðurstöðum. Almennt má álykta út frá þessum niðurstöðum auðgun sjávarrétta sé raunhæfur möguleiki en huga þarf að merkingum og upplýsingagjöf til neytenda.

Í þessu verkefni skapaðist reynsla á Matís sem mun verða þróuð áfram og nýtast öðrum fyrirtækjum við vöruþróun og markaðssetningu á markfæði þar sem óskir neytenda verða hafðir að leiðarljósi. Neytendakannanir sýndu að það er mjög mikilvægt hvernig markaðssetning slíkra vöru mun fara fram til að ná til valinna neytendahópa sem hafa áhuga á slíku markfæði.  Stigið hefur verið framfaraskref þar sem lífefnum með staðfesta virkni hefur verið bætt í tilbúnar neytendavörur.  Mjög mikilvægur afrakstur þessa verkefnis er að á  árinu 2011 tókst að afla styrks frá norræna sjóðnum Nordic Innovation, NICe, til að halda áfram stærra verkefni á þessu sviði og stuðla þannig að auknum verðmætum sjávarfangs og lífefna úr hafinu.

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Starfsmaður Matís heiðraður

Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís, var heiðraður af Verkfræðingafélagi Íslands á 100 ára afmæli félagsins.

Á Sumardaginn fyrsta, 19. apríl, varð Verkfræðingafélag Íslands 100 ára.

Á þeim degi veitti félagið Aldarviðurkenningu VFÍ í þremur flokkum og hlaut Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís og áður hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, viðurkenningu í flokknum „Þeir plægðu akurinn“.

VFÍ 100 ára Sigurjón Arason
VFÍ 100 ára: Sigurjón Arason fyrir miðju myndar

Sigurjón var heiðraður fyrir frumkvæði og einstaka þrautseigju við innleiðingu fjölda nýjunga sem skipt hafa sköpum fyrir gæði og arðbæra nýtingu hráefnis úr sjávarafla og fyrir miðlun þekkingar innanlands og erlendis.

Fréttir

Sumarstörf 2012

Matís býður upp á fjölbreytt úrval af áhugaverðum rannsóknatengdum sumarstörfum sumarið 2012 og eru námsmenn hvattir til að senda inn starfsumsókn.  

Leitað er eftir háskólanemendum til starfa við rannsóknaverkefni og þjónustumælingar á sviði matvælafræði, verkfræði, lyfjafræði, tölvunarfræði, lögfræði og náttúruvísinda. Nánari upplýsingar um þau rannsóknaverkefni sem eru í boði má finna hér.

Fréttir

Matur og sjálfbær ferðaþjónusta

Viltu taka þátt í að auka veg staðbundinna matvæla innan ferðaþjónustunnar?

Málþing í Hvolnum Hvolsvelli
24. apríl 2012, kl 13:00-16:00

Ferðaþjónusta er ein af þeim atvinnugreinum sem litið hefur verið  á sem vaxtarsprota á landsbyggðinni. Þrátt fyrir mikinn vöxt í greininni á síðasta áratug hefur það ekki skilað sér í auknum hagvexti á landsbyggðinni. Þetta bendir til mikils hagræns leka þegar kemur að neyslu ferðamanna á innan svæða. Ein leið til að auka hagræn áhrif ferðaþjónustu á landsbyggðinni og minnka leka er að byggja tengsl við staðbundna matvælaframleiðslu.

  • Hvað er sjálfbærni? Hvað get ég gert og hvernig?
  • Tækifæri í ferðaþjónustu tengdum mat.
  • Aðgerðir til að auka sjálfbærni í ferðaþjónustu á Suðurlandi?

Dagskrá
13:00 Málþing sett.
Tinna Björk Arnardóttir, NMÍ

13:10 Matur og sjálfbær ferðaþjónusta. Tækifæri, samstarf.
Guðjón Þorkelsson, Matís  

13:40 Sjálfbærni, staðan á Íslandi.
Stefán Gíslason, Environice

14:10 Kaffihlé

14:30 Sjálfbært samfélag á Sólheimum í Grímsnesi, matvæli og ferðaþjónusta
Erlendur Pálsson, Sólheimar

15:00 Kötluafurðir – Reynslusögur úr héraði

15:30 Samantekt og umræður
Tinna Björk Arnardóttir, NMÍ

Aðgangur ókeypis
Fundarstjóri Tinna Björk Arnardóttir, Nýsköpunarmiðstöð
Nánari upplýsingar hjá TinnaBjork@nmi.is

Fréttir

Íslenskt hugvit í Tansaníu

Tveir starfsmenn Matís voru í nokkra daga í Tansaníu nú fyrir stuttu til þess að leiðbeina hvernig ætti að setja upp sólarofn til að þurrka fisk. Skemmtileg frétt um þetta birtist í fréttum Stöðvar 2 en Hugrún Halldórsdóttir, fréttakona, forvitnaðis þar um þetta áhugaverða verkefni.

Fréttina frá Stöð 2 má finna hér og hér.

Nánar um verkefnið
Ráðgjöf um veiðar og vinnslu í Tansanínu
Haustið 2011 gerði Matís samning við stjórnvöld í Tansaníu um verkefni við Tanganyikavatn í Tansaníu. Verkefnið er fjármagnað með láni frá Norræna þróunarsjóðum (NDF) sem staðsettur er í Helsinki. Verkefnið var boðið út á norðurlöndum og varð Matís hlutskarpast í því útboði.

Tanganyikavatn er meðal stærstu ferskvatna heims, tæplega 19 þúsund ferkílómetrar að stærð. Vatnið er einnig annað dýpsta ferskvatn í heimi, 1500 metrar þar sem það er dýpst. Fjögur lönd liggja að vatninu, þ.e. Tansanía, Kongó, Búrúndí og Sambía. Tansaníubúar veiða fisk í Tanganyika en bæði veiðar og vinnsla eru með frumstæðum hætti. Verkefni Matís er meðal annars að aðstoða við þróun aðferða til að nýta fiskinn betur og gera hann verðmætari.

Matís hefur samið við íslensku fyrirtækin Ráðgarð Skiparáðgjöf ehf. og Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar ehf.  (VJI) um hluta verkefnisins. Ráðgarður mun veita  ráðgjöf og hafa umsjón með smíði á sérhæfðu skipi sem nota á til rannsókna á Tanganyika og fiskistofnum í vatninu en verkfræðistofa VJI mun stýra innkaupum í verkefninu. Að auki hefur Matís gert samning við fyrirækið Goch í Tansaníu sem mun annast félagshagfræðilegan hluta verksins og samskipti við fiskisamfélög við Tanganyika vatn.

„Þetta verkefni er mikil áskorun fyrir okkur því þarna eru aðstæður allar mjög frumstæðar og ólíkar því sem við þekkjum. Við þurfum þannig að finna leiðir til að þróa fiskvinnsluna út frá því sem er til staðar en getum ekki gengið að því vísu að hafa rafmagn, olíu eða aðra orkugjafa líkt og annars staðar. Stór hluti af verkefninu snýst síðan um að þjálfa og kenna heimamönnum hvernig á að meðhöndla fiskinn og við komum til með að senda fólk frá okkur sem mun velja nokkur þorp við vatnið og leiðbeina íbúunum. Það má því segja að hluti verkefnisins verði unninn hér heima og á síðari stigum vinnum við síðan samkvæmt okkar áætlunum á staðnum. Þetta verður mjög spennandi verkefni sem við reiknum með að verði á hápunkti árið 2012,“ segir Oddur Már Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Matís sem jafnframt er verkefnisstjóri Tansaníuverkefnisins. Ásamt honum stýrir Margeir Gissurarson, verkefnastjóri hjá Matís verkefninu.

Nánari upplýsingar: Oddur Már Gunnarsson

Fréttir

Primex hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2012

Fyrirtækið Primex hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2012 nú rétt í þessu. Matís óskar starfsmönnum Primex innilega til hamingju með verðlaunin. Mjög gott samstarf hefur verið á milli Primex og Matis og er t.a.m. einn starfsmaður fyrirtækisins staðsettur í húsakynnum Matís að Vínlandsleið í Grafarholti.

Matís hefur nú um langt skeið starfað með Primex að nokkrum verkefnum. Eitt þessara verkefna er að þróa aðferð til að lengja geymsluþol ferskra sjávarafurða með kítósan sem hefur bæði örverudrepandi áhrif og andoxunarvirkni. Ávinningurinn er aukið geymsluþol, bætt gæði og öryggi. Þessi nýjung mun leiða til aukins verðmætis sjávarafurða og jafnframt nýtast fyrir önnur matvæli.

Nánar um verðlaunaafhendinguna (af vef Rannís, www.rannis.is)
Á Nýsköpunarþingi var stjórnun nýsköpunar gerð að umfjöllunarefni og voru fjórir aðilar úr atvinnulífinu fengnir til að segja frá reynslu sinni og verkefnum á þessu sviði. Rúmlega 200 manns sóttu þingið, sem haldið var á Grand hótel Reykjavík.

Primex, sem stofnað var 1997 og staðsett er á Siglufirði, framleiðir kítin og kítósan úr rækjuskel. Kítósan er verðmætt og eftirsótt efni, sér í lagi á erlendum mörkuðum og hefur fyrirtækið náð góðri markaðsstöðu í Bandaríkjunum, Asíu og Evrópu auk þess sem fyrirtækið komst nýlega inn á markað í Rússlandi. Eiginleikar kítósans eru nýttir við framleiðslu á fæðubótarefnum, sárameðferðarefnum og snyrtivörum auk þess sem það er notað í vínframleiðslu og matvæli. Í matvælaframleiðslu er efnið notað sem náttúrulegar trefjar og rotvarnarefni og hefur þessi nýi notkunarmöguleiki opnað fyrirtækinu fleiri tækifæri. Primex hefur fengið ISO 22000 staðalvottun sem tryggir öryggi í framleiðslu á matvælum.

Það sem áður var úrgangur er nú hráefni
Upphaflega hugmyndin að fyrirtækinu sneri að því hvernig auka mætti nýtingu sjávarafurða með því að nýta úrgang sem hráefni og virða umhverfissjónarmið um leið. Rækjuskel er mjög umhverfismengandi en henni hefur árum saman verið hent í sjóinn. Eftir að hafa fræðst um möguleika og tækifæri efnisins kítósan og kynnt sér framleiðsluaðferðir og markaði, ákváðu fyrirtækin Rammi á Siglufirði og Síldarvinnsla ríkisins að stofna fyrirtæki í kringum hugmyndina og reisa verksmiðju á Siglufirði. Úr varð fyrirtækið Kítín, síðar Primex, sem hóf framleiðslu á kítin og kítósan árið 1999. Gerður var samningur við bandaríska fyrirtækið Vanson árið 2004 um kaup á þekkingu til uppbyggingar verksmiðju og um einkaleyfi að vörumerkinu LipoSan Ultra. Vanson var þá stærsti framleiðandi kítósan í Bandaríkjunum en flutti alla framleiðslu sína til Siglufjarðar. Við þetta opnuðust markaðir í Bandaríkjunum fyrir Primex, þó aðallega fyrir kítósan í fæðubótarefni og snyrtivörur.  

Framleiðsla á eigin neytendavörum
LipoSan er fitubindiefni með náttúrulegu trefjum sem kítósan inniheldur og hafa þann einstaka eiginleika að draga til sín fitu. Varan er hugsuð fyrir þá sem þurfa að ná tökum á líkamsþyngd og bæta meltingu. Rannsóknir hafa jafnframt sýnt fram á getu efnisins til að lækka kólesteról. LipoSan vörurnar eru fáanlegar í öllum helstu apótekum landsins, sem og heilsuvörubúðum. ChitoClear er hins vegar sárasprey og gel fyrir dýr og er efnið mjög græðandi og dregur úr sársauka og kláða í og við sár. Auk þess virkar það gegn bakteríu- og sveppamyndun. ChitoClear hefur verið selt hér á landi og í Þýskalandi. ChitoClear hefur aðallega verið markaðssett fyrir dýr en efnið er líka gott fyrir fyrir fólk. Frá 2001 hefur Primex selt kítósan til fyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum sem framleiða vörur til að stöðva blæðingar og græða sár. Árið 2004 hlaut fyrirtækið viðurkenningu fyrir kítósanplástra sem eina af efstu tíu uppfinningum í hernaði, en þeir hafa verið notaðir meðal annars á vígvellinum í Írak þar sem þeir björguðu lífi hundruð hermanna.

Framtíðin grundvallast á útflutningi kítósans
Framleiðsla Primex mun til framtíðar grundvallast á útflutningi kítósans sem hráefnis fyrir aðra framleiðendur. Samhliða er verið að skoða möguleika á að auka fjölbreytni í framleiðslu eigin neytendavara, t.d. snyrtivara og græðandi smyrsla. Einnig er verið að skoða möguleika á að framleiða prótein úr úrgangi frá skelvinnslu til fiskeldisfóðurframleiðslu en rækjuskelin sem Primex notar kemur frá rækjuverksmiðjum Ramma hf. á Siglufirði og Dögun á Sauðárkróki.  Íslenska kítósanið er hágæða efni og liggur mikil þróunarvinna og rannsóknir á virkni efnisins að baki framleiðslunni. Gæðin hafa gert fyrirtækinu kleift að færa sig inn á verðmætari markaði. Nú starfa hjá fyrirtækinu fimmtán sérþjálfaðir starfsmenn sem hafa komið fyrirtækinu á kortið á kröfuhörðum mörkuðum erlendis.

Nýsköpunarverðlaun Íslands 2012
Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og vísindastarfi og náð hefur árangri á markaði.  Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.

Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.

Fréttir

Rannsókn á heildarneyslu aðskotaefna úr matvælum

Nýlega hófst vinna við nýtt Evrópuverkefni, TDS Exposure, sem Matís tekur þátt í. Markmið verkefnisins er að samræma rannsóknir á heildarneyslu óæskilegra aðskotaefna í matvælum.

Verkefnið er mikilvægt fyrir áhættumat og alla þá sem fylgjast með áhrifunum aðskotaefnanna á heilsu. Heiti Evrópuverkefnisins á ensku er Total Diet Study Exposure og stutt heitið þess er TDS-Exposure en verkefnið hefur fengið íslenska heitið Rannsókn á heildarneyslu aðskotaefna úr matvælum.

Verkefnið miðar að því að bæta og staðla vöktun á því hversu útsett við erum fyrir óæskilegum aðskotaefnum í matvælum eins og við borðum þau. Vinnan við verkefnið byggir á aðferð sem á ensku gengur undir heitinu Total Diet Studies (TDS). Aðferðin metur það magn sem fólk fær af óæskilegum aðskotaefnum úr fullunnum og elduðum matvælum og gefur því trausta mynd af vandamálinu út frá sjónarhorni neytanda og eftirlitsaðila.

Sá hluti rannsóknarinnar sem Matís tekur þátt í, felur m.a. í sér þróun og innleiðingu á gæðaramma fyrir aðila sem stunda rannsóknir á heildarneyslu aðskotaefna, en einnig greiningu á gögnum um aðskotaefni. Matís mun einnig taka þátt í tilraun til að framkvæma samræmda rannsókn á heildarneyslu á a.m.k. einu aðskotaefni á Íslandi og verða þær niðurstöður bornar saman við sambærilegar rannsóknir sem framkvæmdar verða í Tékklandi, Finnlandi, Þýskalandi og Portúgal. Sömuleiðis stýrir Matís vinnupakka sem á að miðla upplýsingum varðandi niðurstöður verkefnisins til hagsmunaaðila.

Virkt eftirlit með óæskilegum efnum í matvælum og áhættumat eru lykilatriði til að tryggja örugg matvæli sem eru laus við heilsuspillandi aðskotaefni eins og sveppaeiturefni, þungmálma og varnarefni. Niðurstöður úr rannsóknum á heildarneyslu aðskotaefna gera eftirlitsaðilum kleift að fá raunverulegt mat á því hvaða aðskotaefni og hvaða matvæli skipta mestu máli við mat á heildarneyslu óæskilegra efna í fæðu. En þær veita líka upplýsingar til þess að hægt sé að gera áhættumat vegna neyslu þessara efna og meta áhrif þeirra á heilsu manna yfir langan tíma. Fjöldi mismunandi aðferða hafa verið notaðir í Evrópu, en í sumum löndum hafa rannsóknir á heildarneyslu aðskotaefna ekki enn verið stundaðar.

TDS Exposure kick-off meeting
Frá Kisk-off fundi verkefnisins

Rannsóknaraðilar frá 19 ólíkum Evrópuríkjum taka þátt í verkefninu sem mun prófa og samræma þær aðferðir sem notaðar hafa verið í Evrópu við sýnatöku matvæla, mælingar á aðskotaefnum í matvælum og gæðamat á gögnum og í kjölfarið skilgreina besta verklag við rannsóknirnar. Þessar upplýsingar verða ómetanlegar fyrir eftirlits- og áhættumatsaðila og fyrir stofnanir eins og Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) og Alþjóða heilbrigðisstofnunina (WHO).

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Nemendur í orkulíftækni við HA í heimsókn

Fyrir stuttu voru tveir meistaranemendur í orkulíftæknifræði við háskólann á Akureyri við vinnu hjá Matís við að raðgreina hitakæra bakteríustofna.

Bakteríustofnarnir sem um ræðir eru úr hverum hér á Íslandi og eru áhugaverðir fyrir þær sakir að þeir framleiða vetni, etanól og metan meðal annarra lokaafurða.

Meistaraverkefni nemendanna eru rannsóknir á örverum úr hverum á Íslandi sem framleiða afurðir sem hægt er að nýta sem orkugjafa. Aðaláherslan er á að leita að bakteríustofnum sem framleiða æskileg efni úr ódýru hráefni sem fellur til á Íslandi eða er auðvelt og arðbært að rækta innanlands til framleiðslunnar. Nemendur þessir heita Hrönn Brynjarsdóttir og Jan Eric Jessen og verður áhugavert að sjá framvindu verkefnis þeirra. Leiðbeinandi þeirra heitir Jóhann Örlygsson.

Hjá Matís er mikil þekking til staðar á hitakærum örverum og gengur eitt verkefnið, sem Matís er lykilþátttakandi í, út á að þróa aðferðir í líftækni til að framleiða etanól úr viðar- og plöntumassa, þ.e.a.s. að nýta lífmassa sem fellur til í að nota sem eldsneyti.

Timbur á eldsneytistankinn
Einn af vaxandi þáttum í starfsemi Matís er líftækni og hvernig beita má þeirri tækni til að þróa nýjar framleiðsluaðferðir og efla þannig nýja þekkingu. Eitt af norrænum verkefnum sem Matís vinnur nú að er einmitt þróun á líftækni til að framleiða etanól úr viðar- og plöntulífmassa. Þetta mætti orða þannig að timbri sé umbreytt til nota á eldsneytistankinn, þ.e. að lífmassinn verði nýttur til eldsneytisframleiðslu en verulegt magn af honum fellur til á Norðurlöndum.

Að verkefninu standa Matís frá Íslandi, Statoil ASA, Wayland AB og SINTEF frá Noregi, INNVENTIA AB frá Svíþjóð, Technical University of Denmark (DTU) og Technical Research Centre of Finland (VIT). Verkefnið fékk öndvegisstyrk frá Norræna ráðherraráðinu í gegnum Nordic Energy sjóðinn.

Verkefnið er mjög fjölþætt og felst meðal annars í að þróa aðferðir til að formeðhöndla lífmassann svo hann nýtist gerjunarlífverum til etanólframleiðslu. Einnig að þróa skilvirka ensímtækni til að brjóta lífmassa niður í gerjanlegar sykrur og gera erfðaendurbætur á gersveppum svo þeir geti sundrað fjölsykrum. Matís mun þróa og endurbæta hitakærar etanólmyndandi gerjunarbakteríur með erfðatækni en bakteríur sem einangraðar hafa verið úr heitum hverum geta oft brotið niður sellulósa á skilvirkan hátt. Hins vegar mynda þessar bakteríur aukaefni, svo sem ediks- og mjólkursýru.

Markmiðið er því að með öflugri hitakærum bakteríum verði unnt að auka etanólframleiðsluna, minnka eða stöðva alveg framleiðslu aukaefna og brjóta niður sellulósa. Endanlegt markmið er að búa til framleiðslukerfi þar sem saman fer niðurbrot á sellulósa og gerjun í etanól í einni líffræðilegri einingu/kerfi.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Óli Hreggviðsson hjá Matís.

IS