Fréttir

Horft til framtíðar – Sjávarútvegsráðstefnan 2012

Sjávarútvegsráðstefnan verður haldin á Grand Hótel í Reykjavík 8.-9. nóvember 2012 og ber heitið ,,Horft til framtíðar“. 

 Á ráðstefnunni verða haldin rúmlega 30 erindi og málstofur verða eftirfarandi: 

  •  Íslenskur sjávarútvegur
  • Eiga Íslendingar að vera með sameiginlegt markaðsstarf?
  • Framtíðartækifæri í fiskeldi
  • Allt  hráefni á land?
  • Er framtíð í fullvinnslu á Íslandi?
  • Heimsframboð samkeppnistegunda botnfiska
  • Framboð samkeppnistegunda uppsjávarfiska í N-Atlantshafi
  • Fishery management and harvesting in Iceland and the EU

Nú er hægt að sækja dagskrá Hér.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Sjávarútvegsráðstefnunnar, sjavarutvegsradstefnan.is/

Fréttir

Afgerandi gæðamunur þegar fiskur er látinn blæða með Rotex búnaði

3X Technology, Matís og fiskvinnslan Jakob Valgeir ehf. hafa sameiginlega staðið fyrir rannsóknarverkefni í sumar þar sem nýr búnaður, Rotex, hefur verið prófaður við blóðgun á þorski.

Nú liggja fyrir fyrstu niðurstöður sem sýna með afgerandi hætti gæðamun á lönduðum fiski sem hefur verið látin blæða út í Rotex búnaði.  Hefðbundin blóðgun um borð í línubátum í smábátakerfinu er með þeim hætti að fiskur er blóðgaður í krapa í keri sem er síðan losað við löndun yfir í annað ker áður en fiskur er tekin til slægingar. 3X Technology hefur þróað blóðgunarbúnað, Rotex, þar sem blóðgunarferli er stýrt áður en gengið er frá fiski í krapakeri í lest og hefur fyrirtækið þegar fengið einkaleyfi á búnaðinum.

Eykur gæði landaðs afla
„Nú liggja fyrir niðurstöður rannsókna á ferskum afurðum sem benda allar til þess að Rotex búnaður geti aukið gæði landaðs afla verulega. Fiskurinn var hvítari, minna blóð mældist í honum og gæði þess hráefnis sem fór í gegnum búnaðinn reyndust mun jafnari. Þrjár aðferðir eru notaðar til að meta gæðin; skynmathópur sem treystir á huglægt mat sérfræðinga, litgreining með sérstökum búnaði þar sem treyst er á hlutlægt mat á gæðum og að síðustu nýjustu aðferðir við mat á blóðtæmingu, mælingar á rauðublóðkornum. Áfram verður fylgst með áhrifum blóðgunar á frosnar afurðir næstu átján mánuðina og þær niðurstöður birtar seinna,“ segir Gunnar Þórðarson, stöðvarstjóri Matís á Ísafirði.

Augljóst er að hér er um mikla hagsmuni að ræða þar sem landaður afli smábáta er upp undir 100 þúsund tonn á ári, og aukin gæði þess afla getur skipt sjávarútveg og samfélagið miklu máli. Lífsgæði þjóðarinnar eru að miklu leyti byggð á afkomu mikilvægustu auðlindar hennar, og því mikilvægt að hámarka þau verðmæti sem sjávarútvegurinn gefur af sér.

Framtíðin byggir á rannsóknum og þróun
„Segja má að samvinna aðila á markaði sé burðarás árangurs í slíkum verkefnum. Í þessu tiltekna verkefni hafa unnið saman; tækjaframleiðandinn 3X Technology, fiskframleiðandinn Jakob Valgeir ehf. og rannsóknarfyrirtækið Matís. Slík verkefni verða hins vegar ekki til án aðkomu rannsóknasjóða en verkefnið er styrkt af AVS rannsóknasjóði og Vaxtarsamningi Vestfjarða. Framtíð íslensk sjávarútvegs mun byggja á rannsóknum og þróun til að treysta samkeppnishæfni á markaði og tryggja sölu á hæst borgandi mörkuðum í framtíðinni.

Fyrir utan blóðgun getur kæling á hráefni, strax eftir veiðar, skipt miklu máli. 3X Technology hefur þegar þróað í samvinnu við Íslandssögu á Suðureyri, krapabúnað fyrir stærri báta til að snögg kæla aflann eftir blóðgun. Slíkt seinkar dauðastirðnun, en engir skemmdaferlar hefjast fyrir en eftir að henni lýkur. Með seinkun á dauðastirðnun er hægt að tryggja að slæging, sem er framkvæmd í landi, eigi sér ekki stað á meðan hún stendur yfir, en slíkt veldur mikilli gæðarýrnun á hráefni. Fyrirtækið mun áfram þróa búnað sem hentar um borð í bátum í smábátakerfinu,“ segir Gunnar að lokum.

Nánari upplýsingar veitir Gunnar Þórðarson, stöðvarstjóri hjá Matís.

Fréttir

Gríðarlegur áhugi á þarapasta úr íslensku byggi

Vísindavaka Rannís 2012 var haldin föstudaginn 28. september. Mikill fjöldi fólks sótti vísindavökuna og er óhætt að segja að aldrei hafi fleiri, en einmitt nú, heimsótt bás Matís.

Íslenskur þari og íslenskt þang var þemað hjá Matís að þessu sinni og var bás Matís skreyttur í þeim anda. Mikil tækifæri liggja í þaranum og þanginu og má reikna með því að á allra næstu árum verði mýmörg matvæli sem innihaldi hvorttveggja í einhverri mynd. 

Á Vísindavökunni var þarapasta úr íslensku byggi kynnt og fólki leyft að smakka. Ásóknin í þessa nýju vöru var ótrúleg og þurfti að leita að ílátum í Háskólabíói til þess að fólk gæti smakkað. Svo mikill var áhuginn að þau 200 ílát sem upphaflega áttu allt kvöldið kláruðust á fyrsta klukkutímanum.

Einnig voru húðkremin frá UNA Skincare kynnt en UNA Skincare línan er á allra vörum og gengur sala þessa lífvirka andlitskrems mjög vel (unaskincare.com/)

Svo var þaraskyrið að sjálfsögðu kynnt en nú styttist óðum í að skyrið komi á markað.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Matvæladagur Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands – forstjóri Matís stjórnar fundi 16. október nk!

Matvæladagur MNÍ 2012 verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík á alþjóðlegum fæðudegi Sameinuðu þjóðanna, þriðjudaginn 16. október, kl. 13-17. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Matvælaöryggi og neytendavernd – Hvar liggur ábyrgðin?“

Búið er að opna fyrir skráningu á Matvæladaginn á vef Matvæla- og næringarfræðafélagsins, www.mni.is. Þar er einnig að finna nánari upplýsingar og dagskrá. Allir eru velkomnir á Matvæladaginn, þátttökugjald er kr. 7.000 en 3.500 fyrir nemendur.

Matvælaöryggi og neytendavernd Hvar liggur ábyrgðin?
Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ) boðar til Matvæladags MNÍ þriðjudaginn 16. október næstkomandi á Grand Hótel Reykjavík. Matvæladagurinn er árviss viðburður sem haldinn hefur verið frá árinu 1993 og er nú haldinn í 20. sinn.

Með innleiðingu nýrrar matvælalöggjafar ESB er lögð aukin áhersla á ábyrgð framleiðenda á matvælaöryggi. Matvælaeftirlit skal jafnframt byggjast á áhættumati. Fyrr á árinu var mikil umræða í fjölmiðlum og víðar í tengslum við ákveðin mál sem upp komu í eftirliti í matvælaiðnaði og urðu uppspretta vangaveltna og umræðna um öryggi matvæla á Íslandi. Í framhaldi af því telur MNÍ að þörf sé fyrir ábyrga umræðu og aukna fræðslu til allra þeirra sem koma að slíkum málum og hefur því valið matvælaöryggi og neytendavernd sem yfirskrift Matvæladagsins í ár með von um að leggja með því sitt af mörkum til uppbyggilegra umræðna á opinberum vettvangi. Megininntak dagsins þetta árið er áhættumat í matvælaframleiðslu og eftirliti, ábyrgð framleiðenda og neytenda sjálfra á meðhöndlun matvæla. Einnig verður rætt um ábyrgð fjölmiðla í umfjöllun um matvæli og markaðssetningu þeirra.

Steingrímur J. Sigfússon, nýsköpunar og atvinnuvegaráðherra, mun setja ráðstefnuna og fundarstjóri er Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Við setningu ráðstefnunnar mun Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, afhenda Fjöregg MNÍ, en það er verðlaunagripur sem veittur er fyrir lofsvert framtak á sviði matvæla-framleiðslu og manneldis. Gripurinn er hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá árinu 1993 verið gefinn af Samtökum iðnaðarins.

Þátttöku á ráðstefnuna þarf að tilkynna á vefsíðu MNÍ, www.mni.is, en skráningu lýkur kl. 24:00, mánudaginn 15. október. Almennt þátttökugjald er 7000 kr., en nemar þurfa aðeins að greiða 3.500 kr.. Ráðstefnugögn og léttar veitingar eru innifaldar í verði en dagskráin stendur frá kl. 13:00 til 17:00 og er birt á heimasíðu MNÍ. Þar birtast einnig fréttir af ráðstefnunni þegar nær dregur svo og listi yfir þá sem kynna munu sínar vörur og rannsóknir á þessu sviði.

Matvæladagurinn er opinn almenningi og er áhugafólk um matvæli, næringu og neytendavernd hvatt til að mæta.

Nánari upplýsingar veitir Fríða Rún Þórðardóttir, s. 898-8798, frida@lsh.is.

Fréttir

Vísindavaka Rannís – Matís með þara- og þangbás!

Vísindavaka Rannís fer fram í Háskólabíói föstudaginn 28. september nk. Úrval spennandi rannsóknaverkefna verða kynnt á Vísindavökunni í ár eins og undanfarin ár.

Þema Matís í ár verður þari. Boðið verður upp á að smakka pasta sem framleitt er m.a. úr íslensku byggi og íslenskum þara. Einnig mun UNA Skincare kynna dag- og næturkremslínu sína sem einmitt er m.a. framleidd úr íslensku þangi.

Nánari upplýsingar um Vísindavökuna og Vísindakaffi, sem munu fara fram alla vikuna, má finna á vef Rannís, http://www.rannis.is/visindavaka/visindavaka/

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Alþjóðlegt samstarf

Alþjóðlegt samstarf er mikilsverður þáttur í daglegu starfi Matís og hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt núna að eiga í samstarfi við erlenda aðila.

Samstarfið birtist í fjölbreyttum myndum. Einn hluti þess er samstarf við erlenda aðila að rannsókna- og vísindaverkefnum, í öðrum tilfellum er um að ræða verkefni þar sem erlendir aðilar kaupa rannsóknaþjónustu af Matís en í ársskýrslu Matís fyrir árið 2011 má lesa um nokkur vel valin verkefni sem Matís var þátttakandi í með erlendum aðilum árið 2011. Þá er ótalinn ýmiss samstarfsvettvangur á erlendri grundu, t.d. fundir og ráðstefnur, þar sem starfsfólk Matís hittir erlent fagfólk í sínum vísindagreinum. Að síðasttöldu eru á hverjum tíma allmargir erlendir fræði- og rannsóknarmenn og konur sem starfa hjá Matís, oft og tíðum allt árið um kring. Allt skilar þetta beinum ávinningi í uppbyggingu Matís en ekki síður aukinni þekkingu starfsmanna.

Í tækni nútímans verður stöðugt auðveldara að taka þátt í fjölþjóðlegu vísindastarfi og það nýtir Matís sér. Bæði eru í því fólgnir möguleikar til aukinnar sölu á rannsóknaþjónustu og þar með aukinna erlendra tekna fyrir fyrirtækið en um leið styrkist sá þekkingargrunnur sem Matís byggir sína þjónustu á fyrir innlenda viðskiptavini.

Ávinningur er þannig lykilorð um erlent samstarf, hvort sem horft er til Matís sem fyrirtækis, starfsmanna þess, viðskiptavina eða eigenda, þ.e. íslenska ríkisins.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Rannsóknir með Kanada og Norðurlöndunum á þorsklirfum

Starfsmenn Matís eiga aðild að viðamiklu rannsóknaverkefni í samstarfi Norðurlandanna við Kanadamenn þar sem markmiðið er að auka gæði seiða sem framleidd eru í þorskeldi.

Verkefnið er styrkt af kanadískum aðilum og norræni hluti þess af NORA, Nordisk Atlantsamarbejde sjóðnum. Frá Íslandi vinna að verkefninu þau Rannveig Björnsdóttir hjá Matís og Háskólanum á Akureyri, auk Ragnars Jóhannssonar, Önnu Kristínar Daníelsdóttur og fleiri aðila hjá Matís, og Agnar Steinarsson hjá Hafrannsóknastofnuninni.

Miklar vonir eru bundnar við þorskeldi, bæði hér á landi sem og á öðrum Norðurlöndum og í Kanada. Hérlendis hefur Matís komið að rannsóknaverkefnum í þorskeldi með þeim aðilum sem eru að spreyta sig á þessari ungu grein og með því hefur byggst upp þekking á ýmsum þáttum eldisins innan Matís. Stór hluti þessara rannsókna hefur farið fram hjá Rannveigu Björnsdóttur í starfsstöð Matís á Akureyri. Rannveig og hennar hópur hafa lagt sérstaka áherslu á rannsóknir á fyrstu stigum eldisins, þ.e. lirfustiginu, þar sem hvað mest afföll verða.

Í COD-Atlantic verkefninu er lirfustigið einmitt sérstaklega til skoðunar. Markmiðið er að öðlast meiri skilning á því hvernig samsetning í fæðu hefur áhrif á vaxtarferli þorsklirfanna og heilbrigði þeirra. Leita með öðrum orðum svara við því hvaða fæðusamsetning skilar mestum lífslíkum lirfanna. Annar þáttur COD-Atlantic verkefnisins í heild er að auka vaxtarhraða þorsks í eldi með hagræðingu í fóðrun. Miklu skiptir fyrir þróun þorskeldis að ná tökum sem fyrst á stórum þáttum sem hafa áhrif á hagkvæmni eldisins. Rétt fóðrun og minni seiðadauði skipta þar umtalsverðu máli.

Nánari upplýsingar veitir Rannveig Björnsdóttir.

Fréttir

Aukið traust á fjármálaumsjón Matís í erlendum verkefnum

„Fjármál eru mikilvægur liður í rannsóknarverkefnum Matís og ekki hvað síst finnum við fyrir mikilvægi þeirra þegar kemur að erlendum verkefnum Matís sem stöðugt fara vaxandi“ segir Guðlaug Þóra Marinósdóttir, skrifstofustjóri Matís.

„Þetta er þáttur sem snýr að þeim sem fjármagna og styrkja verkefnin, samstarfsaðilum okkar í verkefnum og starfsfólki Matís sem stýrir þessum verkefnum. Vísindamenn okkar fylgjast að sjálfsögðu með fjármálaþættinum í verkefnunum en segja má að okkar hlutverk sé að tryggja að þeir geti fyrst og fremst helgað sig sinni sérþekkingu og vísindastarfi,“ segir Guðlaug Þóra. Hún segir gott utanumhald í fjármálum verkefna einn lykilinn að því að skapa traust gagnvart samstarfsaðilum og styrktaraðilum „og reynslan er sú að okkur er í auknu mæli falin fjármálaleg umsjón með verkefnum. Það er mismunandi eftir eðli og umfangi verkefna hvernig fjármálaleg umsýsla þeirra er af okkar hálfu en í mörgum stórum verkefnum er fjármálalega umsjónin alfarið í okkar höndum. Það þýðir að við fylgjum verkefnunum eftir allt frá samningsgerð til loka, gætum þess að greiðslur berist til okkar svo hægt sé að greiða samstarfsaðilum eins og samningar kveða á um og tryggjum þannig skilvirkan framgang verkefnanna,“ segir Guðlaug Þóra og nefnir Amylomics, EcoFishMan, NordChar og SAFE Consortium sem dæmi um stór viðamikil erlend verkefni á borðum starfsmanna.

Guðlaug Þóra nefnir að Matís sé í góðu samstarfi við Ríkisendurskoðun, sem sér um endurskoðun á ársreikningi Matís. „Við viljum hafa hlutina í lagi og höfum markvisst unnið að umbótum sl. ár á okkar bókhaldsferlum og verklagsreglum um innra eftirlit, í samvinnu við Ríkisendurskoðun. Almennt finnum við fyrir miklu trausti erlendis í garð Matís hvað varðar  fjármálalega umsýslu og margumrætt bankahrun hér á landi hefur ekki haft áhrif hvað það varðar. Við fundum fyrir áhrifum fyrsta árið eftir fall bankanna en einu áhrifin sem við finnum í dag eru hversu mikil skriffinnska því fylgir að stofna nýja bankareikninga í tengslum við ný verkefni.

Stór hluti af okkar erlendu tekjum kemur frá sjóðum sem tilheyra 7. rammaáætlun Evrópusambandsins og Norrænum sjóðum en samstarfsaðilar okkar í þessum verkefnum eru fyrirtæki og stofnanir sem eru staðsett á Norðurlöndunum og í öðrum Evrópulöndum og við þurfum þar af leiðandi að eiga bankaviðskipti í mörgum löndum og í mismunandi gjaldmiðlum. Okkar markmið hjá Matís er að skila góðu starfi á öllum sviðum, bæði hvað varðar vísindalega þáttinn og umsjón með verkefnum, þar á meðal hvað fjármálin varðar, enda skipta þau miklu máli í verkefnavinnunni þegar allt
kemur til alls,“ segir Guðlaug Þóra.

Nánari upplýsingar veitir Guðlaug Þóra.

Fréttir

Framtíð sjávarbyggðar á Vestfjörðum

Ráðstefna um framtíð sjávarbyggðar á Vestfjörðum er ráðstefna sem haldin verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 22. sept nk. Forstjóri Matís, Sveinn Margeirsson, er einn fyrirlesara en erindi hans heitir „Samvinna er burðarás árangurs.“

Ráðstefnan stendur frá kl. 10:30-16:30 og er öllum opin.

Dagskrá ráðstefnunnar er eftirfarandi:

  • 10.30 Setning ráðstefnu – Fundarstjóri Berglind Hallgrímsdóttir framkvæmdastjóri á Nýsköpunarmiðstöð Íslands
  • 10.45 Shiran Þórisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða – Atvinnulífsgreining Vestfjarða
  • 11.15 Dr. Þóroddur Bjarnason, prófessor hug- og félagsvísindasvið HA og formaður stjórnar Byggðastofnunar – Framtíð sjávarbyggða á Vestfjörðum
  • 11.45 Hádegismatur
  • 13.00 Dr. Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og prófessor við HI – Mikilvægi nýsköpunar fyrir atvinnulíf og nýsköpunarhugmyndir tengdar hafinu og sjávarútveg.
  • 13.30 Dr. Daði Már Kristófersson, dósent í náttúruauðlindahagfræði – Samkeppnishæfni Sjávarútvegs, Ísland vs. Vestfirðir
  • 14.00 Dr. Ögmundur Knútsson, forseti viðskipta- og raunvísindasvið HA – Virðiskeðjan í sjávarútvegi og möguleikar á verðmætaaukningu innan hennar
  • 14.30 Kaffihlé
  • 14.45 Sigríður Kristjánsdóttir, verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Ísafirði – Sjávartengd ferðaþjónusta og upplifunar ferðaþjónusta.
  • 15.15 Dr. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís – Samvinna er burðarás árangurs.
  • 15.45 Pallborðsumræður stýrt af fundarstjóra – Hver er framtíð Vestfirskra sjávarbyggða?
  • 16.30 Ráðstefnuslit

Skráning á reception@westfjords.is

Nánari upplýsingar má finna á vef Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, www.atvest.is/

Fréttir

Stofnar uppsjávarfiska rannsakaðir

Eitt viðamesta rannsóknaverkefni Matís á síðustu árum hefur snúist um síldarstofna í Norður-Atlantshafi.

Um er að ræða norrænt verkefni styrkt af Verkefnasjóði sjávarútvegsins og AG-Fisk hópi Norrænu ráherranefndarinnar. Ásamt Matís vinna að því Hafrannsóknastofnunin á Íslandi, stofnun hafrannsókna í Færeyjum, Háskólinn í Færeyjum, Síldarvinnslan í Neskaupstað, stofnun hafrannsókna í Bergen í Noregi og DTU Food í Lyngby í Danmörku.

Yfirskrift verkefnisins er Þverfagleg rannsókn á síldarstofnum í Norðaustur-Atlantshafi og er titillinn lýsandi um aðkomu Matís að verkefninu. Í því koma saman sérfræðingar á mismunandi fræðasviðum, t.d. erfðafræði, efnafræði, matvælafræði og verkfræði, svo fátt eitt sé nefnt.

Síldarstofnar á umræddu hafsvæði eru bæði svæðisbundnir en einnig flökkustofnar. Það þýðir að afli getur verið blandaður úr stofnum eftir svæðum og árstíma. Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri Öryggis, umhverfis og erfða, segir vinnslufyrirtæki áhugasöm um að aflað verði frekari vitneskju um eðli stofnanna og hegðun þar sem vinnslueiginleikar síldarinnar geta verið mismunandi milli stofna. „Þetta er fjölþætt verkefni þar sem við erum að skoða fjölda stofneininga síldar í Norðaustur-Atlantshafi, beita erfðafræði til að ákvarða stofngerð, einnig hlut ólíkra stofneininga í veiði og tengja síðan erfðaupplýsingarnar við vinnslueiginleika og efnainnihald. Með því leitum við m.a. svara við spurningum um hvert sé hlutfall stofneininga í veiði, hvort mismunandi vinnslueiginleikar síldarinnar eru bundnir í stofngerð hennar eða hvort þar er um að ræða aðra þætti á borð við umhverfisaðstæður. Byggt á þessum upplýsingum geta vinnsluaðilar metið hverjir  eiginleikar síldar eru eftir hafsvæði eða veiðitíma,“ segir Anna Kristín en vinna við verkefnið hófst árið 2009.

Fleiri uppsjávartegundir á þessu hafsvæði eru verðugt rannsóknaefni í sama tilgangi og nefnir Anna Kristín sem dæmi kolmunna, loðnu og makríl, sem á skömmum tíma er orðin mikilvæg tegund í sjávarafla Íslendinga. Ætlunin er því sú að þessi rannsókn leggi grunn að öðru og stærra Evrópuverkefni þar sem umræddir fiskistofnar, og jafnvel fleiri, verði rannsakaðir.

IS