Fréttir

Afgerandi gæðamunur þegar fiskur er látinn blæða með Rotex búnaði

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

3X Technology, Matís og fiskvinnslan Jakob Valgeir ehf. hafa sameiginlega staðið fyrir rannsóknarverkefni í sumar þar sem nýr búnaður, Rotex, hefur verið prófaður við blóðgun á þorski.

Nú liggja fyrir fyrstu niðurstöður sem sýna með afgerandi hætti gæðamun á lönduðum fiski sem hefur verið látin blæða út í Rotex búnaði.  Hefðbundin blóðgun um borð í línubátum í smábátakerfinu er með þeim hætti að fiskur er blóðgaður í krapa í keri sem er síðan losað við löndun yfir í annað ker áður en fiskur er tekin til slægingar. 3X Technology hefur þróað blóðgunarbúnað, Rotex, þar sem blóðgunarferli er stýrt áður en gengið er frá fiski í krapakeri í lest og hefur fyrirtækið þegar fengið einkaleyfi á búnaðinum.

Eykur gæði landaðs afla
„Nú liggja fyrir niðurstöður rannsókna á ferskum afurðum sem benda allar til þess að Rotex búnaður geti aukið gæði landaðs afla verulega. Fiskurinn var hvítari, minna blóð mældist í honum og gæði þess hráefnis sem fór í gegnum búnaðinn reyndust mun jafnari. Þrjár aðferðir eru notaðar til að meta gæðin; skynmathópur sem treystir á huglægt mat sérfræðinga, litgreining með sérstökum búnaði þar sem treyst er á hlutlægt mat á gæðum og að síðustu nýjustu aðferðir við mat á blóðtæmingu, mælingar á rauðublóðkornum. Áfram verður fylgst með áhrifum blóðgunar á frosnar afurðir næstu átján mánuðina og þær niðurstöður birtar seinna,“ segir Gunnar Þórðarson, stöðvarstjóri Matís á Ísafirði.

Augljóst er að hér er um mikla hagsmuni að ræða þar sem landaður afli smábáta er upp undir 100 þúsund tonn á ári, og aukin gæði þess afla getur skipt sjávarútveg og samfélagið miklu máli. Lífsgæði þjóðarinnar eru að miklu leyti byggð á afkomu mikilvægustu auðlindar hennar, og því mikilvægt að hámarka þau verðmæti sem sjávarútvegurinn gefur af sér.

Framtíðin byggir á rannsóknum og þróun
„Segja má að samvinna aðila á markaði sé burðarás árangurs í slíkum verkefnum. Í þessu tiltekna verkefni hafa unnið saman; tækjaframleiðandinn 3X Technology, fiskframleiðandinn Jakob Valgeir ehf. og rannsóknarfyrirtækið Matís. Slík verkefni verða hins vegar ekki til án aðkomu rannsóknasjóða en verkefnið er styrkt af AVS rannsóknasjóði og Vaxtarsamningi Vestfjarða. Framtíð íslensk sjávarútvegs mun byggja á rannsóknum og þróun til að treysta samkeppnishæfni á markaði og tryggja sölu á hæst borgandi mörkuðum í framtíðinni.

Fyrir utan blóðgun getur kæling á hráefni, strax eftir veiðar, skipt miklu máli. 3X Technology hefur þegar þróað í samvinnu við Íslandssögu á Suðureyri, krapabúnað fyrir stærri báta til að snögg kæla aflann eftir blóðgun. Slíkt seinkar dauðastirðnun, en engir skemmdaferlar hefjast fyrir en eftir að henni lýkur. Með seinkun á dauðastirðnun er hægt að tryggja að slæging, sem er framkvæmd í landi, eigi sér ekki stað á meðan hún stendur yfir, en slíkt veldur mikilli gæðarýrnun á hráefni. Fyrirtækið mun áfram þróa búnað sem hentar um borð í bátum í smábátakerfinu,“ segir Gunnar að lokum.

Nánari upplýsingar veitir Gunnar Þórðarson, stöðvarstjóri hjá Matís.